2925 - Föstudagurinn þrettándi mars

Jæja, nú er þetta orðið að alvöru farsótt. Einhver opinber aðili var að lýsa því yfir. Ekki þýðir lengur að láta sem ekkert sé. Alveg var samt við því að búast að heyrðist svolítið til allra þeirra sem eru miklu gáfaðri og þekkja betur til farsótta og sóttvarna, en vesalings landlæknir og aðrir í nefndinni, sem ítrekar á hverjum degi, handþvott og sprittun. Einkum sjá þeir allt greinilega í baksýnisspeglinum og eru sammála um flestöll „ef og hefði“. Eflaust hefði mátt haga sér að einhverju leyti öðruvísi í baráttunni við veiruna skæðu. Samt er samstaða þjóðarinnar mikil þegar kemur að þessum málum og auðveldara að sameinast um þetta en til dæmis loftslagið. Ekki eigum við aldraður pöpullinn annars úrkosta en treysta stjórnvöldum. Satt að segja finnst mér þau hafa hagað sér mjög skynsamlega í þessari baráttu. Annars hef ég ekki svo miklu við þetta að bæta og greinilegt er að þetta verður áfall sem líkja má við áfallið mikla sem við Íslendingar urðum fyrir 2008 þó alltannars eðlis sé.

Þetta skrifaði ég gær, og loka klásúluna einnig. Nú hefur ríkisstjórnin séð ljósið. Þessi helgi og þessi dagur föstudagurinn 13. mars árið 2020 verður sennilega lengi í minnum hafður. Gott ef þetta er ekki nokkurskonar „Guð blessi Ísland“ -dagur. Satt að segja þori ég ekki á fésbókina því sjálfsagt er allt vitlaust þar. Það má alltaf reyna að hugsa um eitthvað annað en Covid-19, þó það sé náttúrulega erfitt.

Mér gengur eiginlega ágætlega með þetta sjálfskipaða „intermittent fasting“ sem ég fór í uppúr síðustu áramótum. Að vísu eru undantekningarnar orðnar nokkuð margar, en þó ekki svo að ég sé í þann veginn að gefast upp á þessu. Alltaf er leyfilegt að fá sér vatn. Kannski er það eitthvað það hollasta sem maður lætur ofan í sig. Kjötsoð fæ ég mér á kvöldin áður en ég fer að sofa og jafnvel líka ef ég verð andvaka og svo þegar ég bíð eftir að klukkan verði 12 á hádegi. Aldrei er það  samt meira en svona 1 – 3 glös á sólarhring. Annað eins af kaffi fæ ég mér meðan fastan stendur yfir. (Ekki þó á kvöldin). Smámjólkurdreitil set ég útí kaffið og reyni að telja mér trú um að það sé bara bragðsins og vanans vegna. Þar fyrir utan fæ ég mér háþrýsingspillurnar mínar á hverjum morgni. (6 talsins). Og nú er ég byrjaður að taka lýsi á morgnana. Öll föst fæða og næringarmikil er á bannlista hjá mér, en þó eru vissar undantekningar á því. Einkum á kvöldin og hvað tímasetningar varðar. Mér finnst þetta gera mér gott að ýmsu leyti, þó ekki sé það beinlínis megrandi. Það er ágætt að vera ekki síétandi og oftast varð ég grútsyfjaður samstundis, ef ég fékk mér eitthvað á kvöldin eftir að ég var búinn að vaska upp.  

Alveg er þetta nóg í fréttum á einum og sama degi að vera með fallítt þjóðarflugfélag (sem sennilega verður bjargað af ríkisstjórninni), Covin-19 vírusinn sem er að sleppa og verða landlægur ásamt talsverðum jarðskjálfta á Reykjanesi. Eiginlega fer okkur að þyrsta í almennilegar og jákvæðar fréttir eins og t.d. vorkomuna. Já, vel á minnst. Sennilega kemur vorið einhverntíma. Líkur eru hinsvegar á að páskunum og fermingum öllum verði frestað.

IMG 6260Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband