100. blogg

 

Frá Vegamótum

 

Einar í Holti átti það til að drekka svolítið. Einu sinni var mikið að gera þegar rútan kom og henti Haukur Helga bara inn á borð í búðinni pökkum sem áttu að fara á Vegamót. Þar á meðal var pakki til Einars í Holti. Nokkru seinna kom Einar að ná í pakkann sinn, en þá var hann horfinn. Þetta kom sér mjög illa því þarna var um að ræða brennivín og aumingja Einar sá nú fram á algjöran þurrk. Eftir mikið vesen, jaml og fuður kom svo í ljós að Valdi í Dal, sjálfur lögregluforinginn, hafði tekið pakkann til að færa Einari, en hætt við að láta hann fá flöskuna, þegar hann sá að Erlendur bróðir hans var í heimsókn hjá honum. Þetta skilja náttúrlega ekki aðrir en þeir sem þekktu þessa menn.

Á einhverju bloggi var um daginn verið að ræða hve misjafnt getur verið hve fólk er hátt til hnésins eins og kallað er. Mér er minnisstætt að ég tók einhvern tíma eftir því á Vegamótum að þau sátu hlið við hlið uppi í borðstofu Jón Kristinn og Erna á Eiðhúsum. Þar sem þau sátu var Erna nokkrum tugum sentimetra hærri en Jón, enda talsvert eldri ef ég man rétt. Þegar þau aftur á móti stóðu upp voru þau nokkurn vegin jafnhá. Skrítið.

Bjössi bróðir var í heimsókn á Vegamótum og hafði verið bensíntittur hjá mér sumarið áður og þekkti marga. Til skýringar er víst nauðsynlegt að taka fram að þetta var fyrir meira en þrjátíu árum. Þar að auki er Bjössi miklu yngri en ég. Eiginlega örverpið í fjölskyldunni. Nema einhver var að spyrja hann hvað hann gerði núna. Bjössi svaraði: „Ja, ég er nú á Elliheimilinu" og allir fóru að skellihlægja.

Gunnar Ásgeirsson stórkaupmaður og Volvo-umboðsmaður með meiru kom að Vegamótum eitt sinn þegar hann var umdæmisstjóri Lionshreyfingarinnar á Íslandi og vakti máls á því að nauðsynlega þyrfti að stofna Lionsklúbb á þessu svæði. Ekki tók ég mikið undir það, en þvertók þó ekki fyrir að ég mundi taka þátt ef af þessu yrði. Ekki er að orðlengja það að Gunnari tókst að fá nógu marga menn til að heita þátttöku til að úr þessu varð og klúbburinn var nefndur Lionsklúbbur Hnappdæla. Móðurklúbbur hans var Lionsklúbbur Borgarness og okkar fyrsta samkoma sem nefnd var stofnskrárhátíð eða eitthvað þess háttar var haldin í Borgarnesi. Þegar að því kom að halda reglulega fundi sem mig minnir að hafi verið a.m.k. mánaðarlega var verra með húsnæði. Gamla samkomuhúsið í Dalsmynni var þó sæmilega miðsvæðis og þar voru fundir gjarnan haldnir. Stundum gleymdist að hita húsið upp fyrir fundina og á sumum fundunum voru menn skelfilega kuldalegir. Ég hugsa að það hafi verið sjón að sjá okkur í kuldaúlpum í hörkufrosti með sultardropa á nefinu sitjandi við eitt lélegt langborð og vera að þykjast halda Lionsfund. Eflaust var þetta kaldasti Lionsklúbbur í heimi. Haukur á Snorrastöðum bróðir Friðjóns sparisjóðsstjóra í Borgarnesi minnir mig að hafi verið fyrsti formaður klúbbsins.

Halla Guðmundsdóttir frá Hlemmiskeiði á Skeiðum kona Svans í Dalsmynni og kennari við skólann í Laugagerði vildi ganga í klúbbinn hjá okkur. Eiginlega var búið að binda það fastmælum að hún myndi sækja um inngöngu og stjórnin samþykkja það. Ég held að Ingólfur á Flesjustöðum hafi þá verið orðinn formaður klúbbsins. Af einhverjum ástæðum varð ekki úr þessu. Á þessum árum voru svokallaðir Lionessuklúbbar ekki til og við vildum með þessari gjörð leggja áherslu á jafnrétti kynjanna. Mér hefur alltaf þótt karlrembuþátturinn í starfi klúbba eins og Lions og Kiwanis vera þeirra ljótasti blettur. Ég held meira að segja að Rotary séu skárri.

Það var Séra Árni í Söðulsholti sem stóð fyrir því að ég var skipaður prófdómari við Laugagerðisskóla. Kannski er það einhver mesta virðingarstaða sem ég hef haft um æfina. Ég man vel eftir því að eitt af mínum allra fyrstu verkefnum var að vera viðstaddur lestrarpróf hjá einhverjum bekk, hugsanlega 6. bekk. Ég man eftir tveimur stelpum sem voru í þessum bekk. Það voru þær systurnar Erna og Hrönn Þorgrímsdætur frá Eiðhúsum, báðar fluglæsar þegar þetta var og einhverjar þær bestu í bekknum í lestri.

Björgvin bróðir minn var kennari við Laugagerðisskóla þegar þetta var. Hann kom stundum í heimsókn á Vegamót. Ég man eftir að hann gaf eitt sinn strákunum mínum sitthvorn Wrigleys tyggjópakkann. Flestir hefðu látið sér nægja að gefa þeim eina plötu hvorum, en ekki Björgvin. Ég hugsa að strákarnir hafi haft mikið álit á honum fyrir þessa rausn sína.

Eitt sinn sátum við Erling á Eiðhúsum í herbergi því í gamla húsinu sem seinna varð ráðskonuherbergi og tefldum hraðskákir. Þegar klukkan var orðin ansi margt ætlaði Erling að halda heimleiðis á sínum vörubíl, en þá var hríðin svo svört að varla sá út úr augum. Við settumst þá bara inn aftur og héldum áfram að tefla í nokkra klukkutíma í viðbót og að því loknu var verðrið orðið skaplegra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þetta er merkur áfangi.... blogg númer 100.

Ég tel mig muna eftir flöskuhvarfinu, óljóst þó. 

Jón Kristinn var lappalangur, ekki spurning.  Hvað er annars að frétta af Jóni Kristni og Bjarna ?  Hef ekki séð þá síðan í den.... eða held ekki.  Myndi líklega ekki þekkja þá.

Gaman að lesa þetta.

Anna Einarsdóttir, 23.8.2007 kl. 19:30

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er nú líka gaman að rifja þetta upp og skrifa um það. Kannski kemur meira seinna.

Jón Kristinn og Bjarni Þór hafa það ágættt að ég held. Jú, jú þú mundir þekkja þá. Mér finnst þeir vera alveg eins og í gamla daga. Svolítið eldri kannski.

Ég hugsa að ég mundi líka þekkja þig. Ég man samt ekki eftir að hafa séð síðan þú varst í skákliði Samvinnuskólans á móti í Reykholti.

Sæmundur Bjarnason, 24.8.2007 kl. 01:18

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég man vel eftir þessu skákmóti í Reykholti.  Það var þá sem allir strákarnir flissuðu, bentu á mig og spurðu Bifrastarstrákana hvort þeir væru VIRKILEGA MEÐ STELPU í liðinu.  Það var líka þá sem ég vann mína ljúfustu sigra.... gegn þessum sömu strákum. 

Endilega skrifa meira...... 

Anna Einarsdóttir, 24.8.2007 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband