2920 - Covid-19

2920 – Covid-19

Fréttir hinna hefðbundnu fjölmiðla snúast varla um nokkuð annað en Wuhan eða Covid-19 veiruna eða vírusinn. (Sumir skilja ekkert nema ensku núorðið). Áherslan er þó lögð á ranga þætti hjá flestum fjölmiðlum. Dánartíðnin er „ekki nema“ á milli 2 og 4 %. Auðvitað er það mikið en við suma faraldra er hún miklu hærri, allt uppí 50% eða meir. Nokkrar milljónir manna látast árlega vegna hinnar venjulegu flensu sem oftast á sér upptök í Asíu. Dánartíðnin þar er þó næstum því 1% og engir virðast kippa sér upp við það.

Áhrif veirunnar eða öllu heldur tilrauna til að hefta útbreiðslu hennar geta hæglega orðið til þess að víðast hvar hægir mikið á hagvexti. Það getur aftur haft mikil áhrif á kosningar bæði í Bandaríkjunum og annarsstaðar. Árangur demókrata í Bandaríkjunum gæti sem hægast orðið mun meiri en nú er gert ráð fyrir. Hver veit nema vinstri sinnaður frambjóðandi gæti sigrast á hinum sjálfumglaða og stórgallaða Trump.

Svokallað flugviskubit er okkur Íslendingum mjög hugleikið, sömuleiðis að sjálfsögðu drepsóttir og faraldrar hverskonar. Kannski frestast flugviskubitið svolítið útaf þess öllu saman og ekki mundi ég gráta það. Salan á upprunavottorðunum er af sama meiði og flugviskubitið, því iðnaðurinn og fyrirtækin yfirleitt eru langt á eftir almenningi hvað varðar náttúruna og loftslagið. Á næstu árum má hiklaust búast við því að almenningur a.m.k. sá almenningur sem býr í hinum vestræna heimi muni í vaxandi mæli snúast gegn alþjóðafyrirtækjum sem virða yfirleitt engin mörk og sjá ekkert nema eigin gróða.

Er það annars ekki svo að útlitið skipti meira máli en innlitið. Ef maður á að kommenta eitthvað á útlit þeirra demókrata, sem vilja takast á við Dónald sjálfan í haust og tóku þátt í kappræðunum í Suður-Karólínufylki í gær er þar fyrst til að taka að kallarnir voru allir í jarðarfararmúnderingu. Þar með eru þeir afgreiddir í einni svipan. Hjá Warren er það rauði jakkinn sem er orðinn hennar einkennisbúningur og Klobuchar var í kjól eins og venjulega. New York Times lýsti yfir stuðningi við þær stöllur um daginn. Það þýðir kannski ekkert sérstakt, en veldur því m.a. að NYT getur ekki beitt sér eins mikið í pólitík dagsins eins og t.d. Washingon Post. Þeir eru einfaldlega ekki marktækir.

Man vel eftir þessu sem minnst var á í fréttum í dag. Að sagt var frá Heklugosi áður en það hófst. Sjálfur fór ég ekki að skoða það. Enda hafði ég farið uppá Land á að giska 10 árum fyrr til að horfa á smágos í Heklu. Auk þess hafði ég fylgst vandlega með Skjólkvíagosinu svonefnda sem mig minnir að hafi veri um 1970. Þá höfðum við farið uppeftir og lent í ýmsum ævintýrum, sem ég segi kannski frá seinna.

Man að mér fannst mikið til þeirra vísinda koma sem gátu sagt fyrir um náttúrhamfarir á þennan hátt. Neita því ekki að mér finnst að í sambandi við geimferðir og náttúruhamfarir hafi ekki orðið eins miklar framfarir og ég hefði reiknað með. Eflaust eru eðlilegar skýringar á því.

Einhver mynd.IMG 6306


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Dánartíðni vegna venjulegrar flensu er lægri en 0,1%

Þorsteinn Siglaugsson, 26.2.2020 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband