3062 - Hakkinen og Makkinen

Mér til mikillar skelfingar uppgötvaði ég að sagan sem ég setti saman og birti í bloggi númer 3060 var ekki í skjalinu „sögurtxt“, sem ég bjó til og geymi sögurnar sem ég setti saman í fyrra og skrifaði meira og minna í. Eina reglan sem ég setti mér í upphafi var að engin sagan yrði meira en ein blaðsíða. Sumir myndu eflaust segja að það væri bættur skaðinn þó þær týndust. Hef ekki haldið mikið uppá vísnaruglið sem ég hef sett saman gegnum tíðina og ekki eru sögurnar betri. Veit ekki hversvegna ég er að halda uppá þetta, en fyrst ég byrjaði er eins gott að halda áfram.

Mér finnst ég ekki þurfa að segja álit mitt á fréttum dagsins, enda geri ég ráð fyrir að flestum sér nokkurn vegin sama. Sumir virðast halda að nauðsynlegt sé að koma sínu sjónarmiði að í sambandi við hvað sem er. Einkum þó í stjórnmálum. Það er skiljanlegt að fyrrverandi flokksformenn og fyrrum ritstjórar láti svona. En það er til allmikils ætlast að gera ráð fyrir að pöpullinn bíði málþola eftir álitinu sem öllum er sama um. Þessvegna er það sem ég reyni að vera frumlegur í efnisvali og herma ekki eftir neinum. Stundum tekst mér þetta kannski.

Einu sinni var Hakkinen heimsmeistari í formúlu eitt akstri og Makkinen svonefnur á sama tíma heimsmeistari í rallakstri. Báðir voru að sjálfsögð finnskir enda er finnum ekki fisjað saman. Á þeim tíma var orðum svolítið hninað til í frægum talshætti sem talsvert var notaður í formúlunni: „To win a race you have to be finnish.“ í stað: „You have to finish.“ Þarna gátu menn leikið sér með enskuna. Oft er þetta hægt (og auðvelt) með íslenskuna.

Einhvern tíma þegar mönnum var mjög heitt í hamsi í pólitíkinni var sagt: „Það þýðir ekkert að efna og efna og lofa svo aldrei neinu.“ Þetta er í stuttu máli sagt einhver besta pólitíska ræða sem ég veit um.

Einhvern tíma ætla ég að reyna að skrifa um: Introvert, Asperger og Einhverfu. Mig minnir að ég hafi einhvertíma lofað að skrifa um Öfga hægrið og Óða vistrið. Kannski ég reyni það á næstunni.

IMG 4978Einhver mynd.


Bloggfærslur 4. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband