3069 - Saga Akraness

Dagskipunin er eiginlega sú að blogga á hverjum degi, eða svotil. Nú er sunnudagur og mér hefur ekkert dottið í hug til að blogga um. Sjáum til, kannski mér detti eitthvað í hug. Annars má svosem segja að ekki ættu aðrir að blogga en þeir sem hafa frá einhverju að segja. Samt er það svo að mikið er bloggað í algjöru tilgangsleysi. Þar með tel ég stjórnmálablogg. Ég hef aldrei heyrt það á nokkum manni að hann hafi láti ómerkilegt blogg ráða atkvæði sínu. Nú ættu náttúrulega allir stjórnmálabloggarar að hætta samstundis.

Þegar við fórum að Minniborgum um daginn fórum við nokkuð snemma af stað. Meðal annars til þess að geta farið í búð á leiðinni. Áslaug er komin með mikla hnýtingardellu núna og hún þurfti að kaupa sér heppilegt garn til þess. Í Hafnarfirði átti búð með þessu garni að vera til, en hún hafði flutt sig um set og það tafði okkur svolítið. Afleiðingin var sú að við komum nokkuð mátulega að Minniborgum.

Bjarni er líklega núna og í gær að tefla fyrir Garðabæ. Þegar hann hætti að tefla fyrir UMSB vildu þeir ólmir fá hann til sín. Síðari hluti deildakeppninnar 2019 er víst haldinn núna. Síðan verður víst alþjóðlegt Reykjavíkurmót haldið í haust ef kófið lofar.

Ég hef fylgst dálítið með þáttaröðinni um íslenskar kvikmyndir. Alveg er ég hissa á hvað margar kvikmyndir hafa verið framleiddar hér á landi. Framan af horfði maður á allflestar ef ekki allar íslenskar myndir en í seinni tíð er ég alveg hættur því. Horfi þó oftast á þær ef þær koma í sjónvarpið. Það eru samt eingöngu myndir sem verða af einhverjum orsökum frægar. Stundum eru þær óttalega ómerkilegar samt sem áður.

Sögu Akraness voru gerð einhver skil í afar stórri og metnaðarfullri bókaröð fyrir nokkrum árum síðan. Harpa Hreinsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson gagnrýndu þessar bækur mjög og ég held að hún hafi selst afar illa. Annars er ég mest hissa á því að svona stór og mikil bókaröð skuli svona fljótt verða gleymskunni að bráð. Kannski fer bara best á því að gleyma henni sem fyrst. Þó finnst mér að segja mætti þá sögu alla aftur í stuttu máli til upprifjunar og skora á Hörpu að gera það. Ég hef nefnilega þann grun að hún lesi þetta blogg. Einu sinni var hún afburðabloggari og ég hef sennilega lært ýmislegt í þeirri grein af henni. Hún þarf bara að athuga að ég ér alveg steinhættur að lesa Fésbókina.

IMG 4909Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmundur á selnum reið,
syndum hlaðinn fjandinn,
upp á land á Skaga skreið,
og skeit á Langasandinn.

Þorsteinn Briem, 17.5.2021 kl. 13:11

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini jafnan sterkorður
stýrir burt frá flestu.
Alltaf fer í aust-norður
ef hann dritar mestu.

Sæmundur Bjarnason, 17.5.2021 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband