2927 - Að hamstra klósettpappír

Ekki er ég neinn prófessor í virology, en þeir virðast vera orðnir ansi margir hér á landi núorðið. Annars er ég búinn að tala eða skrifa um þetta áður, minnir mig. Sérfræðingar spretta ævinlega upp út um allt ef vinsælt verður að ræða um ákveðin efni. Alveg er það furðulegt hvað sóttvarnarsérfræðingarnir eru orðnir margir hérlendis á stuttum tíma.

Hér áður fyrr var óhætt að hamstra ljósaperur. Þær voru nefnilega bæði fyrirferðarmiklar og entust stutt. Þetta vissu íþróttafélögin og létu krakkana ganga í hús og selja ljósaperur. Nú er búið að girða fyrir þetta með því að láta perurnar endast von úr viti. Sennilega eru svipuð lögmál sem gilda um klósettpappirshamstur. Þar fyrir utan þarf líklega ekki að óttast að tækniframfarir geri ónauðsynlegt að nota hann. Íþróttafélög, Lionsklúbbar og þess háttar félög hafa líka fyrir löngu gert sér grein fyrir þessu og víða er búið að skipta ljósaperum út fyrir klósettpappír. Svipað má segja um plastflöskurnar. Vinsælt er að senda krakka út af örkinni og biðja um tómar plastflöskur. Bílar (jafnvel sendiferðabílar) koma svo í humátt á eftir krökkunum. Ekki hef ég samt orðið var við samkeppni um almenna ruslasöfnun, en hún kemur vafalaust einhverntíma.

Eitthvað verða menn að finna sér til dundurs í sóttkvínni. Hvort sem hún er sjálfskipuð eða ekki. Kannski dunda einhverjir sér við að lesa blogg. Mér finnst þau oft skemmtileg. Skáldsögur eru yfirleitt ekkert nema útúrdúrar. Ég tala nú ekki um glæpareyfarana. Þar virðist það bara vera markmið höfunanna að fylla ákveðinn fjölda blasíðna. Kannski er þetta svipað með bloggið. Ég fæ samt enga samkeppni varðandi bloggfjölda.

Sumir blogga oft á dag. Ekki ég núorðið a.m.k. Sumir linka líka alltaf í fréttir á mbl.is. Ekki ég núorðið a.m.k. Ég er sífellt að hætta að nenna ýmsu, sem mér þótti viðeigandi áður fyrr. Er ég kannski að verða gamall? Ekki finnst mér það. Jafnvægið og ýmsar hreyfingar eru smám saman að verða erfiðari. Þá bara hætti ég þeim. T.d. þykir mér stórhættulegt á standa uppá stól núorðið. Ekki var það þannig.

Sennilega er ég með alveg skítsæmilega hjarta og lungnavél. Meðal annars hugsa ég að það sé vegna þess að ég fer mjög oft í langar gönguferðir. Samt er hugsanlegt að munurinn á hámarkspúls og hvíldarpúls sé ekki eins mikill núna hjá mér og hann var einu sinni. Bjarni var einu sinni á sjúkrahúsi og tengdur við einhverjar vélar. Þegar púlsinn hjá honum fór niður fyrir 40 komu hjúkrunarfræðingarnir hlaupandi og héldu að hann væri að deyja. Þetta var þá bara hvíldarpúlsinn hjá honum. Hámarkspúlsinn er sennilega um 200. Erpulsakum, var einu sinni sagt og ekki skildu það allir. Líka mætti skrifa það svona: Er púls á kúm?

Ýmislegt dettur manni í hug, hérna í fásinninu. Ekki er snjónum fyrir að fara hjá okkur Akurnesinum. Mikið vafamál er þó hvort ég er orðinn Akurnesingur þrátt fyrir fimm ára búsetu. Hér er næstum alveg snjólaust og kannski erum við einir um það að geta farið í langar gönguferðir án þess að eiga á hættu að detta. Annars er það einkennilegt hve unglingar og ungt fólk á auðvelt með að ganga þrátt fyrir mikla hálku. Hún er eiginlega það eina sem ég óttast á löngum gönguferðum. Mikið rok og rigning eru líka óvinir mínir.

IMG 6255Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að fimm ár dugi engan veginn til að verða Akurnesingur, því miður. Rétt á mörkunum að við Atli séum að teljast til Akurnesinga núna ...

Það sem mér finnst aðallega merkilegt við þennan snjólausa, flata bæ er hve fáir sjást ganga. Akurnesingar, Skagamenn og AAKP nota bílana sína almennt sem úlpur og keyra þótt þeir þurfi bara í þarnæstu götu. 

Harpa Hreinsdóttir 17.3.2020 kl. 18:13

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Harpa. Nei, ég er áreiðanlega ekki orðinn Akurnesingur ennþá. Veit ekki einu sinni hvað AAKP þýðir. Mér hefur einmitt þótt merkilegt að i svona litlum bæ skuli vera allfjölfarinn gangstígur meðfram Langasandi endilöngum. Að vísu er hann að mestu miðurgrafinn og illur yfirferðar í umhleypingum, nálægt Höfða a.m.k.

Sæmundur Bjarnason, 17.3.2020 kl. 22:46

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

7 flokkar í sömu tunnu. Kannski þetta eigi að vera brandari um Alþingi.

(Sjá mynd.)

Sæmundur Bjarnason, 18.3.2020 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband