2923 - Vísur og vísnagerð

Af einhverjum ástæðum varð blogg mitt frá því um daginn, sem ég skírði eftir Vilborgu Davíðsdóttur, skoðað af fleirum en ég á að venjast. Um 300 manns. Venjulega geri ég ekki neitt til þess að auka vinsældir þessa bloggs. Þó er ég vanur að setja vísun á það á fésbókina, svona til öryggis. Sjálfur lít ég líka oft á fésbókina af sömu ástæðu. Vinsældir fésbókarinnar eru ótvíræðir, en mér finnst samt mest af því sem þar er skrifað harla lítils virði og koma mér lítið við. Þó ég setji alltaf mynd í bloggið mitt er ég ekki nærri eins duglegur við að setja myndir þar núorðið eins og sumir aðrir. Ég er að mestu hættur að taka myndir, en hef þeim mun meira yndi af að skrifa.

Apropos myndir. Einhverntíma myndskreytti ég bloggin mín með allskyns myndum. Nú er ég hættur því og tek ekki mikið af myndum.  Undanfarin mörg hundruð blogg hef ég bara sótt gamlar myndir sem ég notaði áður fyrr í myndskreytingar og eru ennþá hjá Mogganum. Já, alveg rétt. Ég númera bloggin mín alltaf með hlaupandi númerum, og er jafnvel einn um það. Nenni ekki að senda nýjar myndir á Moggabloggið. Meðal annars er þetta í sparnaðarskyni gert, því mig minnir að einhvertíma hafi ég borgað Mogganum þúsundkall fyrir aukið pláss. Svo er þetta bæði fljótlegra og hampaminna. Peningum til Sjálfstæðiflokksins og Morgunblaðsins sé ég líka alltaf eftir. Sennilega er það vegna þess að Fréttablaðið er ókeypis og netaðganginn verður hvort eð er að borga fyrir. Án hans væri maður hálfhandalaus. Kann ekki mikið á stillingarnar á þessu bloggi og forðast að breyta nokkru þar. Svipað er að segja um símann. Ekki er ég nærri eins duglegur við að pota í hann eins og margir aðrir.

Skrifaði áðan í fyrsta skipti komment á bloggið hjá Þorsteini Siglaugssyni. Hann áskilur sér einskonar ritstjórnarvald yfir sínu bloggi og ég geri enga athugasemd við það, þó ég geri það allsekki sjálfur. Bloggið mitt er eins opið og mögulegt er. Ef einhverjum dytti í hug að skrifa eitthvað meiðandi þar er eins víst að ég bæri ábyrgð á því. Einu sinni hafði ég mikinn áhuga á öllu sem tengdist höfundarrétti og ærumeiðingum, en fylgist ekki neitt með því nú orðið. Eftir því sem árunum fækkar í áttrætt hefur maður minni áhuga á mörgu.

Vísan sem hefur tekið sér bólfestu í höfðinu á mér í dag er svona:

Úti vindur æstur hvín
ægilegt er rokið.
Nú held ég bráðum heim til mín
nú hef ég verki lokið.

Þessi vísa er að ég held eftir mig sjálfan. Áreiðanlega var þetta, ef svo er, ekki ort af neinu sérsöku tilefni. Og ég held að mikið af snjöllum vísum hafi einmitt verið ortar á undan tilefninu þó oft sé annað látið í veðri vaka. Þar með er ég ekki að halda því fram að þessi vísa sér sérstaklega snjöll. Mér bara datt þetta svona í hug.

IMG 6286Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk fyrir athugasemdina Sæmundur. Ég tók mér þetta ritstjórnarvald á sínum tíma vegna þess að það flæddi inn svo mikið af bulli frá mönnum sem ég ætla ekkert að vera að nafngreina hér. Kannski kominn tími til að opna bara aftur.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.3.2020 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband