2579 - Veður og (ó)færð

Stóra málið í stjórnmálaumræðunni um þessar mundir er náttúrulega brennivínsfrumvarpið. Hvers vegna er það svona stórt? Að mínum dómi er það einkum tvennt sem veldur því. Þingflokkarnir leyfa óbreyttum þingmönnum að hafa sjálfstæða skoðun á þessu máli. Þetta notfæra þeir sér og leggja mikla vinnu í það. Kannski er þetta smámál í rauninni því stjórnvöld munu alveg geta stjórnað áfengisfíkn manna þrátt fyrir samþykkt þess.

Hin hliðin er fíknihliðin. Öll fíkn er sjúkdómur. Ekki bara áfengisfíkn eða alkóhólismi. Heldur svo margt annað. Stjórnvöld geta haft heilmikla stjórn á allskyns fíknum þó hömlum á áfengissölu sé aflétt og sú sala tekin frá ríkinu. Óumdeilt er samt að aukið og bætt aðgengi að áfengi mun hafa aukna neyslu þess í för með sér alveg eins og bjórinn gerði á sínum tíma. Bjórsalan jók áfengisnotkun en bætti e.t.v. áfengismenninguna að einhverju marki. Ekki er samt víst að svo verði með annað áfengi. Ætti ég að taka afstöðu til þessa frumvarps mundi ég sennilega vera á móti því.

Reykingafíkn er á undanhaldi. E.t.v. er það vegna verðstýringar. Eiturlyfjafíkn er mikið böl. Hugsanlega vegna löggjafar um þau. Mikið er tekist á um hvort hún eigi að vera ströng eða mild (eða jafnvel engin) og sýnist sitt hverjum. Man vel eftir að þegar ég vann hjá Kaupfélagi Árnesinga fyrir svona 50 árum að verð á sígarettupakka og kílói af kjötfarsi var svipað. Tímakaup verkamanna einnig. Veit ekki hvort svo er nú. Man líka vel eftir að einu sinni kostaði brennivínsflaskan 170 krónur (gamlar).

La la land er fremur léleg kvikmynd. Þetta segi ég því mér skilst að Óskarsverðlaunin séu á næstu grösum. Allmargir búast við að þessi mynd verði talin sú besta þegar Hollywoodstjörnurnar fara að klappa hvor annarri á bakið. Hún er í mesta lagi svona la la eins og segir í nafninu. Hvernig stendur á vinsældum hennar þá? Ég held það sé einkum vegna þess að af dans- og sögvamyndum er hún fremur óvenjuleg og fjallar auk þess um kvikmyndagerð. Ekki nennti ég að horfa á alla myndina en flest er sæmilegt við hana og engir áberandi gallar. Ef þetta er það besta sem Hollywood getur gert, líst mér ekki á málið. Hvað sem öðrum finnst.

Nú er allt á kafi í snjó og lítið annað að gera en sitja við tölvuna. Áðan fór ég þó út og ætlaði að komast út í bíl, en vonlaust var að komast langt því ég átti meira að segja í vandræðum með að opna hurðina á bílnum. Sennilega hefði ég hvort eð er ekki komist langt þó mér hefði tekist að skafa af honum snjóinn. Kannski lagast þetta þegar líður á daginn.

Eflaust dytti mér í hug að skrifa eitthvað meira ef ég biði með að senda þetta frá mér en ég nenni því varla.

IMG 2031Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, það er athyglivert að reykingafíkn hefur minnkað mjög - og þó má kaupa tóbak í öllum sjoppum allan sólarhringinn.

En kannski fannfergið sé besta leiðin til að hamla því að fólk fari sér að voða, hvort sem er með tóbaki eða bjór.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.2.2017 kl. 12:36

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, tóbak er sennilega selt víða. Það er samt lítið sem ekkert auglýst og þar að auki ekki rekið í nefið á fólki. Um verðlagið veit ég ekki því ég er löngu hættur að reykja.  

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2017 kl. 21:10

3 identicon

Brennivínsfrumvarpið er fyrst og síðast smjörklípa, til að halda umræðunni í gangi við annað meðan verið er að koma fjármálakerfinu í eigu vildarvina og "ættarinnar"

Ellismellur 27.2.2017 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband