103. blogg

Fyrir forsetakjörið árið 1980 héldu stuðningsmenn Vigdísar Finnbogadóttur í Borgarfirði fund í samkomuhúsinu í Borgarnesi.

Anna Ólafsdóttir kom að máli við mig nokkru fyrir fundinn og spurði mig hvort ég væri fáanlegur til að flytja ávarp á fundinum fyrir hönd Borgnesinga. Auðvitað gat ég ekki neitað því.

Mér var nokkur ráðgáta hvers vegna ég varð fyrir valinu hjá stuðningsmannahópnum til að flytja ávarp fyrir hönd Borgnesinga. Ég var alls ekki yfirlýstur stuðningsmaður Vigdísar og hafði ekki tekið neinn þátt í undirbúningi fundarins. Ég átti satt að segja alls ekki von á þessu. Þegar ég spurði Önnu um þetta sagði hún að það væri vegna ræðu sem ég hefði flutt á 1. maí hátíð í bænum fyrir nokkru.

Þegar við fluttum til Borgarness árið 1978 var ég fljótlega kosinn formaður Verzlunarmannafélags Borgarness og þegar kom að því að skipuleggja dagskrá 1. maí hátíðahalda stéttarfélaganna árið eftir lenti ég í því samkvæmt einhverri útilokunaraðferð að halda aðalræðuna á hátíðinni.

Ég man nú ekki eftir þessari ræðu í smáatriðum en í henni minntist ég á að það væri verkalýðshreyfingunni og öllum verkalýðsfélögum í landinu til stórskammar að hafa ekki fyrir löngu komið á launajafnrétti karla og kvenna. Það væri alls ekki nóg að lög væru til um slíkt, ef allir vissu að skipulega væri farið í kringum þau lög.

Hófst svo fundurinn. Það er að segja framboðsfundurinn.

Ávörp fluttu fulltrúar hreppa úr Borgarfirðinum og flutti ég ávarp fyrir hönd Borgnesinga. Það var svona: (Já, ég kann að leita á timarit.is)

 

Í þriðja sinn göngum við nú til forsetakjörs og kjósum nýjan forseta lýðveldisins. Þó forseti Íslands sé í raun nær valdalaus skiptir miklu máli hver til starfsins velst.

Í kosningunum nú er brotið blað þar sem einn frambjóðendanna er kona. Þetta tækifæri eigum við Íslendingar ekki að láta ónotað, en sýna í verki jafnréttishugsjón okkar og stíga með því stórt skref í áttina að réttlátara þjóðfélagi.

Mannkostir Vigdísar Finnbogadóttur gera valið líka auðvelt, því þeir eru slíkir að jafnvel hörðustu andstæðingar hennar draga ekki í efa að hún standi hinum frambjóðendunum a.m.k. jafnfætis.

Því heyrist mjög á lofti haldið í þessari kosningabaráttu að óheppilegt sé að einhleypingur sitji á forsetastóli. Vitaskuld er þetta hin mesta fásinna.

Mörg dæmi eru í sögunni um makalausa þjóðhöfðingja og engin dæmi þekki ég um að þjóðhöfðingjar þurfi að leggja niður völd, missi þeir maka sinn eða skilji við hann. Einnig er það réttlætismál að fólki sé ekki útskúfað fyrir það eitt að kjósa að vera ógift.

"Stjórnarfarslegt reynsluleysi" er glósa sem reynt er að nota til að koma höggi á Vigdísi Finnbogadóttur. Fyrir 12 árum hafnaði þjóðin því með öllu að slíkt væri ljóður á ráði forsetaframbjóðanda.

Vigdís Finnbogadóttir minntist á skák og stöðu drottningarinnar á skákborðinu í útvarpsávarpi sínu 15. júní. Í 14 alda sögu skáklistarinnar hefur staða drottningarinnar ekki ávallt verið sú sem hún er í dag Áður fyrr var hún veikasti maðurinn að peðunum einum undanskildum. En það eru meira en 500 ár síðan hún fékk sína núverandi stöðu sem sterkasti maðurinn á borðinu.

Er ekki löngu kominn tími til að konur fái sinn réttláta sess á skákborði lífsins?

Ef við líkjum jafnréttisbaráttu kvenna við stöðu á skákborði, sjáum við strax að kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands er sterkur leikur.

Undanfarna áratugi hefur mikið áunnist í jafnréttisbaráttunni og konur hafa aldrei staðið nær því en nú að jafna taflið. Þess vegna má líkja því við hinn versta fingurbrjót í skák ef við nú berum ekki gæfu til að nýta þetta einstæða tækifæri til að bæta stöðu kvenna.

Gætum þess því í kosningunum á sunnudaginn kemur að leika ekki af okkur drottningunni.

(framhald seinna)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband