Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

2580 - Bergþóra Árnadóttir

Komum í smá Pollyönnuleik. Fyrir okkur gamlingjana er snjórinn ágætur. A.m.k. skárri en dumbungurinn sem verið hefur að undanförnu. Kannski getum við farið út eftir svona mánuð án þess að eiga á hættu að beinbrjóta okkur. Við getum sem hægast sett á okkur sólgleraugu svo við fáum ekki ofbirtu í augun vegna allrar birtunnar. Snjór breytist í vatn á einni örskotsstundu þegar rétti tíminn er kominn. Við höfum bara gott af því að moka snjó. Gerum hvort eð er aldrei neitt að gagni. Munur að fá að moka snjó. Verst að detta við moksturinn. Það getur nefnilega verið meiriháttar mál að standa um aftur. Jafnvel þó snjórinn sé mjúkur. Ef okkur tekst ekki að koma bílnum uppúr snjónum er það lúxusvandamál. Hver segir að við þurfum að eiga bíl? Ekki þurfum við að vinna eins og þeir sem ekki eru orðnir löggild gamalmenni.

Ömurlegt hlutskipti að geta ekki skrifað um annað en það sem efst er á baugi hverju sinni. Ég þverneita að gera það. Auðvitað er veturinn sem loksins er kominn til okkar undanþeginn þessari reglu. Held jafnvel að ég hafi lítið sem ekkert minnst á Trump í síðasta bloggi og ég ætla að reyna að stilla mig um að minnast á Óskarsverðlaunin eða Edduna í þessu.

Hugsanlega er mér óhætt (myndalaust og refsilaust) að minnast á að mér er tjáð að í gær hafi verið bolludagur. Í dag er víst sprengidagur og síðan öskudagur. Einu sinni voru þessir dagar sérstakir hátíðisdagar og kannski er það svo enn. A.m.k. hjá yngstu kynslóðinni. Fyrir okkur af eldri kynslóðinni minna þessir dagar okkur einkum á að nú er farið að glytta í vorið.

Að undaförnu hef ég verið að forvitnast um það hve margir hafa fengið verðlaun fyrir að deila á fésbókinni hinu og þessu. Þeir virðast vera fáir. Kannski er þetta ódýrasta auglýsing sem hægt er að fá.

Um daginn kveikti ég af einhverri rælni á sjónvarpinu. Þá var verið að rífast á alþingi. Svo þurfti sjónvarp allra landsmanna að komast að með sína dagskrá. Þá var slökkt á þessu tilgangslitla rausi í alþingismönnum og þegar ég kom næst að sjónvarpinu var verið að endursýna að ég held þátt um Bergþóru Árnadóttur. Man að hún og systkini hennar voru meðal helstu leikfélaga okkar eftir að brann og við bjuggum vesturfrá. Hún var dóttir Öllu Möggu og Árna smiðs og mun víst hafa verið móðir Birgittu Jónsdóttur pírata. Namedropping lokið. Söngur hennar hefur oft haft áhrif á mig og að þessu sinni var það einkum söngur hennar um dauða kattar sem keyrt var á sem mér fannst áhrifamikill.

Hefur alltaf þótt það heldur skrýtið, jafnvel neikvætt að fólk sem stundar morgunleikfimi (eftir útvarpinu) skuli vera með arma en ekki handleggi. Aðrir líkamspartar sýnist mér vera næsta eðlilegir.

IMG 2010Einhver mynd.


2579 - Veður og (ó)færð

Stóra málið í stjórnmálaumræðunni um þessar mundir er náttúrulega brennivínsfrumvarpið. Hvers vegna er það svona stórt? Að mínum dómi er það einkum tvennt sem veldur því. Þingflokkarnir leyfa óbreyttum þingmönnum að hafa sjálfstæða skoðun á þessu máli. Þetta notfæra þeir sér og leggja mikla vinnu í það. Kannski er þetta smámál í rauninni því stjórnvöld munu alveg geta stjórnað áfengisfíkn manna þrátt fyrir samþykkt þess.

Hin hliðin er fíknihliðin. Öll fíkn er sjúkdómur. Ekki bara áfengisfíkn eða alkóhólismi. Heldur svo margt annað. Stjórnvöld geta haft heilmikla stjórn á allskyns fíknum þó hömlum á áfengissölu sé aflétt og sú sala tekin frá ríkinu. Óumdeilt er samt að aukið og bætt aðgengi að áfengi mun hafa aukna neyslu þess í för með sér alveg eins og bjórinn gerði á sínum tíma. Bjórsalan jók áfengisnotkun en bætti e.t.v. áfengismenninguna að einhverju marki. Ekki er samt víst að svo verði með annað áfengi. Ætti ég að taka afstöðu til þessa frumvarps mundi ég sennilega vera á móti því.

Reykingafíkn er á undanhaldi. E.t.v. er það vegna verðstýringar. Eiturlyfjafíkn er mikið böl. Hugsanlega vegna löggjafar um þau. Mikið er tekist á um hvort hún eigi að vera ströng eða mild (eða jafnvel engin) og sýnist sitt hverjum. Man vel eftir að þegar ég vann hjá Kaupfélagi Árnesinga fyrir svona 50 árum að verð á sígarettupakka og kílói af kjötfarsi var svipað. Tímakaup verkamanna einnig. Veit ekki hvort svo er nú. Man líka vel eftir að einu sinni kostaði brennivínsflaskan 170 krónur (gamlar).

La la land er fremur léleg kvikmynd. Þetta segi ég því mér skilst að Óskarsverðlaunin séu á næstu grösum. Allmargir búast við að þessi mynd verði talin sú besta þegar Hollywoodstjörnurnar fara að klappa hvor annarri á bakið. Hún er í mesta lagi svona la la eins og segir í nafninu. Hvernig stendur á vinsældum hennar þá? Ég held það sé einkum vegna þess að af dans- og sögvamyndum er hún fremur óvenjuleg og fjallar auk þess um kvikmyndagerð. Ekki nennti ég að horfa á alla myndina en flest er sæmilegt við hana og engir áberandi gallar. Ef þetta er það besta sem Hollywood getur gert, líst mér ekki á málið. Hvað sem öðrum finnst.

Nú er allt á kafi í snjó og lítið annað að gera en sitja við tölvuna. Áðan fór ég þó út og ætlaði að komast út í bíl, en vonlaust var að komast langt því ég átti meira að segja í vandræðum með að opna hurðina á bílnum. Sennilega hefði ég hvort eð er ekki komist langt þó mér hefði tekist að skafa af honum snjóinn. Kannski lagast þetta þegar líður á daginn.

Eflaust dytti mér í hug að skrifa eitthvað meira ef ég biði með að senda þetta frá mér en ég nenni því varla.

IMG 2031Einhver mynd.


2578 - Anti-Trump-fréttir

Pólitík er leiðinleg. Samt eru sumir helteknir af þessu. Sjálfur er ég ekki barnanna bestur. Tromparann er ég sífellt með á heilanum. Eiginlega ætti umræðan að snúast meira um praktíska hluti. Öllu má samt ofgera. Eiginlega eru fésbókin og bloggið búin að breyta fjölmiðlun og kjaftasögum öllum. Internetið flestu öðru. Pólitíkin er fyrst og fremst barátta milli kynslóða. Bilið milli ríkra og fátækra er samt alltaf að aukast hér á landi og það er bagalegt. Spurning er hve margar kynslóðirnar séu. Mér finnst skiptingin vera svona: Sú yngsta, sú ráðandi og ellibelgirnir. Sjálfur tilheyri ég þeirri síðastnefndu. Er nefnilega hættur að vinna. Þessi kynslóð hefur venjulega allt á hornum sér og finnur óvini í hverju horni. Allri menningu hrakar og sérstaklega íslensku máli. Mest er þetta auðvitað vegna þess að elsta kynslóðin skilur ekki þá yngstu. Einu sinni heyrði ég því haldið fram að mæla mætti raunverulegt menningarstig þjóða eftir því hvernig komið væri fram við þá elstu. Á Íslandi þykir mér sú framkoma sæmilegt, en allsekki meir.

Augljóst er að þingmenn stunda það mjög að fela sig á bakvið formsatriði þegar það hentar þeim til að geta greitt atkvæði með rétta liðinu. Embættismenn hafa í auknum mæli farið að nota þessa aðferð. Ef allt um þrýtur er samþykkt að fjölga nefndum, ráðum og starfshópum, þó yfirleitt komi lítið sem ekkert útúr starfi þeirra. Afleiðingin er sú að enginn ber ábyrgð á neinu.

Þetta með ananasinn á pizzur og Guðna forseta er dálítið vandræðalegt vegna þess að sumir virðast taka þetta alvarlega. Einhvernvegin las ég þetta strax sem misheppnaðan brandara. Krakkar og útlendingar virðast samt skilja þetta öðruvísi. Menn í hans stöðu þurfa að gæta mjög vel að orðum sínum. Sama má segja um vinsæla fjölmiðla. Var áðan í mesta sakleysi að lesa á fésbókinni einhverja DV-frétt um Jón Gunnarsson samgönguráðherra og þar var talað um Aldísi Hilmarsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði. Er að furða þó maður vantreyst þessum blessuðu fjölmiðlum. Þeir kunna ekki einu sinni að vanda sig. Hvergerðingar, þeir sem ættir sínar eiga að rekja þangað og margir fleiri vita auðvitað að Aldís er Hafsteinsdóttir.

Kári Stefánsson getur ekki stillt sig um að monta sig af vísindaskrifum sínum og annarra en gætir þess ekki að sjálfshól og þessháttar getur sem hægast valdið því að einhverjir hætti að treysta þeim sem það stundar. Annars hef ég meiri trú á Kára Stefánssyni en flestum stjórnmálamönnum. Einhverju sinni kom þekktur gestur í ráðuneytið þar sem Birgir Thorlacius réði ríkjum. Honum var boðið að ræða við ráðherrann, en svo vel vildi til að hann var viðlátinn. „Get ég ekki bara fengið að tala við Birgi sjálfan?“ sagði hann þá. Einhverjir vildu fá að ræða við Bannon sjálfan í Hvíta húsinu. Ég ætla að reyna að komast ekki nær Trump-fréttum en þetta núna. Erfitt er samt að forðast þær.

IMG 2035Einhver mynd.


2577 - Þetta sagði Styrmir:

„Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Ætli þetta séu ekki frægustu ummæli allra tíma. A.m.k. nú um stundir og hér á ísa köldu landi. Vissulega hafði hann sem Moggaritstjóri betra tækifæri en flestir aðrir til að fylgast með þessu öllu saman. Margir hafa tekið þessum orðum fagnandi, enda eru þau svosem á margan hátt alveg sönn. Margt annað er auðvitað líka ansi þreytandi, fyrir utan spillinguna og hrossakaupin. Nenni ekki einu sinni að telja það upp.

Aftur á móti segir Jónas Kristjánsson þetta um fésbókina. Og ég er eiginlega alveg sammála honum. Samt er ég ósammála báðum þessum mönnum um margt annað.

"Ég nota fésbókina. Ekki því hún sé svo góð, heldur því hún er svo stór. Stærsti fjölmiðill heimsins. Gerir mér kleift að birta skoðanir á ýmsum sérsvæðum, til dæmis pírata. Gerir fólki kleift að dreifa skoðunum mínum með því að tengja þær inn á sín svæði. En fésbókin er ekki mín eign. Má loka á mig, hvenær sem er. Má sóa tíma mínum við að komast aftur í samband. Fésbók sýnir mér það efni, sem hún telur mig vilja sjá. Magnar þannig hugsanlega fordóma mína. Bloggið er að mörgu leyti betra. En nafnlausir „virkir í athugasemdum“ ganga þar um á skítugum skóm. Svo ég loka á þá, hef opið á fésbókinni."

Sverrir Stormsker er sóðakjafur. Kannski tilheyri ég góða fólkinu hans en því fer oftast fjarri að ég sé sammála honum. Þó ég sé Moggabloggari nenni ég ekki að lesa slíkt sorprit sem Mogginn er. Les samt mbl.is stundum. Mér er sagt að Sverrir sé farinn að skrifa í Moggann beint og ekki er ég hissa á því. Auðvitað er hann orðheppinn og allt það, en skoðanir hans tek ég ekki undir. Illa er komið fyrir frjálshyggjupostulunum eftir að Hannes Hólmsteinn hætti að mestu með sína Davíðssálma. Ekki er gæfulegt að þurfa einkum að treysta á Sverri og Pál Vilhjálmsson.

Þrátt fyrir allt gæti ég þó stutt sumt sem Ástþór hefur sagt um forsetaembættið. Er Sverrir annars ekki helsti stuðningsmaður hans? Sennilega bætir hann svona litlu fylgi við sig þessvegna.

Einhversstaðar heyrði ég að búast megi við úrskurði svokallaðrar Endurupptökunefndar um Guðmundar og Geirfinnsmálið næstkomandi föstudag. Eflaust munu margir fylgjast með þeim úrskurði. Landsmenn vita vel að sá dómur var rangur. Samt er það alveg augljóst að úrskurður þessarar nefndar skiptir miklu máli. Þó ekki væri annað þá skiptir hann eflaust máli hvað skaðabætur varðar og opinbera sakaruppgjöf. Lögregluna og dómstóla alla getur þetta líka skipt miklu máli og svo auðvitað þolendur og skyldmenni þeirra. Hvað sem öllu líður ætti þetta eldgamla mál að fara úr opinberri umræðu við þetta. Mannshvörf eru alltaf grunsamleg. Vel getur verið að eftir þetta komi fram nýjar upplýsingar.

Ekki var það ætlum mín í upphafi að hafa þetta blogg mitt mestmegnis tilvitnanir. Mér gengur samt illa að taka upp léttara hjal. Þó vildi ég það gjarnan. Ekki er ég hissa á þessari kröfu margra um að hamast við að skemmta sér. Kannski væri það bara best. Einhverjir lesa samt bloggið mitt. Ekki lái ég þeim það. Um að gera að hætta að bölsótast. Sumir gera varla annað.

IMG 2087Einhver mynd.


2576 - Einhver fyrirsögn (veit bara ekki hvernig hún á að vera)

Eiginlega er ég nánast hættur að fara í morgungöngurnar mínar fyrr en það er eitthvað farið að birta. Ekki er það út af myrkrinu sem slíku, heldur er þetta fyrst og fremst af veðurfræðilegum og ljósmyndatæknilegum ástæðum. Myrkfælni og draugatrú hef ég aldrei getað skilið. Auðvitað hefur mér samt stundum brugðið, en tölum ekki meira um það.

Helvítis ánamaðkarnir eru farnir að skríða í stórum stíl uppá gangstígana. Ég er ekki svo langt leiddur að ég hendi þeim yfir á grasið. Reyni samt að forðast að stíga á þá. Geta raunar orðið svo margir að það sé erfitt. Ekki veit ég af hverju mávarnir vilja helst vera á grasblettinum neðan við íþróttahúsið. Nóg er nú túnplássið út um allt.

Eiginlega er ég ófáanlegur til að forwarda minningum. Eða deila þeim eins og fésbókin gjarnan segir. Allt sem maður segir á fésbókinni getur komið í hausinn á manni seinna meir. Í framhaldi af því sem ég ætlaði að segja og með hliðsjón af framtíðinni er kannski best að segja sem fæst. Mér finnst samt útilokað að segja ekki neitt. Kannski er bara best að segja sem flest í þeirri von að seinna meir nenni enginn að lesa þetta endemis bull. Það er ein leiðin og ég skil vel þá sem vilja segja sem fæst á netinu. Ég er hinsvegar með því marki brenndur að vilja skrifa sem allra mest. Hvort sem ég hef eitthvað að segja eða ekki. Og hananú. (Sagði hænan.)

Þau þjóðríki sem frægust eru um þessar mundir í Trump-fréttum eru: Íran, Írak, Sýrland, Jemen, Sómalía, Súdan og Lýbía. Að vísu eru múslimar í fleiri löndum en ef Trump fær að ráða eru þetta helstu óvinaríki Bandaríkjanna. Eins gott að reyna að muna þessa romsu. Eiginlega veit ég ekki hvort múslimar eru fjölmennir í Norður-Kóreu eða ekki, en eflaust eru Bandaríkjamenn talsvert á móti því ríki líka. Annars held ég að trúarbrögð skipti ekki eins miklu máli núorðið og áður var. Peningar, fólk og allskyns auðævi skipta hinsvegar meginmáli. Kína hefur nóg af þessu góssi öllu saman og kannski er einræði eins og þar tíðkast betra en hin stórgallaða lýðræði.

Eiginlega er það bara hressandi að geta sagt um einhvern að hann sé „helvítis montrassgat“ án þess að eiga á hættu að fá bágt fyrir. Já, ég er að tala um Trump bandaríkjaforseta. Samt er það nú ekkert fyndið á fá svonalagað yfir sig. Sennilega er (eða verður fljótlega) heimsfriðnum ógnað ef ekki tekst að koma böndum á fíflið. En hættum að tala um svona leiðinlegt fyrirbrigði.

IMG 2093Einhver mynd.


2575 - Snýst Vísindakirkjan bara um Tom Cruise?

Þegar talið berst að Vísindakirkjunni dettur mann náttúrulega Tom Cruise í hug. Víst er hann ágætur leikari en eiginlega er hann sá eini sem maður man eftir að tilheyri þessari vitleysu. Menn gætu alveg eins trúað á Donald Trump. Og ég er ekki frá því að sumir geri það. Að láta sér koma til hugar að einhver misheppnaður og löngu dauður (1986)  vísindaskáldsagnahöfundur sé guðleg vera er kannski mátulega vitlaust til að trúa á. Einhverjir eru svo heilaþvegnir að þeir gera það svosem og eru allsekkert verri fyrir það. En ósköp vorkennir maður þeim samt.

Einu sinni hafði ég heilmikinn áhuga á Óskarsverðlaununum. Það er sem betur fer liðin tíð. Nú fer sennilega að líða að þeim. Get bara ekki fengið mig til að fjölyrða um svo ómerkilegan hlut. Ætti samt að geta fengið áhuga á kvikmyndum svona yfirleitt. Stundum eru þær virkilega góðar. Jafnvel er hægt að segja að í þeim komi saman fjöldi listgreina. Þ.e.a.s. þegar best tekst til. Óskarsverðlaunin eru enginn mælikvarði á það.

Svipað er að segja um körfubolta. Gott ef stjörnuleikurinn svokallaði var ekki í gærkvöldi. Get ómögulega hrist upp í mér áhuga á honum. Einu sinni hafði ég meira að segja áhuga á Amerískum fótbolta. Sem er náttúrulega ekki einu sinni alvörufótbolti. Þegar Ofurskálin var í fyrsta sinn sýnd beint hér á Íslandi man ég eftir að auglýsingar fóru beint ofan í fyrsta og jafnvel eina snertimarkið og ekki þótti það gott.

Einhvern vegin er það svo að mér finnst ég vera að skrifa fyrir fleiri þegar ég blogga en þegar ég skrifa á fésbókarvegginn. Er semsagt ekki kominn uppá að skrifa þar jafnóðum allt sem mér dettur í hug eins og sumir virðast gera. Andskotans kjaftæði. Betra er að hugsa sig aðeins um áður en hlutirnir eru settir á fésbókarfjandann. Það kemur samt ekki í veg fyrir að ég lesi ýmislegt þar. Óhemju spar er ég samt á lækin.

Þeir sem töluðu um þriðju heimssyrjöldina eða breytta heimsskipan fyrir nokkrum árum voru sagðir mála skrattann á vegginn. Á þessu ári virðist það samt alveg mega. Er það Tromparanum að kenna? Ekki veit ég það en hitt veit ég að margir Bandaríkjamenn (jafnvel Repúblikanar) óttast að fyrir tilverknað hans muni vegur USA í heiminum fara versnandi. Ef sá maður (Donald Trump) á að ráða öllu (eða næstum öllu) í samskiptum Bandaríkjanna við aðrar þjóðir er hætta á að illa fari. Annað hvort fyrir honum eða heiminum öllum. Skrítið að framtíð heimsins skuli að miklu leyti vera komin undir duttlungum eins manns.

Sjómannaverkfallið er líklega farið úr fréttaglugganum. Samt er það skrítið að senda skipin ekki per samstundis úr höfn og hraða í staðinn atkvæðagreiðslum um samninginn svona mikið. Ætla samt ekki að spá neinu. Ég hef líka oft(ast) rangt fyrir mér. Kannski sjómennirnir séu á móti því að ríkisstjórnin fái prik.

Veðrið er alltaf að skána. Þetta hlýtur að enda með ósköpum. Ætli veturinn gleymist ekki bara alveg. Sólin lætur samt ekki plata sig. Nú er farið  að birta mun fyrr en þegar verst lét. Febrúarhlýjindi eru varasöm. Jafnvel hættuleg. Krókusar og aðrir þöngulhausar gætu farið að kíkja uppúr moldinni. Og eru kannski byrjaðir.

IMG 2130Einhver mynd.


2574 - Um sjómannaverkfallið og ýmislegt fleira

Dægurlagalega séð (en þar er ég sérdeilis ófróður) virðist mér mikið í tísku núna að taka texta gamalla og góðra dægurlaga. Poppa svolítið útsetningu lagsins  og breyta því. Syngja síðan textann með afkáralegum áherslum. Kannski er ég bara svona gamall að ég kann ekki að meta þetta. Annars er það ágætt að ungdómurinn nútildags fái að kynnast þessum textum því þeir eru margir ágætir. Lögin finnst mér aftur á móti öll vera eins. Önnur stefna er sú (sennilega er það kallað rapp) að fara svo hratt með texta (sem stundum er greinilega argasta bull) að hann skiljist áreiðanlega ekki.

Fæðubótaefni hverskonar eru mikið í tísku núna. Auðvitað er það mikilvægt að fá fólk til að skiljast við peningana sína. Ef eitthvað gagn á að vera í slíkri fæðu þarf hún helst að vera rándýr. Sumt af þessum nauðsynlegu fæðubótarefnum er áreiðanlega ónauðsynlegt með öllu. En hvernig á fjandanum á að komast að því. Best er sennilega að láta þetta alveg í friði.

Matarsóun er einnig mjög í tísku og sömuleiðis kynferðislegt ofbeldi. Mér finnst fréttir allar snúast um þetta. Kannski er einstöku sinnum minnst á Trump. Ef þetta þrennt hyrfi væri hreinlega ekkert í fréttum.

Mér finnst á það skorta að fasteignasölur auglýsi útsölur. Vitanlega vilja þær að viðskiptavinirnir verði ánægðir, en er ekki verið að gera því skóna að bara sé verslað á útsölum. Væri ekki bara best að kalla allar verslanir útsölur? Þá færu sennilega allir að auglýsa lagerhreinsanir og verksmiðjusölur. Hverig væri að bíða bara eftir Costco?

Orðanotkun tekur oft mið að því sem tíðkast. Einu sinni var mér sagt að þessvegna ætti að vera z í tísku, en nú er búið að afnema hana svo það er ekki hægt.  Einu sinni var bannað að minnast á dans í útvarpinu og þá fóru hljómsveitirnar allt í einu að spila.

Spurning spurninganna er: (pólitískt séð) Að hve miklu leyti og á hvaða sviðum á ríkið að beita sér? Að sjómenn (eða aðrir hópar) geti (með stuðningi vinnuveitenda sinna) krafist þess að ríkið geri þetta eða hitt er að mínum dómi alveg fráleitt. Ríkisstjórnin vill samt fyrir hvern mun halda í sína ráðherrastóla og styggja sem fæsta. Þetta er mín skoðun í sem allra stystu máli á núverandi verkfalli. Ef útgerðarmenn vilja fyrir hvern mun að verkfallið haldi áfram þá ætti það að vera sársaukalaust af sjómanna hálfu.

IMG 2140Einhver mynd.


2573 - Talibaninn í Hvíta húsinu

Kannski er fyrirsögnin í það grófasta hjá mér. Því er samt ekki að neita að kjör Trumps sem forseta Bandaríkjanna mælist óvenju illa fyrir. Auðvitað eru það aðallega demókratar og meirhluti Pressunnar sem standa fyrir þessu. Samt er það svo að ýmsum finnst samband hans við Rússa talsvert skrítið. Tveir kosningastjórar hans voru látnir hætta m.a. vegna hugsanlegra tengsla við Rússland og Ukraínu. Nú hefur helsti þjóðaröryggisráðgjafi hans verið látinn fara af svipuðum ástæðum. Hvað innanlandsafskipti snertir er forsetinn langt í frá einráður. Alþjóðleg samskipti eru samt meira og minna á hans könnu. Og þar er það sem mestur óttinn við hann á sér stað. Ef einræðisherrann í austri á (svona óbeinlínis) líka að ráða yfir Bandaríkjunum má búast við hverju sem er.

Mér finnst að báðir aðilar í sjómannadeilunni reyni að kasta ryki í augu almennings. Þetta ætti alls ekki að skipta máli og gróði útgerðarrisanna hefur verið það mikill að undanförnu að þá ætti allsekki að muna um þetta. Mér finnst alveg ófært að hvaða hópar sem er geti hrópað á ríkið og ætlast til að það hlaupi undir bagga. Fjárkröfurnar á það eru þegar ansi miklar. Landspítalinn ætti að hafa forgang.

Sá á fésbókinni í gærkvöldi á síðu sem kölluð er „gamlar ljósmyndir“ mynd sem ég hef áreiðanlega tekið. Ég er svosem ekkert að amast við því, en finnst að það geti verið spursmál að birta á þennan hátt myndir af fólki. Allt fólk er nefnilega einstakt. Þó manni finnist myndin ágæt (og jafnvel fleirum) þá er ekki víst að fyrirmyndin sé sama sinnis. Þetta var mynd sem tekin var í Lækjargötunni af konunni minni og tveimur systkinum hennar. Allt orkar tvímælis sem gert er.

Mikið er rifist útaf Guðbergi Bergssyni núna. Heyrði svosem ekki viðtalið sem allir eru að tala um enda er fjölmiðlaneysla mín að minnka mikið. Man samt vel eftir því að ég las „Tómas Jónsson, metsölubók“ á sínum tíma og þótti hún afar vel skrifuð. Það er samt rétt sem sumir segja að hún olli engri byltingu. Kannski hefur Guðbergur sjálfur búist við því. Hugsanlega er hann svona bitur þessvegna.

Veðrið heldur áfram að vera mjög gott. Sé það rétt að veðrakerfi heimsins geti breyst mjög hratt ef hnatthlýnunin verður mikil er kannski alveg eins mikil hætta sem af því getur stafað einsog af kjarnorkustríði. Allskyns dystópía og postapochalypse-bækur eru í hvað mestu uppáhaldi hjá mér um þessar mundir. Leiðast krimmarnir. Finnst íslenskir höfunar samt varla skrifa annað.

Eiginlega öfunda ég þá sem eru sannfærðir um að hafa alltaf rétt fyrir sér pólitískt séð. Á margan hátt er auðveldara að efast aldrei um neitt á því sviði. Tökum t.d. Trump. Ég get alveg skilið að það henti bandaríkjamönnum ákaflega vel að hafa hann. Sérstaklega vegna andstöðu hans við Washington og stjórnkerfið bandaríska í heild. Daður hans við Rússa er samt á margan hátt illskiljanlegt. Umheimurinn allur á þó líklega eftir að líða fyrir ruglið og einangrunarstefnuna hjá honum. En Demókratar koma líklega til með að eiga í vandræðum með að koma honum frá. Auðvitað eru þeir repúblikanar sem hafa gengið kerfinu á hönd óánægðir með margt sem hann gerir. Hann segir nefnilega allt sem honum dettur í hug og á stuðning sinna fylgismanna nokkuð vísan. Bandaríkjamenn dást alltaf mikið að þeim sem þeir álíta ofurríka en Evrópumenn tortryggja þá jafnan.

IMG 2177Einhver mynd.


2572 - Tromparinn eilífi

Tölvan mín segir mér að bolludagur sé ekki fyrr en um næstu mánaðamót. Þessi mánuður er að vísu hálfnaður í næstu viku, en samt eru bakaríin farin að hamast við að auglýsa rjómabollurnar. Sennilega ætlast þau til að fólk sé að úða í sig slíkum bollum hvort sem það er bolludagur eða ekki. Ja, heimur versnandi fer.

Þetta innlegg setti ég á fésbókarfjárann áðan því ég var hræddur um að það yrði of gamalt þegar ég loksins mundi setja það á bloggið mitt. Það er að segja þetta með vikulokin. Ég vona svo sannarlega að mér takist að blogga oftar fyrir bolludaginn. Auk þess minnir mig að mér hafi verið fortalið að Herra Gúgli taki mun minna mark á fésbókarinnleggjum en samskonar vitleysu sem sett er í blogg. Þess vegna er þetta nú hér ennþá. Var nefnilega nýbúinn að senda frá mér blogg þegar mér datt þessi snilld í hug.

Í morgun (sunnudag) fór ég ekki út að labba fyrr en bjart var orðið. Einhverntíma hef ég að mig minnir skrifað um ruslatunnuveður. Það er þegar ruslatunnur í Kópvoginum fjúka og björgunarsveitarmenn hlaupa á eftir þeim. Í morgun var einskonar mávarok hér á Akranesi. En þá stunda mávar það í brekkunni við Langasand að æfa hverskonar fluglistir. Með því að vanda sig tekst þeim að halda nokkurn vegin kyrru fyrir í loftinu án þess að blaka vængjunum. Þessu fylgdist ég með langtímum saman í morgun. Björgunarsveitarmennirnir í Kópavogi hurfu hinsvegar snarlega fyrir næsta horn.

Er þá ruslatunnuveðrið verra en mávarokið? „Já miklu hættulegra því tunnurnar geta hæglega fokið á mann en það gera mávarnir ekki.“

Einu sinni var sagt að Pálmi Gestsson hermdi svo listilega eftir Halldóri Ásgrímssyni að menn ættu það til að ruglast á þeim. Verra er þetta í henni Ameríku, því Alec Baldwin ku herma svo vel eftir Donald Trump og líkjast honum svo mikið ef hann grettir sig hæfilega (sem minnir mig náttúrulega á söguna um Grettir Sig., en það er önnur saga.) Hann líkist Tromparanum semsagt svo mikið að útbreitt blað í Suður-Ameríku birti mynd af Alec Baldwin í gervi Trumps þegar það ætlaði að birta mynd af Tromparanum sjálfum.

Nú er ég einu sinni enn byrjaður að fjölyrða um Tromparann. Get bara ekki á mér setið. Áhugi minn á bandarískum stjórnmálum hefur vaxið undanfarna daga. Óneitanlega eru þetta áhugaverðir tímar hvað heimspólitíkina snertir sem við lifum núna. Fylgist nokkuð með bandarísku stórblöðunum og baráttu þeirra við furðufyrirbærið í Hvíta Húsinu. Washington Post (og reyndar fleiri blöð) gagnrýna forsetann ótæpilega. New York Times fer hinsvegar afar varlega í gagnrýni sinni. Donald Trump reynir að svara fyrir sig. Einkum með allskonar yfirlýsingum á Twitter-síðu sinni sem margir fylgjast með. Ferðabannið mistókst hjá honum og nú hefur einn helsti hernaðarráðgjafi hans verið rekinn. Ætli blaðafulltrúinn (les: blaðurfulltrúinn) verði ekki næstur. Eiginlega er þetta allt saman orðið æsispennandi. Kannski finnst mér þetta bara af því ég les blöðin og hef áhuga fyrir fréttum af þessu tagi, einmitt núna, hvað sem síðar verður.

IMG 1000Einhver mynd.


2571 - Um Trump, Proppé og ýmislegt annað

Einhvern vegin fékk ég það á tilfinninguna, þegar ég heyrði að Óttarr Proppé vildi gjarnan gerast heilbrigðisráðherra, að hann ætlaði sér að gera gagn þar. Þetta var alveg öfugt við það sem pólitíkusar eru vanir en samt hélt ég þetta. Nú er ég farinn að efast. Sennilega er hann bara ótíndur og ómerkilegur kjaftaskur eins og allir hinir þó hann bauli mikið eftir hverja setningu og þykist vera að hugsa sig um. Orðinu vill hann ekki sleppa því þá gæti brostið á með óþægilegar spurningar. Þessi svokallaða ríkisstjórn er handónýt og ég finn afar litla löngun hjá mér til að fjölyrða meira um það.

Margt má eflaust um greinarmerki segja. Þó vildi ég helst að þau væru ekki til. Nema þá helst punkturinn. Hann nota ég mikið. Kommuna stundum og spurningarmerkið. Önnur held ég að megi að mestu missa sig. Auðvitað geta gæsalappirnar oft gengt einhverju hlutverki og tvípunkturinn svosem líka. Þar fyrir utan eru þessi blessuðu greinarmerki með öllu óþörf finnst mér og væru best komin á öskuhaugum sögunnar. Nóg er nú að þurfa sífellt að vara sig á stafsetningunni þó ekki bætist kommusetning og önnur óáran við. Læt ég svo þessum söng lokið.

Hlustaði aðeins á sjónvarpsútsendingu frá alþingi áðan. Ekki er ég viss um að svo hafi verið tekið til orða, en einhvern vegin svona hljómaði það í mínum eyrum. „Svo vil ég fara þess á leit við sjúkdómaráðherrann að hann beiti sér fyrir því að menn verði frískir aftur. Þ.e.a.s. ef fjáransráðherrann leyfir það og túristaráðherrann sér ekkert athugavert við það.“

Einn helsti gallinn við Trump (fyrir utan hvað hann er hægrisinnaður) er að hann og helstu fylgismenn hans virðast trúa í raun og veru allskyns samsæriskenningum. Auðvitað skaðar það fáa þó efast sé enn um að Kennedy hafi í raun og veru verið myrtur af Lee Harvey Oswald. Svipað má segja um „nine eleven“ eins og Bandaríkjamenn nefna það (raunar er ekki beinlínis efast um tilvist Tvíburaturnanna heldur um ýmislegt í sambandi við hrun þeirra) Margir efast líka um að tunglferðirnar hafi í raun og veru verið farnar.

Út yfir tekur þó þegar efast er um að „Sandy Hook“ fjöldamorðin hafi átt sér stað. Fabulera jafnvel um „Bowling Green“ fjöldamorðin sem sannarlega áttu sér aldrei stað. Upplognar fréttir verða til þess að hægt er að efast um allan fjárann. Svo birta fjölmiðlar óvart myndir af skopstælingu af Donald Trump og halda að verið sé að birta mynd af honum sjálfum. Já, fésbókarsýkin getur tekið á sig ýmsar myndir.

Ef ég væri í fullu fjöri ennþá gæti ég eflaust skrifað daglega á bloggið mitt eins og ég gerði einu sinni. En nú er ég orðinn svo gamall að ég geri allt fremur hægt (hugsa jafnvel hægt) og þessvegna líða oft margir dagar á milli þess sem ég læt svo lítið að blogga. Samt hef ég nokkuð gaman af því að láta ljós mitt skína og aldrei vantar mig umræðuefni.

IMG 2216Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband