Færsluflokkur: Bloggar
20.4.2020 | 22:59
2938 - Bondí-ströndin
Veit svosem ekki um aðra, en mér finnst það léleg skipti varðandi veðurfar, að fá rigningartíð í staðinn fyrir kuldatíð. Mér er semsagt verr við bleytu en frost. En enginn gerir svo öllum liki, ekki Guð í Himnaríki. Finnst alveg vera kominn tími á vorið núna þegar Sumardagurinn fyrsti er á næstu grösum. Alltaf er nú sama vanþakklætið í þessari Íslensku þjóð, kóvítinn hefði verið mun leiðinlegri en hann hefur þó verið, ef vorað hefði vel. Læt svo þessum veðurspeglasjónum og faraldursfræði lokið, enda kann ég ekkert á slíkt.
Tveir eru þeir menn í heiminum sem ég vildi gjarnan losna við. Ekki með því að drepa þá, en með því að gera þá óskaðlega. Þessir menn eru Donald Trump í Bandaríkjahreppi og Steingrímur J. Sigfússon í alþingishreppi á Íslandi. Á margan hátt væri landhreinsun að því að losna við þá báða úr áhrifastöðum. Ekki er mér neitt illa við þá persónulega, en ég held að stjórnmál öll yrðu léttari og meðfærilegri ef þeir segðu af sér. Alls ekki er samt loku fyrir það skotið að maður losni við þá fljótlega. Vonandi samt við kóvítann á undan.
Tromparinn virðist vera að trompa sjálfan sig núna með því að skora á Bandaríkjamenn að óhlýðnast lögum fylkjanna. Annars finnst mér réttast að líta á þetta sem einskonar örvæntingu útaf kosningunum í haust. Kannski vonast hann innst inni til þess að svokölluð seinni bylgja komi af faraldrinum í Bandaríkjunum svo hann geti frestað kosningunum og stjórnað bara með tilskipunum. Það held ég að mundi eiga vel við hann.
Andskotinn sjálfur. Lék mig í tveggja leikja mát í einni bréfskákinni núna rétt áðan. Var meira að segja með peð yfir, en hvað var kóngurinn eiginlega að þvælast útá miðju borði og drottningarnar aktívar. Spurning hvort maður getur ekki kennt kórónuveirunni um þetta. Segi bara svona. Annars er mér svosem sléttsama þó ég tapi í bréfskákinni. Þetta er bara uppá grínið og skemmtunina. Svo er ég kominn í 20 skákir samtímis svo þetta er ekki annað en það sem búast má við.
Auðvitað getur varla verið að nokkur Íslendingur sé svo vitlaus að hann viti ekki uppá hár hvar Bondí-ströndin er. A.m.k. gera þeir ekki ráð fyrir því sem setja saman dagskrárkynningarnar hjá RUV. Auðvitað er hægt að spyrja Gúgla að þessu og kannski er þetta auglýsing fyrir þá þjónustu, svona öðrum þræði. Ekki geri ég samt ráð fyrir að þeir (hjá Gúgla) hafi borgað fyrir þetta.
Einhver hafði orð á því við mig, fyrir langa löngu, að ég ætti að gera hverja klásúlu hjá mér að sjálfstæðu bloggi, en ég nenni því ekki. Sumir skrifa samt eða blogga þannig. Starta jafnvel þræði á fésbókinni með stuttri klausu. Svo er líka á það að líta að þessar klásúlur hjá mér eru ákaflega misjafnar. Sumar gætu kannski staðist sem sjálfstæð blogg en aðrað allsekki. Margar standa í einhverju sambandi við það sem á undan er komið eða það sem á eftir fer.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2020 | 15:36
2937 - Jón Loftur Árnason og Gennadi Sosonko
Draumar eru mikil heilsubót. Ekki er hægt að framkalla drauma. Hvorki hjá sjálfum sér eða öðrum. Þetta held ég a.m.k. að sé rétt. Þetta með haldið er athyglisvert, en ég ætla helst ekki að láta það afvegaleiða mig. Var að hugsa um að skrifa lítilsháttar um drauma. Virðist vera þannig að það sem skeður í draumi haldist þar og sé ekki að flækjast fyrir raunveruleikanum. Þegar þetta tvennt ruglast að einhverju leyti, er það kallað geðveiki. Hún er samt ekki alveg svona einföld. Þessi skýring á sennilega bara við um vissar tegundir geðveilu, en förum ekki lengra útí það.
Draumar eru líka óttalega fragmentaðir. Það er að segja sundurlausir. Ekki eins og raunveruleikinn sem hangir að mestu leyti saman og hefur vissan stíganda og getur farið batnandi eða versnandi eftir alvikum. Suma dreymir framhaldsdrauma. Það getur verið skemmtílegt. Engin leið er samt að vita hvenær framhaldið kemur. Skelfingar bull er þetta annars alltsmanan. Held ég ætti frekar að snúa mér að einhverju sem ég hef svolítið vit á. Kannski er það ekki svo margt, en það má prófa.
Í skákinni er ég orðinn mun lakari en ég var einu sinni. Eitt sinn keyrði ég með Jón L. Árnason og Gennadi Sosonko frá Reykjavík til Borgarness. Einhver held ég að hafi komið frá Stykkishólmi eða Grundarfirði í Borgarnes að sækja Sosonko, því hann átti að tefla fjöltefli þar. Auk þess minnir mig að mamma Jóns hafi verið með í bílnum. Gott ef hann var ekki á leiðinni í einhvern sumarbústað vestur við Arnarstapa. Held að þeir hafi báðir teflt á Reykjavíkurskákmóti þá Jón og Sosonko og að það hafi verið haldið á Loftleiðahótelinu. Til stóð að Jón L. tefldi líka fjölteflí í Borgarnesi en ekki varð úr því. Ég er eiginlega kominn dálitið frá því sem ég ætlaði segja.
Í bílnum á leiðinni höfðum við ekki um mikið að tala. Man samt eftir því að Jón og Sosonko fóru í huganum yfir einhverja skák sem báðir könnuðust við. Deildu meðal annars um einhverja ákveðna leiki í byrjuninni, en því miður gat ég lítið fylgst með því. Einhverjum hefði kannski fundist það skrítið að þeir gætu farið yfir einhverja skák í huganum frá upphafi til enda, en ekki honum mér.
Eins og mig minnir að ég hafi verið búinn að segja frá, stóð til að Jón L. Árnason tefldi fjöltefli í Borgarnesi. Af því varð ekki því aðsóknin var ekki nógu mikil. Einhver smáslatti af mannskap mætti þó, kannski svona 6-8 manns. Jón bauðst þá til að tefla blindskák við okkur alla samtímis og var það samþykkt. Ekki er að orðlengja það að stillt var upp á borðin og við settumst við þau, en Jón settist þar sem hann sá ekki á borðin. Einn okkar, sennilega hefur það verið Eyjólfur Torfi sem á þeim tíma var framkvæmdastjóri samkomuhússins, þar sem fjölteflið fór fram, náði jafntefli við Jón. Allar hinar skákirnar töpuðust. Það er að segja Jón vann þær allar án þess nokkurntíma að sjá taflið sjálft.
Eflaust hefði þetta einhverntíma verið álitið talsvert afrek. Svo var þó ekki þarna að þessu sinni. Veit ekki til þess að nokkurnstaðar hafi verið skrifaðar niður skákir sem þarna voru tefldar eða hverjir tóku þátt í þessu. Skákmeistarar hafa alltaf verið álitnir svolítið skrítnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2020 | 09:29
2936 - Lady Baden-Powell
2936 Lady Baden-Powell
Fylgist nokkuð vel með vinsælasta sjónvarpsþættinum um þessar mundir. Líka því að þó Þórólfur og Alma fái einstöku sinnum frí, er því ekki að heilsa með Víði. Hann fær aldrei frí og satt að segja er maður farinn að vorkenna honum svolítið. Hann æsir sig líka stöku sinnum uppúr öllu valdi og reiður Víðir er ekki árennilegur.
Það er nú alveg ljóst að hvað ferðamenn snertir er komandi sumar alveg ónýtt. Einhverjir túristar munu sjálfsagt rekast hingað, en ekkert verður það í líkingu við það sem til þarf svo fyrirtækin öll sem sérhæft hafa sig í allskonar þjónusu við þá, geti starfað áfram. En hvað er að segja um næsta sumar? Sumarið 2021.
Ég er talsvert hræddur um að svipaða sögu verði að segja af því. Ferðmannaiðnaðurinn sem svo hefur verið nefndur nær sér áreiðanlega ekki á strik aftur fyrr en búið verður að finna upp og prófa fyllilega bóluefni gegn Covid-19 veirunni. Jafnvel þó bóluefni verði hægt að fá næsta sumar eða svo er afar ólíklegt að það nái að bjarga túrismasnum hér á Íslandi.
Til þess þarf að vera búið að ná fullkomnu hjarðónæmi hér á landi eða þá að allir ferðamenn sem hingað koma hafi verið bólusettir. Hvorugt er líklegt. Þessvegna er afar ólíklegt að ferðamanniðnaðurinn nái fyrri styrk fyrr en í fyrsta lagi árið 2022. Vissulega er þetta svartsýni, en mönnum er velkomið að vonast eftir öflugu bóluefni miklu fyrr en hér er gert ráð fyrir.
Man vel eftir Ólafi Ólafssyni kristiboða. Að hann væri afi Egils Helgasonar vissi ég ekki. Hann var fyrstur til að sýna mér hvernig Kíverjar væru vanir að heilsast. Þeir tækju í hendina á sjálfum sér og hneigðu sig svolítið um leið. Það var svo ekki fyrr en all-löngu seinna sem ég heyrði brandarann um það hvernig Kínverjar skeindu sig og hvaða áhrif liklegt væri að það hefði á pappírsframleiðslu heimsins ef þeir tækju uppá því að nota klósettpappír.
Man líka vel eftir Hannesi Jóhannssyni sem var tæknistjóri á Stöð 2. Hann var fæddur í Hong Kong vegna þess að sjúkrahúsin þar voru nauðalík þeim vestrænu. Foreldrar hans voru á þeim tíma starfandi í Kína. Ýmsar minnisstæðar sögur gæti ég sagt eftir honum, en sleppi því að þessu sinni.
Sumir hafi haldið því fram að handabönd leggist alveg af hér á landi. Það held ég ekki að verði. Líklegt er samt að þau verði ekki alveg jafn sjálfsögð á næstunni eins og þau hafa löngum verið.
Eitt af allra fyrstu skátamótum sem ég sótti var haldið í Hagavík við Þingvallavatn. Þar átti Helgi Tómasson geðlæknir og faðir Ragnhildar Helgdóttur síðar menntamálaráðherra sumarbústað og e.t.v. fleira. Man eftir því að kennarar við Laugargerðisskóla höfðu það í flimtingum, þegar ég var þar prófdómari, að einhverntíma gæti sá tími komið að Ragnhildur yrði menntamálaráðherra, og hlógu ógeðslega um leið.
Man að á þessu skátamóti, sem ég minntist áðan á, kom eiginkona Roberts Baden-Powells stofnanda skátahreyfingarinnar í heimsókn og við skátarnir sem vorum á mótinu mynduðum langa röð til þess að fá að taka í hendina á henni. Ég hef semsagt tekið í hendina á Lady Baden Powell og man vel að mér þótti það talsvert merkilegt á þeim tíma.
Hélt endilega að mér mundi líða miklu betur ef ég fengi að vita hvað Bolungarvíkursvindlarinn heitir. Svo var þó ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2020 | 21:36
2935 - Enn um kóvítann. (Hvað annað?)
Tvennt er það sem veldur mér nokkrum heilabrotum í sambandi við þennan árans vírus. Það er ofuráhersla sú sem sumir leggja á að andlitsgríma sé notuð og svo líka þetta með malaríulyfið, sem á að vera svo hættulegt fyrir kóvítann.
Er annars ekki sjálfsagt að kalla þennan óvin mannkynsins númer eitt kóvíta. Sumir tala reyndar um nýju kórónuveiruna, en mér finnst það of vingjarnlegt.
Kóvíti minnir á ansvíti, jafnvel helvíti. Að ekki sé minnst á víti og vítaspyrnu, sem flestir þekkja. Sumir gætu rekist á bévítans kóvítann eða orðið fyrir honum.Vítavert er í öllu falli að mæla með honum.
Það hlýtur að vera ömurlegt að drepast um þessar mundir. Jarðarförinni frestað og allt eftir því. Skrokkurinn sennilega settur í kæligeymslu, ef þær eru ekki allar fullar. Minningarathöfn haldin einhverntíma seinna, ef aðstandendum finnst taka því. Eins vist að þær verði legíó. Nei takk, ég vil ómögulega drepast núna. Kannski seinna.
Tökum nú upp léttara hjal. T.d. mætti minnast á veðrið. Samt er óvíst að það sé nokkuð léttmeti. Hugsanlega er einhver dulin merking í því hjá sjónvarpinu að hafa Spaugstofugrín strax á eftir kóvít-fréttum. Hver veit?
Annars er ekkert vitlaust að hafa léttmeti á boðstólum á eftir alvörunni sjálfri. Þeir sem ekki sjá alvöruna í Covid-19 er ekki við bjargandi. Sennilega er þetta mesta alvaran á eftir heimsstyrjöldunum tveimur á síðustu öld. Ansi fáir þeirra sem núlifandi eru muna eftir þeirri alvöru sem þeim fylgdi.
Hrunið fyrir svona rúmlega 10 árum var óttalega smáskítlegt í samanburði við þessi ósköp sem við erum nú að lenda í.
Á margan hátt er þetta samt ekki svo mikið mál fyrir mig. Það er að segja ef veiruskrattinn nær mér ekki eða þeim sem næst mér standa. Líkurnar á því fara snarminnkandi, sem betur fer.
Ef sumarið verður dægilegt eins og alveg er leyfilegt að vona verð ég nokkurnvegin ánægður. Eflaust er samt ekki öllum svo farið. Líka getur vel farið svo að lífskjör mín versni verulega í kjölfar þessarar veiru. Það er þó ekki neitt verulega fyrirkvíðanlegt fyrir mig, því líf mitt er af ýmsum orsökum farið að styttast talsvert í annan endann.
Ég er samt fjarri því að fyllast einhverri Þórðargleði útaf þessu öllu saman. Til þess þykir mér alltof vænt um afkomendur mína og þá sem standa mér næst af ýmsum ástæðum. Jafnvel get ég ósköp vel skilið þá sem vegna föðurlandsástar eða einhverra slíkra tilfinninga vilja veg eftirlifenda sinna sem mestan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.4.2020 | 06:51
2934 - Langtímaáhrif veirunnar
Fréttir eru alveg ömurlegt áhugamál. Að venjulegar fréttir skuli á einu andartaki (eða einum mánuði) geta breyst í covidfréttir er hryllingur. Kannski eru venjulegar fréttir ekkert skárri. Oftast nær fjalla þær um einhverskonar ömurleika. Þær eru samt fjarlægari. Nú finnur maður greinilega hvað það gæti verið gott að eiga sér áhugamál sem hægt væri að sökkva sér í. Gleyma öllu þessu kovitakjaftæði og hugsa bara um eitthvað annað, eða jafnvel ekki neitt.
Ég var að hugsa um að gera þetta intermittent fasting að mínu áhugamáli númer eitt, en er snarhættur við það. Alltof margir virðast líta á þetta sem einn megrunarkúrinn til viðbótar. Ekki geri ég það. Lít fremur á þetta sem lífstílsbreytingu. Sá 16/8 fésbókarhóp um þetta og leist ekkert á. Svo maður fari nú aftur að tala um bölvaða kovítveiruna þá er ekki að sjá að hún láti yngra fólk neitt í friði þó því hafi verið haldið fram. Mest stansar mig á því að hvergi skuli hafa komið til óeirða, einsog venjulega gerist í dystópíubókum. Bókmenntir eru nú eiginlega einn ömurleikinn til viðbótar. Ekki er hægt með góðu móti að hafa áhuga á lygasögum þegar raunveruleikinn er miklu magnaðri. Kannski er veðrið bara best sem áhugamál. Það er samt ömurlegt eins og er. Batnar samt kannski á undan kovitfjandanum.
Mér virðist allt benda til þess að í fyrsta lagi muni íþróttalíf svotil allt endurfæðast seint næsta haust í fyrsta lagi. Fyrsta íþróttakeppnin verður væntanlega forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Auðvitað er það ekki hefðbundin íþróttakeppni, en spennandi samt. Kannski verður þeim frestað líka. Allar líkur eru á að fram að þeim tíma, semsagt til byrjunar nóvember næsta haust, verði ekkert að gerast á íþróttasviðinu né annarsstaðar. Í hæsta lagi að sagt verði frá því með heimsstyrjaldarletri að hinum og þessum leiðist aðgerðarleysið. Svo verður náttúrulega efnahagslífið í rúst.
Íþróttafrík munu sennilega sakna ýmislegs, en við því er ekkert að gera, mannslíf eru víst mikilvægari. Ekki hef ég orðið var við spádóma um að sumarið sé ónýtt til allra meiriháttar boltaleikja, en mjög hætt er við því að sú verði raunin. Íslandsmeistarmótið í krass-spyrnu mun ekki fara fram, en hugsanlegt er að golfmót fari fram, áhorfendalaus samt.
Lúsmýið mun ráða alfarið á helstu sumarleyfisstöðum. Einstaka þöngulhausar munu fara í skógarferðir einir saman og koma aftur lúsbitnir mjög. Á sama hátt og tjaldferðir lögðust af í hitteðfyrra mun útilegumaðurinn í Mosfellssveit fara á hausinn. Tjaldvagnar og fellihýsi munu komast í tísku aftur. Ég er semsagt strax farinn að hugsa um sumarið og haustið. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Kannski hverfur snjórinn einhverntíma.
Hugsanlega lærir mannkynið eitthvað á þess vírusævintýri sínu. Mér er svosem sléttsama þó ég komist lítið útúr húsi. Mér leiðist aftur á móti þetta sífellda óveður. Er ekki kominn tími til að leggja veðurstofuna niður. Óvitlaust er að setja svona fáránlega fullyrðingu á blað, eins og þetta með niðurlagningu veðurstofunnar. Þar með er það næstum öruggt að enginn tekur neina aðra vitleysu, sem sett er í þetta blogg, alvarlega. Getur virkilega hver sem er skrifað hvaða vitleysu sem honum eða henni dettur í hug? Já, þannig virkar ritfrelsið. Ekki lætur það að sér hæða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2020 | 12:50
2933 - Duterte
Eiginlega kemur það ekkert á óvart þó Duterte á Filippseyjum hafi að sögn hótað að skjóta þá sem ekki virða sóttkvína sem þar hefur verið komið á. Víðir hefur alls ekki viljað ganga svo langt. Jafnvel að hann hafi viljað taka með silkihönskum á þeim sem ekki hlýða Víði.
Hvort er ég að smita aðra, eða aðrir að smita mig? Þessari spurningu er vandsvarað. Mér finnst einhvernvegin að ég geti ekki verið að smita aðra, en í sjálfu sér veit ég ekkert um það og sennilega finnst öðrum að ég sé að því.
Nokkrar spurningar eru það varðandi þessa veiru sem ég vildi gjarnan fá svör við. T.d. langar mig til að vita hvort þeir sem farið hafa í sóttkví, geti átt von á því að fara aftur í samskonar sóttkví. Einnig langar mig að vita hvort þeir sem sýkst hafa geti átt það á hættu að sýkjast aftur. Er eitthvað vitað um mögulegt ónæmi og þá einnig hvort þeir sem ónæmir eru taldir vera sýni einhvers konar svörun við sýnatöku. Mundi mótefnamæling gera það?
Eiginlega ætti maður að skrifa um eitthvað annað en bévítans veiruskrattann. T.d. fótbolta. Já, vel á minnst ég gæti einmitt minnst á fótboltann.
Ég er nú enginn stuðningsmaður Liverpool í fótboltanum. Langt frá því, frekar að ég sé á móti þeim. Samt er það svo að ég verð að viðurkenna a væri ósanngjarnt gagnvart þeim ef þessu yfirburðaliði yrði neitað um opinbera viðurkenningu á því að vera Englandsmeistarar í þessum vinsæla boltaleik þetta árið. Þeir hafa einmitt sýnt fáheyrða yfirburði í því sambandi. Annars leiðist mér núorðið allt tuðruspark þó ég hafi í eina tíð þóst hafa einhverja hæfileika á því sviði.
Nú sé ég tvær blaðsíður í einu á tölvuskjánum og kann ekki að breyta því til baka. Annars er skjárinn sá arna allur á breiddina svo kannski er þetta bara til bóta. Þarf sennilega svolitið að venjast því samt.
-Nú ætla ég að drífa í þvi að yrkja eitt órímað prósaljóð.
- Af hverju prósaljóð?
- Af því að ég kann ekki annað. Einu sinni kunti ég eða kunni að yrkja undir fáeinum rímnaháttum en ég kann ekkert í snonnettusmíði eða þessháttar.
- Já, haltu þá áfram.
- Sko, einu sinni hélt ég að með því að klæða aðra eða þriðju hverja hugsun í orð þá mætti nálgast einhvers konar skáldskap.
- En ertu hættur að halda það.
- Já, að mestu leyti. En nú ætla ég að hugsa pínulítið áður en ég set næstu orð á blað.
- En ekki er vert að hugsa of mikið.
- Þá er að varast það.
- Af hverju ætli wordið hagi sér svona undarlega?
- Ekki veit ek þat.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2020 | 10:42
2932 - Drífa Snædal
Held að það sé talsvert mikið ofílagt að halda að eitt til tvöhundruð þúsund muni deyja í Bandaríkjunum af völdum Covid-19 veirunnar. Alltaf þegar ég sé eitthvað tölulegt um US þá heimfæri ég það uppá Ísland alveg ósjálfrátt. Það er fremur auðvelt því Bandaríkjamenn eru u.þ.b. þúsund sinnum fleiri en við. Samkvæmt þessari kenningu ættum við Íslendingar að missa svona 100 til 200 manns í þessari plágu. Það finnst mér afar ótrúlegt. Kannski koma andlát nokkurra tuga Íslendinga til greina, en allsekki meir. Því neita ég alfarið að trúa.
Þorsteinn Siglaugsson var vanur að kommenta mikið á þessa síðu. Hann er alveg hættur því. Stuðningsmaður Frosta er hann orðið mikill. Honum finnst Þórólfur og Co. vera að gera tóma vitleysu. Það held ég allsekki. Það er raunar hálfskrýtið að manni eins og honum (Þórólfi) skuli hafa verið þrýst í það að taka svona veigamiklar ákvarðanir eins og hann hefur óneitanlega gert eða þurft að gera. Þó er hann eiginlega bara starfsmaður Landlæknisembættisins. Að vísu yfirmaður sóttvarna þar. Stjórnmálamenn hafa að mestu leyti kúplað sér útúr því að taka ákvarðanir varðandi farsóttina sjálfa og er það vel. Nóg er nú samt. Vissulega má deila um ýmsar efnahagslegar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Þó samstaða um þær sé mikið umtöluð fer allsekki hjá því að menn búi sig undir miklar deilur hvað það snertir. Sjálf þykist ríkisstjórnin hafa gert vel, en flestir hallast að því að of lítið sé að gert. Þó virðist samkvæmt skoðanakönnunum að vinsældir hennar hafi aukist.
Eitt helsta vandmál mitt í sambandi við þessi bloggskrif er að mér leiðist óttalega að þykjast alltaf vera svona gáfaður. Þetta er bara eðli mitt. Ég get ekki öðruvísi verið né að þessu gert. Að miklu leyti er allt okkar líf einn allsherjar þykjustuleikur. Innsta eðli sitt lætur enginn í ljós. Allt okkar líf er um dauðann. Hann litar allt saman. Þessvegna er það mikilvægt þroskastig hjá börnum þegar þau gera sér grein fyrir því að þau eru ekki ódauðleg. Þeim getur fundist að dauðinn sé mjög fjarlægur, en samt er hann alltaf til staðar. Þegar maður gerist gamall færist hann að sjálfsögðu nær og nær. Auðvitað sér maður eftir ýmsu, sem maður hefur gert eða vanrækt að gera. Vel hefði verið hægt að lifa lífinu allt öðruvísi.
Stend með Drífu í ASÍ-málinu. Verkalýðurinn á fyrst og fremst að hugsa um sjálfan sig, ekki fyrirtækin. Þó Vilhjálmur sé Akurnesingur og Ragnar Þór hafi frelsað VR undan ofurvaldi Sjálfstæðisflokksins er ég þeirrar skoðunar að þeir séu bara fúlir yfir því að hafa tapað fyrir Drífu. Hún er forseti ASÍ og stendur sig bara vel þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.3.2020 | 06:45
2931 - Daglegt líf á tímum veirunnar
Vinsælasti sjóvarpsþátturinn um þessar mundir er tvímælalaust um Covid þríeykið sem þau Víðir, Þórólfur og Alma leika aðalhlutverkin í. Og nú er Bingi að reyna að fá hlutverk þarna. Þessir daglegu blaðamannafundir eru nú þegar orðnir afar vinsælir og margir sem fylgjast spenntir með. Undarlegur andskoti að vera að berjast við óvin sem engin leið er að sjá!! Þetta hefur mannkynið samt kallað yfir sig. Nú nennir enginn að tala um loftslagsvána lengur. Það er ekki í tísku. Allt snýst um Kóvítinn. Hvað getum við kallað þennan ólukkans sjúkdóm? Ekki er víst að það sé alveg sanngjarnt að kalla þetta Kínversku veikina, þó sumir geri það alveg óhikað.
Segja má að það sé að bera í bakkafullan lækinn að ræða um þessa fjárans veiru. Eiginlega fór ég ekki að taka hana alvarlega fyrr en föstdaginn þrettánda (mars hlýtur að vera). Sennilega var þá farið í þetta samkomubann, sem sumir vilja kalla samgöngubann. Ég man að talsverð tímamót voru falin eða fólgin í þessari dagsetningu.
Af hverju skyldi fólk láta tattóvera sig? Ég á bágt með að skilja það. Greinilega finnst samt sumum þetta sjálfsagt. Auðvitað má segja að fólk geti gert það sem því sýnist með sinn eigin líkama, meðan það káfar ekki upp á aðra. Sumir eru allt lífið að reyna að gera líkamann sem fullkomnastan í eigin augum. Aðrir eru með sífelldar aðfinnslur útaf þessu. T.d. ég. Sjálfur ákvað ég snemma að gera sem allra minnst í því að fikta í honum. Auðvitað bora ég daglega í nefið og drekk og borða allskyns óþarfa eða óþverra, að því er sumum finnst.
Nýjasta dæmið um þetta er fyrirtektin í sambandi við föstuna hjá mér, en eins og þeir sem þetta lesa reglulega, sem hljóta að vera einhverjir, vita hef ég haldið mig við svokallaða intermittent fasting svo að segja frá síðastliðnum áramótum. Ekki var það útaf útlitinu (ístran finnst mér sjálfsögð). Lífstílsbreytingu má sennilega segja að það hafi verið, enda líður mér að flestu leyti betur svona. Smámunir eins og Covid-19 hafa engin áhrif á mig að þessu leyti. Þó mundi ég sennilega hætta ef ég veiktist af þessari plágu.
Þeir sem trúa á veiruna eru sennilega með böggum hildar útaf því að ég hafi lagt nafn hennar við hégóma með því að kalla hana smámuni. Það er hún svo sannarlega ekki og segja má að þetta séu athyglisverðir tímar sem við lifum á. Ekki aðeins fáum við veiruna yfir okkur, heldur vorum við þátttakendur í Hruninu mikla um árið. Gott ef þetta jafnast ekki svotil á við tvær heimsstyrjaldir sem sumir lifðu á síðustu öld. Að vísu voru meira en 20 ár á milli þeirra en að sumu leyti má samt líta á þær sem fyrri og seinni hálfleik. Svo fengum við kalda stríðið, vetnissprengjuna og geimferðakapphlaupið. Ég bíð bara eftir engisprettunum.
Segja má að veturinn sé orðinn nógu langur. Að vísu á ég í mestu erfiðleikum með að sjá snjó útum glugganna hjá mér. Satt að segja er alveg snjólaust hér á Akranesi núna en svolítið blautt um og skúrasamt veður. Kannski fer ég út að ganga á eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2020 | 08:25
2930 - Palladómar
Það væri að bera í bakkafullan lækinn að skrifa meira um kórónuvírusinn. Ég ætla semsagt að reyna að komast hjá því að minnast á hann. Eihverju sinni, sennilega fyrir hrunið mikla árið 2008 hef ég skrifað einskonar palladóma um næstum alla þá sem á þeim tíma höfðu samþykkt vinarbeiðni frá mér á Moggablogginu, eða sent mér eina slíka. Ekki man ég neitt um það. Minnir bara að þetta hafi verið svona. Eitt er ég alveg viss um og það er að ég hef skrifað þetta. Þó þetta sé eldgamalt er kannski vert fyrir einhverja að lesa þetta, þó ekki væri nema til þess að hætta í bili að hugsa um veirufjandann í smástund. Hér eru þessir palladómar:
Anna Einarsdóttir
Anna í Holti var fyrst allra til að bjóða mér bloggvináttu. Hún ólst upp með strákunum mínum og er skemmtilegur bloggari og mikið lesin. Bloggar yfirleitt mjög stutt og dálítið stopul,
Anna K. Kristjánsdóttir
er eiginlega ekki Moggabloggari. Hefur bloggað lengi og afar reglulega. Bloggar um þessar mundir held ég bæði á Moggabloggið og Blogspot.com. Ákaflega gaman að lesa bloggin hennar. Schumacher aðdáandi og ekki verri fyrir það. Göngugarpur mikill og segir skemmtilega frá ferðalögum sínum.
Arnþór Helgason
starfaði á blindrabókasafninu þegar ég kynntist honum fyrst. Hann var einn af fáum málsmetandi mönnum sem sýndi Netútgáfunni, sem ég stóð fyrir á þeim tíma, mikinn áhuga strax frá upphafi. Var einnig (og er kannski enn) á leirlistanum eins og ég og lét álíka lítið fyrir sér fara þar. Mætti blogga miklu meir. Bloggin hans eru alltaf áhugaverð.
Ágúst H. Bjarnason
Er nýbúinn að gerast bloggvinur hans. Er með fróðustu mönnum á Íslandi um marga hluti. Mjög skemmtileg áhugamál og bloggar skemmtilega.
Matthías Kristiansen
Sonur Trumans sem eitt sinn var skólastjóri á Hvolsvelli og kennari og bókavörður í Hveragerði. Matthías kenndi í Borgarnesi þegar ég var þar. Stundar einkum þýðingar núna. Skákmaður góður og skemmtilegur bloggari.
Baldur Kristjánsson
Prestur í Þorlákshöfn. Ég þekki hann svosem ekki neitt. Veit að hann er fyrrverandi blaðamaður og bloggar oft skemmtilega.
Bjarni Harðarson
Systursonur minn og þingmaður. Skemmtilegur bloggari.
Bjarni Sæmundsson
sonur minn. Býr nú í Nassau á Bahamaeyjum og er skákmeistari eyjanna. Bloggar alltof sjaldan. Ætti að kynna Bahamaeyjar fyrir löndum sínum. Það eru nefnilega ekki margir Íslendingar sem þekkja vel til þar.
Eyþór Árnason
Sviðsstjóri á Stöð 2 og þar kynntist ég honum. Hefur skáldlega sýn á hlutina og bloggar mjög skemmtilega en of sjaldan. Eyþór er alltaf skáldlegur í sínum skrifum og skrifar fallega um hvað sem er. Hugleiðingar hans um eðli bloggsins eru alveg ágætar.
Fríða Eyland
Ég veit ákaflega lítið um Fríðu. Hún bloggar ekki oft en setur gjarnan videomyndir upp.
Gestur Gunnarsson
Kynntist Gesti þegar hann vann á Stöð 2. Þar var hann einskonar altmuligmand og reddaði hlutum og vann oftast erfiðustu og leiðinlegustu verkin. Hefur að undanförnu verið að birta kafla úr því sem ég held að hljóti að vera drög að ævisögu, en hætti skyndilega að blogga og hefur ekki sést hér á Moggablogginu síðan.
Gíslína Erlendsdóttir
er dáin
Guðni Þorbjörnsson
Mosfellingur og flugdellukarl, en ég veit ekki mikið um hann.
Guðbjörg Hlildur Kolbeins
Kennir fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands. Fjölmiðlungar eru oft mjög andsnúnir henni en hún er beitt og gagnrýnir fjölmiðla oft harkalega og af mikilli kunnáttu. Leyfir ekki athugasemdir eftir að allt varð vitlaust í bloggheimum vegna gangnrýni hennar á umtalaðan vörulista Smáralindar.
Gunnar Helgi Eysteinsson
Frændi minn og búsettur í Svíþjóð. Ekki veit ég hvers vegna hann er með svona gamla mynd af sér á Moggablogginu. Mikill tölvugrúskari og fundvís á nýja og skemmtilega hluti.
Hallmundur Kristinsson
Hagyrðingur par exellence. Sendir vísur bæði á Vísisbloggið og Moggabloggið og bloggar yfirleitt lítið framyfir það. Vísurnar eru næstum alltaf þrusugóðar.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn er bara Hannes Hólmsteinn og lítið meira um það að segja. Hefur bloggað og skrifað mikið að undanförnu um umhverfismál en er auðvitað bestur í stjórnmálasögunni.
Hlynur Þór Magnússon
Var einn af mínum uppáhaldsbloggurum en steinhætti fyrir allnokkru. Áður blaðamaður við Bæjarins Besta á Ísafirði og þaráður m.a. fangavörður við Síðumúlafangelsið í Reykjavik og blaðamaður við Morgunblaðið.
Jóhann Björnsson
Sálfræðingur og heimspekingur. Hefur kennt sálfræði við framhaldsskóla og er frumkvöðull á því sviði.
Jóna Á. Gísladóttir
Ágætur penni. Skrifar fallega um einföldustu og hversdagslegustu hluti. Hugsanlegt er þó að börnin hennar verði einhverntíma óánægð með sumt sem hún hefur skrifað, en skrifin hennar eru bara svo góð að það þýðir lítið fyrir þau að segja mikið.
Jón Steinar Ragnarsson
Mikill hugsuður. Á létt með að rökræða um trúmál og skrifar sérlega góðar lýsingar á atburðum sem hann hefur lent í.
Kjartan Valgarðsson
Sonur Valgarðs Runólfssonar sem lengi var skólastjóri í Hveragerði. Býr í Suður Ameríku. Hefur ekki bloggað nokkuð lengi núna, en er skemmtilegur þegar hann tekur sig til.
Klói
Veit bókstaflega ekkert um hann. Bloggar mjög sjaldan.
Kristín M. Jóhannsdóttir
Þrælskemmtilegur bloggari. Býr í Kanada og er íþróttamaður mikill og hefur áhuga á aðskiljanlegustu hlutum í sambandi við þær.
Kristjana Bjarnadóttir
Dóttir Bjarna á Stakkhamri. Skemmtilegt að lesa minningar hennar frá Laugargerðisskóla. Tekur sjálfa sig stundum fullalvarlega.
Lára Hanna Einarsdóttir
Lára Hanna var einu sinni yfirþýðandi á Stöð 2 og þar kynntist ég henni. Er eiginlega engu lík.
Ólína Þorvarðardóttir
Ólínu þekki ég ekkert. Á þeim árum sem ég þrælaðist við að setja efni á Netútgáfuna sóttum við með aðstoð Salvarar Gissurardóttur um styrk til Raunvísindasjóðs. Hugmyndin var að setja upp vefsetur með þjóðsögum og umfjöllun um þær. Ég hafði á þeim tíma sett allmikið af þjóðsögum á Netútgáfuna og þessvegna kom sú hugmynd fram að hafa mig með í þessu. Styrkinn fengum við ekki þó Salvör sjálf semdi umsóknina.
Ómar Ragnarsson
Ómar virðist halda að sem formaður stjórnmálaflokks beri honum að hafa vit og skoðanir á öllu mögulegu. Maðurinn er þó ekki einhamur og hefur vit á ólíklegustu hlutum. Eiginlega bloggar hann fullmikið fyrir minn smekk. Það er varla hægt að fylgja honum eftir. Tveit til þrír Ómarar gætu auðveldlega fyllt eitt dagblað af áhugaverðu efni.
Púkinn Friðrik Skúlason
Friðrik er skemmtilegur. Þarna er hann aðallega Fúll á móti, en ég er viss um að hann er skemmtilegur ef því er að skipta. Fær gæsahúð þegar minnst er á torrent.is
Ragnhildur Sverrisdóttir
Ég þekki hana eiginlega ekki neitt. Hún bloggar bara skemmtilega.
Salvör Gissurardóttir
er lektor í tölvufræðum við Kennaraháskóla Íslands. Er sífellt að gera einhverjar tilraunir með nýjar og nýjar græjur. Hefur átt mikinn þátt í að kynna bloggið fyrir Íslendingum. Hef fylgst með bloggi hennar lengi og tel hana með allra bestu bloggurum landsins.
Sigurður Hreiðar
Fyrrverandi ritstjóri Vikunnar. Var á Bifröst rétt á undan mér. Skemmtilegur bloggari en bloggar of sjaldan. Bílfróður með afbrigðum.
Sigurður Þór Guðjónsson
er engum líkur. Ólíkindatól hið mesta, en afburða bloggari, skáld og rithöfundur, en með ólæknandi veðurdellu.
Sirrý Sig.
Nýbakaður rithöfundur. Fyrsta bók hennar kom út fyrir síðustu jól. Tók fyrst eftir henni þegar hún setti fyrstu kaflana um Jens & Co. á Netið. Bíð ennþá eftir fleirum.
Sveinn Ingi Lýðsson
Veit afar lítið um hann annað en að hann býr á Álftanesi.
Sverrir Stormsker
Karlremba mikil. Sniðugur samt og orðheppinn með afbrigðum.
TómasHa
Í heita pottinum.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Fornleifafræðingur búsettur í Danmörku. Frumlegur mjög.
Már Högnason
Margt um hann að segja. Þýðir klámmyndir fyrir sjónvarpsstöðina Sýn. Einskonar alterego Gísla Ásgeinssonar þýðanda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2020 | 11:02
2929 - Vonandi er hámarkið að nálgast
Að mörgu leyti erum við öllsömul, útlendingar sömuleiðis, að lifa í einskonar dystópíusögu núna. Að vísu er það svo að venjulega eru vírusarnir í slíkum sögum mun lífshættulegri, en þessi kórónavírus í rauninni er. Stjórnvöld missa líka yfirleitt með öllu tökin á ástandinu í slíkum sögum og allskyns óaldarflokkar vaða uppi og algert stjórnleysi tekur við. Ekkert slíkt hefur átt sér stað núna, en að mörgu leyti er ástandið illum draumi líkast. Allt þarf að skoða í ljósi kórónavírussins og stjórnvöld eru langt frá því að vera öfundsverð. Sem betur fer hafa slíkir óaldarflokkar hvergi ógnað stjórnvöldum, en sögur fara samt af óskipulögðum flokkum sem setja sig upp á móti flestu því sem stjórnvöld gera. Á margan hátt eru slíkar sögur það hræðilegasta sem heyrist og fyllsta ástæða til að taka hart á slíku. Öfug við tölvuleiki og skáldsögur er ekki hægt að spóla til baka og það sem gerist er óafturkræft.
Satt að segja er líklegast að Ólympíuleikunum sem áttu að fara fram í sumar verði frestað. Jafvel í heilt ár. Svo er líka möguleiki að hætt verði við þá með öllu. Þar með yrði þessum faraldri líkt við heimsstyrjöld. Hingað til hefur ekki annað en þessháttar orðið til þess að hætt væri við slíkan stórviðburð. Eins og kunnugt er voru engir Ólypíuleikar árin 1940 og 1944. Aumingja Japanir, þeir ætluðu sko aldeilis og svo sannarlega að sýna heiminum að þeir væru búnir að jafna sig á kjarnorkuslysi og þannig hörmungum. Að láta eina sjálfskipaða nefnd ráða öllu í sambandi við þetta allt saman er sérkennilegt í meira lagi. Þrátt fyrir allla þá spillingu sem þrífst í skjóli þessarar nefndar verður að segjast að ríkisstjórnir gætu aldrei komið sér saman um það sem þarf til svo Ólympíuleikar geti farið fram.
Vírusfréttir gegnsýra allt. A.m.k. er svo hér á landi. Börn og unglingar þyrftu svo sannarlega á því að halda að geta kúplað sig frá öllu slíku, en það er ekki hægt. Þau eru að mestu varnarlaus. Geta ekki einu sinni sótt skóla, þó þau hati hann yfirleitt. Íþróttir allar eru einnig í lamasessi og ef foreldrar ættu að stjórna unglingum alfarið, mundi þjóðfélagið lamast algerlega. Þ.e.a.s. allir, eða næstum því allir, yrðu að vera heima.
Suður-Kórea virðist hafa sigrast á vírusnum á fremur ódýran hátt samaborið við Ítalíu a.m.k. Varla er ástæða til að gera ráð fyrir að þar hafi sannleikanum verið hagrætt og/eða óþarfa harðýgni beitt eins og hugsanlega hefur verið reyndin í Kína. E.t.v. er það einkum hlýðni við yfirvöld og samstaða sem hefur bjargað þeim. Möguleg er þar samt sem áður einhverskonar seinni bylgja. Hugsanlega sleppum við Íslendingar líka vel frá þessum vágesti. Kannski er besti vinur þessa vágests sú áhersla sem lögð er á Vesturlöndum á einstaklingshyggju. Hlýðni við yfirvöld og samfélagslegar áherslur virðist vera mun meiri víða í Asíu en í Evrópu.
Þrátt fyrir að vírusfréttir séu algerlega dómínerandi um allan heim um þessar mundir er ekki hægt framhjá því að líta að vissulega er mikil þörf á hvíld frá þessu öllusaman. Þegar ég vakna á morgnana verður mér oft hugsað til þess hve ánægjulegt það væri ef maður þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjum af vírusnum ógurlega. Veðrið er svosem ekkert séstaklega gott um þessar mundir, en ef það væri allt og sumt væri tilveran bara nokkuð góð. Það finnst mér allavega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)