2580 - Bergþóra Árnadóttir

Komum í smá Pollyönnuleik. Fyrir okkur gamlingjana er snjórinn ágætur. A.m.k. skárri en dumbungurinn sem verið hefur að undanförnu. Kannski getum við farið út eftir svona mánuð án þess að eiga á hættu að beinbrjóta okkur. Við getum sem hægast sett á okkur sólgleraugu svo við fáum ekki ofbirtu í augun vegna allrar birtunnar. Snjór breytist í vatn á einni örskotsstundu þegar rétti tíminn er kominn. Við höfum bara gott af því að moka snjó. Gerum hvort eð er aldrei neitt að gagni. Munur að fá að moka snjó. Verst að detta við moksturinn. Það getur nefnilega verið meiriháttar mál að standa um aftur. Jafnvel þó snjórinn sé mjúkur. Ef okkur tekst ekki að koma bílnum uppúr snjónum er það lúxusvandamál. Hver segir að við þurfum að eiga bíl? Ekki þurfum við að vinna eins og þeir sem ekki eru orðnir löggild gamalmenni.

Ömurlegt hlutskipti að geta ekki skrifað um annað en það sem efst er á baugi hverju sinni. Ég þverneita að gera það. Auðvitað er veturinn sem loksins er kominn til okkar undanþeginn þessari reglu. Held jafnvel að ég hafi lítið sem ekkert minnst á Trump í síðasta bloggi og ég ætla að reyna að stilla mig um að minnast á Óskarsverðlaunin eða Edduna í þessu.

Hugsanlega er mér óhætt (myndalaust og refsilaust) að minnast á að mér er tjáð að í gær hafi verið bolludagur. Í dag er víst sprengidagur og síðan öskudagur. Einu sinni voru þessir dagar sérstakir hátíðisdagar og kannski er það svo enn. A.m.k. hjá yngstu kynslóðinni. Fyrir okkur af eldri kynslóðinni minna þessir dagar okkur einkum á að nú er farið að glytta í vorið.

Að undaförnu hef ég verið að forvitnast um það hve margir hafa fengið verðlaun fyrir að deila á fésbókinni hinu og þessu. Þeir virðast vera fáir. Kannski er þetta ódýrasta auglýsing sem hægt er að fá.

Um daginn kveikti ég af einhverri rælni á sjónvarpinu. Þá var verið að rífast á alþingi. Svo þurfti sjónvarp allra landsmanna að komast að með sína dagskrá. Þá var slökkt á þessu tilgangslitla rausi í alþingismönnum og þegar ég kom næst að sjónvarpinu var verið að endursýna að ég held þátt um Bergþóru Árnadóttur. Man að hún og systkini hennar voru meðal helstu leikfélaga okkar eftir að brann og við bjuggum vesturfrá. Hún var dóttir Öllu Möggu og Árna smiðs og mun víst hafa verið móðir Birgittu Jónsdóttur pírata. Namedropping lokið. Söngur hennar hefur oft haft áhrif á mig og að þessu sinni var það einkum söngur hennar um dauða kattar sem keyrt var á sem mér fannst áhrifamikill.

Hefur alltaf þótt það heldur skrýtið, jafnvel neikvætt að fólk sem stundar morgunleikfimi (eftir útvarpinu) skuli vera með arma en ekki handleggi. Aðrir líkamspartar sýnist mér vera næsta eðlilegir.

IMG 2010Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband