Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013
28.2.2013 | 17:37
1892 - Útvarp Saga
Kannski finnst sumum (mörgum) að það sem ég skrifa um stjórnmál sé tóm vitleysa. Við því vil ég bara segja það, að mér finnst ég megi alveg halda fram tómri vitleysu eins og aðrir. Hversvegna ekki? Ekki fæ ég styrk til þess frá ríkinu. Og ekki á ég útvarpstöð eða ræð yfir einni slíkri.
Ef þjóðin kýs yfir sig áframhaldandi spillingu og gróðabrall er fátt annað að gera en sætta sig við það. Vinstri stjórnin sem hér hefur setið í bráðum fjögur ár má eiga það að hafa að mestu komið okkur út úr erfiðleikunum sem Hrunið olli. Hún á þó allsekki að sitja áfram finnst mér. Ekki er heldur kominn tími til þess að sjálfstæðismenn stjórni hér öllu. Framsóknarflokkurinn var einu sinni sagður opinn í báða enda. Líklega er hann það ennþá. Raunar er eðlilegast að fjórflokkurinn allur fái frí. Á skoðanakönnunum er ekki að sjá að slíkt gerist. Ég vona þó að nýju flokkarnir nái nokkrum þingmönnum inn og hafi áhrif á næstu stjórnarmyndun.
Þetta sem sjálfstæðismenn eru að boða núna, að lækkaðir skattar auki skatttekjur getur vel staðist í ákveðnum tilfellum. Þó getur slík tilraunastarfsemi verið alltof dýru verði keypt. Það getur líka verið alltof dýrt að hækka skatta svo mikið að skatttekjur minnki. Það er bara svo flókið og mikið mál að gera tilraunir af þessu tagi. Mun heppilegra er að herma eftir nágrannaþjóðum sem hafa svipaða menningu eða einfaldlega stækka markaðssvæðið. (ESB).
Að sumu leyti er útvarp Saga orðið (orðin) afl sem reikna þarf með. Mér finnst merkilegt hvað Pétur Gunnlaugsson hefur náð langt. Ef hann getur verið í framboði með Þorvaldi Gylfasyni og Lýði Árnasyni þá er honum ekki alls varnað. Ég hélt alltaf að hann væri mikill hægrimaður, fyrrverandi framsóknarmaður og allt mögulegt.
Það þarf ekki lykilorð eða neitt slíkt til að skrifa athugasemd við bloggið mitt, enda nota óprúttnir andskotar sér það til þess að setja ómerkilega auglýsingalinka í kerfið. Athugasemdir hjá mér eru samt fremur fáar um þessar mundir. Stundum hafa þær þó verið alltof margar. Það er vandlifað í henni veröld.
Nú er Reykjavíkurskákmótinu lokið. Fór ekkert þangað að horfa á, en man að ég fylgdist vel með fyrsta Reykjavíkurskákmótinu sem var haldið í Lídó. Bjarni keppti á þessu móti og stóð sig ágætlega. Fékk 5 vinninga og vann m.a. Sævar Bjarnason með svörtu. Auðvitað segir það þeim sem ekki eru skákáhugamenn fremur lítið, en slíkum mönnum talsvert. Oft langar mig að skrifa um skák því það er sennilega það sem ég hef einna mest vit á. Sennilega er það samt fullsérhæft.
Fór á bókasafnið í dag og fékk meðal annars lánaða þar bókina Bobby Fischer comes home, sem er eftir Helga Ólafsson. Ekki tími ég að kaupa hana en las samt um daginn á kyndlinum mínum ævisögu Robert James Fischers eftir Frank Brady. Og fannst hún ágæt, þó hún væri allsekki gallalaus.
Sennilega er það of mikið fyrir mig að ætla mér að blogga næstum því á hverjum degi. Þó hefur mér gengið það furðanlega að undanförnu. Alveg er ég hættur að spara blogghugmyndir sem ég fæ. Í því efni læt ég hverjum degi nægja sína þjáningu. Ef mér dettur eitthvað sæmilegt í hug til að skrifa um þá læt ég það frekar flakka strax en að geyma mér það. Kannski er það þessvegna sem bloggið hjá mér er svona sundurlaust. Svo reyni ég að forðast að blammera aðra og kannski tekst mér það (stundum). Skyldi þessi markvissa og hnitmiðaða notkun á svigum vera orðinn partur af mínum stíl? (Ásamt spurningarmerkjunum sem ég gleymi oft ????)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
27.2.2013 | 08:35
1891 - Íhaldshrókur afleitur
Einu sinni var farið í mikið heilsuátak á Stöð 2, þegar ég vann þar. Í alllangri gönguferð um hálsana sem ég tók þátt í (kannski þeirri fyrstu og einu) var m.a. rætt um hve hollar gönguferðir væru og skömmu seinna var farið að ræða um Halldór Laxness. Þá segir María Maríusdóttir og mér er þetta alltaf mjög minnisstætt: Þið sjáið nú hvernig komið er fyrir honum. Hann var alltaf sígangandi út um allt á sínum yngri árum og nú getur hann ekki dáið. Um þetta leyti var Halldór lifandi, en að mestu kominn út úr heiminum.
Af einhverjum ástæðum dettur mér alltaf í hug vísa sem ég lærði fyrir ekkert mörgum áratugum þegar ég heyri minnst á landsfundarsamþykktir Sjálfstæðisflokksins. Ég þurfti ekki að heyra þessa vísu nema einu sinni til að læra hana og það bendir til þess að hún sé nokkuð góð. Svona minnir mig að hún sé, vel getur samt verið að einhver orð séu breytt:
Íhaldshrókur afleitur,
innan sviga graður.
Þrammar áfram þrefaldur
Þorsteinn kvæðamaður.
Hinir og þessir á fésbókinni eru öðru hvoru að segjast hafa samþykkt vinabeiðni mína. Samt er ég alveg viss um að ég hef aldrei beðið þau um fésbókarvinskap. Kannski er bókarskruddan að versna núna um þessar mundir. Konráð Ragnarsson sendi mér t.d. eitthvert myndband um daginn, sem ég opnaði ekki og nú heyrist mér á einhverjum að það hafi verið vírus þar. Samþykki helst ekkert af því sem að mér er otað á fésbókinni. Skoða ekki einu sinni myndir eða myndbönd ef þess er krafist að ég gerist í staðinn áskrifandi að einhverju appi. Kannski er ég að missa af einhverju voða sniðugu með þessu, en það verður bara að hafa það.
Enn held ég áfram að tala um fésbókina, enda er það tungunni (puttunum) tamast sem hjartanu er kærast. Eins og allir vita (ehemm) er ég vanur að klikka á fésbókartakkann á Moggablogginu þegar ég er búinn að blogga. Það þýðir (held ég) að þeir fésbókarvinir mínir sem eru að villast á bókardruslunni sjá að ég er búinn að blogga. Nú bregður svo við að í stað myndarinnar af mér sem venjulega fylgir slíku er birt mynd af blogginu mínu. Guð láti gott á vita. Kannski er fésbókinni bara að fara fram eftir allt saman.
Sé eingöngu litið á ályktanir landsfunda er hægt að álíta að Samfylkingin hafi færst nær miðju, Sjálfstæðisflokkurinn til hægri og frá miðjunni, Vinstri grænir nær miðju og Framsóknarflokkurinn lofað öllu fögru. En auðvitað er ekkert að marka slíkar samþykktir. Líklegt er samt að Sjálfstæðisflokkurinn komist í ríkisstjórn annaðhvort með Framsókn eða Samfylkingu. Ómögulegt er samt eins og sakir standa að fullyrða nokkuð um hver staða litlu flokkanna verður.að kosningum loknum. Eins er mjög óljóst hvernig þinginu lýkur og það mun geta haft áhrif á úrslit kosninganna.
Skattahækkanir eða skattalækkanir. Það er stóra spursmálið. Íslendingum hættir til að telja sig stórum ríkari en þeir eru í raun. Þessvegna er það þannig að margir þeirra auðmanna sem Sjálfstæðisflokkurinn eru alltaf að reyna að gera vel við eiga varla fyrir salti í grautinn. Sömuleiðis er ég skíthræddur um að stór hluti þeirra sem súpeldhúsin sæka (hvar eru þau nú aftur) hafi enga þörf fyrir þau.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2013 | 00:02
1890 - Tvær vísur
Einu sinni gerði ég tvær ágætar vísur. Þær voru svona:
Jörmungandur japlar mélin
járnin bryður ótt og títt.
Innst í brjósti urgar vélin,
Ólmast faxið mjúkt og sítt.
Gneistar fljúga úr spyrntu spori,
splundrast jörð og rignir mold.
Endi heims á atómvori.
Eldar brenna og sekkur fold.
Þetta má útskýra á ýmsa vegu og það hef ég reynt. Ég hef líka birt þessar vísur áður á blogginu mínu. (Jafnvel tvisvar) Þori eiginlega ekki að spyrja Gúgla að því.
Verst var að ég skildi þessar vísur afar illa. Þær hafa því sennilega verið ortar í gegnum mig. En ég trúi bara alls ekki á miðla. Sér í lagi ekki þá sem miðla skoðunum og fréttum milli ólíkra heima og ýmissa tíma. Þar að auki er það skoðun fræðimanna að Jörmungandur sé alls ekki hestur heldur miðgarðsormur. En það er nú aukaatriði.
Mestu máli skiptir að vísurnar lýsa hugsanlega kjarnorkustríði og gætu sem hægast haft heilmikið spádómsgildi. Allavega eru margir áratugir síðan ég gerði þessar vísur og þær hafa verið mér minnisstæðar allar götur síðan. Og nú óttast fólk jafnvel meira mengun en kjartorkustríð. Kannski þessi draugur hafi farið tímavillt.
Lækka skatta, auka alla þjónustu og minnka útgjöld ríkisins. Þetta er í stuttu máli sagt það sem sjálfstæðismenn segjast ætla að gera auk þess að reyna að losna við illfyglisdrauginn ESB frá ströndum landsins. Hverju lofa aðrir? Það á eftir að koma í ljós. Auðvitað er ekki mikið að marka þetta og allir vita það. Líka þeir sem samþykkja. Samþykktir landsfunda eru bara samþykktir sem gerðar eru á landsfundi. Nema ef svo skyldi vilja til að einhver flokkur fengi hreinan meirihluta. Það væri meirháttar áfall, því þá þyrfti að framkvæma a.m.k. eitthvað af landsfundarsamþykktum.
Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyna svo að láta líta svo út að allir sem samþykkja ósköpin séu með gullfiskaminni og óttalega lítið á milli eyrnanna. Það er ímynd flokkanna og reynslan af þeim sem skiptir mestu máli í kosningum. Kosningaáróðurinn skiptir afar litlu. Reynslan af þeim sem stjórnað hafa undanfarið og þeim sem gerðu það á undan þeim er ekki góð. Þessvegna er betra tækifæri núna en oftast áður til verulegra breytinga.
Tvö mál ber hæst um þessar mundir: ESB og nýja stjórnarskrá. Þó sú stjórn sem nú situr hafi ætlað sér að koma þeim málum (ásamt mörgum öðrum) í gegn á kjörtímabilinu hefur það alls ekki tekist. Verulegur meirihluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu í ESB svo nokkuð öruggt er að ekki verður af því í bili. Aftur á móti bendir margt til að verulegar breytingar á stjórnarskránni njóti talsverðs fylgis. Hvernig alþingi afgreiðir það mál kann að hafa verulega þýðingu fyrir smáflokka þá sem risið hafa upp að undanförnu. Þessvegna má gera ráð fyrir að það verði fyrst eftir þinglok sem sjáist sæmilega í skoðanakönnunum hvernig atkvæðin skiptast á milli þeirra. Engar líkur eru til að óánægja ýmissa hópa í þjóðfélaginu nái lengra en til kosninganna í apríl.
Þetta er yfirdrifinn skammtur af stjórnmálum í bili. Þeir sem þurfa meira verða bara að leita að því annarsstaðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2013 | 11:44
1889 - Vísa eða staka (ekki greiðslukort)
Oft er mínum innri strák
ofraun þar af sprottin.
Í mér tefla einatt skák
andskotinn og Drottinn.
Ég gerði alls ekki þessa vísu, enda er hún alltof góð til þess. Man samt ekki fyrir mitt litla líf eftir hvern hún er. Fésbókin og Moggabloggið togast oft á um hugsanir mínar. Oft reyni ég að setja þær á blað ef mér finnst þær vera sæmilega frumlegar. Frumlegar finnst mér þær vera ef þær eru ekki greinilega bergmál að hugsunum einhverra annarra. Auðvitað eru þær það samt alltaf, hvort sem maður gerir sér grein fyrir því eða ekki. Þegar ég er búinn að orða þessa (frumlegu) hugsun þá hefst oft togstreitan um hvort ég eigi að setja hana á bloggið eða á fésbókina, hugsanlega að nota hana í samtölum eða láta hana bara róa. Úrslitin geta orðið allavega. (Auk þess sem margar séníalar hugmyndir komast aldrei á blað) Fésbókin hefur stundum vinninginn, ef hætta er á að hún (hugsunin flotta) úreldist fljótlega.
Stóri gallinn við að blogga einkum um fréttir og stjórnmál er að næstum allt sem maður skrifar (stundum eftir ítarlega umhugsun) verður gjarnan úrelt langt um aldur fram. Svo getur alltaf verið að maður hafi misst af safaríkustu kjaftasögunum og ekki tekið tillit til þeirra. Ég er samt steinhættur að lesa fréttir og lignende (líklega dösnskusletta) allan liðlangan daginn af ótta við að missa af einhverju.
Mín helsta martröð er að ég skrifi alltof mikið og enginn nenni að lesa það sem ég skrifa. Þannig séð er Moggabloggsteljarinn minn besti vinur. Kannski miða ég skrif mín alltaf mikið við hann. Þetta þarf ég að athuga betur.
Dagar Ólafs Stephensen á ritstjórastóli Fréttablaðsins eru sennilega taldir. Jón Ásgeir Jóhannesson mun finna aðferð til að losna við hann. Kannski verður hann ekki beinlínis rekinn, en áður en varir mun hann hætta ritstjórastörfum þar. Hugsanlega þó ekki fyrr en eftir kosningar. Ástandið núna er nefnilega viðkvæmt. Eigendavald fjömiðlasamsteypa á borð við 365-miðla þarf að vera dreifðara. Annars kann að vera að JÁJ sé bara að tryggja sig fyrir þeim kosningaúrslitum sem hann óttast mest. Þá gæti verið ágætt að hafa sinnast við Ólaf og vel er hugsanlegt að hann gæti fengið inni hjá Morgunblaðinu. Davíð fúlsar varla við slíkum gullhænum. Hann (eða pabbi hans a.m.k.) er fyrrverandi sjálfstæðismaður.
Fréttir af Landsfundi Sjáfstæðisflokksins benda til harðari andstöðu við ESB innan fundarins en áður var. Ekki er víst það hafi neina þýðingu útávið, því allsekki var að skilja að ekki væri hægt að semja um það. Ég hef áður bent á að Sjáfstæðisflokkurinn getur hvenær sem er breyst í einlægan fylgisflokk ESB og mun á margan hátt eiga miklu aðveldara með það en vinstri grænir sem gerðu það hálfnauðugir því þá langaði svo í stjórn.
Ef samið verður um einhverja frestun á stjórnarskránni til næsta þings er langlíklegast að fjórflokkurinn muni halda sínu kverkataki á þjóðinni og Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn mynda næstu stjórn. Þar með verða völd fjórflokksins tryggð a.m.k. til næstu fjögurra ári og sefnan sett beint á aðild að ESB.
Flest blogg eru orðljót og svarthvít (aðallega svört) framtíðin þar. Ekki er bent á margt sem betur má fara, en þeim mun meiri er gráminn og svartþokan. Sem betur fer lesa þau ekki margir enda held ég að fáir fái borgað fyrir þau. Kannski eru þau samt áhrifamikil þegar allt kemur saman. Mesta ánægjan er fólgin í að skoða teljarann og sjá hve margir hafa glæpst á að lesa bullið. Á fésbókinni virðist mér að menn telji lækin og deilingarnar. Menn eru samt misduglegir við að gera slíkt fyrir aðra. Sumir virðast aðallega nota nota lækin sín á útlendar myndasíður. - Sko - þarna kemur útlendingafóbían í ljós hjá mér. Það er erfitt að varast þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2013 | 16:22
1888 - Ármann (ekki á alþingi)
Þetta er víst blogg númer 1888 og það er ágætistala. Nenni samt ekki að gúgla hvað hafi gerst á því ári. Einu sinni fór ég með syni mínum og reyndi að telja útgefanda trú um að sniðugt væri að gefa út bók með merkisatburðum hvers dags á árinu, en slíku hafði ég lengi safnað. Þetta var löngu áður en gúglíð varð eins vinsælt og það er núna. (Ætli vinsælasti leitarvefurinn þá hafi ekki verið AltaVista.) Svo er víst orðið hræódýrt núna að gefa út bækur. Hugmyndin var svo notuð nokkru seinna enda hafði ég engan einkarétt á henni.
Það er ekki létt verk að skrifa langt mál um ekki neitt. Þessu leikur Ármann Jakobsson sér samt að (Hann er bróðir Kötu Gluggaskrauts já, ég er allur í ættfræðinni enda kominn á þann aldur) Ármann tvíburi (mei pakk, ég er hættur) leikur sér semsagt að þessu. Ég var að enda við að lesa langa (frekar allavega) grein um mislynda strætisvagnabílstjóra eftir hann. Honum tókst meira að segja að lauma þeirri hugmynd að lesandanum að hann hefði ekki verið lengur að þessu en sem nam einni stuttri strætóferð.
Þetta gæti ég ekki. Hefði kannski getað lengt málsgreinina pínulítið með að segja að greinin væri á Smugunni og jafnvel linkað í hana en þá er líka upptalið. Mér finnst yfirleitt ekki taka því að skrifa nema eina eða tvær málsgreinar um sama efnið.
Hef ég bara svona lítið að segja? Já, sennilega er það málið. Ég er samt búinn að venja mig á að vera sískrifandi. Aðallega á morgnana. Kannski væri réttast að bregða sér í einsog eina hringferð með strætó. Veðrið er samt ekki sérlega hagstætt fyrir slíkt útstáelsi. Fer sennilega bara frekar í bað. Það er oft inspírerandi.
Sammála Jónasi Kristjánssyni um að óheppilegt sé að menn eins og Jón Ásgeir Jóhannesson eigi öflugar fjölmiðlakeðjur. Er samt ekki hræddari við það en margt annað. Slíkar keðjur hafa engin sérstök áhrif á mig. DV-keðjan ekki heldur, hvað þá Mogga-keðjan. Svo held ég og vona að sé um sem flesta aðra. En Jónas trúir því að fólk sé fífl og að öflugar fjömiðlakeðjur hafi áhrif lagt ofaní kjörkassana. Þar er ég ekki sammála honum og heldur ekki um gullfiskaminnið ef svo vill til að fólk sé ósammála honum.
Já, og meðal annarra orða, ég held að Pistorius sé sekur og reyndar hélt ég allan tímann sem beinar útsendingar tíðkuðust frá þeim réttarhöldum að O.J. Simpson væri sekur líka. Svona læt ég fjölmiðlana plata mig.
Samkvæmt nýjustu rannsóknum hefur komið í ljós að gullfiskar hafa afburða gott minni og fá aldrei Alzheimer. Svo rammt kveður að þessu að búast má við að einhverjir verði í framtíðinni að endurskoða uppáhalds-replikkurnar sínar. (hér vantar link)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2013 | 01:16
1887 - Auglýst eftir fyrirsögn - vantar eitt stykki
Hefur dottið í huga að með gluggskrautstali sínu sé Dvíð að mana andstæðinga sína í Sjálfstæðisflokknum til að hrófla við sér. Ýmsa langar til þess en alls ekki er víst að úr því verði. Augljóst er nú orðið að vantrauststilllaga Þórs Saari var bara sýndarmennska og í raun furðulegt að formenn stjórnarflokkanna skyldu undireins hoppa á hana. Læt ég svo útrætt um stjórnmál í þessu bloggi, þó hugsanlegt sé að eitthvað gerist næstu daga.
Veðrið er eiginlega miklu áhugverðara en pólitíkin. Haldist þetta veðurfar framá vor hér á Reykjavíkusvæðinu er þetta alveg einstakt. Það leiðir auðvitað hugann að loftslagsmálunum. (sem auðvelt er að líta á sem mál málanna) Þar held ég að margir eftirtektarverðir atburðir eigi eftir að gerast á næstu árum. Áreiðanlega munu þeir svartsýnustu á því sviði ekki hafa rétt fyrir sér og ekki heldur þeir bjartsýnustu. Svartsýni í þeim efnum tel ég vera að álíta að allt sé á leiðinni til andskotans og bjartsýni að þetta reddist allt einhvern veginn eins og vant er. Mér finnst ég heldur vera á leiðinni frá bjartsýni til svartsýni í þeim málum.
En ekki má láta loftslagsmálin eða stjórnmálin trufla sig í alvöruleysinu. Við erum ekkert annað en landið og sagan. Guðstrúin og allt það bull er bara fyrir krakka. Smákrakka jafnvel. Vísindakirkjan er það sem koma skal. Segi bara svona, af því ég var að lesa um einhverja stelpu sem er afkomandi Ron Hubbards (eða a.m.k. eitthvað skyld þeim sem stjórnar þar núna - Hubbard er víst dauður) eftir því sem mér skildist og slapp við illan leik frá Vísindakirkjunni sem náð hefur heljartökum á mörgum. T.d. Tom Cruise og John Travolta. Gott ef páfinn var ekki hallur undir hana líka.
Alltaf eru bloggin að styttast hjá mér. Þetta er í stysta lagi og ég er eiginlega bara að reyna að lengja það svolítið með þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2013 | 23:34
1886 - Að ná árangri
Hvernig fer ég að því að passa að tölurnar yfir bloggin séu oftast réttar? Yfirleitt geri ég það svona: Þegar ég er búinn að setja upp mitt síðasta blogg séra (share) ég það svo tilkynning um það birtist á fésbókinni síðan loka ég vafranum og fer í Word-bloggskjalið mitt og bæti einum við töluna sem þar er og þurrka út það sem ég var að setja inn. Stundum byrja ég svo strax á næsta bloggi en ekki alltaf.
Með tilliti til vantrauststillögu Þórs Saaris sem sagt var frá í fréttum í kvöld (miðvikudag) má segja að líkur aukist á því að tíðinda sé að vænta frá alþingi og e.t.v. ríkisstjórninni um næstu helgi. Annars er stjórnmálaástandið svo skrýtið núna þessa dagana að ég er að hugsa um að tjá mig ekkert frekar um það.
Með einsýni er hægt að ná árangri, en hvað er árangur? Er það árangur að vera getið í fjölmiðlum? Er það árangur að skara framúr í einhverri íþróttagrein þó hún sé stunduð af fáum? Er það árangur að skara framúr í skóla þó manni þyki hann óhemju vitlaus? Er það árangur að eiga marga vini og hugsa meira um þeirra hag en sinn eigin? Er það árangur að verða gamall? Er það árangur að eignast börn og barnabörn? Er það árangur að missa ekki vitið? Og er það einsýni að vanrækja allt nema eitthvað ákveðið atriði og einblína á það? Þetta eru spurningar sem hver og einn verður að svara fyrir sig.
Flestir reyna að ná árangri á sem flestum sviðum og að skilgreina svo sviðin eftir þörfum. Síðasti árangur flestra er dauðinn sjálfur.
Er árangur stjórnvalda fólginn í því að sjá til þess að ekki verði gerð uppreinsn? Halda dauðhaldi í völd sín og reyna að auka þau? Er það árangur að láta stjórn hanga út kjörtímabil þó auðséð sé að hún valdi meiri skaða en gagni? Er það árangur hjá stjórnarandstöðu að tefja mál sem mest og reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að mál, sem stjórnin leggur mikla áherslu á að koma í gegn, geri það?
Nú er ég loksins búinn að lesa Stephen King bókina Under the Dome í kyndlinum mínum. Man að ég las fyrir löngu bók eftir hann sem heitir The Stand. Þessar bækur eru hnausþykkar og ekki auðvelt að pæla í gegnum þær því hann skrifar dálítið einkennilegan stíl og notar mikið af sjaldgæfum orðum. Hugsunin í þeim er frumleg og tæknilegar lýsingar hans á ýmsu sem fyrir kemur eru stundum örlítið vafasamar en samt alls ekki út í loftið. Hann er alltaf áhugverður þó hann sé oft óþægilega margorður um suma hluti. Bók þessa fékk ég á sérstöku kynningarverði sem mig minnir að hafi verið 1 eða 2 dollarar. Venjulegt verð á þessari bók er $ 14,56.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.2.2013 | 23:41
1885 - Verðtrygging
Á fésbókinni skrifar einhver (framsóknarmaður??) um að hann telji að eignamyndun hafi átt sér stað hjá sér, varðandi íbúðarhúsnæði, þó skuldin við íbúðalánssjóð sé hærri nú en upphaflega, vegna þess að húseignin sé miklu meira virði en hún var þegar hann keypti hana. Þessu er ég sammála. Þó mikið sé andskotast útí verðtrygginguna þessa dagana og látið í veðri vaka af pólitíkusum að hún sé upphaf og endir alls ills er hún í mínum huga aðeins annað nafn á vöxtum. Þegar verðtryggingunni er hallmælt sem mest er venjulega verið að deila á framkvæmd hennar og vísutölubindinguna. Pólitíkusar hafa haldið því fram að við hvorugu megi hrófla en það er mesti misskilningur og íhaldssemi.
Hingað til hefur munurinn á innláns og útlánsvöxtum (sem er mikill hér á landi) verið notaður til að styrkja bankana. Sú styrking var auðsjáanlega orðin alltof mikil í hruninu. Þetta er auðvelt að sjá eftirá. Misrétti í framkvæmd verðtryggingarinnar var einkum notað til að styrkja lífeyrissjóðina sem aftur voru látnir tryggja ríkisvaldinu möguleika á að hafa skatta tiltölulega lága með því að taka frá þeim skylduna til að greiða mannsæmandi ellilaun. Með því að stjórnvöld tryggðu síðan mikið eftirlitsleysi gátu útrásarvíkingar fengið aðgang að ódýru lánsfjármagni. Svo fór auðvitað sem fór og allt varð á skammri stund vonlaust.
Að halda því fram að setja eigi lög sem banna verðtryggingu er eingöngu að pissa í skóinn sinn. Það er vísitölubindingin sem er vitlaus og framkvæmdin á verðtryggingunni kann að vera það líka. Merkilegt þykir mér að það eru oft sömu stjórnmálamennirnir sem halda því fram að allt sé ómögulegt hjá ESB (Icesave o.fl.) og vilja svo nota einhverja tilskipun þaðan til að losna við verðtrygginguna og útvega sér um leið fáein atkvæði.
Undanfarið hafa einhver Jón Geir og María Ýr stundað það að setja linka á ómerkilegar auglýsingar í athugasemdakerfið hjá mér og ekkert annað. Ekki veit ég hver þau eru og hef engan áhuga á að vita það. Aðallega setja þau óorð á þessi nöfn og kannski eru það ekki einu sinni lifandi verur sem gera þetta. Ef þessu heldur áfram og versnar kannski, mun ég að sjálfsögðu kæra þetta til Moggabloggsguðanna. Þeim ber skylda til að sjá um að svona lagað gerist ekki.
Kannski er helsti gallinn á blogginu mínu að það fjallar ekki um neitt ákveðið efni, heldur fer það sem ég blogga um bara eftir því á hverju ég hef áhuga í það og það skiptið. En ég hugsa bara svona og get ekki að því gert. Þykist vera allgóður stílisti en oft er það svo að ég finn að ég veit ekki nærri nógu mikið um það sem ég leiðist útí að skrifa um.
Fullyrðingar Jónasar Kristjánssonar og margra fleiri um að fólk sé fífl og tal um gullfiskaminni og þess háttar, ber vott um hroka. Mér finnst ég vera laus við þesskonar hroka en allsekki er víst að allir samþykki það. Upplifun hvers og eins er sannleikur hans og staðreyndir skipta oft litlu máli. Með því að forðast umtal um þær hliðar mála sem vafasamar eru má oftast leiða talið að öðru. Mín skoðun er einfaldlega sú að fólk sé ekki fífl. Hæfileikar hvers og eins beinast samt að sjálfsögðu í mismunandi áttir og fífl eru til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.2.2013 | 00:07
1884 - AMX
Þann níunda desember 2008 hef ég skrifað eftirfarandi:
Vefmiðlar spretta upp eins og gorkúlur á haugi um þessar mundir. AMX er einn kallaður. Ekki hef ég hugmynd um fyrir hvað þessir stafir standa. Frá stofnun hefur þessi vefur verið fremsti fréttaskýringarvefur landsins eftir því sem sagt er í hausnum. Þetta er skrýtinn vefur og ekki gott að átta sig á honum. Hægrisinnaður er hann þó örugglega og mótfallinn EU-aðild. Meðal fyrstu pistlahöfunda á þessum óviðjafnanlega fréttaskýringarvef má nefna Jónas Haraldsson, Styrmi Gunnarsson, Óla Björn Kárason, Björn Bjarnason og Bjarna Harðarson.
Við þetta er litlu að bæta. Kjaftasögurnar þar eru kallaðar fuglahvísl og með því er sennilega verið að vitna í þýska talsháttinn Das hat mir ein Vogel gesagt. Annars kann ég afar lítið í þýsku og kannski er þetta tóm vitleysa hjá mér.
Enn er fuglahvíslið á AMX við sama heygarðshornið. Sá þar eftirfarandi um daginn þó ég lesi bullið þar afar sjaldan. Þar var verið að vitna í forstjóra Landsvirkjunar og í hugleiðingum AMX er sagt að hann hljóti að hafa skipt um skoðun. (Eins og hann megi það ekki.)
Við teljum að fjármögnun í gegnum fjármálastofnanir muni ganga eftir á næstu vikum ef tekst að ljúka Icesave-deilunni. [...] Út frá hagsmunum fyrirtækisins tel ég það afar jákvætt að leysa þetta Icesave-mál. Þetta mun örugglega auðvelda okkur fjármögnun, og þá ekki bara fyrir Búðarháls heldur fyrir öll önnur verkefni sem við erum með í skoðun. Lausn þessa máls hefði líka jákvæð áhrif á lánshæfismat fyrirtækisins og íslenska ríkisins sem myndi hafa jákvæð áhrif á aðgengi að fjármagni fyrir öll íslensk fyrirtæki.
Samkvæmt skoðun AMX (eða fuglanna þar) er EFTA-dómurinn semsagt ekki lausn.
Í sannleika sagt held ég ekki að Framsóknarflokkurinn eigi sér viðreisnar von í komandi kosningum og Sjálfstæðisflokkurinn vinnur varla þann sigur sem flokksmennirnir vonast eftir. Fráfarandi stjórn á heldur ekkert gott skilið og fær það nánast örugglega ekki. Nýju flokkarnir hljóta þá að vera helsta vonin. Hvernig þeir skipta atkvæðunum á milli sín á alveg eftir að koma í ljós. Annars eru stjórnmálin svo óljós að ég ætla að hætta að hugsa um þau núna.
Samkvæmt frétt http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/02/18/vid_aettum_ad_eiga_bestu_skolana/ sem ég var að lesa á mbl.is fá 27,5% grunnskólanemenda á Íslandi sérkennslu. Ekki veit ég hvernig þessi tala er tilkomin en mér finnst hún ansi há. Gefið er í skyn í greininni að vel væri hægt að minnka þetta í svona 5% og mér þætti gaman að vita hvort reyndir skólamenn eru sammála þessu. Sé svo er augljóst að núverandi grunnskólastefna er stórgölluð og mikil þörf á að lagfæra hana. Kannski er þetta bara innlegg í Katrínarsönginn í Hádegismóum en ég vil samt ekki trúa því að komandi kosningar komi þarna við sögu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.2.2013 | 14:19
1883 - Næsta hrun
Ekki réði Moggabloggið við arabiskuna (sem var bara örfáar línur hjá mér) heldur þýddi hana á eitthvað óskiljanleg og óralangt hrognamál, sem kannski er hægt að þýða á arabisku aftur, en sleppum því. Hinsvegar kom myndin af loftsteininum (þó stolin væri) fram á réttum stað.
Næsta hruni er spáð svona um 2016 eða 2017. Verði varlega farið verður það hrun kannski fyrst og fremst gengisfelling. (Líklega hrikaleg, en ekki almennt bankagjaldþrot.) A.m.k. reikna ég ekki með að reynt verði í alvöru að afnema gjaldeyrishöftin fyrr en þá eða seinna. Líklega verður verðtryggingunni líka breytt eitthvað um það leyti, en örugglega ekki afnumin. Lífeyrissjóðirnir gætu líka orðið að alvörufyrirtækjum um líkt leyti.
Já, ég er strax farinn að gera ráð fyrir Sjálfstæðisflokknum í stjórn á næsta kjörtímabili. Allt þetta gæti svosem skeð í lok þess. Sérframboðin eru að verða of mörg og fjórflokkurinn fitnar á fjósbitanum. Samt held ég að hann fái ekki jafnmikið fylgi og hann er vanur.
Les orðið fátt annað en bækur sem eru í kyndlinum mínum. Er með afbrigðum seinlesinn. (Les semsagt hægt - hef aldrei getað tamið mér hraðlestur og öfunda þá sem það geta) Jónas Kristjánsson er þó alltaf læsilegur. Talar um skynsama afsögn. Það finnst mér rangt. Afsagnir eru hvorki skynsamar né vitlausar. Skynsamlegar geta þær samt verið. Á því er munur. Annars skrifar Jónas langmest um stjórnmál. Og svo auðvitað um veitingahús og hesta. Finnst að hann ætti að blogga um fleira.
Kemur ekki á óvart að um 2500 Íslendingar hafi lækað á fésbókinni á stuttum tíma einhverja bölvaða vitleysu eins og sagt var frá í vefmiðli. Að mínu áliti er það einn stærsti gallinn við fésbókina hve margir klikka þar á næstum allt sem hægt er að klikka á og hanga þar tímunum saman og lesa, skoða og áframsenda einhverja tóma þvælu. Þetta er þeim mun verra sem þessi miðill er mjög vel gerður og gæti verið flestum til mikils gagns. Kannski er þetta þó það sem auglýsendur treysta á og mesti styrkur hans í raun. Engum vafa er bundið að honum er vel sinnt og margir nota hann skynsamlega, mjög lítið eða jafnvel hreint ekki neitt.
Gaman væri að vita hve umfangsmikil stjórnun vefsins er, bæði hér heima og á alþjóðavisu. Pólitísk rétthugsun telur hann ræna notendur persónuleikanum og gera allt og alla að söluvöru. Þeim er sennilega flestum alveg sama um það. Sem tímaþjófur og ruslakista er hann þó verri og ber að varast mjög.
Bjarni Benediktsson vill fara eftir samþykktum landsfundar Sjálfstæðisflokksins jafnvel þó hann sé á móti þeim sjálfur. Það hafa formenn Sjálfstæðisflokksins ekki gert hingað til. T.d. vill Bjarni helst af öllu ganga í ESB, það vita allir. Nú er hann að reyna að búa svo um hnútana að samþykkt verði á landsfundinum að taka upp nýja mynt einhvertíma í framtíðinni. Sennilega til þess að hægt verði að túlka það þannig að hugsanlegt sé að ganga í ESB eins og allmargir sjálfstæðismenn vilja. Annars er lítið að marka stjórnmálalega spádóma hjá mér þó auðvelt sé að búa slíkt til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)