2575 - Snýst Vísindakirkjan bara um Tom Cruise?

Þegar talið berst að Vísindakirkjunni dettur mann náttúrulega Tom Cruise í hug. Víst er hann ágætur leikari en eiginlega er hann sá eini sem maður man eftir að tilheyri þessari vitleysu. Menn gætu alveg eins trúað á Donald Trump. Og ég er ekki frá því að sumir geri það. Að láta sér koma til hugar að einhver misheppnaður og löngu dauður (1986)  vísindaskáldsagnahöfundur sé guðleg vera er kannski mátulega vitlaust til að trúa á. Einhverjir eru svo heilaþvegnir að þeir gera það svosem og eru allsekkert verri fyrir það. En ósköp vorkennir maður þeim samt.

Einu sinni hafði ég heilmikinn áhuga á Óskarsverðlaununum. Það er sem betur fer liðin tíð. Nú fer sennilega að líða að þeim. Get bara ekki fengið mig til að fjölyrða um svo ómerkilegan hlut. Ætti samt að geta fengið áhuga á kvikmyndum svona yfirleitt. Stundum eru þær virkilega góðar. Jafnvel er hægt að segja að í þeim komi saman fjöldi listgreina. Þ.e.a.s. þegar best tekst til. Óskarsverðlaunin eru enginn mælikvarði á það.

Svipað er að segja um körfubolta. Gott ef stjörnuleikurinn svokallaði var ekki í gærkvöldi. Get ómögulega hrist upp í mér áhuga á honum. Einu sinni hafði ég meira að segja áhuga á Amerískum fótbolta. Sem er náttúrulega ekki einu sinni alvörufótbolti. Þegar Ofurskálin var í fyrsta sinn sýnd beint hér á Íslandi man ég eftir að auglýsingar fóru beint ofan í fyrsta og jafnvel eina snertimarkið og ekki þótti það gott.

Einhvern vegin er það svo að mér finnst ég vera að skrifa fyrir fleiri þegar ég blogga en þegar ég skrifa á fésbókarvegginn. Er semsagt ekki kominn uppá að skrifa þar jafnóðum allt sem mér dettur í hug eins og sumir virðast gera. Andskotans kjaftæði. Betra er að hugsa sig aðeins um áður en hlutirnir eru settir á fésbókarfjandann. Það kemur samt ekki í veg fyrir að ég lesi ýmislegt þar. Óhemju spar er ég samt á lækin.

Þeir sem töluðu um þriðju heimssyrjöldina eða breytta heimsskipan fyrir nokkrum árum voru sagðir mála skrattann á vegginn. Á þessu ári virðist það samt alveg mega. Er það Tromparanum að kenna? Ekki veit ég það en hitt veit ég að margir Bandaríkjamenn (jafnvel Repúblikanar) óttast að fyrir tilverknað hans muni vegur USA í heiminum fara versnandi. Ef sá maður (Donald Trump) á að ráða öllu (eða næstum öllu) í samskiptum Bandaríkjanna við aðrar þjóðir er hætta á að illa fari. Annað hvort fyrir honum eða heiminum öllum. Skrítið að framtíð heimsins skuli að miklu leyti vera komin undir duttlungum eins manns.

Sjómannaverkfallið er líklega farið úr fréttaglugganum. Samt er það skrítið að senda skipin ekki per samstundis úr höfn og hraða í staðinn atkvæðagreiðslum um samninginn svona mikið. Ætla samt ekki að spá neinu. Ég hef líka oft(ast) rangt fyrir mér. Kannski sjómennirnir séu á móti því að ríkisstjórnin fái prik.

Veðrið er alltaf að skána. Þetta hlýtur að enda með ósköpum. Ætli veturinn gleymist ekki bara alveg. Sólin lætur samt ekki plata sig. Nú er farið  að birta mun fyrr en þegar verst lét. Febrúarhlýjindi eru varasöm. Jafnvel hættuleg. Krókusar og aðrir þöngulhausar gætu farið að kíkja uppúr moldinni. Og eru kannski byrjaðir.

IMG 2130Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband