Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

1882 - Stjórnarskráin og mynd af loftsteininum yfir Rússlandi

loftsteinnMyndin hér fyrir ofan (ef mér tekst að setja hana þar sem hún á að vera) er einhver besta myndin sem ég hef séð að þeim einstaka atburði sem átti sér stað í gærmorgun yfir Rússlandi. Nánari og betri umfjöllun um þetta er eflaust hægt að finna víða á netinu. Charmaine Butler visar t.d. á facebook-síðu sinni á ágæta umfjöllun. Þetta er sett fyrir ofan umfjöllunina um stjórnarskrán sem ég var búinn að skrifa í gærkvöldi en átti eftir að setja upp á bloggið mitt.

Þá er víst komið að stjórnarskránni. Ekki er ég neinn sérfræðingur í slíku en mikilvægasta ákvæðið í henni virðist mér vera hvernig á að breyta henni ef sú staða kemur upp, sem hún áreiðanlega gerir.

Eins og nú er þarf að samþykkja þá breytingu (þær breytingar) á tveimur þingum og þingkosningar að vera á milli. Árið 1959 var kjördæmaskipunin (gamla) tekin upp. Þá var stutt sumarþing og síðan kosið aftur. Eftir það hefur stjórnarskránni nokkrum sinnum verið breytt án þess að mikla athygli vekti, enda hefur henni þá aðallega verið breytt til hagsbóta fyrir fjórflokkinn.

Samkvæmt því stjórnarskrárfrumvarpi sem nú er verið að ræða um er hægt að breyta stjórnarskránni á einu þingi og síðan þarf að staðfesta þá breytingu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Auðvitað eru mörg önnur atriði í nýju stjórnarskrárdrögunum mjög tilraunakennd. Að óttast allar breytingar er íhaldssemi. Feneyjanefndin leggur til að breyta aðeins þessu ákvæði varðandi breytingarnar að þessu sinni en bíða með aðrar breytingar. Hugsanlegt er að um það náist einhverskonar samkomulag.

Mér finnst samt ástæðulaust að bíða lengur. Það er búið að ræða fram og aftur um stjórnarskrárbreytingar og nýja stjórnarskrá undanfarin ár og áratugi. Alltaf verða einhver mál sem hugsanlegt er að halda áfram að ræða, en einhverntíma verður að hætta.

Ef þetta frumvarp er ómögulegt verður það ekki samþykkt af næsta þingi. Það er alveg áreiðanlegt. Þannig getur það vel orðið mikilvægasta spursmálið í kosningunum í vor hver afdrif stjórnarskárfrumvarpsins verða þá. 

البرنامج، فإنك تمنح موافقتك على كل بنود هذه الاتفاقية.  إذا لم توافق على كل البنود، فلا تقم بتنزيل أو تثبيت أو استخد البرنامج، وإذا أمكن، قم بإعادته على الفور إلى المكان الذي اشتريته منه لاستعادة قيمة الشراء. إذا كان البرنامج متضمناً مع الجهاز الذي قمت بشرائه، فيجب عليك إعادة حزمة الجهاز/البرنامج كلها لكي تستعيد قيمة الشراء.  في حالة الحصول على البرنامج إلكترونياً، فانقر فوق "لا أوافق" لإيقاف عملية التنزيل.

Það er alltaf gaman að skreyta mál sitt með einhverju svona. Því miður hef ég enga hugmynd um hvað þetta þýðir. Veit bara að þetta er Times New Roman fontur og 12 punktar.

Á sunnudaginn kemur á víst að halda sýningu í húsinu hans Kristins Péturssonar í Hveragerði. Ég man vel eftir Kristni. Okkur unglingunum þótti hann jafnvel skrýtnari en listamenn eru venjulega.

Ekki gat ég alveg staðið við það að ræða bara eitt mál í blogginu, en tilraun var það og tókst næstum því.

IMG 2542Víkin.


1881 - Feneyjanefnd o.fl.

Minnir að það hafi verið Svarthöfði í DV sem stakk uppá því að Samfylkingin og Björt Framtíð „væru að laga sig að lýðskruminu“ með því að vilja hætta að rífast. Það er alveg rétt hjá honum. Það er eðli krata að vera hægrisinnaðir. Alveg einsog það er eðli komma og annarra sem eru langt til vinstri að láta alltaf eins og bestíur útí félaga sína. Þannig er það á Íslandi og hefur löngum verið. Framsóknarmönnum er að mörgu leyti vorkunn. Helst vilja þeir bæði éta kökuna og eiga hana. Sjálfstæðismenn vilja bara græða á daginn og grilla á kvöldin. Ef marka má skoðanakannanir hafa hægri menn unnið áróðursstríðið og kosningarnar virðast þar með orðnar óþarfar. Kannski væri best að fresta þeim. Sennilega þarf fólk samt að smakka á LÍÚ-kökunni til að finna hve vond hún er.

Margir segja að „fólk sé fífl“ og hafi gullfiskaminni. Oftast er það vegna þess að það kýs ekki rétt samkvæmt áliti þess sem því heldur fram. Það er jafnan auðvelt að finna dæmi sem styðja slíka skoðun. Hjarðhegðun getur verið áberandi í mörgu. Samt sem áður er ég alveg mótfallinn því að segja að „fólk sé fífl“. Þó þau séu auðvitað til. Þeir sem mikinn áhuga hafa á stjórnmálum finnnst oft ergilegt hve lítinn áhuga fólk, sem sannarlega virðist með fullu viti,  hefur á þvílíku. Þátttaka í kosningum hér á landi er samt mikil. Þó fólk kjósi ekki eins og viðkomandi líkar og láti það, sem hann álítur fagurgala og fals eitt, hafa áhrif á sig og kjósi samt, er algjör óþarfi að láta svona. Flestir sjá auðveldlega í gegnum lygina og kjósa eins og þeim sýnist réttast. Segja jafnvel ekki frá því hvernig þeir kjósa. Það er skynsamlegt. Þannig tryggir fólk sér einhvern frið fyrir þeim sem vilja hafa áhrif á það. Fjarri fer því að stjórnmál séu allt, þó auðvitað séu þau mikilvæg.

Það hverja meðhöndlun stjórnarskrármálið fær á endanum hjá alþingi mun hafa gífurleg áhrif á alþingiskosningarnar í vor. Þingmenn eru í miklum vanda og ég vorkenni þeim það ekki. Þetta vildu þeir. Þó sú ákvörðun sem á endanum verður tekin þar muni e.t.v. ekki hafa stórkostleg áhrif á niðustöður skoðanakannana undireins, mun hún ráða miklu um hvernig straumarnir liggja fram að kosningum. Ég ætla ekkert að spá um hvernig sú glíma fer, enda sér það enginn fyrir með neinni vissu.

Ég ætlaði víst að skrifa um stjórarskrármálið núna en hef lítið komist til þess. Ég er samt á öðru máli en svokölluð Feneyjanefnd (sem enginn kannaðist við fyrir hálfum mánuði) varðandi breytingar. Hún virðist óttast mjög þjóðaratkvæðagreiðslur, en það geri ég ekki. Spáir líka allskyns vanræðum varðandi forsetann, sem ég vil þrátt fyrir allt að verði áfram þjóðkjörinn.

Dauðhald það sem haldið er í krónuræfilinn tryggir stjórnvöldum áframhaldandi völd þrátt fyrir afar lélega hagstjórn. Yrði skipt um gjaldmiðil hér drægi mjög úr áhrifum stjórnvalda á hagstjórn því ekki væri hægt að breiða yfir mistökin þar með gengisfellingum og aukinni verðbólgu. Samningarnir við hjúkrunarkonurnar voru ágætir, en auka hættuna á að stjórnvöld missi alveg tökin á verðbólgunni.

Magni og Harpa.IMG 2541


1880 - Barnagirnd

Barnagirnd er ekki ný bóla. Man ekki betur en frá því sé sagt í Njálu að Þráinn Sigfússon frændi Gunnars á Hlíðarenda hafi í brúðkaupi þeirra Gunnars og Hallgerðar Langbrókar orðið mjög starsýnt á og beðið dóttur Hallgerðar (Þorgerðar Glúmsdóttur) sem hlýtur að hafa verið unglingur eða barn þá. (Man ekki aldurinn) Þórhildur skáldkona (kona Þráins) orti þá þessa ódauðlegu vísu:

Esa gapríplar góðir.
Gægur es þér í auga.

Margt var öðruvísi áður fyrr. -Allt hafði annan róm, áður í páfadóm- segir í einhverju heimsósómakvæði. Mér er t.d. minnisstætt að á flestum þeim stöðum þar sem Íslendingasögusafn (Guðna Jónssonar) var til staðar var greinilegt að Bósa saga og Herrauðs (ein af fornaldarsögum Norðurlanda) var mikið lesin. Það var auðvitað vegna þess að hún var svolítið blautleg og klámfengnar frásagnir alls ekki eins aðgengilegar og nú er. Áhugi hefur samt verið mikill á slíku efni og er líklega enn.

Í þessu sambandi má líka minna á að í Lokasennu eru þessi orð:

Hymis meyjar
höfðu þig að hlandtrogi
og í munn migu.

Þeir hafa aldeilis verið kinky í eldgamla daga.

Danir ákváðu að hætta öllum klámákærum og þess háttar um 1970 eða fyrr. Nú vill Ögmundur taka þetta upp hér á landi. Það er á margan hátt tímaskekkja. Þeir sem endilega vilja fá slíkt efni eiga að geta það. Það er svo allt annað mál að sjálfsagt getur verið að reyna að hlífa börnum og unglingum fyrir (við) slíku efni.

Þegar ljósmynd er tekin er það ekki ljósmyndarinn sem skiptir mestu máli. Myndefnið gerir það. Þetta skilja sumir ljósmyndarar ekki almennilega. Sama á sér stað þegar myndum er breytt. Margir eru ansi snoknir fyrir slíkum myndum. Aftur er það myndefnið, hversu ósennilegt sem það er gert, sem skiptir mestu máli. Hver gerði breytingarnar eða í hverslags forriti það var gert, skiptir miklu minna máli. Það er myndefnið sem segir söguna. Hvað málverk áhrærir er líka sögu að segja. Það er myndefnið sem ræður mestu. Auðvitað meðhöndla listamenn myndefnið á mismunandi hátt og það segir þeim sem á horfa mismunandi sögur. Ef abstrakt málverk segir Hriflu-Jónasi að það sé klessuverk þá er það bara sagan sem það segir honum.

Alveg það sama má segja um rituð verk. Það skiptir mestu máli hvað sagt er en ekki hver skrifar. Auðvitað er þetta margtuggin saga. Knattspyrnumenn tala um að fara í boltann en ekki manninn. Svo má líka heimfæra þetta á stjórnmálin. Það skiptir ekki mestu máli frá hvaða flokki hugmyndin kemur heldur hver hún er. Hver gerði hvað einhverntíma í fyrndinni skiptir ekki mestu máli. Í kosningum er það auðvitað framtíðin sem skiptir mestu máli og þá er ég loksins kominn að því sem ég ætlaði að skrifa um í þessum bloggpistli. Það er nefnilega stjórnarskráin, en nú er bloggið bara orðið svo langt að ég geymi það að skrifa um hana.

IMG 2540Rennilegur bátur.


1879 - Að vera virkur í athugasemdum

Hvar gerast markverð tíðindi? Hvergi sýnist mér. Ekki gerist neitt á fésbókarræflinum, ekki á blogginu heldur, þó ég skrifi eitthvað (sem sjálfum mér og fáeinu öðrum finnst kannski merkilegt.) Einu sinni hélt ég að eitthvað markvert gerðist öðru hvoru á alþingi. Nú er ég hættur að halda það. Birgitta bölsótast útí Ástu Ragnheiði. Þráinn hótar að hætta að styðja ríkisstjórnina. Davíð hlær inní sig í Hádegismóum. Jóhanna er í felum. Steingrímur þykist vera að útbúa almennilegt kvótafrumvarp (sem er samt ómögulegt) o.s.frv.

Bæði stjórnarskárdeilunni og hjúkrunarfræðinga (-kvenna) deilunni lýkur einhverntíma. Vonandi þó ekki með skelfingu. En hver nennir að bíða eftir því? Mesta spennan verður sennilega í kringum kosningarnar í vor. Sumum leiðast slík fyrirbrigði samt mikið.

Mig minnir endilega að Harpan hafi upphaflega átt að kosta hálfan annan milljarð. Eitthvað hefur hún samt stækkað síðan. Og er nú líklega búin að kosta svona 30 milljarða. Kannski miklu meira en það. Allt er reynt að fela. Ég er samt á því að þetta sé hið fínasta hús. Bæði að utan og innan. Dýr auðvitað. En hverjum er ekki sama um það?

Skammaryrðið sem er að ná fótfestu í málinu er „virkur í athugasemdum“. Hver vill annars vera það? Þetta er uppnefni sem fésbókin fann uppá. Aumingjaskapur þeirra netmiðla sem hafa beðið fésbókina að sjá um athugsemdir sínar er algjör. Samt get ég ekki stillt mig um að fara á fésbókina oft á dag. Hangi þar ekki viðstöðulaust inni eins og mér sýnist að sumir geri.

Er bloggið eitthvað betra? Kynni einhver að spyrja. Ja, mér finnst það betra, en auðvitað er það bara nokkurs konar eintal meðan fésbókin er þegar best lætur a.m.k. samtal. Það samtal getur ekki gengið hraðar fyrir sig en nákvæmlega jafn hratt og þátttakendurnir eru fljótir að vélrita. Því betri vélritari, því meiri skrif og minni misskilningur. Er það þá bara endurbót á tölvupóstinum. Já, mér finnst það. Bloggurum er oft mikið niðri fyrir. Stjórnmálin flækjast mikið fyrir þeim. Eru blogg þá ekki bara einskonar greinaskrif? Jú, eiginlega, en það eru bara ekki allir annað hvort bloggarar eða fésbókarar þó sumir tölvunördar virðist halda það.

Hjúkrunarkvennadeilan leyst, alþingi malar um stjórnarskrá. Þetta eiga víst að heita helstu fréttirnar. Ég nenni þessu bara ekki.

IMG 2531Strætóskýli.


1878 - Píratar eða prímatar

Í ljósi þess að ný hægrisveifla virðist í uppsiglingu hér á Íslandi er ég mest að hugsa um að kjósa Pírata flokkinn í næstu kosningum. Fjórflokkurinn á ekki upp á pallborðið hjá mér. Er þó allsekki búinn að ákveða mig og geri það kannski ekki fyrr en á leiðinni að kjörborðinu eins og svo hátíðalega er gjarnan sagt.

Undarlega margir virðast hafa addressuna á blogginu mínu í RSS hjá sér eða einhverju þess háttar, því ef mér verður það á (sem gerist næstum daglega) að skrifa smáblogg þá eru aðsókartölur strax roknar upp, en mælast varla annars. Svo geta þær rokið upp í skýin ef ég set nöfn eða eitthvað voða vinsælt í fréttum þann daginn í fyrirsögnina. Verst hvað mér gengur illa að skrifa um sama málefnið út í gegn.

Þetta gullfótartal hjá Framsóknarflokknum er mestan part bara afbrigði af þjóðrembunni, sýnist mér. Pappírsfóturinn hefur aukið á verslun milli landa og sérhæfingu alla. Kannski heldur sú ráðstöfun þróunarlöndunum í fátæktargildru þeirri sem þau augljóslega eru í og hrunið hér á landi sýnir að of geyst er hægt að fara pappírsfótslega séð. Annars ætti ég ekki að vera að tala um hagfræðileg málefni, því ég hef ekkert vit á slíku.

„Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.“ Var einhverju sinni sagt. Kannski er ég alltof orðmargur og þéttbloggandi til að hægt sé að taka mark á mér. Ég geri það samt sjálfur. A.m.k. meðan ég er að blogga. Nú er ég búinn að blogga svo mikið og lengi að ég man engan veginn hvað ég hef skrifað. Það er allt í lagi því enginn fylgist með því. Ekki einu sinni FBI þó þeir hafi áhuga fyrir flestu. Framsóknarmenn muna ábyggilega ekki hverju þeir hafa lofað. Loforðahrúgan flokkanna á eflaust eftir að stækka og stækka alveg framað kosningum, en þá byrja menn undireins að svíkja og svíkja.

Davíð Jónsson (vinstri sinnaði guðsmaðurinn (eða klámkóngurinn) sjálfur) er með áhugaverða drápu á Wordpressinu hjá sér. http://silfurgeitin.wordpress.com/ Kannski bloggar hann of lítið og of sjaldan, en áhugaverður er hann.

Tókuð þið eftir því? Ég bloggað bara ekki neitt um hjúkrunarfræðinga eða Landsspítalann þó það sé greinilega mál málanna í dag.

IMG 2520Símtæki.


1877 - Jóhanna Sigurðardóttir

Myndin sem fylgdi síðasta bloggi var alveg óvart endurtekning frá deginum áður.

Ég held að Jóhanna Sigurðardóttir geri sér enn í alvöru vonir um að koma stjórnarskrárfrumvarpinu í gegn. Hvernig alþingi fer með það frumvarp áður en störfum þess lýkur ræður mjög miklu um úrslit kosninganna í vor. Stjórnmálalega séð (ehemm) eru þetta einstakir tímar sem við lifum á. Kvótafrumvarpið er óttalegur óskapnaður og langt frá því sem lagt var upp með. Flest stórmál sem ríkisstjórnin hefur reynt að koma fram hafa mistekist. Þó er landið að rísa, ef á heildina er litið.

Lausaganga hunda á Reykjavíkursvæðinu er vandamál. Hún er samt bönnuð eftir því sem ég best veit. Vandamálið er ekki hægt að leysa með einhverri patentlausn sem hugsanlega hentar allsekki. Lykilatriði er að það þarf að vera einhver aðili sem fylgir slíku banni eftir. Illt er að láta hundana gjalda þess og eigendurnir eru alls ekki alltaf sekir um vanrækslu þó hundarnir sleppi úr gæslu og áreiti fólk.

Verst er að lausagangan er að verða það almenn að fólk sem óttast hunda er síður á ferli útivið í borgarlandinu en það mundi annars vera. Venjulega enda deilur um þetta með því að fólk fer að hrópa á hvert annað og draga ketti og allskyns óskyld atriði inn í málið.

Óþrifin eru hluti vandans, en sá hluti fer batnandi. Verst er að ruslaílát eru fá á almannafæri og sjaldan losuð. Ef hægt væri að bæta eftirlitið og minnka lausagönguna væri mikið unnið.

Árið 1972 kom ég í bankaútibú í Glasgow í Skotlandi til að fá skipt ávísum sem ég hafði fengið í Úvegsbankanum sáluga. Hún var sennilega 8 eða 9 hundruð pund. Í þessu útibúi voru innréttingar allar svo fornfálegar að á Íslandi hefði verið búið að henda þeim fyrir löngu. Afgreiðslustúlkan kallaði á útibússtjórann og hann fórnaði höndum þegar hann sá hvað ávísunin var gríðarlega há og benti mér á að fara í aðalstöðvar Bank of Skotland og athuga hvort þeir réðu við þetta. Það gekk. Glasgow er sennilega fyrsta erlenda borgin sem strákarnir mínir komu til. Mér er minnisstætt að þeim þótti merkilegt að göturnar þar væru svartar eins og heima. Það bætti þó örlítið úr að þeir sáu ríðandi lögregluþjón. Það höfðu þeir ekki séð á Íslandi.

IMG 2481Lækur.


1876 - Margeir Pétursson eða hvernig verða staðalmyndir til?

Ekki veit ég af hverju það er en áðan gat ég skoðað nýlegt tölublað af tímaritinu „Mannlíf“ á netinu. Þar var mynd af Margeiri Péturssyni á forsíðunni. Las auðvitað viðtalið við hann. Einfaldast er að fara bara á Mannlífs-síðuna á fésbókinni og þaðan á þetta tölublað. Líklega er þetta einhver kosningaáróður því líka eru þarna viðtöl við Bjarna Benediksson, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og fleiri held ég. Hef ekki lesið þau. Hafði að sjálfsögðu mestan áhuga á viðtalinu við Margeir enda var það sjálfur Einar Kárason sem skrifaði það. Kannski er þetta tímarit alltaf aðgengilegt á netinu. Hef bara ekki gáð að því. Er ég bara svona aftarlega á merinni?

Einhver frétt var um nýja og dettandi þingmenn á Eyjunni eða Pressunni þar sem þingsæti voru reiknuð út í samræmi við einhverja skoðanakönnun. Þar var m.a. gert ráð fyrir að Ögmundur Jónasson dytti út og inn kæmu (ekki kannski beint í staðinn fyrir hann) Brynjar Nielsson, Óli Björn Kárason og Geir Jón Þórisson. Já, það má búast við ýmsum breytingum á þingi eftir næstu kosningar.

Egill Helgason skrifar um hve hræðilegt það geti verið að kalla menn sínum réttu nöfnun og tekur sem dæmi að einhver sem skrifar í fréttablaðið skuli kalla Jón Gnarr, Jón Gunnar Kristinsson hvað eftir annað, sem sé sambærilegt við að kalla Halldór Laxness, Halldór Guðjónsson. Kisan sem lét svo lítið að dvelja hjá okkur hjónunum öll sín ár var kölluð Hólmfríður Högnadóttir þegar hún gerði eitthvað alvarlegt af sér. Annars hét hún bara Hófí.

Áður fyrrr þurftu helst allir sem keyrðu bíl að kunna að minnsta kosti að skipta um dekk, helst viftureim líka. Karlmenn voru fljótir að sjá þarna tækifæri og gerðu bílaþjónustu snimmhendis mun merkilegri en t.d. matargerð og þrif. Svipað á sér stað núna varðandi tölvurnar (enda eru bílar nauðalíkir tölvum) Kannski er fésbókin að reyna að gera tölvurnar að almenningseign. Auðvitað þykir tölvunördunum leiðinlegt að vera ekki lengur ómissandi. Er þetta ekki bara framþróun?

IMG 2469Klifurveggur.


1875 - Að finna stól fyrir Steina

Fyrirsögnin vísar í það að einu sinni voru mikil vandræði við að finna ráðherrastól handa Þorsteini Pálssyni.

Það er alltaf vandamál þegar formannsskipti verða í stjórnmálaflokki, sem aðild á að ríkisstjórn, ef viðkomandi er ekki ráðherra. Man vel að fleiri flokkar en Samfylkingin hafa lent í þessu. Auðvitað hefur þetta heilmikil áhrif á kosningabaráttuna og kannski er það óheppilega nálægt kosningum sem þetta gerist núna. Fyrst og fremst er þetta þó fjórflokkavandamál og ég býst hvort eð er við talsverðum flótta frá þeim í heild í næstu kosningum. Það eru klassísk fjórflokksviðbrögð að tala um nýja flokka sem útibú frá einhverjum öðrum.

Ef virkilega á að hræða fólk nú til dags dugir ekkert minna en drónar og tölvuárásir. Alltaf þarf þó að reikna með að sá sterkasti ljúgi mest. Hann á auðveldast með það. Hin raunverulega baraátta snýst um mannssálirnar. Og til þess að ná valdi yfir þeim þurfa þær að trúa og treysta þeim sem yfir þeim messa. Þetta á ekkert síður við um fjölmiðla en fámiðla eða  stjórnvöld en stjórnmálaflokka. Auðveldast er að eiga við barnssálirnar. Þar eru kennarar og kirkjan í aðalhlutverkum. Auðvitað foreldrar líka, en stöðugt er verið að reyna að minnka þeirra hlut og gera alla sem líkasta öllum öðrum. Drónar og tölvuárásir halda kennurum og foreldrum svo í skefjum. Áður voru það styrjaldir sem gerðu það, en þær eru komnar úr tísku a.m.k. hér á Vesturlöndum. Upplýsingar og sannar frásagnir eru verstu óvinir svindlsins og samtryggingarinnar.

Þeir sem vilja rugla fólk nota gjarnan útlensku-slettur sem erftt er að skija. Svo eru samdar rangar fullyrðingar og þeim hrært saman við réttar, svo þær séu sem óskiljanlegastar. Þannig er reynt að stjórna fólki.

Flestir eru miklu betri og sanngjarnari en hæstiréttur. Samt er það svo að ég álít að við höfum komið okkur saman um að skjóta ágreiningsmálum til dómstóla og æðstur þeirra sé hæstiréttur. Auðvitað er það til að viðhalda því valdakerfi sem fyrir er í landinu og þarmeð er það orðið að íhaldssemi.

Hef líka alltaf talið að úrskurðir dómstóla fari eftir ákæru. Sé ákæran ekki nógu góð getur dómstóllinn vísað henni frá. Ef bara er horft á niðurstöðu dóms og ekkert annað er hætta á misskilningi um eðli þess máls sem dæmt er í.

Dómstólar (og hæstiréttur er þar ekki undanskilinn) hljóta samt alltaf að fara að einhverju leyti eftir almennri skoðun, en ekki bara lögunum þó þeir hafi mikla tilhneigingu til þess.

Samkvæmt athugasemdum við blogg Jens Guðmunssonar http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/ er Hallbjörn Hjartarson barnaperrinn á Skagaströnd. Svo er að sjá að allmargir hafi vitað af þessu en ekki viljað segja frá af einhverju ástæðum. Varla getur verið að ég sé að segja miklar fréttir hér, því blogg Jens Guðs er tveggja daga gamalt og  mér skilst að helstu fréttamiðlar viti af þessu en vilji ekki segja frá. Sömuleiðis er þetta komið á fésbókina.

Birgitta Jónsdóttir segir ekki mikið frá áfrýjun sinni í Bandaríkinunum í „Twitter“ málinu sem átti að taka fyrir í gær. Þetta gæti bent til þess að hún hafi tapað málinu.

Öryggi á netinu er stórmál sem á bara eftir að vaxa á næstu árum. Sennilega er best að eiga sér engin leyndarmál. FBI-eltingaleikurinn í fyrra var hluti af áætlun bandaríkjamanna um að koma höggi á WikiLeaks. Inn í það mál blandast 20 ára íslenskur Siggi hakkari og ég hef grun um að tölvuvarnir hér á Íslandi sé óttalega lélegar enda stjórnvöld mestu kjánar í slíkum málum.

IMG 2469Klifurveggur.


1874 - Milton Friedman

Almennt virðist fólk vera mun meira á móti stjórnvöldum nú en oftast áður. Orð þeirra eru alls ekki alltaf tekin trúanleg. Í því máli sem hæst ber núna, en það má segja að sé heimsókn FBI-mannanna sumarið 2011, virðist mér augljóst að verið sé að reyna að hylja einhverja slóð, sem almenningur má helst ekki sjá. DV reynir að upplýsa málið, en glímir við neikvætt álit á blaðinu. Margir hafa horn í síðu þess þrátt fyrir að reynt hafi verið að réttlæta forsíðufréttina um barnaníðinginn á Vestfjörðum.

Sjaldan hef ég orðið eins hissa á fréttum í landsfjölmiðlum eins og þegar sagt var frá því að Davíð Oddsson hefði tilkynnt að íslendingum stæði til boða  margra milljarða evra lán frá rússum!! Þetta reyndist svo vera tómur misskilningur. Veit ekkert hvar sá misskilningur lá. Enda skiptir það litlu máli. Enginn vafi er á því að við íslendingar höfum farið mjög illa útúr kreppunni og eigum jafnvel eftir að fara enn verr útúr henni, þrátt fyrir sigurinn í Icesave.

Satt að segja á ég von á því að íslendingar fari að eyða og spenna strax og kosningunum lýkur í vor. Yfirgnæfandi líkur eru nefnilega á því að Sjálfstæðisflokkurinn verði forystuflokkurinn í næstu ríkisstjórn. Við skulum bara vona að hann verði gjörbreyttur. Bjarni Benediktsson gæti breytt honum þrátt fyrir alla sína galla og tengsl við Hrunið. Hann gerir það þó ekki ef hann heldur áfram að taka við skipunum utan úr bæ, eins og maður hefur óneitnalega á tilfinningunni að hann geri.

Það er oft æði tilviljanakennt hvað maður klikkar á í fésbókinni. Reyni oftast að losna sem fyrst við rauðu tölurnar efst til vinstri, en gleymi mér oft við það, sem þar er vísað á. Svo hverfa þær. Sennilega nota ég fésbókina öðruvísi en aðrir. Allt í lagi með það. Bara ef fólk gleymir ekki að kíkja á bloggið mitt. Það er nefnilega nokkuð vel skrifað þó ég segi sjálfur frá. Ég les það nefnilega yfir. Það gera ekki allir. Þegar ég er búinn að því er tungutakið nákvæmlega eins og ég vil hafa það. Það er ekki nóg að lesa einu sinni yfir. Ef einhverju er breytt er nauðsynlegt að lesa allt yfir aftur. Stundum er erfitt að hætta.

Nú er Steven King bókin „Under the dome“ orðin verulega spennandi. Minnir mig um margt á „Sámsbæ – Payton Place“ eftir Grace Metalious (nú kom gúgli sér vel eða réttara sagt Wikipedia, því ég mundi ekki hvernig átti að skrifa ættarnafn höfundarins) Sú bók var gríðarlega vinsæl í eina tíð. Hef ekki lesið margar bækur eftir Steven King en þessi er góð. Segi ekki meir um kúluna sem hvolfdist yfir Chester Mill, en smábæjarlífinu er afar vel lýst af King. (Held ég).

Já, ég er óttalega seinlesinn. Minnir að ég hafi minnst á þessa bók áður í blogginu mínu. Hef aldrei skilið þá sem geta lesið margar bækur á dag. (Eins og t.d. gagnrýnendur fjölmiðlanna virðast/virtust leika sér að fyrir jólin) Mér finnst að ég þurfi að gera svo margt annað líka.

Ríkur sækir ríkan heim. Þetta er þekkt spakmæli, eða reyndar útúrsnúningur á því, sem mér datt í hug þegar ég las blogg-grein Ingimars Karls Helgasonar, um að Milton Friedman, sá frægi frjálshyggjupostuli, væri fluttur til Svíþjóðar. http://blogg.smugan.is/ingimarkarl/2013/02/05/milton-friedman-flytur-til-svithjodar/  Þar grasserar reyndar magnaður sósíalismi og varla getur verið að Milton sé á gamals aldri að sækja í hann. Ingimar Karl er reyndar ekki alveg ópólitískur og segir m.a. í þessu bloggi sínu:

En nú eru frjálshyggjumennirnir að bóna brjóstmyndina af Milton Friedman, og hyggjast bera úr Valhöll og niður á Austurvöll.

Ég hef bara ekki séð þetta enda er það ekkert að marka, því ég fylgist svo illa með.

Viðhengi ekki til staðar
Þetta viðhengi gæti hafa verið fjarlægt, eða notandinn sem deildi því hefur ekki leyfi til að deila því með þér.

Stundum fæ ég svona meldingar frá fésbókinni og skil þær bara alls ekki.

IMG 2468Gæsir.


1873 - Umræðustjórnmál

Umræðustjórnmál, sagði Ingibjörg Sólrún einhverntíma. Oft er hægt að ræða sig niður á lausn í málum. Nei, ég er ekki að tala um Icesave. Varðandi makríl- og hvalveiðar blasir við að vel er hægt að tala sig niður á lausn og hún finnst áreiðanlega á endanum. Ef tveir deila er auðvitað möguleiki að annar þeirra bíti sig svo fastan í eitthvað sem hann álítur grundvallaratriði að engin leið sé að semja um neitt. Gjaldmiðilsmál snerta mjög marga. Jafnvel alla. Líklegt er samt að lausn finnist að lokum í því máli. Einhvers staðar sá ég fullyrt að þeir sem yngri eru vilji fremur krónuna en þeir sem eldri eru. Það finnst mér bara benda til að málið sé allsekki fullrætt.

Svo virðist mér að sumum málum sé einungis hægt að svara með já-i eða nei-i. Ef endilega þarf að skera úr slíkum málum er máski nauðsynlegt að hafa um þau þjóðaratkvæðagreiðslu. Hermálið var t.d. dálítið dæmigert hvað þetta snerti. Annað hvort voru menn hlynntir því að hafa herinn eða mótfallnir því. Að lokum tóku Bandaríkjamenn sjálfir af skarið og fóru. Þannig sluppu stjórnvöld við að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu og auðvitað hefði skipt miklu hvenær hún hefði verið haldin og hver spurningin hefði verið.

Líkt er því farið með ESB-aðild. Aðild eða ekki getur skipt þjóðinni í tvo flokka og mjög ólíklegt er annað en úr því máli verði skorið með þjóðaratkvæðagreiðslu. Að greiða atkvæði um það áður en þingkosningarnar fara fram í apríl er samt mjög óskynsamlegt.

Ólafur Ragnar Grímsson er nú á hátindi ferils síns. Vel má reikna með að hann láti til sín taka eftir þingkosningarnar í vor. Ef breytingar á stjórnarskránni varðandi hlutverk hans verða samþykktar á þinginu gæti það verið í síðasta sinn sem forseti hefur áhrif á stjórnarmyndun hér á Íslandi. Ólafur hefur reyndar haldið því fram að ef nýja stjórnarskráin verði samþykkt muni völd forsetans aukast. Einkum breytast þau og skýrast en sumir geta eflaust talið að þau aukist en varðandi stjórnarmyndun hverfa þau að mestu.

Þessi sífelldu fésbókarklikk eru dálítið þreytandi. Auk þess veit maður aldrei hverjar afleiðingarnar verða. Pósthólfið mitt er við það að verða ónothæft vegna sífellra árása frá fésbókinni. Kannski er ég ekki nógu duglegur að afþakka allan fjárann á réttan hátt. Segi bara svona. Alvöru bréf sem ekki koma frá einhverjum róbotum eru alltaf velkomin. Sama er að segja um athugasemdir við bloggið mitt. Þær eru næstum aldrei of margar núorðið. Það getur dregist að ég svari bréfum. En svara samt. Missi af mörgu, en veit þó af flestu svona eftirá.

Sálgreining mín á fólki eftir því hvernig það kemur mér fyrir sjónir á netinu er kannski oftast röng. Samt er hegðun manna þar mikilvægari en margur hyggur. Netið er orðið jafnmikilvægt fyrir marga og rafmagnið var áður.

Ég get ekki að því gert að ég les með athygli bloggin hennar Vilborgar Davíðsdóttur á blogspot þessa dagana. Ég las líka síðustu bloggin hennar Gíslínu í Dal og man þau ennþá. Og svo dó einn bekkjarbróðir minn um daginn en ég hef áreiðanlega misst af jarðarförinni því tölvupósthólfið mitt var svo fullt af bévítans drasli. Flestum finnst dauðinn svo dapurlegur að þeir forðast eins og þeir geta að tala um hann. Það er afstaða sem ekki hjálpar. Ég mun hafa verið um 13 ára eða yngri þegar ég kynntist dauðanum fyrst en tölum ekki um það

IMG 2467Bíll.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband