2928 - Er um nokkuð annað að tala en vírusinn?

Þegar ég setti réttáðan upp mitt klósettpappírsblogg var mér einmitt búið að detta í hug eitthvað til að skrifa um en nú er ég illu heilli búinn að steingleyma hvað það var. Þó ég flýtti mér eins og ég gat við bloggpeistið og myndasækelsið, kom allt fyrir ekki, ég gleymdi þessu úrvalsefni. Kannski rifjast það upp fyrir mér einhverntíma seinna, við skulum sjá til. Kannski eru einhverjir svo langt leiddir af Covidleiðindum að þeim finnst skárra en ekkert að lesa þetta blogg eða annað sem í boði er. Þetta Covidstand þýðir ekki svo ýkjamikla breytingu fyrir mig því ég er vanastur að vera hér í nokkurskonar sóttkví. Helst að ég sakni þess að geta ekki farið útí Bónus og keypt mér eitthvað með nógu miklum afslætti. Dóttir mín heimtar nefnilega að versla fyrir okkur og heldur greilega að Covinveiran sé stórhættuleg fyrir gamalmenni. Sem hún auðvitað er. Sóttvarnalæknirinn hann Þórólfur segir það, en Frosti og jafnvel fleiri virðast vera á annarri skoðun og hella sér af krafti útí einhverja hálfmisheppnaða útreikninga.

Margt í sambandi við efnahagsleg áhrif þessarar veiru minnir á hrunið árið 2008. Vonandi verður þetta ástand eins tímabundið og bjartsýnustu menn virðast álíta. Allar tölur og dagsetningar sem nefndar eru í þessu sambandi eru hreinar ágiskanir. Allteins gæti þetta samkomubann varað allt næsta sumar. Engin leið er að dæma um hvernig ástandið verður þá.

Flestu er frestað nú um stundir, en ekki er hægt að gera það endalaust. Íþróttir flestar hafa lagst af. Þó er kandidatamótið svokallaða í skák haldið austur í Katrínarborg um þessar mundir og sjálfsagt að fylgjast svolítið með því. Hrafn Jökulsson skrifar ágætar greinar um það á Vísi. Sjálfur hef ég fjölgað hressilega þeim bréfskákum sem ég er með í gangi hverju sinni á chess.com. Hvernig menn fara að því að vera bara með svona rúmlega 200 stig þar er mér að mestu leyti fyrirmunað að skilja. Afleiðing þessarar fjölgunar virðist vera að ég nota minni tíma á hvern leik og næ þessvegna lakari árangri. Mér þykir þetta þó sæmilega skemmtilegt og er nákvæmlega sama um hvort ég vinn eða tapa. Það er ósköp þægilegt að tefla bréfskákir á netinu, ég prófaði bréfskákir svolítið þegar maður þurfti að nota sniglapóstþjónustuna til þess arna, en gafst svo upp á því.

Það er svosem ágætt að losna við íþróttafréttir úr sjónvarpinu, en ef það koma bara Kóvítisfréttir í staðinn er vel hægt að segja að verr sé af stað farið en heima setið. Fjölmargir held ég samt að sitji heima nú um stundir útaf veiruskrattanum. Það má ekki minnast á neitt þá eru veirufréttir búnar að stinga upp sínum ljóta kolli. Hvernig skyldu fréttamenn taka á því ef þurrð yrði á vírusfréttum? Allar fréttir fjalla með einum eða öðrum hætti um þennan faraldur, annað kemst ekki að.

Hér á Íslandi held ég að ekki muni margir deyja úr þessu og að við losnum sæmilega snemma við sjúkdóminn sjálfan. Aftur á móti er líklegt að efnahagslegu áhrifin, atvinnuleysið, vöruframboðið og óttinn verði lengi viðloðandi. Kannski alltaf. Hugsanlegt er nefnilega að samvinna og verslun þjóða milli verði aldrei söm aftur. Vel getur verið að fræ þeirrar tortryggni sem sáð hefur verið i þessum veirufaraldri verði til þess að aldrei grói um heilt milli þeirra sem mest þyrftu á því að halda. Suðrið muni semsagt ekki ná Vestrinu. Eða ætti kannski frekar að segja Austrinu, til að geðjast Kínverjum. Þessi faraldur verður lengi kenndur við þá.

IMG 6240Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband