Færsluflokkur: Bloggar

2928 - Er um nokkuð annað að tala en vírusinn?

Þegar ég setti réttáðan upp mitt klósettpappírsblogg var mér einmitt búið að detta í hug eitthvað til að skrifa um en nú er ég illu heilli búinn að steingleyma hvað það var. Þó ég flýtti mér eins og ég gat við bloggpeistið og myndasækelsið, kom allt fyrir ekki, ég gleymdi þessu úrvalsefni. Kannski rifjast það upp fyrir mér einhverntíma seinna, við skulum sjá til. Kannski eru einhverjir svo langt leiddir af Covidleiðindum að þeim finnst skárra en ekkert að lesa þetta blogg eða annað sem í boði er. Þetta Covidstand þýðir ekki svo ýkjamikla breytingu fyrir mig því ég er vanastur að vera hér í nokkurskonar sóttkví. Helst að ég sakni þess að geta ekki farið útí Bónus og keypt mér eitthvað með nógu miklum afslætti. Dóttir mín heimtar nefnilega að versla fyrir okkur og heldur greilega að Covinveiran sé stórhættuleg fyrir gamalmenni. Sem hún auðvitað er. Sóttvarnalæknirinn hann Þórólfur segir það, en Frosti og jafnvel fleiri virðast vera á annarri skoðun og hella sér af krafti útí einhverja hálfmisheppnaða útreikninga.

Margt í sambandi við efnahagsleg áhrif þessarar veiru minnir á hrunið árið 2008. Vonandi verður þetta ástand eins tímabundið og bjartsýnustu menn virðast álíta. Allar tölur og dagsetningar sem nefndar eru í þessu sambandi eru hreinar ágiskanir. Allteins gæti þetta samkomubann varað allt næsta sumar. Engin leið er að dæma um hvernig ástandið verður þá.

Flestu er frestað nú um stundir, en ekki er hægt að gera það endalaust. Íþróttir flestar hafa lagst af. Þó er kandidatamótið svokallaða í skák haldið austur í Katrínarborg um þessar mundir og sjálfsagt að fylgjast svolítið með því. Hrafn Jökulsson skrifar ágætar greinar um það á Vísi. Sjálfur hef ég fjölgað hressilega þeim bréfskákum sem ég er með í gangi hverju sinni á chess.com. Hvernig menn fara að því að vera bara með svona rúmlega 200 stig þar er mér að mestu leyti fyrirmunað að skilja. Afleiðing þessarar fjölgunar virðist vera að ég nota minni tíma á hvern leik og næ þessvegna lakari árangri. Mér þykir þetta þó sæmilega skemmtilegt og er nákvæmlega sama um hvort ég vinn eða tapa. Það er ósköp þægilegt að tefla bréfskákir á netinu, ég prófaði bréfskákir svolítið þegar maður þurfti að nota sniglapóstþjónustuna til þess arna, en gafst svo upp á því.

Það er svosem ágætt að losna við íþróttafréttir úr sjónvarpinu, en ef það koma bara Kóvítisfréttir í staðinn er vel hægt að segja að verr sé af stað farið en heima setið. Fjölmargir held ég samt að sitji heima nú um stundir útaf veiruskrattanum. Það má ekki minnast á neitt þá eru veirufréttir búnar að stinga upp sínum ljóta kolli. Hvernig skyldu fréttamenn taka á því ef þurrð yrði á vírusfréttum? Allar fréttir fjalla með einum eða öðrum hætti um þennan faraldur, annað kemst ekki að.

Hér á Íslandi held ég að ekki muni margir deyja úr þessu og að við losnum sæmilega snemma við sjúkdóminn sjálfan. Aftur á móti er líklegt að efnahagslegu áhrifin, atvinnuleysið, vöruframboðið og óttinn verði lengi viðloðandi. Kannski alltaf. Hugsanlegt er nefnilega að samvinna og verslun þjóða milli verði aldrei söm aftur. Vel getur verið að fræ þeirrar tortryggni sem sáð hefur verið i þessum veirufaraldri verði til þess að aldrei grói um heilt milli þeirra sem mest þyrftu á því að halda. Suðrið muni semsagt ekki ná Vestrinu. Eða ætti kannski frekar að segja Austrinu, til að geðjast Kínverjum. Þessi faraldur verður lengi kenndur við þá.

IMG 6240Einhver mynd.


2927 - Að hamstra klósettpappír

Ekki er ég neinn prófessor í virology, en þeir virðast vera orðnir ansi margir hér á landi núorðið. Annars er ég búinn að tala eða skrifa um þetta áður, minnir mig. Sérfræðingar spretta ævinlega upp út um allt ef vinsælt verður að ræða um ákveðin efni. Alveg er það furðulegt hvað sóttvarnarsérfræðingarnir eru orðnir margir hérlendis á stuttum tíma.

Hér áður fyrr var óhætt að hamstra ljósaperur. Þær voru nefnilega bæði fyrirferðarmiklar og entust stutt. Þetta vissu íþróttafélögin og létu krakkana ganga í hús og selja ljósaperur. Nú er búið að girða fyrir þetta með því að láta perurnar endast von úr viti. Sennilega eru svipuð lögmál sem gilda um klósettpappirshamstur. Þar fyrir utan þarf líklega ekki að óttast að tækniframfarir geri ónauðsynlegt að nota hann. Íþróttafélög, Lionsklúbbar og þess háttar félög hafa líka fyrir löngu gert sér grein fyrir þessu og víða er búið að skipta ljósaperum út fyrir klósettpappír. Svipað má segja um plastflöskurnar. Vinsælt er að senda krakka út af örkinni og biðja um tómar plastflöskur. Bílar (jafnvel sendiferðabílar) koma svo í humátt á eftir krökkunum. Ekki hef ég samt orðið var við samkeppni um almenna ruslasöfnun, en hún kemur vafalaust einhverntíma.

Eitthvað verða menn að finna sér til dundurs í sóttkvínni. Hvort sem hún er sjálfskipuð eða ekki. Kannski dunda einhverjir sér við að lesa blogg. Mér finnst þau oft skemmtileg. Skáldsögur eru yfirleitt ekkert nema útúrdúrar. Ég tala nú ekki um glæpareyfarana. Þar virðist það bara vera markmið höfunanna að fylla ákveðinn fjölda blasíðna. Kannski er þetta svipað með bloggið. Ég fæ samt enga samkeppni varðandi bloggfjölda.

Sumir blogga oft á dag. Ekki ég núorðið a.m.k. Sumir linka líka alltaf í fréttir á mbl.is. Ekki ég núorðið a.m.k. Ég er sífellt að hætta að nenna ýmsu, sem mér þótti viðeigandi áður fyrr. Er ég kannski að verða gamall? Ekki finnst mér það. Jafnvægið og ýmsar hreyfingar eru smám saman að verða erfiðari. Þá bara hætti ég þeim. T.d. þykir mér stórhættulegt á standa uppá stól núorðið. Ekki var það þannig.

Sennilega er ég með alveg skítsæmilega hjarta og lungnavél. Meðal annars hugsa ég að það sé vegna þess að ég fer mjög oft í langar gönguferðir. Samt er hugsanlegt að munurinn á hámarkspúls og hvíldarpúls sé ekki eins mikill núna hjá mér og hann var einu sinni. Bjarni var einu sinni á sjúkrahúsi og tengdur við einhverjar vélar. Þegar púlsinn hjá honum fór niður fyrir 40 komu hjúkrunarfræðingarnir hlaupandi og héldu að hann væri að deyja. Þetta var þá bara hvíldarpúlsinn hjá honum. Hámarkspúlsinn er sennilega um 200. Erpulsakum, var einu sinni sagt og ekki skildu það allir. Líka mætti skrifa það svona: Er púls á kúm?

Ýmislegt dettur manni í hug, hérna í fásinninu. Ekki er snjónum fyrir að fara hjá okkur Akurnesinum. Mikið vafamál er þó hvort ég er orðinn Akurnesingur þrátt fyrir fimm ára búsetu. Hér er næstum alveg snjólaust og kannski erum við einir um það að geta farið í langar gönguferðir án þess að eiga á hættu að detta. Annars er það einkennilegt hve unglingar og ungt fólk á auðvelt með að ganga þrátt fyrir mikla hálku. Hún er eiginlega það eina sem ég óttast á löngum gönguferðum. Mikið rok og rigning eru líka óvinir mínir.

IMG 6255Einhver mynd.


2926 - Ástin á tímum kólerunnar

Ég ætla að reyna að minnast ekki á Covin-19 veiruna eða nokkuð sem henni tengist. Ég veit að það verður erfitt og ég er viss um að einhverjir eru búnir að fá leið á slíkri umfjöllun og kannski eru ekki margir vinklar eftir sem vert væri að fjalla um. Vissulega verður þetta erfitt, en það má alltaf reyna. Sæmilega gekk þó að sneiða hjá farsóttarsögum í síðasta bloggi, þó það væri uppsett á sjálfan föstudaginn sem var hjá sumum a.m.k. aðaldagurinn.

Fésbókin heldur sínu striki og ekki er nein sérstök ástæða til að finna að því. Ef ekki væri fyrir hana og Netið yfirleitt væri sú sóttkví og sjúkdómahræðsla sem kvelur marga mun alvarlegri. Nú er strax farinn að koma dálítill vírus-svipur á þetta blogg svo sennilega væri betra að tala um eitthvað annað. Af nógu er að taka því lífið heldur áfram, hjá flestum a.m.k.

Stundum er ekki hægt að segja að tilteknar vísur taki sér bólfestu í hug mér. Það geta alveg eins verið bókarheiti. „Ástin á tímum kólerunnar“ minnir mig að bók ein eftir frægan útlending heiti. Gabríel Markes (sennilega röng stafsetning) minnir mig að höfundurinn heiti (eða hafi heitið). Ekki þarf að geta sér til hversvegna mér komi þetta í hug. Nú er ég farinn að nálgast Covid-19 óþægilega.

Á þessu bloggi var a.m.k. byrjað á alþjólega pi-deginum. Eins og allir hljóta að vita er hann að sjálfsögðu 14. mars. Af hverju 14. mars? Nú, auðvitað vegna þess að mars er þriðji mánuðurinn í árinu (a.m.k. hér á Vesturlöndum) og 3,14 er nokkurnvegin það sama og pi. Annars er líklega ekki rétt að fjölyrða mikið um það vegna þess að sá dagur er fullnærri föstudeginum þeim þrettánda

Stundum er talað um brandajól eða litlu brandajól og stórubrandajól. Nákvæm merking þessara orða er nokkuð á reiki. Í mínu ungdæmi, sem var um miðja síðustu öld, var oft minnst á „Stóru Brandajól“. Önnur brandajól minnist ég ekki að hafa heyrt um. En hvenær voru þessi stóru brandajól? Ég þykist muna eftir að það væri talið vera þegar aðfangadagur jóla væri á fimmtudegi. Á þessum degi voru jólin tvíheilög sem kallað var. Þ.e.a.s. ekki var þriðji í jólum álitinn neinn sérstakur helgidagur. Aðfangadagur var það eiginlega ekki heldur. T.d. var unnið næstum allsstaðar fram að hádegi þann dag og að því leyti var hann eins og venjulegur laugardagur. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur hefur fjallað á mjög ítarlegan hátt um þetta mál í Almanaki þjóðvinafélagsins (eða Háskólans).

IMG 6256Einhver mynd.


2925 - Föstudagurinn þrettándi mars

Jæja, nú er þetta orðið að alvöru farsótt. Einhver opinber aðili var að lýsa því yfir. Ekki þýðir lengur að láta sem ekkert sé. Alveg var samt við því að búast að heyrðist svolítið til allra þeirra sem eru miklu gáfaðri og þekkja betur til farsótta og sóttvarna, en vesalings landlæknir og aðrir í nefndinni, sem ítrekar á hverjum degi, handþvott og sprittun. Einkum sjá þeir allt greinilega í baksýnisspeglinum og eru sammála um flestöll „ef og hefði“. Eflaust hefði mátt haga sér að einhverju leyti öðruvísi í baráttunni við veiruna skæðu. Samt er samstaða þjóðarinnar mikil þegar kemur að þessum málum og auðveldara að sameinast um þetta en til dæmis loftslagið. Ekki eigum við aldraður pöpullinn annars úrkosta en treysta stjórnvöldum. Satt að segja finnst mér þau hafa hagað sér mjög skynsamlega í þessari baráttu. Annars hef ég ekki svo miklu við þetta að bæta og greinilegt er að þetta verður áfall sem líkja má við áfallið mikla sem við Íslendingar urðum fyrir 2008 þó alltannars eðlis sé.

Þetta skrifaði ég gær, og loka klásúluna einnig. Nú hefur ríkisstjórnin séð ljósið. Þessi helgi og þessi dagur föstudagurinn 13. mars árið 2020 verður sennilega lengi í minnum hafður. Gott ef þetta er ekki nokkurskonar „Guð blessi Ísland“ -dagur. Satt að segja þori ég ekki á fésbókina því sjálfsagt er allt vitlaust þar. Það má alltaf reyna að hugsa um eitthvað annað en Covid-19, þó það sé náttúrulega erfitt.

Mér gengur eiginlega ágætlega með þetta sjálfskipaða „intermittent fasting“ sem ég fór í uppúr síðustu áramótum. Að vísu eru undantekningarnar orðnar nokkuð margar, en þó ekki svo að ég sé í þann veginn að gefast upp á þessu. Alltaf er leyfilegt að fá sér vatn. Kannski er það eitthvað það hollasta sem maður lætur ofan í sig. Kjötsoð fæ ég mér á kvöldin áður en ég fer að sofa og jafnvel líka ef ég verð andvaka og svo þegar ég bíð eftir að klukkan verði 12 á hádegi. Aldrei er það  samt meira en svona 1 – 3 glös á sólarhring. Annað eins af kaffi fæ ég mér meðan fastan stendur yfir. (Ekki þó á kvöldin). Smámjólkurdreitil set ég útí kaffið og reyni að telja mér trú um að það sé bara bragðsins og vanans vegna. Þar fyrir utan fæ ég mér háþrýsingspillurnar mínar á hverjum morgni. (6 talsins). Og nú er ég byrjaður að taka lýsi á morgnana. Öll föst fæða og næringarmikil er á bannlista hjá mér, en þó eru vissar undantekningar á því. Einkum á kvöldin og hvað tímasetningar varðar. Mér finnst þetta gera mér gott að ýmsu leyti, þó ekki sé það beinlínis megrandi. Það er ágætt að vera ekki síétandi og oftast varð ég grútsyfjaður samstundis, ef ég fékk mér eitthvað á kvöldin eftir að ég var búinn að vaska upp.  

Alveg er þetta nóg í fréttum á einum og sama degi að vera með fallítt þjóðarflugfélag (sem sennilega verður bjargað af ríkisstjórninni), Covin-19 vírusinn sem er að sleppa og verða landlægur ásamt talsverðum jarðskjálfta á Reykjanesi. Eiginlega fer okkur að þyrsta í almennilegar og jákvæðar fréttir eins og t.d. vorkomuna. Já, vel á minnst. Sennilega kemur vorið einhverntíma. Líkur eru hinsvegar á að páskunum og fermingum öllum verði frestað.

IMG 6260Einhver mynd.


2924 - Covin-19 og verkföll

Auðvitað er ekki nokkur leið að blogga án þess að minnast á Covin-19 veiruna. Þeim fjölgar sífellt sem telja yfirvöld um allan heim gera of mikið eða of lítið úr öllu sem tengist þessari veiru. Ég segi nú bara uppá ensku: „Better safe than sorry“. Hugsanlega er sumstaðar gert of mikið úr hættunni sem þessari veiru fylgir og annars staðar of lítið. En það þýðir allsekki að hunsa eigi tilmæli nefndar þeirrar hér á Íslandi sem reynir að hafa stjórn á þessu. Ég er sannfærður um að þau eru öll að gera sitt allra besta til að draga úr hættunni sem þessu fylgir. Óttinn sem þessu getur fylgt er samt sem áður eitt af því hættulegasta í stóra samhenginu. Búast má við áhrifum á hagvöxtinn víða um heim útaf þessu og þar með á stjórnmálaástandið.

Woody Allen hefur víða komið sér útúr húsi með því að dóttir hans hefur haldið því fram að hann hafi... Ja, ég fer ekkert nánar útí það. Það er samt full-langt gengið að útgáfufyrirtækið sem búið var að semja við um útgáfu ævisögu hans var neytt til að hætta við það vegna þess að stór hluti starfsfólksins þar hótaði að hætta störfum væri það ekki gert. Rétturinn til að segja sína skoðun er einn helgasti réttur hvers manns. Fólk getur haft sína skoðun á manninum, en verk hans eiga skilið að sjást. Enginn neyðir neinn til að lesa bókina. Auðveldara verður að banna óvinsælar bókmenntir ef þessi gjörð fær að standa.

Ekki er víst að Warren styðji Sanders þó stefna þeirra sé um margt lík. Svo er heldur ekkert vist að þeir sem hefðu kosið Warren séu á þeim buxunum að kjósa Sanders. Þeir gætu fundið uppá því að styðja Biden. Líkurnar á að sigra Trump skipta marga höfuðmáli. Einhverntíma seinna má reyna að sveigja Demókrataflokkinn svolítið til vinstri. Miðað við Evrópu er vel hægt að segja að Republikanaflokkurinn sé öfgahægriflokkur nú um stundir. Þessvegna stansar mig á að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ætíð samsama sig þeim flokki, en ekki hægfara eða hægrisinnuðum Demókrötum.

Nú er ég búinn að telja fram. Einsog haldið hefur verið fram var það afspyrnufljótlegt. Ég þurfti bara að samþykkja allt sem haldið var fram. Hef enga ástæðu til að ætla að verið sé að hlunnfara mig. Einu sinni var skattframtalið mjög svo fyrirkvíðanlegt. Maður var að rembast við að svíkja svolítið undan skatti með því að ýkja allar kostnaðartölur lítilsháttar. Kannski fylgdist maður aðeins betur með þá. Núorðið vill maður helst vera heima og fara ekki neitt. Sennilega er það líka eins gott nú að tímum Kínaflensu og þessháttar. Verkföllin eru svo sér kapítuli.

Sem gamall formaður verkalýðsfélags og þingfulltrúi á allmörgum Alþýðusambandsþingum hef ég alltaf meiri samúð með þeim sem ég álít minni máttar í verkfallsdeilum. Þeir sem fátækir eru hafa ekkert að selja nema vinnu sína. Oft er það svo að fyrirtækin sem vilja umfram allt borga sem lægst kaup hafa úr fjölbreyttum ráðstöfunum að velja til að mæta auknum launakostnaði. Annars vil ég sem minnst skipta mér af þessum málum en í þeim eins og í stjórnmálum yfirleitt ættum við Íslendingar að halla okkur sem mest að Skandinavíu og Evrópu.  

IMG 6281Einhver mynd.


2923 - Vísur og vísnagerð

Af einhverjum ástæðum varð blogg mitt frá því um daginn, sem ég skírði eftir Vilborgu Davíðsdóttur, skoðað af fleirum en ég á að venjast. Um 300 manns. Venjulega geri ég ekki neitt til þess að auka vinsældir þessa bloggs. Þó er ég vanur að setja vísun á það á fésbókina, svona til öryggis. Sjálfur lít ég líka oft á fésbókina af sömu ástæðu. Vinsældir fésbókarinnar eru ótvíræðir, en mér finnst samt mest af því sem þar er skrifað harla lítils virði og koma mér lítið við. Þó ég setji alltaf mynd í bloggið mitt er ég ekki nærri eins duglegur við að setja myndir þar núorðið eins og sumir aðrir. Ég er að mestu hættur að taka myndir, en hef þeim mun meira yndi af að skrifa.

Apropos myndir. Einhverntíma myndskreytti ég bloggin mín með allskyns myndum. Nú er ég hættur því og tek ekki mikið af myndum.  Undanfarin mörg hundruð blogg hef ég bara sótt gamlar myndir sem ég notaði áður fyrr í myndskreytingar og eru ennþá hjá Mogganum. Já, alveg rétt. Ég númera bloggin mín alltaf með hlaupandi númerum, og er jafnvel einn um það. Nenni ekki að senda nýjar myndir á Moggabloggið. Meðal annars er þetta í sparnaðarskyni gert, því mig minnir að einhvertíma hafi ég borgað Mogganum þúsundkall fyrir aukið pláss. Svo er þetta bæði fljótlegra og hampaminna. Peningum til Sjálfstæðiflokksins og Morgunblaðsins sé ég líka alltaf eftir. Sennilega er það vegna þess að Fréttablaðið er ókeypis og netaðganginn verður hvort eð er að borga fyrir. Án hans væri maður hálfhandalaus. Kann ekki mikið á stillingarnar á þessu bloggi og forðast að breyta nokkru þar. Svipað er að segja um símann. Ekki er ég nærri eins duglegur við að pota í hann eins og margir aðrir.

Skrifaði áðan í fyrsta skipti komment á bloggið hjá Þorsteini Siglaugssyni. Hann áskilur sér einskonar ritstjórnarvald yfir sínu bloggi og ég geri enga athugasemd við það, þó ég geri það allsekki sjálfur. Bloggið mitt er eins opið og mögulegt er. Ef einhverjum dytti í hug að skrifa eitthvað meiðandi þar er eins víst að ég bæri ábyrgð á því. Einu sinni hafði ég mikinn áhuga á öllu sem tengdist höfundarrétti og ærumeiðingum, en fylgist ekki neitt með því nú orðið. Eftir því sem árunum fækkar í áttrætt hefur maður minni áhuga á mörgu.

Vísan sem hefur tekið sér bólfestu í höfðinu á mér í dag er svona:

Úti vindur æstur hvín
ægilegt er rokið.
Nú held ég bráðum heim til mín
nú hef ég verki lokið.

Þessi vísa er að ég held eftir mig sjálfan. Áreiðanlega var þetta, ef svo er, ekki ort af neinu sérsöku tilefni. Og ég held að mikið af snjöllum vísum hafi einmitt verið ortar á undan tilefninu þó oft sé annað látið í veðri vaka. Þar með er ég ekki að halda því fram að þessi vísa sér sérstaklega snjöll. Mér bara datt þetta svona í hug.

IMG 6286Einhver mynd.


2922 - Vilborg Davíðsdóttir

Nú er Coronavírusinn loksins kominn. Annars gengur hann víst undir ýmsum nöfnum. Covin-19 veiran, Wuhan veiran, Kínalífselexírinn, nei fyrirgefið, Kínavírusinn er það víst. Eða eitthvað annað. Sumir kalla þetta flensu, bara að hún sé mun svæsnari en þessi venjulega. Svo gerir hún (veiran) sér heilmikinn mannamun. Þ.e.a.s. hún leggst mjög misþungt á menn, að sagt er. Auðvitað eru gamalmenni og ungbörn í mestri hættu og margt má um þennan veiruskratta segja. Mér finns hann (vírusinn) óttalega leiðinlegt umræðuefni og mun héðan í frá forðast að minnast á hann.

Ef reynt er að rýna í fréttir fjölmiðla þá virðiast þeir gera sem mest úr hverskyns óáran. Ef ekki hefði komið til Covid-19 veiran og yfirfullar ruslatunnur hefðu fréttir allar verið mun fjölbreyttari. Þessvegna er það ekki nema gott ef bloggarar geta talað um eitthvað annað.

Vísnagerð, bókmenntir og listir hverskonar, jafnvel tækni, eru mun merkilegra umræðuefni, en umgangspestir þó hættulegar séu. Horfði í kvöld á Gettu Betur og var mest hissa á því, að einhverjir héldu í alvöru að Urriðafoss væri Goðafoss. Annars er mesta furða hvað þessir krakkar eru vel að sér. Svo er þetta ekki eintómur páfagaukalærdómur því margir af þessum þátttakendum ná býsna langt á ýmsum öðrum sviðum. Vitaskuld er þetta rjóminn úr viðkomandi skólum og vinsældir þáttarins byggjast mikið á því. Ef ég á að finna eitthvað að þessum þáttum, eins og mín er von og vísa, væri það að stundum skyrpa krakkarnir óskiljanlegum svörum útúr sér í hraðaspurningunum og of mikið er af aukaatriðum og of lítið af spurningum almennt séð í þáttunum.

Stundum er talað um það sem unglingabækur ef hlutirnir eru útskýrðir rækilega. Ég er samt ekki að tala um svokallaðar hrútskýringar. Einhver ákveður að þessi og þessi bók skuli kölluð unglingabók af því að hlutirnir eru útskýrðir nokkuð vel og ekki hlaupið fram og aftur í tímanum eins og tíðkast mjög í fullorðinsbókum. Man vel eftir því að einu sinni þegar Vilborg Davíðsdóttir vann á fréttastofu Stöðvar Tvö kom hún til mín og bað mig að prenta út fyrir sig sögu sem hún kallaði Korku. Kannski hefur Björn bróðir hennar bent henni á mig.

Hvað um það, ég stalst til þess að prenta eintak fyrir sjálfan mig og las bókina og þótti hún nokkuð góð. Nafnið minnir mig að hafi verið tilkomið vegna nafnsins á aðalpersónunni, sem ég held að hafi verið þrælastelpa frá Írlandi milli tektar og tvítugs. Seinna held ég að þessi saga og viðbót við hana hafi verið gefin út undir nafninu „Við Urðarbrunn“ og ég man að ég var svolítið ósáttur við að hún skyldi vera kölluð unglingabók. Fannst hún allsekki vera það og eiga fullt erindi við fullorðna.

„Ég ætla ekki að biðja Guð oftar“, tautaði gamla konan fyrir munni sér þar sem hún stóð í fjörunni og frétti að efnilegur sonarsonur sinn hefði farist í sjóslysi. Af einhverjum ástæðum er þessi setning ótrúlega mögnuð í einfaldleik sínum.

IMG 6293Einhver mynd.


2921 - Skjólkvíar

Mér er alveg sama þó Þorsteinn Siglaugsson sé dálítið mikið hægri sinnaður. Hann les þó bloggið mitt og þreytist ekki mjög á því að kommenta þar og leiðrétta. Sennilega er hann mér að mestu leyti sammála um fésbókarfóbíuna og hver veit nema bloggaðdáendum sé að fjölga á kostnað téðrar bókar. Sumir eru samt á móti Moggablogginu. Ég man sérstaklega eftir því að Stefán Pálsson sagnfræðingur fann því flest til foráttu og spáði illa fyrir því. Ég las nefnilega reglulega bloggið hans í eina tið. Bloggsetrið, sem hann notaði og ég man ekki lengur hvað hét, var alltaf að bila. Auðvitað er Moggabloggið ekkert annað en „glorifíserað“ kommentakerfi. Kostur þess er hinsvegar að það er öllum opið og klikkar aldrei. Einfalt í notkun og talsvert mikið notað. Ég hef sérstakt yndi af því að vera á móti því sem Moggaskriflið vill vera láta, en nota samt Moggabloggið mikið. Ekki finn ég fyrir neinu ósamræmi í því.

Kannski kemur Wuhan veiran til með að heimsækja okkur og kannski ekki. Ekki er ástæða til neinnar ofsahræðslu, þó auðvitað sé annað en skemmtilegt að takast á við svonalagað. Einhverntíma, jafnvel áður en mjög langt um líður, yfirgefur hún okkur. Það gerir flugviskubitið og loftslagsváin hinsvegar ekki. Líka getur verið að eldgos á næstunni valdi okkur miklum vandræðum. Ekki dugir þó að láta hugfallast. Áfram verðum við að lifa í þessu landi. Ef tekið er það skásta úr stefnuskrám flokkanna er vel hægt að hugsa sér að Ísland verði fyrirmyndarríki. Verkföll eru bara spennandi, fyrir alla nema þá sem í þeim lenda. Kannski eru þau meira smitandi en Covid-19 veiran.

Eftir því sem óveðrunum fjölgar verður meira spennandi að bíða eftir vorinu. Eiginlega finnst mér að þessi vetur sé búinn að vera nógu harður og vel mætti fara að vora svolítið.

Þegar Skjólkvíagosið, sem kannski er ekki hægt að flokka með „venjulegum“ Heklugosum var svotil í hámarki fórum við tvær fjölskyldur á Landroverjeppanum hans Harðar að skoða það. Þegar við komum þangað var dálitið dalverpi að fyllast af hrauni og inná hrauninu voru einir tveir gígar á fullu við að spýta glóandi hrauni upp í loftið. Þarna var talsverður mannfjöldi og engin stjórn á neinu. Lyktin og hávaðinn líktist engu öðru og ferðin hefði verið vel þess virði að fara hana þó við hefðum ekki haft annað uppúr henni en þetta.

Krakkarnir þorðu varla út vegna hávaðans aðallega held ég. Sjálfur réðist ég á seigfljótandi hraunstrauminn vopnaður stunguskóflu. Ekki var nokkur vegur fyrir mig að komast nógu nálægt hraunstraumnum til að geta mokað með skóflunni glóandi hrauni nema fá húfufrollu eina lánaða hjá Ingibjörgu systir til að hlífa höfðinu með (aðallega kinninni) fyrir hitanum. Það gerði ég og tókst að ná svolitlu hrauni á skófluna, en ekki var auðvelt að móta það á nokkurn hátt, því það var svo fljótt að storkna.

Við fórum meðal annars gangandi nokkuð útá hraunið í áttina að gígunum og sáum undir fótum okkar glóandi hraunkviku. Ekki leist okkur vel á að fara langt útá það með þessu móti, enda svolítið hættulegt kannski. Líklega vorum við ákafari en aðrir viðstaddir í athugunum okkar á hrauninu.

Síðan fórum við í gönguferð meðfram haunjaðrinum og var vel heitt á annarri hliðinni. Fljótlega komum við að bíl sem hafði fest sig, en Hörður gat dregið hann upp. 20 mínútum síðar var hraunið komið yfir þann stað. Já, við tókum tímann. Fleira frásagnarvert held ég að hafi ekki gerst í þessari ferð, en eftirminnileg var hún.

IMG 6304Einhver mynd.


2920 - Covid-19

2920 – Covid-19

Fréttir hinna hefðbundnu fjölmiðla snúast varla um nokkuð annað en Wuhan eða Covid-19 veiruna eða vírusinn. (Sumir skilja ekkert nema ensku núorðið). Áherslan er þó lögð á ranga þætti hjá flestum fjölmiðlum. Dánartíðnin er „ekki nema“ á milli 2 og 4 %. Auðvitað er það mikið en við suma faraldra er hún miklu hærri, allt uppí 50% eða meir. Nokkrar milljónir manna látast árlega vegna hinnar venjulegu flensu sem oftast á sér upptök í Asíu. Dánartíðnin þar er þó næstum því 1% og engir virðast kippa sér upp við það.

Áhrif veirunnar eða öllu heldur tilrauna til að hefta útbreiðslu hennar geta hæglega orðið til þess að víðast hvar hægir mikið á hagvexti. Það getur aftur haft mikil áhrif á kosningar bæði í Bandaríkjunum og annarsstaðar. Árangur demókrata í Bandaríkjunum gæti sem hægast orðið mun meiri en nú er gert ráð fyrir. Hver veit nema vinstri sinnaður frambjóðandi gæti sigrast á hinum sjálfumglaða og stórgallaða Trump.

Svokallað flugviskubit er okkur Íslendingum mjög hugleikið, sömuleiðis að sjálfsögðu drepsóttir og faraldrar hverskonar. Kannski frestast flugviskubitið svolítið útaf þess öllu saman og ekki mundi ég gráta það. Salan á upprunavottorðunum er af sama meiði og flugviskubitið, því iðnaðurinn og fyrirtækin yfirleitt eru langt á eftir almenningi hvað varðar náttúruna og loftslagið. Á næstu árum má hiklaust búast við því að almenningur a.m.k. sá almenningur sem býr í hinum vestræna heimi muni í vaxandi mæli snúast gegn alþjóðafyrirtækjum sem virða yfirleitt engin mörk og sjá ekkert nema eigin gróða.

Er það annars ekki svo að útlitið skipti meira máli en innlitið. Ef maður á að kommenta eitthvað á útlit þeirra demókrata, sem vilja takast á við Dónald sjálfan í haust og tóku þátt í kappræðunum í Suður-Karólínufylki í gær er þar fyrst til að taka að kallarnir voru allir í jarðarfararmúnderingu. Þar með eru þeir afgreiddir í einni svipan. Hjá Warren er það rauði jakkinn sem er orðinn hennar einkennisbúningur og Klobuchar var í kjól eins og venjulega. New York Times lýsti yfir stuðningi við þær stöllur um daginn. Það þýðir kannski ekkert sérstakt, en veldur því m.a. að NYT getur ekki beitt sér eins mikið í pólitík dagsins eins og t.d. Washingon Post. Þeir eru einfaldlega ekki marktækir.

Man vel eftir þessu sem minnst var á í fréttum í dag. Að sagt var frá Heklugosi áður en það hófst. Sjálfur fór ég ekki að skoða það. Enda hafði ég farið uppá Land á að giska 10 árum fyrr til að horfa á smágos í Heklu. Auk þess hafði ég fylgst vandlega með Skjólkvíagosinu svonefnda sem mig minnir að hafi veri um 1970. Þá höfðum við farið uppeftir og lent í ýmsum ævintýrum, sem ég segi kannski frá seinna.

Man að mér fannst mikið til þeirra vísinda koma sem gátu sagt fyrir um náttúrhamfarir á þennan hátt. Neita því ekki að mér finnst að í sambandi við geimferðir og náttúruhamfarir hafi ekki orðið eins miklar framfarir og ég hefði reiknað með. Eflaust eru eðlilegar skýringar á því.

Einhver mynd.IMG 6306


2919 - Þú verður að vera í skóm í vinnunni

Held ég hafi einhverntíma sagt það í þessu bloggi að mitt aðaláhugamál nú um stundir séu bandarísk stjórnmál. Fyrirsagnirnar á msn.com lít ég yfirleitt á og netflakkið þar á eftir er ákaflega tilviljanakennt. Músarholusjónarmiðin sem fram koma í íslenskri stjórnmálabaráttu og fjölmiðlum sem um þau fjalla eru mér lítt að skapi, þó er íslenskt mál mér talsvert áhugamál. Hvorugu þessu sinni ég eins og vert væri enda er ég introvert og líður best í einrúmi.

Hvað um það. Greinilegt er á öllu að í bandarískum stjórnmálum er Bernie Sanders að ganga í endurnýjun lífdaga þó gamall sé. Hingað til hef ég verið hallari undir Elizabeth Warren en það er hugsanlega að breytast. Líklega er hún í þann veginn að tapa fyrir Sanders þó hún sé vissulega vinstri sinnuð líka. Demokrataflokkurinn mun þurfa að ákveða á næstunni hvort miðjustefna eða vinstri stefna er vænlegri til að sigra Trump. Hingað til hefur vinstri sinnuð stefna ekki verið vænleg til árangurs í Bandaríkjunum. Sjálfur man ég vel eftir Georg McGovern. Hann reyndist alltof vinstrisinnaður fyrir Bandaríkjamenn. Ef Sanders sigrar í forkosningunum, má búast við átakamiklum kosningum í haust. Bandarískt þjóðlíf er allsekki einsog það var á dögum McGoverns.

Það eru einkum þrjú mál sem fylgismenn Sanders benda á. Þau eru: 1) Ójöfn tekjuskipting, 2) Dýrt og óréttlátt heilbrigðiskerfi og 3) Loftslagsmál. Um öll þessi mál má margt segja og verður vafalaust gert á næstunni. Hin íhaldssama stefna sem Trump hefur starfað eftir getur leitt til mikillar einangrunarstefnu og veikt varanlega trú manna á forystu Bandaríkjanna í mörgum málum, en einkum þó í hernaðar- og öryggismálum.

Annars eru alheimsstjórnmál svo margflókin nú á dögum deyjandi kommúnisma að fáum eða jafnvel engum er ætlandi að hafa þann skilning sem til þarf á þeim málum. Að því leyti má segja að stjórnmál nútímans líkist trúmálum æ meira.

Eitthvað minnir mig að ég hafi verið ásamt einhverjum öðrum að ræða um sokka, Alþingi og Bjarna Benediktsson fyrir nokkru. Nú sé ég að Björn Leví hefur skrifað í Moggann grein sem hann nefnir „Þú verður að vera í skóm í vinnunni“. Gallinn við Moggasnepilinn er að hann er seldur og ég get ekki fengið mig til þess að vera áskrifandi að honum. Í framhaldi af spekúlasjónum varðandi fótabúnað Björns Leví hefði mig alveg langað til að lesa þessa grein en get það sennilega ekki. Þó hef ég kosið Píratana frá því ég fékk tækifæri til þess og mun sennilega halda því áfram þrátt fyrir þetta. Ekki geri ég ráð fyrir að Björn Leví leggist svo lágt að lesa þetta blogg og þessvegna er þetta jarm alveg marklaust hjá mér. Ekki finnst mér ég geta gengið lengra en að hafa fyrirsögnina um þetta.

IMG 6307Einhver mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband