2921 - Skjólkvíar

Mér er alveg sama þó Þorsteinn Siglaugsson sé dálítið mikið hægri sinnaður. Hann les þó bloggið mitt og þreytist ekki mjög á því að kommenta þar og leiðrétta. Sennilega er hann mér að mestu leyti sammála um fésbókarfóbíuna og hver veit nema bloggaðdáendum sé að fjölga á kostnað téðrar bókar. Sumir eru samt á móti Moggablogginu. Ég man sérstaklega eftir því að Stefán Pálsson sagnfræðingur fann því flest til foráttu og spáði illa fyrir því. Ég las nefnilega reglulega bloggið hans í eina tið. Bloggsetrið, sem hann notaði og ég man ekki lengur hvað hét, var alltaf að bila. Auðvitað er Moggabloggið ekkert annað en „glorifíserað“ kommentakerfi. Kostur þess er hinsvegar að það er öllum opið og klikkar aldrei. Einfalt í notkun og talsvert mikið notað. Ég hef sérstakt yndi af því að vera á móti því sem Moggaskriflið vill vera láta, en nota samt Moggabloggið mikið. Ekki finn ég fyrir neinu ósamræmi í því.

Kannski kemur Wuhan veiran til með að heimsækja okkur og kannski ekki. Ekki er ástæða til neinnar ofsahræðslu, þó auðvitað sé annað en skemmtilegt að takast á við svonalagað. Einhverntíma, jafnvel áður en mjög langt um líður, yfirgefur hún okkur. Það gerir flugviskubitið og loftslagsváin hinsvegar ekki. Líka getur verið að eldgos á næstunni valdi okkur miklum vandræðum. Ekki dugir þó að láta hugfallast. Áfram verðum við að lifa í þessu landi. Ef tekið er það skásta úr stefnuskrám flokkanna er vel hægt að hugsa sér að Ísland verði fyrirmyndarríki. Verkföll eru bara spennandi, fyrir alla nema þá sem í þeim lenda. Kannski eru þau meira smitandi en Covid-19 veiran.

Eftir því sem óveðrunum fjölgar verður meira spennandi að bíða eftir vorinu. Eiginlega finnst mér að þessi vetur sé búinn að vera nógu harður og vel mætti fara að vora svolítið.

Þegar Skjólkvíagosið, sem kannski er ekki hægt að flokka með „venjulegum“ Heklugosum var svotil í hámarki fórum við tvær fjölskyldur á Landroverjeppanum hans Harðar að skoða það. Þegar við komum þangað var dálitið dalverpi að fyllast af hrauni og inná hrauninu voru einir tveir gígar á fullu við að spýta glóandi hrauni upp í loftið. Þarna var talsverður mannfjöldi og engin stjórn á neinu. Lyktin og hávaðinn líktist engu öðru og ferðin hefði verið vel þess virði að fara hana þó við hefðum ekki haft annað uppúr henni en þetta.

Krakkarnir þorðu varla út vegna hávaðans aðallega held ég. Sjálfur réðist ég á seigfljótandi hraunstrauminn vopnaður stunguskóflu. Ekki var nokkur vegur fyrir mig að komast nógu nálægt hraunstraumnum til að geta mokað með skóflunni glóandi hrauni nema fá húfufrollu eina lánaða hjá Ingibjörgu systir til að hlífa höfðinu með (aðallega kinninni) fyrir hitanum. Það gerði ég og tókst að ná svolitlu hrauni á skófluna, en ekki var auðvelt að móta það á nokkurn hátt, því það var svo fljótt að storkna.

Við fórum meðal annars gangandi nokkuð útá hraunið í áttina að gígunum og sáum undir fótum okkar glóandi hraunkviku. Ekki leist okkur vel á að fara langt útá það með þessu móti, enda svolítið hættulegt kannski. Líklega vorum við ákafari en aðrir viðstaddir í athugunum okkar á hrauninu.

Síðan fórum við í gönguferð meðfram haunjaðrinum og var vel heitt á annarri hliðinni. Fljótlega komum við að bíl sem hafði fest sig, en Hörður gat dregið hann upp. 20 mínútum síðar var hraunið komið yfir þann stað. Já, við tókum tímann. Fleira frásagnarvert held ég að hafi ekki gerst í þessari ferð, en eftirminnileg var hún.

IMG 6304Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er vel til fundið hjá þér að nafngreina menn í blogginu. Þá geta þeir eiginlega ekki annað en lesið það og sett inn komment. Nú bíð ég bara eftir að Stefán Pálsson komi með komment líka embarassed

En nú er vírusinn kominn, engin plön um að gera neitt í því vitanlega, lofslagsváin gleymd og grafin og enginn tekur lengur eftir verkfallinu hennar Sollu komma.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.2.2020 kl. 18:15

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er meira að segja einn af stórhausunum svonefndu. Einhver öfundaðist mikið útaf því einhverntíma.

Svo hef ég meir að segja líka gengið svo langt stundum að seta nöfn manna í fyrirsögnina hjá mér. Mér finnst það auka svolítið vinsældirnar, en það ber ekki alltaf þann árangur að viðkomandi kommenti hjá mér.

Kannski ég og t.d. Jens Guð séum meðal þeirra sem lengst hafa bloggað hérna.

Sæmundur Bjarnason, 28.2.2020 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband