Færsluflokkur: Bloggar
24.2.2020 | 07:24
2918 - "Kalak"
Fésbókarfræðin eru mér meira og minna hulin. Sumir virðast hafa sérmenntað sig í þessum fræðum og geta gert þar allan fjandann. Sumt af því sem er hvað flóknast þar skil ég bara allsekki. Mun hentugra að halda bara áfram að blogga. Þar er ég á heimavelli. Á það jafnvel til að hnoða saman vísu, ef einhver lætur svo lítið að ljóða á mig.
Um þessar mundir er ég að lesa bókina Kalak eftir Kim Leine. Gefin út af nafna mínum árið 2018. Merkileg bók. Og ég sem les aldrei skáldsögur. Svona bækur eru víst oft kallaðar skáldævisögur. Mér finnst ekki að neinu máli skipti hvort það er satt eða logið sem þar er sagt frá. Höfundurinn hefur frá ýmsu að segja og oft er mesta furða hvað hann kemur miklu fyrir á fáum síðum. Rómantískar náttúrulýsingar eru sjaldan of langar og oft kemst höfundurinn vel að orði. Gott ef bókin er ekki þar að auki nokkuð vel þýdd. Hefði samt gjarnan viljað lesa hana á dönsku.
Nú er ég búinn að venja mig á að blogga miklu meira en ég hef gert að undanförnu. Kannski hefur Intemittent fasting breytt mér að þessu leyti. Sumun vafalaust til mikils angurs, en vonandi er eihverjum sem líkar þetta betur. Ekki hefur lesendum mínum fækkað við þetta, eftir því sem Moggabloggsteljarinn heldur fram. Svo fæ ég líka einstöku sinnum áskoranir um að halda áfam að blogga. Ekki held ég samt að nota megi þessi blogg mín til tímasetningar á ýmsum atburðum í lífi mínu. T.d. komu krakkarnir o.fl. um síðustu helgi til að mála stofuna hérna. Áslaug var eitthvað að myndast við að hjálpa þeim, en ég er orðinn alveg ónýtur til slíks. Um síðastliðin áramót fékk Áslaug sér líka vinnustofu með öðrum niðri á Ægisbraut og málar þar núna af miklum móð. (Held ég)
Hef gaman (og vonandi gott) af að fara út að ganga á næstum því hverjum morgni. Sama hvernig veðrið er. Eins gott að það er virkilega snjólétt hér á Skaganum. Venjulega spyr ég símann minn hvernig veðrið sé áður en ég hugsa mér til hreyfings og fer ekki út ef mikil hætta er á hálku og roki. Mikil úrkoma (einkum rigning) leiðist mér líka. Hitastig skiptir mig litlu, enda auðvelt að klæða kulda af sér. Nú er líka farið að birta mun fyrr en verið hefur. Myrkrið finnst mér samt ekki skipta miklu máli heldur, nema hvað hálkublettir sjást mun verr þá.
Nú á dögum farsímans er það aðalspurningin hvort maður á að gefa sig á vald fjöldans og fara að pota í farsímann sinn eins og allir aðrir. Svo er líka hægt að neita því og gera bara það sem manni sýnist. Mér sýnist að láta farsímann og fésbókina sem mest eiga sig. Ekki vera að berjast við að vera öðruvísi en maður er. Ég er einrænn og verð bara að sætta mig við það. Hef þar að auki enga sérstaka hæfileika. Mínir hæfileikar voru kannski einhverntíma einhvers virði, en eru það ekki lengur. Nútildax snýst allt um að kunna sem best á fasímann sinn og pota í hann ef manni leiðist. Að koma t.d. inná læknabiðstofu nú um stundir er satt að segja þrúgandi. Allir eru niðursokknir í farsímana sína og geta greinilega hvorki né vilja sinna neinu öðru. Mér er svosem sama, en tek samt ekki farsímann minn fram heldur stari út í loftið eins og þar sé eitthvað að finna eða sjá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.2.2020 | 11:37
2917 - "Intermittent fasting"
Ekki bregst mér það. Alltaf skal ég vera í stuði til að skrifa meira þegar ég hef nýlega lokið mér af. Þ.e.a.s. ég hef nýlega Moggabloggað svolítið. Nú er fimmtudagsmorgunn hinn tuttugasti febrúar tvöþúsundogtuttugu. Þó ég sé í ágætis skrifstuði núna, hef ég satt að segja ekkert til að skrifa um. Helst að ég gæti sagt eitthvað frá Intermittent fasting. Já, þetta er enska og þýðir eiginlega að fasta svolítið eða öðru hvoru. Þetta hef ég stundað að mestu leyti svo að segja frá síðustu áramótum. Þetta virðist henta mér alveg sæmilega. Samt er það hálfómögulegt sem megrunaraðferð, en mér líður að mörgu leyti nokkuð vel með þetta. Kannski hefur það breytt mér verulega. Best að lýsa þessu svolítið.
Þetta er allsekki fundið upp af mér. Hefur verið stundað frá aldaöðli. Miklu einfaldara en allar þessar kalóríutalningar, margslungnu megrunaraðferðir og mataræðiskúrar sem höfða ekki til mín. Já, ég var alltof feitur. Búinn að koma mér upp sæmilegri ístru eins og einhverntíma hefði verið sagt. Vel yfir 120 kíló, en þó aldrei farið yfir 130 slík. Á tímabilinu frá svona klukkan átta á kvöldin og til hádegis daginn eftir borða ég alls ekki neitt. Drekk þó kjötsoð og kaffi en ekki í mjög miklu magni. Upphaflega fannst mér að ég þyrfti að bæta mér þetta upp með því að éta hraustlega um hádegið á hverjum degi. Þetta hefur þó smám saman rjátlast af mér og nú borða ég eins og ég er vanur þessa átta tíma sem ég hef til þess.
Eiginlega er ekkert meira um þetta að segja. Örugglega hentar þetta ekki öllum. Mér gengur þó ágætlega að neita mér um næringu þessar fyrirskipuðu klukkustundir. Það sem gerir mér þetta erfiðara en þyrfi að vera er að ég verð oft andvaka á nóttunni. Þá er stundum erfitt að stilla sig um að fá sér eitthvað. Það er samt komið upp í vana hjá mér og er ekkert óyfirstíganlegt vandamál.
Allskyns matarkúrar eru mjög vinsælir um þessar mundir. Ekki er ég þess umkominn að ráðleggja neinum neitt í þessum efnum, en ef menn (og konur) treysta sér til að vera svo að segja matarlaus verulegan hluta hvers sólarhrings er alls ekki vitlaust að prófa þessa aðferð. Auðvitað má sem best hafa klukkustundirnar hvernig sem vera skal. Hægt er vitanlega líka að lengja eða stytta tímabilin eða lengja eftir þörfum o.s.frv.
Í stað þess að fara út að ganga niður að Langasandi eða eitthvað fór ég að hlusta á hálftíma halvitanna í sjónvarpinu. Ég er nefnilega skíthræddur við hálku (datt í gær). Björn Leví virðist hafa einstakt lag á að pirra Bjarna Ben. Í stað þess að svara honum efnislega fór Bjarni bara í fýlu (eða kleinu) og fór að tala um mislita sokka og þessháttar. Ja, stjórnmálin hér á landi og virðing alþingis er greinlega komin langt niður.
Nú er þetta orðið hið sæmilegasta blogg svo það er best að hætta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.2.2020 | 09:12
2916 - Borgarblaðið
Eiginlega eru heimsóknir á bloggið mitt dálítið fleiri núna en verið hefur undanfarið. Ég er líka farinn að skrifa miklu oftar og meira. Eitt vekur athygli mína. Ef ég skoða heimsóknafjöldann þá eru gestirnir talsvert fleiri en IP-tölurnar. Þannig var það ekki. Þessar tölur fylgdust nokkurn vegin að. Skyldi þetta vera vegna þess að einhverjir fari oftar en einu sinni á dag inná bloggið mitt. Þetta blogg er nú að mínum dómi ekki SVO merkilegt.
Ég var víst búinn að lofa að segja einhverjar fleiri sögur af Eiríki blinda. Hann og Sigga voru meðal föstu punktanna hjá okkur krökkunum. Stundum (ekki mjög oft samt) komu hópar af ferðamönnum á Hótelið. Meðal annars var þeim sýnd gufuhola ein afar merkileg skammt frá símstöðinni. Eiríkur á Hótelinu setti karbít í holuna eftir að hafa þreifað eftir gatinu. Þá var það eins og við manninn mælt að drunur miklar heyrðust og sjóðheit gufa kom upp úr holunni með miklum krafti og í fyrstunni virtist opið á holunni vera alltof lítið fyrir alla þessa orku. Ferðamennirnir hlupu sem mest þeir máttu í burtu og misstu af aðalsjóinu, en við krakkarnir ferðuðust um þorpið á eftir og tíndum upp karbítmola hér og þar, sem vel mátti nota í dósasprengingar eftir að skyrpt hafði verið á þá. Þessar tiktúrur hjá Siggu og Eiríki voru ekki vinsælar hjá þeim sem áttu þvott á snúrum þegar gosið hófst.
Allir hafa frá einhverju að segja. Jafnvel ég, sem þó hef lifað afskaplega rólegu, innantómu og tilbreytingarlausu lífi. Það er bara að finna það og koma orðum að því. Hvað orðavaðalinn snertir hef ég langa og mikla æfingu í því að koma fyrir mig orði í rituðu máli. Ég skrifaði nefnilega einhver kynstur af dagbókum í eina tíð. Sennilega koma þær ekki í leitirnar fyrr en eftir að ég er dauður. Það er eins gott, því ég á alveg eins von á því að þar komi fram allskyns fordómar, svínsháttur og misskilningur. Kannski verða þær einhvers virði sem heimildir um löngu liðna tíð eftir svona 2-300 ár. Núorðið passa ég mig á að segja ekki annað hér á Moggablogginu, en það sem viðurkennt er.
Fyrir utan Eirík á hótelinu og Bjarna í Kaupfélaginu voru margir skemmtilegir karlar í Hveragerði á þessum tíma. T.d. kennararnir við skólann og þeir sem voru í Taflfélaginu. Maður lifandi, hvað ég gæti skrifað mikið um þá og marga fleiri eins og t.d Kristján í Gamla Reykjafossi og Ragnar í Nýja Reykjafossi. Eiginlega þyrfti að gera þessum karakterum skil í góðri skáldsögu. Ekki get ég skrifað hana. Því er nú verr og miður.
Man að þegar ég var í Borgarnesi gáfum við Ásþór sálfræðingur og Sigurjón Gunnarsson út Borgarblaðið (það er víst ekki á tímarit.is frekar en önnur héraðsfréttablöð). Fyrir jólin sendu sumir bókaútgefendur okkur bækur sínar. Ein hét eða heitir líklega enn: Mannlíf undir Kömbum. Ég skrifaði einskonar ritdóm um hana án þess að rífa sellofaninn utan af henni. Man að þeir Ásþór og Sigurjón voru dálítið hissa á því. Já, þetta er karlagrobb. Menn verða víst oft svona með aldrinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2020 | 08:40
2915 - Karlagrobb
Úr því ég er byrjaður að skrifa karlagrobbsögur af sjálfum mér er kannski bara best að halda því áfram. Ekki er að sjá að lesendum mínum fækki verulega við það. Hugleiðingar mínar um alþjóðastjórnmál eða þá íslensk músarholustjórnmál eru sennilega lítils virði, þó ég vilji alls ekki meina að þau séu röng. Held að ég sé númer tuttugogeitthvað á vinsældalista Moggabloggsins nú um stundir. Ef mér tekst að halda mér innan við 50 þar þýðir það að ég get í færri smellum fylgst með því hvar ég er í röðinni, en það geri ég nokkuð oft.
Hef alveg sætt mig við það að deyja á sóttarsæng, en ekki af slysförum. Það er óneitanlega meiri reisn yfir því að deyja í slysförum. Lítill vandi ætti að vera fyrir skyldmenni og afkomendur að setja hulu hetjuskapar yfir slíkan dauðdaga. Oft hef ég velt því fyrir mér hvað ég muni hugsa um þegar ég veit fyrir víst að ég muni deyja fljótlega. Kannski fæ ég ekkert að vita það og held fram í rauðan dauðann að ég muni lifa, eins og ég hef alltaf gert til þessa. Ekki fær maður þó að velja sér dauðdaga og satt að segja mundi ég helst vilja komast lífs af úr slysförum. En nóg um það. Nú er ég að verða áttræður svo ég má sennilega alveg skrifa svona. Annars tíðkast það hér á landi og sennilega viðar að láta eins og dauðinn sé ekki til. Auðvitað deyja allir, annars væri ekkert spennandi að lifa. Sumir tala að vísu um að lifa lífinu lifandi, en meina ekkert sérstakt með því. Oft hef ég ætlað að skrifa einhverjar krassandi minningar en orðið að hætta við það vegna þess að hugsalega gætu aðrir gert það betur. Áður en ég dey þarf ég samt að koma ýmsu frá mér. Kannski er ég ekkert skrýtnari en aðrir, þó undarlegur sé.
Skrifaði eitthvað um Eirík á Hótelinu í síðasta bloggi. Bjarni í Kaupfélaginu var líka eftirminnilegur. Marga fleiri gæti ég nefnt, en eihvernvegin finnst mér að saman hafi safnast undarlegir menn (og konur, sem líka eru menn, bara kvenmenn þetta var svona smáaukainnskot til heiðurs Sigurði Hreiðari, sem aldrei þreytist á að halda þessu fram). Nú, ég var víst eitthvað að tala um undarlega Hvergerðinga. Bjarni í Kaupfélaginu var svo sannarlega undarlegur. Man að ég kom einhverju sinni heim til hans og þá sá ég útbúnað, sem ég öfundaði hann mikið af. Hann hafði lagt í og drakk skrugguna óblandaða (nennti semsagt ekki að breyta henni í landa) Skrugguna hafði hann í 60 lítra kút upp á háalofti og hafði síðan slöngu niður þannig að hann gat hvenær sem var fengið sér sopa af miðinum. Margar fleiri sögur gæti ég sagt af honum, því ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast honum vel. Þessar sögur ætla ég að geyma mér þangað til seinna en segja í staðinn frá öðrum. T.d. Skafta Jósefssyni garðyrkjumanni, sem var talsverður pípureykingamaður, hafði t.d. átt sömu pípuna í ein 30 ár og ekki þurft að skipta nema 7 sinnum um haus og 8 sinnum um munnstykki.
Siggi Árna var formaður Verkalýðsfélagsins og margar sögur gengu af honum. Hann kom á fót fyrstu leirböðunum í Hveragerði og var mikill aðdáandi sovétskipulagsins. Fékk sér m.a. rússajeppa og sagt er að hann hafi byrjað á því að skrúfa dekkin undan honum og fara með þau inn í stofu og hleypa þar loftinu úr þeim. Júððneskt loft, júððneskt loft, á hann að hafa sagt þá. Sigurður var nefnilega svolítið smámælur og söguna átti að segja með eftirhermusniði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.2.2020 | 21:37
2914 - Eiríkur blindi
Ég hef alveg misst af einhverju persónuleikaprófi, sem Kári Stefánsson er sagður hafa dreift í nafni Íslenskrar Erfðagreiningar. Nú er ég orðinn svolítið forvitinn og langar að vita hvernig þetta próf hafi verið. Sennilega fer ég ekki nógu oft á fésbókarfjárann eða les hann ekki eða kynni mér hann nægilega vel. Að sumu leyti kann þetta að sjálfsögðu að vera kostur, en mér finnst það vera galli.
Það er ekki nóg með að mér finnist öll tónlist vera fyrst og fremst hávaði, heldur er ég ekki alveg sjúr á mismuninum á rödduðun hljóðum og órödduðum. Ekki þýðir að spyrja Gúgla að þessu því hann virðist ekki vita það. Eða a.m.k. á hann í einhverjum erfiðleikum með að segja frá því. Ástæðan fyrir því að ég er að velta þessu fyrir mér er eftirfarandi vísa:
Skólapiltar fara á fjöll
og faðma heimasætur.
Ungar stúlkur elska böll
einkanlega um nætur.
Það var Helgi Ágústsson sem lengi var hreppstjóri á Selfossi og forstöðumaður pantanadeildar Kaupfélags Árnesinga sem kenndi mér þessa vísu einu sinni í fyrndinni. Ég veit ekki hvort ellin í þessari vísu eiga að vera rödduð eða órödduð. Eflaust gæti Eiríkur Rögnvaldsson (bróðir hennar Nönnu sem sumir kannast eflaust betur við) frætt mig um þetta. En ekki þýðir að fást um það. Varla les hann bloggið mitt og á þarafleiðandi erfitt með að svara þessu. Af einhverjum ástæðum man ég greinilega eftir því að Helgi kenndi mér þessa vísu og gætti þess vandlega að Guðrún sem vann í pantanadeildinni þá, yrði ekki vör við þetta. Skrifað hana fyrir mig á Framsóknargrænan miða sem ég hugsanlega á einhversstaðar í drasli hjá mér.
Einhver eftirminnilegast karakter æskuára minna í Hveragerði var Eiríkur blindi Bjarnason á Hótelinu. Einu sinni sá ég hann sparka óvart í stóran stein sem varð á vegi hans. Auðvitað leiddi Sigga hann þá eins og vanalega, en eftir þetta efaðist ég aldrei um blindu hans þó sumir hafi e.t.v. gert það því hann var ótrúlega góður að greina hljóð. Einu sinni reiddist hann mér alvarlega. Þá var ég útibússtjóri í Kaupfélaginu í verkfalli sem verslunarmenn fóru í, en þeir voru mjög óvanir því. Eirík vantaði sementspoka og fannst alveg sjálfsagt að hann fengi slíkt afgreitt þó verkfall væri. Ég þverneitaði aftur á móti að verða við slíkri beiðni.
Ævinlega er það svo að ég er í besta bloggstuðinu strax eftir að ég hef sett upp blogg. Þetta skrifað ég t.d. síðastliðinn þriðjudagsmorgunn skömmu eftir að ég hafði lokið við og sett upp á Moggabloggið eitt slíkt. Alveg er það merkilegt hvað allir (nema ég) eru sjálfmiðaðir í þessum bloggskrifum sínum. Kannski er það best.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.2.2020 | 06:15
2913 - Er þetta Dagsbrúnarverkfall?
Forkosningarnar í Bandaríkjunum eru að verða svolítið spennandi. Líklegt er að stefna Bernie Sanders sé einum of vinstrisinnuð fyrir Bandaríkjamenn. Ef hugsanlegir frambjóðendur eru flokkaðir eftir stefnumálum frá hægri til vinstri má gera ráð fyrir að sú flokkun sé eitthvað að á þessa leið: Bloomberg, Biden, Steyer, Buttigieg, Klobuchar, Warren og Sanders. Man ekki eftir fleirum í svipinn. Auðvitað má flokka þennan hóp eftir ýmsu öðru. T.d. peningum, aldri eða líkum á því að sigra Trump. Allt þetta gæti síðan farið eftir persónum eða tíma.
Enginn vafi er á því að Bandaríkin standa fremst allra þjóða í rannsóknum og þróun hverskonar (læknavísindi og tækni). Ef samskonar stefna ríkir í þeim málum og fylgt hefur verið að undaförnu (Trump-stjórnin), mun sú forysta minnka og að lokum lenda hjá Asíuþjóðum (einkum Kína). Engin furða er því þó baráttan við Huawei sé hatrömm. Meðan Bandaríkin halda forystu sinni í mannréttindamálum og lýðræði eru samt ekki mikil líkindi til að Kína nái forystu á því sviði. Þvert á móti er við því að búast að þvingun sú og ofbeldið, sem þar er beitt í pólitískum efnum muni fyrr eða síðar springa í andlitið á stjórnvöldum þar um slóðir. Einangrunarstefna sú sem Trump fylgir mun þó tefja fyrir þeirri þróun og valda miklum skaða í verslun milli landa.
Auðsöfnun sú og ranglæti sem viðgengst gjarnan í hinum kapítaliska heimi þarf að minnka mjög verulega. Stjórnmálalega er það svo að að Skandinavíska módelið er okkur á Norðurlöndunum að sjálfsögðu hugleikið mjög. Hvort það leysir mesta vandamálið sem steðjar að heiminum um þessar mundir má efast um. Þó er enginn vafi á því að tilraun sú sem segja má að sé hafin á Norðurlöndum til þess að ráðast gegn loftslagsvánni er líklegri til árangurs en sú hægri öfgastefna sem víða hefur skotið upp kollinum í heiminum í dag, gjarnan íklædd föðurlandsást og þjóðernisrembingi.
Ekki er alveg víst að full meining fylgi því sem bloggað er með skáletri. Má maður ekki tala um hug sér, eða hvað? Skáldsögur eru lygasögur. Sumir neita staðreyndum.
Ég vona svo sannarlega að Eflingarverkfallið verði sem lengst og áhrifamest. Annað hvort væri það nú. Ætli þetta verði ekki einskonar Dagsbrúnarverkfall? Einu sinni munaði aðeins um þau. Það er orðið langt síðan við höfum haft almennilegt verkfall. Mesta hættan er á að samið verði of fljótt, jafnvel fljótlega. Einhver von er samt til þess að þetta verkfall verði með gamla laginu, þ.e.a.s. að slegist verði pínulítið og verfallsvarslan lendi í ýmsu frásagnarverðu. Annars er flest að verða frásagnarvert í þessari gúrkutíð sem verið hefur undanfarið. Það má ekki hundur pissa án þess að sagt sé frá því bæði í sjónvarpi og útvarpi, svo maður tali nú ekki um félagslegu og félagsfælnu miðlana sem mér skilst að séu fjölmargir. Að vísu höfum við haft svolítið óstöðugt veðurfar undanfarið og hver veit nema drepsóttin sem herjar á óverðuga komi hingað á endanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2020 | 17:35
2912 - Wuhan og Grindavík, einu sinni enn
Wuhan-vírus eða Corona-vírus. Þó mér finnist Wuhan-vírusinn vera meira réttnefni er ekki annað að sjá en nafnið Coronavírusinn sé um það bil að sigra. Þökk sé fjölmiðlum flestum. Þó mér þyki Wuhanvirusinn vera meira réttnefni verð ég víst að beygja mig fyrir ofbeldi fjölmiðlanna. Ekki er ég samt sannfærður um að þetta sé réttara. Lítilvæg er samt umræðan um nafngiftina samanborið við veikina sjálfa. Svipað má segja um Grindavíkur-gosið. Á næstu hundrað árum eða svo er líklegt að gjósi á Reykjanesi. Sagan segir okkur það. Kannski er samt ekkert að marka hana. Sennilega erum við á Akranesi betur garderuð gegn slíkri vá. (Er garderuð annars ekki sletta) Ekki er ég samt að segja að það sé þessvegna sem við fluttum hingað frá Kópavogi. Heldur ekki til að auka afl atkvæða okkar um helming (eða 100%) Önnur atriði voru mun öflugri í því. Annars er þetta dæmigerð umræða um það sem engu máli skiptir.
Apropos Wuhan-virusinn. Það er næstum öruggt að þessi slæmska verður ekki að alheimsfaraldri á sama hátt og t.d. spænska veikin. Ef hann færi að breiðast út í fleiri löndum en Kína mundi ég hafa meiri áhyggjur, en þær eru næstum engar núna. Hvort þetta ár leiðir til almenns flugviskubits eða ekki er mun nærtækara til að hafa áhyggjur af. Kolefnisjöfnun okkar Íslendinga er meiri annmörkum háð en margra annarra. Ekki er endalaust hægt að halda flugferðum utan sviga. Kannski hækka flugfargjöldin bara, þó varla sé á það bætandi.
Sá sem er aðalmentor minn í bloggskrfum um þessar mundir er Jens Guð. Hann hefur haldið tryggð við Moggabloggið eins og ég. Einhverntíma minnir mig að hann hafi kommentað á bloggið hjá mér og sagst lesa það öðru hvoru. Aldrei bloggar hann um stjórnmál. Það gerði aftur á móti sá sem ég las reglulega það til fyrir skömmu. Hann bloggaði næstum eingöngu um pólitík og hét Jónas Kristjánsson.
Kannski væri heppilegra fyrir mig að skrifa meira um sjálfan mig, en ég hef lagt í vana minn. Ekki er það vegna þess að ég áliti sjálfan mig svo merkilegan pappír, heldur aðallega vegna þess að þeir sem blogga um fréttir og stjórnmál eru svo margir að varla er á það bætandi. Flestir vilja einkum tala um sjálfa sig eða eitthvað sem þeir telja sig hafa meira vit á en aðrir. Svo eru þeir sem helst vilja tala sem minnst. Þeir eru stundum álitnir gáfaðri en aðrir. Kannski hafa þeir bara ekkert til að tala um. Og eru ekki sérfræðingar í neinu. Þó eru þeir líklega fleiri sem tala og tala eins og skrúfað sé frá krana.
Ekki þreytist ég á því að tala um Wuhan-veiruna og ýmsar nafngitir á henni. Nýjasta nafnið á henni og það sem opinberir aðilar hafa mælt með er COVID-19. Ekki veit ég hverning það nafn er tilkomið, en líklegt er samt að fjölmiðlar taki það upp. Ekki má víst styggja Wuhan-búa, en mér skilst að þeir séu talsvert margir. Þar að auki ku Córóna-veirurnar vera margar. Spænska veikin má þó áfram heita spænska veikin. Jafnvel er hugsanlegt að einhverjir fái frönsku veikina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2020 | 21:18
2911 - Wuhan-veiran og Grindavíkur-gosið
Á hverjum degi kemur mér í hug einhver vísa. Tekur sér þar bólfestu og fer ekki. Sama hvað ég reyni. Oft hefur mér komið í hug hvort ég sé ekki alltaf að endurtaka sömu visurnar. Það held ég samt ekki. Yfirleitt finnst mér að ég ráði afar litlu um það hvaða vísur mér koma í hug. Rétt áðan kom mér t.d. þessi vísa í hug. Held að þetta sé gamall húsgangur. Ekki hef ég grænan grun um hvers vegna mér kom þessi vísa í hug:
Runki fór í réttirnar
ríðandi á honum Sokka.
Yfir holt og hæðirnar
hann lét klárinn brokka.
Alltaf er verið að predika yfir manni að vara sig á falsfréttum og allskonar svindli, en aldrei er minnst á öruggasta ráðið við þessu. Það er nefnilega að vera nógu tortrygginn og prófa helst aldrei neitt nýtt og vera auk þess sífellt á varðbergi og telja öll tilboð sviksamleg. Þetta hef ég prófað en auðvitað eru gallar á þessu líka. Já, það er vandlifað í veröldinni. Auðvitað er best að vera hæfilega allan andskotann, en það er bara stundum dálítið erfitt.
Afbökun málshátta og orðatiltækja getur oft verið bráðskemmtilegt tómstundagaman. T.d. las ég einhverntíma um daginn (sennilega á fésbók) að einhver talaði eða skrifaði í fullri alvöru um að skíta í lófana og hefjast handa. Líklega hefur verið átt við þarna, að spýta í lófana. Sumir tala alltaf um að ekki sé hundur í hættunni í staðinn fyrir hundrað, en hvaða hundrað ætli sé átt við þarna? Sumir vilja telja að þetta sé komið úr Bridsmáli og vissulega geta menn verið í eða á hættunni þar en ég mundi halda að fremur sé átt við jarnðarhunduð þarna, hugsanlega stór hundruð sem mér skilst að séu jafnt og 120 nútildax. Þetta nútildax er annars fremur smellið orð og vel skiljanlegt. Það minnir mig á enn eina vísu, sem er þannig:
4, 8, 5 og 7
14, 12 og 9
11, 13 eitt og tvö
18, 6 og 10
Hugsanlega er Wuhan-veiran á undanhaldi. Síðustu 24 tímana fjölgaði nýjum tilfellum ekki eins mikið og sólarhringinn á undan. Auðvitað getur þetta stafað af einhverjum mistökum í skráningu og ekkert er hægt að fullyrða um þetta núna. Kannski bæði Grindavíkur-gosið og Wuhan-veiran láti okkur í friði að þessu sinni, nóg er nú samt. A.m.k. sakar ekki svolítil bjartsýni nú í öllu svartnættinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2020 | 10:29
2910 - Bjarni Harðarson
Nei, ég er svosem ekki dauður ennþá, þó langt sé umliðið síðan ég bloggaði síðast. Eiginlega ætti ég ekki að vera að þessum andskota. Einhverjir láta þó svo lítið að lesa þetta. Sennilega eru það einkum vinir og vandamenn. Annars veit ég minnst um það. Mér nægir alveg að blogga í sífellu. Ekki þar fyrir að það væri svosem gaman að vita hverjir lesa þessi ósköp. Konan mín gerir það, að ég held, svo og systkini og afkomendur. A.m.k. flestir hverjir. Einsog ég hef áður sagt, þá bloggaði ég einu sinni daglega, en er steinhættur því, enda er það til þess eins að þynna út þessi skrif. Svo merkileg eru þau ekki. Það að ég skuli vera að þessari vitleysu á Moggablogginu hefur enga sérstaka pólitíska merkingu. Ég áskil mér fyllsta rétt til þess að vera mótsnúinn Davíð frænda ef mér þykir þess þurfa og hef engar áhyggjur af því að verða vísað héðan. Svo vitlaus er hann ekki. Vitlaus er hann samt. Fer ekki nánar útí það hér og nú.
Rithöfundur er ég ekki. Vildi samt gjarnan vera það. Bjarni frændi minn Harðarson er rithöfundur en þó hef ég ekki lesið skáldsögur eftir hann til enda, þrátt fyrir góð tilhlaup til þess. Mér finnst hann oft fyrna þar mál sitt að óþörfu. Ingibjörg systir og Hörður pabbi hans gáfu mér eitt sinn bók eftir hann í afmælisgjöf og þó skömm sé frá að segja hef ég ekki lesið hana ennþá. Hinsvegar bera ferðaþættir hans og ýmis önnur skrif af, svo og eru ræður hans bráðskemmtilegar. Þar fer hann svo sannarlega á kostum. Hann er líka einn besti og frumlegasti viðmælandi sem Egill Helgason hefur kynnt fyrir okkur í Silfri sínu. Ættfræðingur og bóksali er hann einnig par excellence og að sjálfsögðu einnig fyrrverandi þingmaður.
Sennilega eru áhrifin af heimshlýnuninni og Wuhan-veirunni ofmetin í fréttum. Vonum það a.m.k. Einnig eru líkurnar á Grindavíkugosinu vonandi ofmetnar líka. Það sem búið er af óveðri og þessháttar er þó ekki ofmetið. Áður fyrr hefði fréttaflutningur af þessum hörmungum samt verið mun minni. Kannski stafar þetta einkum af því að tímarnir eru breyttir og ekki þýðir af fárast yfir því. Keppnin á milli félagslegu miðlanna og hinna er alltaf að aukast. Þeir félagslegu eru sífellt að auka útbreiðslu sína og verða, ef útbreiðslan er mikil, að gæta sín á falsfréttunum. Þeim fjölgar mjög sem vilja auka áhrif sín sem mest og skirrast e.t.v. ekki við að dreifa fréttum sem þá grunar að séu falsaðar.
Minningar og þessháttar á fésbókinni eru varasamar. Ef t.d. eru birtar myndir af börnum, sem manni sjálfum finnst kannski vera góðar og krúttlegar, er allsekki víst að krökkunum finnist það sjálfum seinna meir. Fyrir nú utan það að þær kunna að verða misnotaðar. Netið og fésbókin gleyma aldrei neinu, menn ættu að minnast þess. Fátt er opnara en lokaðar fésbókarsíður. Munið það fyrir alla muni.
Sennilega eru myndir með því vandmeðfarnasta á fésbókinni og á blogginu. Hver nennir að lesa gömul rituð blogg eða fésbókarinnlegg eftir aðra. Sumir liggja á því lúalagi að vísa í gömul blogg, en jafnvel ég sem er greinilega með bloggarblæti nenni yfileitt ekki að sinna slíku. Hámarkið er sennilega að lesa sín eigin gömlu blogg. Það geri ég stundum, en ráðlegg hér með öðrum frá því að gera það. Seint verður það eins og að lesa eða skoða gamlar bækur.
Oft og einatt gera menn þau mistök í greinaskrifum að hafa þau of löng. Óþarft er með öllu að skrifa um allt sem manni dettur í hug í sambandi við það sem um er rætt. Kannski er ég með þessu að afsaka minn eigin veikleika, sem er greinilega sá að vaða sífellt úr einu í annað. Krafa dagsins er að koma sér undireins að efninu. Þessvega er það sem krimmar eru stundum lítið annað en dægrastytting höfundar. Plottinu væri hægt að koma fyrir á örfáum síðum. Hitt er uppfylling. Auðvitað eru höfundar misjafnir að þessu leyti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2020 | 09:20
2908 - Janúar febrúarson
Janúar og febrúar eru á margan hátt meðal verstu mánaðanna hér á Íslandi. Þá er kuldinn einna mestur, engin Jól, myrkið í hámarki og þó margir reyni að stytta sér stundirnar með þorramat og þessháttar, allskyns árshátíðartilbreytni og ýmsu í þeim dúr, þá eiga margir um sárt að binda í mesta skammdeginu. Þegar febrúar er liðinn er hægt að fara að hlakka til vorsins, og þó snjórinn og kuldinn haldi eitthvað áfram, er birtan orðin mun meiri þá.
Það er helst í fréttum núna að búist er við eldgosi í námunda við Grindavík, lungnabólgan hættulega breiðist ört út og einn frægasi körfuboltamaður heimsins fórst í þyrluslysi. Semsagt dapurlegar fréttir grasserandi og jafnvel málsóknin gegn Trump Bandaríkjaforseta og árlegur Davos-fundur ríka og fallega fólksins fellur að mestu í skuggann. Jafnvel verðlaunavertíðin kemst lítið í fréttirnar hérlendis nema vegna þess að aldrei slíku vant eigum við Íslendingar fulltrúa þar.
Til heiðurs þeim sem hingað til hafa kvartað undan því að málæðið í bloggunum hjá mér sé heldur leiðigjarnt, ætla ég að hafa þetta blogg sem allra styst. Jafnvel að hætta núna samstundis. Ég er líka að hugsa um að fara út að ganga og svo er ekki örgrannt um að bráðum fari að birta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)