3075 - Þruma hérna Þorsteinar

Er um þessar mundir að lesa bókina „Háski í hafi“ eftir Illuga Jökulsson. Það er alveg rétt hjá honum að sundkunnáttu var ekki fyrir að fara hjá Íslendingum fram eftir síðustu öld. Sjálfur man ég vel eftir að hafa heyrt því haldið fram að sundkunnátta framlengdi bara dauðastríð þeirra sjómanna sem lentu í sjávarháska. Ein af bernskuminningum mínum er samt sem áður á þá leið að ég sá niðri á þjóðvegi skammt frá réttunum vörubíl sem var með borða festan á framstuðarann hjá sér og á honum stóð: „Syndið 200 metrana“. Enda fór það svo að Íslendingar sigruðu í samnorrænu sundkeppninni og framvegis þýddi ekki mikið fyrir aðrar Norðurlandaþjóðir að keppa við okkur þar.

Held ég hafi nokkrum sinnum sagt frá því að mér kemur venjulega í hug ein vísa á dag. Í dag var það þessi:

Geðið mitt hann gladdi sjúkt
gamla hressti kæru.
Hvað hann gerði það hægt og mjúkt
hafi hann þökk og æru.

Eiginlega er þetta klámvisa, en þó er óhætt að segja að hún sé ekkert dónaleg. Áðan fór ég í morgungöngu eins og ég geri oft. Á leiðinni gerði ég þessa vísu:

Þruma hérna Þorsteinar
þeigi kemur saman.
Virðast báðir Viðreisnar
voðalega er gaman.

Þetta er svosem ekkert góð vísa en hún er rétt gerð og hrynjandin er alveg í lagi. Stundum geri ég vísur eða dettur eitthvað snjallt í hug á morgungöngunni, en þó þykir mér best að hugsa ekki um neitt nema kannski gönguna sjálfa á leiðinni. Samt er ég oft í besta stuðinu snemma á morgnana til að gera eitthvað að gagni. Verst hvað ég vakna stundum seint. Þó er það greinilega ofmetið hjá mörgum að sofa út á hverjum einasta degi.

Nú var ég búinn að skrifa „einhver mynd“ eins og lokaorðin eru oftast hjá mér en þá datt mér í hug þetta með myndirnar. Hugsunin með þeim er að skreyta bloggin smávegis. Ég er samt oft dálítið lengi að ná í þær. Þetta eru nefnilega allt saman endurbirtingar. Næstum allar hef ég tekið sjálfur svo ekki þarf ég að hafa áhyggjur af höfunarréttinum.

IMG 4778Einhver mynd.


Bloggfærslur 26. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband