Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

2570 - Enn um Tromparann

Að því kemur fyrr eða síðar að tölvur ráða leyndardóminn um skákina. Hvort er hún jafntefli eða á hvítur að geta unnið ef báðir tefla eins vel og mögulegt er? Ég hef semsagt enga trú á því að þessi leyndardómur verði ráðinn á þann hátt að svartur eigi að geta sigrað. Tölvur eru mun betri í skák en mannfólkið. Á því er enginn vafi núorðið. Kannski þarf eitthvað töluvert að bíða eftir því að tölvur ráði þennan leyndardóm, en það er enginn vafi á því að þær munu gera það á endanum. Þangað til getum við vesæl mannkertin haldið áfram að leika okkur.

Vitanlega getur vel verið að mannfólkið verði búið að steypa sér í eilífa glötun (t.d. með kjarnorkusprengjum) áður en svo verður. Þá verður bara að byrja upp á nýtt. Að því kemur að þessi leyndadómur verður afhjúpaður. Þá munum við skákunnendur allir sem einn verða að éta ofan í okkur fullyrðingarnar um hve skákin sé einstök. Af hverju eru tölvurnar ekki löngu búnar að þessu? Lengi hefur þetta verið reynt. Í upphafi var árangurinn ekki góður. Satt að segja hlægilega lélegur. Núna er hann hinsvegar ágætur. Þó árangurinn sé aðallega sá að nú eru tölvurnar búnar að stinga mannlega hugsun af.

Ekki slær Tromparinn slöku við. Það er næstum allt fréttaefni sem hann gerir. Spurningin er bara hvað hann getur gert mikinn skaða áður en hann verður hrakinn úr embætti. Einn af aðalkostunum við bandaríska kerfið er að það er hægt. Mistókst að vísu með Clinton en samt er það hægt.

Varla er hægt að segja að byrjun Trumps í embætti lofi góðu. Óvinsælli forseti hefur varla tekið við embætti í Hvíta húsinu. Þetta má sjá af mörgu. Bæði skoðanakönnunum og ýmsu öðru. Annars er þessi heimspólitík hálfleiðinleg. Satt að segja er mér alveg sama hvað Tromparinn gerir. Hann á í mestu erfileikum með að ná til mín. Þetta held ég a.m.k. og áreiðalega margir fleiri. Kannski er það einmitt afskiptaleysið og meðvirknin sem hann treystir á. Eiginlega ættu allir að gera það sem þeir geta til að gera honum lífið leitt sem forseta. Pesónulega er mér skítsama um hann. Hann sóttist eftir þessu svo ekki þarf að hafa samviskubit þess vegna.

Halda auglýsendur virkilega að það borgi sig til langs tíma litið að auglýsa „allt að 90 % afslátt“ af hinu og þessu. Kannski tekst þeim að selja fáein stykki af einhverju sem þeir hafa lengi verið í vandræðum með að losna við, en framtíðin getur varla verið björt hjá þeim því flestir kúnnar hljóta að halda áfram að gera ráð fyrir „allt að 90 %“ afslætti. Ef ég væri verslunareigandi mundi ég forðast aulýsingar af þessu tagi.

IMG 2223Einhver mynd.


2569 - Menntamál o.fl.

Til stendur, að ég held, að stytta menntaskólana um eitt ár. Láta þessa menntun sem áður fyrr var talin til forréttinda nú í té á þremur árum í stað fjögurra. Ekki minnist ég þess að önnur rök hafi verið höfð fyrir þessari styttingu en fjárhagsleg. Auðvitað er sparnaður fólginn í því að kenna bara í þrjú ár í staðinn fyrir fjögur. Jú, eitthvað var minnst á að sumsstaðar í útlöndum væri menntaskólanám bara þrjú ár.

Fyrir utan að mjög vafasamt er að bera saman menntakerfi í ólíkum löndum er ég fjandi leiður á hinum sífellda söng um að við þurfum að samsama okkur sem mest löndunum í kringum okkur. Mér finnst nefnilega frábært að vera öðruvísi en aðrir. Sumir (kannski flestir) vilja þó umfram allt líkjast sem mest þeim sem hafa það ívið skárra en við sjálf.

Ekki ætla ég mér þá dul að segja sprenglærðum menntafrömuðum til syndanna að þessu leyti. Geri fastlega ráð fyrir að þeir hafi svör og gagnrök á reiðum höndum. Samt sem áður finnst mér íhaldsrökin meira sannfærandi að þessu sinni. Ávallt skal leitast við að halda í það gamla ef ekki er með sannfærandi rökum hægt að sýna frammá að hið nýja sé betra. Þar að auki veit ég ekki betur en hverjum sem er sé velkomið að láta skoðun sína í ljós.

Því minnist ég á þetta að mér finnst að menntamál hafi orðið útundan í hrunumræðunni á undanförnum árum. Börn eru mjög næm á líðan foreldra sinna og víst er að sum börn eiga um sárt að binda sakir hins svokallaða hruns.

Kommúnisminn í Sovétríkjunum stal u.þ.b. sjótíu árum af lífi flestra sovétborgara á síðustu öld. Þeir sem stóðu fyrir hruninu hér á Íslandi stálu u.þ.b. áratug af lífi flestra íslenskra barna. Vonandi eru þeir ekki stoltir af því.

Sé að þegar ég skrifa eitthvað á bloggið mitt þá koma alltaf einhverjir, oft margir, sama hvaða vitleysu ég læt frá mér fara. Ef ég aftur á móti skrifa ekki neitt þá koma sárafáir. Þetta sýnir mér tvennt. Annarsvegar að einhverjir hafa það fyrir reglu að gá hvort ég hafi bloggað eða ekki. Hinsvegar sýnir það mér einnig að þónokkrir séu búnir að stilla tölvuna sína á það að láta sig vita ef ég læt eitthvað frá mér fara. Þannig er þetta bara og ég hef ekki í hyggju að reyna að breyta því. Heldur ekki hef ég í hyggju að komast að því hverjir það eru sem láta svo lítið að lesa bloggið mitt eða hvaðan þeir koma.

Einhvern vegin er það þannig að þessa dagana hugsa ég mest um Trump bandaríkjaforseta og gang himintungla. Birtutíminn hér á norðurslóðum er mér einstaklega hugleikinn. Nú þykist ég t.d. vera búinn að reikna það út að einmitt núna fyrstu dagana í febrúar séum við nokkurn vegin hálfnuð á vegferð okkar frá vetrarsólstöðum til jafndægra á vori. Látum páskana liggja á milli hluta. Held að tímasetning þeirra sé reiknuð útfrá áætluðum tunglkviknunum o.s.frv. 

IMG 2246Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband