30.5.2021 | 05:25
3077- Skórinn Þorgeirs
Um daginn dreymdi mig undarlegan draum. Mér fannst við vera að flytja. Af einhverjum dularfullum ástæðum var heill haugur af skóm að aðstoða við flutninginn. Þar á meðal var nýlegur og flottur strigaskór sem Þorgeir í Holti átti. Ekki veit ég hvernig skórnir fóru að því að hjálpa til við flutninginn. En þarna voru þeir. Þetta var í kjallaraíbúð. Ég hafði farið að sofa að flutningunum loknum og vaknaði við læti í krökkunum. Þorgeir var lítill og mínir krakkar líka. Þorgeir vildi að sjálfsögðu fá skóinn sinn aftur. Ég samsinnti því og fór að leita að honum í skúffum sem skórnir höfðu verið settir í. Samt var haugur af þeim enn úti á stétt. Skórinn Þorgeirs fannst ekki og ég var búinn að sætta mig við að þurfa að borga fyrir hann nýja skó. Fór síðan áleiðis í rúmið aftur en mundi þá allt í einu eftir því að ekki höfðu allir skórnir verið settir í skúffurnar, heldur holað niður annars staðar. Verið gæti að títtnefndur skór væri þar og ég sneri samstundis við og þarmeð vaknaði ég og draumurinn varð ekki lengri. Kannski gerðist margt fleira í þessum draumi, en þetta voru aðalatriðin eða að minnsta kosti það sem ég man helst eftir.
Ég ætlaði víst að skrifa um Moggabloggsteljarann í síðasta bloggi. Verst að ég man ekki almennilega hvað ég ætlaði að skrifa. Fór í fyrsta skipti í langan tíma (held ég) niður fyrir 50 á vinsældalistanum, enda skrifaði ég afar sjaldan. Var samt nokkuð fljótur að hífa mig upp aftur þegar ég fór að skrifa næstum daglega. Flettingar voru samt oft miklu fleiri en gestirnir og það túlka ég sem svo að einhverjir séu að skoða mörg blogg hjá mér.
Á þriðjudaginn fór ég í Gamla Kaupfélagið hérna og keypti mat fyrir ferðagjöfina, sem ég hafði næstum gleymt. Á svolítið eftir af annarri, en Áslaug gaf mér sína. Fer kannski aftur í dag eða á morgun.
Aðalfundur húsfélagsins hérna var haldinn í gærkvöldi (miðvikudag) og ekki er margt um það að segja. Stjórnin var endurkjörin eins og búast mátti við. Hingað til hafa stjórnarmenn verið hálfnauðugir í þessu, en það stendur til bóta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.5.2021 | 07:44
3076 - Smávegis um stjörnufræði
3076 Smávegis um stjörnufræði
Sagt er að okkar sól sé u.þ.b. 150 milljón kílómetra í burtu. Sem er eins gott því ef hún væri mikið nær væru geislar hennar banvænir. Næsta sól eða stjarna er vist í u.þ.b. fjögurra til fimm ljósára fjarlægð. Ljósið fer ansi hratt yfir eða eina 300.000 kílómetra á sekúndu þannig að á heilu ári fer það nokkuð langt. Það geimfar sem hraðast fer nú um stundir væri u.þ.b. mínútu að fara í kringum jörðina. Með slíkum hraða yrðum við meira en 6 þúsund ár á leiðinni til þessarar stjörnu. Skv. almennu afstæðiskenningunni og miðað við gildandi átrúnað á vísindi og þess háttar er ekki hægt að komast hraðar en ljósið.
Af þessu má draga þá ályktun að ekki verði um ferðir til annarra stjarna að ræða án þess að komast hraðar. Vísindaskáldsögur hafa fyrir löngu leyst þetta vandamál með svokölluðum warpspeed eða ofurhraða, en miðað við núverandi þekkingu er hann ekki til. Með langvinnum tilraunum og allskonar heilaleikfimi hefur mönnum þó tekist að búa til svokölluð ormagöng sem sögð eru skyld svartholum, og ferðast þannig á milli stjarna og jafnvel vetrarbrauta, en ég fer ekki nánar útí það enda skil ég það allsekki.
Pláneturnar sem sveima krigum sólina má segja að séu næstu nágrannar okkar. Enn hefur okkur þó ekki tekist að komast til þeirra, en rannsóknartæki hefur okkur að sögn tekist að senda þangað. Mars er sú pláneta sem aðallega verður fyrir ásókn okkar nú um stundir og þar hefur ef til vill þróast einhverskonar líf í fyrndinni. Leikar standa semsagt nokkurnvegin 2:1 lífinu í hag akkúrat núna því líf hefur sennilega aldrei þróast á tunglinu.
Eiginlega ætlaði ég að ræða um Moggabloggsteljarann í þessu bloggi, en það verður víst að bíða betri tíma, því það er um gera, er mér sagt, að hafa bloggin stutt og hnitmiðuð til þess að nokkur nenni að lesa þau.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2021 | 09:40
3075 - Þruma hérna Þorsteinar
Er um þessar mundir að lesa bókina Háski í hafi eftir Illuga Jökulsson. Það er alveg rétt hjá honum að sundkunnáttu var ekki fyrir að fara hjá Íslendingum fram eftir síðustu öld. Sjálfur man ég vel eftir að hafa heyrt því haldið fram að sundkunnátta framlengdi bara dauðastríð þeirra sjómanna sem lentu í sjávarháska. Ein af bernskuminningum mínum er samt sem áður á þá leið að ég sá niðri á þjóðvegi skammt frá réttunum vörubíl sem var með borða festan á framstuðarann hjá sér og á honum stóð: Syndið 200 metrana. Enda fór það svo að Íslendingar sigruðu í samnorrænu sundkeppninni og framvegis þýddi ekki mikið fyrir aðrar Norðurlandaþjóðir að keppa við okkur þar.
Held ég hafi nokkrum sinnum sagt frá því að mér kemur venjulega í hug ein vísa á dag. Í dag var það þessi:
Geðið mitt hann gladdi sjúkt
gamla hressti kæru.
Hvað hann gerði það hægt og mjúkt
hafi hann þökk og æru.
Eiginlega er þetta klámvisa, en þó er óhætt að segja að hún sé ekkert dónaleg. Áðan fór ég í morgungöngu eins og ég geri oft. Á leiðinni gerði ég þessa vísu:
Þruma hérna Þorsteinar
þeigi kemur saman.
Virðast báðir Viðreisnar
voðalega er gaman.
Þetta er svosem ekkert góð vísa en hún er rétt gerð og hrynjandin er alveg í lagi. Stundum geri ég vísur eða dettur eitthvað snjallt í hug á morgungöngunni, en þó þykir mér best að hugsa ekki um neitt nema kannski gönguna sjálfa á leiðinni. Samt er ég oft í besta stuðinu snemma á morgnana til að gera eitthvað að gagni. Verst hvað ég vakna stundum seint. Þó er það greinilega ofmetið hjá mörgum að sofa út á hverjum einasta degi.
Nú var ég búinn að skrifa einhver mynd eins og lokaorðin eru oftast hjá mér en þá datt mér í hug þetta með myndirnar. Hugsunin með þeim er að skreyta bloggin smávegis. Ég er samt oft dálítið lengi að ná í þær. Þetta eru nefnilega allt saman endurbirtingar. Næstum allar hef ég tekið sjálfur svo ekki þarf ég að hafa áhyggjur af höfunarréttinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2021 | 21:00
3074 - Hugsanir
Hugsanir okkar og hvatalíf er það merkilegasta í lífinu. Hugsanir annarra koma okkur lítið við. Þó er samband okkar við annað fólk greinilega það sem næstmestu máli skiptir. Hversvegna erum við þá alltaf að flækja málið með því að ímynda okkur allan fjandann? Getum við ekki bara sagt eða gert það sem okkur býr í brjósti og látið þar við sitja? Látið bara eins og ekkert sé og séð til hvert það leiðir okkur? Eru það margir sem gera sér rellu útaf því sem við höldum og hugsum?
Þarna er það sem ég held að heimspekin geti komið til hjálpar. Sú viðleitni mannanna að bæta sig sífellt, er hugsalega það sem skilur okkur mest frá hinum svokölluðu skynlausu skepnum. Ef litið er hlutlaust á vísindin er ekki hægt að komast á aðra skoðun en þá að framfarir hafi orðið verulegar á umliðnum öldum. Að vísu miðar okkur skelfilega hægt á sumum sviðum en almennt eru framfarirnar miklar.
Sennilega má segja að matur sé númer þrjú. Það er að segja matur í víðasta skilningi sem hægt er að hugsa sér. Altsvo allt sem við látum ofaní okkur. Semsagt: 1. Hugsun. 2. Samskipti. 3. Matur.
Flokkunin í nákvæmari atriðum gæti svo verið eftir hentugleikum hvers og eins.
Einhverjum kynni að detta í hug að peningar ættu að koma til álita. Svo er þó ekki. Þarna er bara sé um að ræða tölur á blaði. Að vísu hafa þessar tölur auðveldað viðskipti á öllum sviðum. Það finnst mér ekki gera þá að grundvallaratriði.
Til dæmis er vel hægt að hugsa sér að öll vinna sé bara hugsun í hægagangi. Altsvo hægagangshugsun.
Hver nennir að lesa þessi ósköp? Er það ekki eitt að helstu vandamálum nútímans að upplýsingar eru orðnar svo aðgengilegar?
Internetið er á sinn hátt jafnmikil bylting og lausaletur Gutenbergs var á sínum tíma. Líka er hægt að halda því fram að upplýsingaóreiðan hafi haldið innreið sína með því. Á sama hátt og lausaletrið gerði allskyns sérhópum kleyft að gefa út bækur, er hægt að segja að Internetið valdi því að allir (og ég meina allir) geti komið boðskap sínum á framfæri. Þannig skapast upplýsingaóreiðan. Hver og hvernig á að komast að því hvað er satt og rétt. Auðvitað vilja allir hafa það sem sannara reynist, eins og Ari fróði forðum. Þegar tvær eða fleiri hliðar eru á sérhverju máli geta þær tæpast verið allar sannar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2021 | 15:31
3073 - Mast og fast
Það er nú svoleiðis með mig, að mér dettur jafnan í hug vísa eða vísubrot á hverjum degi. Hef að vísu ekki rannsakað þetta vísindalega en hald mitt er að alltaf sé um nýja og nýja vísu að ræða hvern dag. Það var um daginn, sennilega í gær eða fyrradag sem mér datt óforvarendis í hug eftirfarandi vísubrot:
Kong Christian stod ved höjen mast
og holdt sig fast.
Ég gat ómögulega fundið út hvernig seinni parturinn var. Það get ég þó oft. Þegar ég komst í tölvu, spurði ég Gúgla að þessu. Þá kom í ljós að:
Atli Harðarson heimspekingur skrifaði eitt sinn um þetta mál í Rafritið, sem ég gaf einu sinni út sællar minningar:
Það hefur lengi verið útbreiddur misskilningur meðal íslenskra textafræðinga, málvísindamanna og sagnfræðinga að textinn við lag D. L. Rogerts um Kristján konung byrji svona:
Kong Christian stod ved hójen mast
og holdt sig fast.
Þetta er auðvitað ekki rétt. Nefndur texti er eftir danska ljóðskáldið Johannes Ewald og fyrsta erindið er svona:
Kong Christian stod ved hójen mast
í róg og damp.
Hans værge hamrede saa fast,
at Gotens hjælm og hjerne brast.
Saa sank hvert fjendligt spejl og mast
i róg og damp.
Fly, skreg de, fly, hvad flygte kan.
Hvo staar for Danmarks Christian
i kamp.
Kristján konungur hélt sér sem sagt ekki í mastrið eins og íslenskir textafræðingar, málvísindamenn og sagnfræðingar hafa talið.
Atli Harðarson
Ekki gekk að hafa þetta bara aumlegan útúrsnúning á danskri vísu svo ég flýtti mér að láta mér detta í hug einhverja aðra vísu. Þessi varð fyrir valinu:
Runki fór í réttirnar
ríðandi á honum Sokka.
Yfir holt og hæðirnar
hann lét klárinn brokka.
Nú er ég sennilega kominn í mótsögn við sjálfan mig. Sagði nefnilega áðan að mér dytti óforvarendis (og átti þá við ósjálfrátt) í hug vísa eða vísubrot. Og þá á ég náttúrulega ekki:
Að vinda að því bráðan bug
að láta mér eitthvað detta í hug.
Í dag er víst hvítasunnudagur. Hundurinn Bjartur er búinn að dvelja hjá okkur síðan á föstudaginn. Ekki fylgist hann af mikilli athygli með Evróvision söngvakeppninni í gærkvöldi, en samt gekk Íslendingum nokkuð vel þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.5.2021 | 08:54
3072 - Um forsetakosningar
Ef ég ætti að gefa mönnum bloggráð þá væri það helst að hafa bloggin stutt og skrifa helst daglega. Aldrei ætti að spara hugdetturnar og hugsa sem svo að þetta væri ágætt að nota á morgun eða eftir mánuð. Alltaf að láta það flakka. Auðvitað skiptir máli hvernig sagt er frá því, en þannig skapast stíllinn, ef einhver er og greinarmerkjum má alltaf bæta inn í á eftir. Eða láta þau vanta með öllu.
Bók held ég að heiti: Lablaða hérgula. Nenni ekki að spyrja Gúgla um þetta. Hugsanlega er þetta tilkomið þannig að læknir hefur ætlað að segja: Það er nefnilega það. Ég held að þetta sé, ehemm, hérna gula. Svolítið þvoglulegur hefur hann líklega verið svo þetta hefur komið svona út. Annars veit ég ekkert um þetta. Kannski þýðir það eitthvað allt annað.
Eiginlega er ágætt að búa hér á Akranesi. Smám saman hefur sú vinnutilhögun þróast hjá okkur hjónunum að ég sé um að vaska upp (með aðstoð uppþvottavélarinnar) og að búa um hjónarúmið (aðstoðarlaust). Konan mín sér um flest annað. Við erum þó með aðskilinn fjárhag og búðarferðir eru svolítið hipsum haps og veldur það stundum sérkennilegum uppákomum. Auk þess er ég ruslamálaráðherra heimilisins og gott ef það embætti er ekki sífellt að hlaða utan á sig.
Fyrstu forsetakosningarnar sem ég man eftir eru kosningarnar 1952 milli séra Bjarna, Ásgeirs Ásgeirssonar og Gísla Jónssonar. Að sjálfsögðu hafði ég ekki kosningarétt þá, enda bara níu ára gamall, en mamma og pabbi fóru að kjósa og ég hef sennilega sagt frá því hér í blogginu áður. Fyrstu forsetakosningarnar sem ég tók þátt í voru hinsvegar á milli Kristjáns Eldjárns og Gunnars Thoroddsen. Þetta var árið 1968 og við áttum heima í Reykjavík þá. Man að samkeppnin milli þeirra var nokkuð hörð og þeir kepptust við að hafa sem fjölmennastar áróðurssamkomur. Gunnar hélt eina slíka í Laugardalshöllinni og tókst vel að fylla höllina af fólki. Stuðningsmönnum Kristjáns þótti að hann gæti ekki verið minni maður og boðuðu svipaðan fund í Höllinni. Ég sótti þann fund og man að svo fullt var að ég varð að standa úti og ekki einu sinni á góðum stað þar. Þar með var ég orðinn sannfærður um að Kristján mundi sigra. Enda fór svo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2021 | 06:18
3071 - Laugargerði
Einu sinni var ég prófdómari við Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi. Þar var bannað að brúka tyggjó. Ég man að ég reifst við Friðrik skólastjóra um þetta bann. Mér þótti það mesti óþarfi. Hann vildi hinsvegar halda því fram að með þessu væri krökkunum haldið frá ýmsu sem verra væri. Nú er svo komið að ég mundi sennilega fallast á rök skólastjórans hvað þetta snertir. Að sumu leyti eru þetta sömu sjónarmiðin og eru varðandi neysluskammtana á eiturlyfjum. Það veldur mikilli úlfúð á Alþingi. Ég er samt ekki að halda því fram að þetta sé með öllu sambærilegt. En svolítið skylt er það.
Hér (að minnsta kost úti á svölum) er komið sumar. Hitinn er mikill þar og ef ekki væri hægt að opna yrði alltof heitt. Svo er allt að grænka hér. Grasið og fleira. Aspartrén eru þó lítið farin að laufgast. Sennilega hefur ekkert næturfrost gert hér undanfarnar nætur.
Áslaug er búin að klippa mig eftir kúnstarinnar reglum og mætti sennilega segja að ég væri sveinstykkið hennar að því leyti. Áður en við förum í reisuna í næsta mánuði er eins gott að vera búinn að æfa sig svolítið.
Ég var andvaka í nótt, eins og venjulega. Áður en að því kom, dreymdi mig allskonar vitleysu. Fannst ég vera í einhverju partýi, þar sem mikið var drukkið. Bílferðir voru útum allar trissur og þessháttar því tilheyrandi og mikið sem gekk á.
Sagt er að Trump-flokkurinn (sem líklega er Repúblikanaflokkurinn) sé að undirbúa valdatöku í Bandaríkjunum árið 2024. Ennþá held ég að enginn hafi látið í ljós efa um að Dónaldurinn geti boðið sig fram þá. Satt að segja held ég að það geti verið tvíeggjað sverð fyrir hann að bjóða sig fram aftur þá. Jafnvel repúblikanar kynnu að vera búnir að fá leið á honum um það leyti. Fjölyrði ekki meira um hann núna. Er ekki þess virði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.5.2021 | 09:57
3070 - Vinstri stjórn
Fyrsta minning mín af stjórnmálátökum er frá desemberbyrjun 1958. Þá var ég að vinna við uppskipun í Þorlákshöfn, þó ég væri nýorðinn 16 ára. Þar var verið að skipa upp áburði að ég held. Unnið var langt fram á nótt og byrjað eldsnemma daginn eftir. Þá var það sem ég hélt að ég væri skyndilega orðinn alblindur. Ég gat nefnilega ekki með nokkru móti opnað augun. Fljótlega kom þó í ljós að þetta var útaf ryki sem safnast hafði saman í augunum á mér og blotnað þar og orðið að einskonar lími.
Nú, vinstri stjórnin var við völd þegar þetta var og Hermann Jónasson forsætisráðherra hafði beðið verkalýðshreifinguna að bíða í mánuð með 17% hækkun sem koma átti til framkvæmda 1. desember, en verkalýðshreifingin sem einmitt hélt þing sitt um þær mundir neitaði því með öllu. Þá sagði Hermann af sér og eftir nokkurra daga þjark tók minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forystu Emils Jónssonar við völdum.
Þarna gerði verkalýðshreifingin sennilega afdrifaríka skyssu því með þessu opnaðist fyrir sjálfstæðisflokkinn að komast til valda. Hann hafði verið flokka harðastur varðandi kauphækkanir fram til þessa, en sneri að sjálfsögðu við blaðinu þegar Hermann sagði af sér.
Ég hef sennilega látið í ljós andstyggð á pólitík í þessu bloggi, en þetta er ekki pólitík heldur sagnfræði. Eftir því sem sagt er í bókinni Ísland í aldanna rás, er svo.
Ennþá styttist í ferðina miklu sem við hjónakornin ætlum í seint í júní og höfum pantað, með Hafdísar hjálp, gistingu víðs vegar um landið.
Þetta skrifaði ég í gær. Er meira að segja búinn að leggja drög að blogginu á morgun. Er búinn að fara í mína morgungöngu. Síminn vildi ekki með öllu þýðast mig, en er kominn í lag núna. Segi ekki meira. Bless.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.5.2021 | 10:11
3069 - Saga Akraness
Dagskipunin er eiginlega sú að blogga á hverjum degi, eða svotil. Nú er sunnudagur og mér hefur ekkert dottið í hug til að blogga um. Sjáum til, kannski mér detti eitthvað í hug. Annars má svosem segja að ekki ættu aðrir að blogga en þeir sem hafa frá einhverju að segja. Samt er það svo að mikið er bloggað í algjöru tilgangsleysi. Þar með tel ég stjórnmálablogg. Ég hef aldrei heyrt það á nokkum manni að hann hafi láti ómerkilegt blogg ráða atkvæði sínu. Nú ættu náttúrulega allir stjórnmálabloggarar að hætta samstundis.
Þegar við fórum að Minniborgum um daginn fórum við nokkuð snemma af stað. Meðal annars til þess að geta farið í búð á leiðinni. Áslaug er komin með mikla hnýtingardellu núna og hún þurfti að kaupa sér heppilegt garn til þess. Í Hafnarfirði átti búð með þessu garni að vera til, en hún hafði flutt sig um set og það tafði okkur svolítið. Afleiðingin var sú að við komum nokkuð mátulega að Minniborgum.
Bjarni er líklega núna og í gær að tefla fyrir Garðabæ. Þegar hann hætti að tefla fyrir UMSB vildu þeir ólmir fá hann til sín. Síðari hluti deildakeppninnar 2019 er víst haldinn núna. Síðan verður víst alþjóðlegt Reykjavíkurmót haldið í haust ef kófið lofar.
Ég hef fylgst dálítið með þáttaröðinni um íslenskar kvikmyndir. Alveg er ég hissa á hvað margar kvikmyndir hafa verið framleiddar hér á landi. Framan af horfði maður á allflestar ef ekki allar íslenskar myndir en í seinni tíð er ég alveg hættur því. Horfi þó oftast á þær ef þær koma í sjónvarpið. Það eru samt eingöngu myndir sem verða af einhverjum orsökum frægar. Stundum eru þær óttalega ómerkilegar samt sem áður.
Sögu Akraness voru gerð einhver skil í afar stórri og metnaðarfullri bókaröð fyrir nokkrum árum síðan. Harpa Hreinsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson gagnrýndu þessar bækur mjög og ég held að hún hafi selst afar illa. Annars er ég mest hissa á því að svona stór og mikil bókaröð skuli svona fljótt verða gleymskunni að bráð. Kannski fer bara best á því að gleyma henni sem fyrst. Þó finnst mér að segja mætti þá sögu alla aftur í stuttu máli til upprifjunar og skora á Hörpu að gera það. Ég hef nefnilega þann grun að hún lesi þetta blogg. Einu sinni var hún afburðabloggari og ég hef sennilega lært ýmislegt í þeirri grein af henni. Hún þarf bara að athuga að ég ér alveg steinhættur að lesa Fésbókina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.5.2021 | 06:08
3068 - Arctic
Undarlegt með mig. Ég les ofurhetjur alltaf sem furuhnetur, hvernig sem á því stendur. Sérstaklega er þetta áberandi ef fyrstu stafurinn er á einhvern hátt dulbúinn, einsog oft á sér stað í auglýsingum. Veit svosem ekkert af hverju furuhnetur er svona merkilegar, en kemst yfirleitt að því að ég hef lesið vitlaust þegar ég ætla að kynna mér nánar þessar undarlegu hnetur.
Það var árið 1939 sem Íslendingar ákváðu að kaupa tréskipið og flutningaskipið Arctic til landsins. Það var einkum vegna þess að kæligeymsla þess var ákaflega góð sem ákveðið var að kaupa þetta 30 ára gamla þrímastraða seglskip. Seint á árinu 1942 fór það í ferð til Vigo á Spáni. Þar reyndu nasistar að fá skipverja til að njósna fyrir sig og er af því mikil saga og löng. Þetta skip strandaði svo árið 1943 við Löngufjörur á Snæfellsnesi.
Ástæðan til þess að ég minnist á þetta hér er sú að þegar ég fluttist á Snæfellsnes árið 1970 blasti kinnugurinn á þessu skip við frá Vegamótum, nokkru nær Stakkhamri en Skóganesi fannst mér. Svo hvarf það að fullu nokkru seinna og ég var að vonum forvitinn um örlög þessa skips. Þetta hefur sennilega verið síðasta tréskipið af þessari gerð sem Íslendingar áttu. Saga þess væri eflaust efni í heila bók. Ég mun þó allsekki skrifa þessa bók, til þess þekki ég ekki nógu vel til skipsins og hef þar að auki engan sérstakan áhuga á skipum.
Ég minnist þess að a.m.k. tvívegis hafa verið ortar vísur um mig. Í Ecce Homo er ein slík, en ég man ekkert hvernig hún er. Hin held ég endilega að sé eftir Þóhall Hróðmarsson bekkjarbróðir minn þó ég muni lítið eftir tilefninu. Hún er svona:
Sæmi gerði samning við
svokallaðan fjanda.
Sæmi fengi sálarfrið
en Satan flösku af landa.
Kannski hef ég sett þessa vísu áður á bloggið mitt, en við því er ekkert að gera. Munum bara að sjaldan er góð vísa of oft kveðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)