1889 - Vísa eða staka (ekki greiðslukort)

 

Oft er mínum innri strák
ofraun þar af sprottin.
Í mér tefla einatt skák
andskotinn og Drottinn.

Ég gerði alls ekki þessa vísu, enda er hún alltof góð til þess. Man samt ekki fyrir mitt litla líf eftir hvern hún er. Fésbókin og Moggabloggið togast oft á um hugsanir mínar. Oft reyni ég að setja þær á blað ef mér finnst þær vera sæmilega frumlegar. Frumlegar finnst mér þær vera ef þær eru ekki greinilega bergmál að hugsunum einhverra annarra. Auðvitað eru þær það samt alltaf, hvort sem maður gerir sér grein fyrir því eða ekki. Þegar ég er búinn að orða þessa (frumlegu) hugsun þá hefst oft togstreitan um hvort ég eigi að setja hana á bloggið eða á fésbókina, hugsanlega að nota hana í samtölum eða láta hana bara róa. Úrslitin geta orðið allavega. (Auk þess sem margar séníalar hugmyndir komast aldrei á blað) Fésbókin hefur stundum vinninginn, ef hætta er á að hún (hugsunin flotta) úreldist fljótlega.

Stóri gallinn við að blogga einkum um fréttir og stjórnmál er að næstum allt sem maður skrifar (stundum eftir ítarlega umhugsun) verður gjarnan úrelt langt um aldur fram. Svo getur alltaf verið að maður hafi misst af safaríkustu kjaftasögunum og ekki tekið tillit til þeirra. Ég er samt steinhættur að lesa fréttir og „lignende“ (líklega dösnskusletta) allan liðlangan daginn af ótta við að missa af einhverju.

Mín helsta martröð er að ég skrifi alltof mikið og enginn nenni að lesa það sem ég skrifa. Þannig séð er Moggabloggsteljarinn minn besti vinur. Kannski miða ég skrif mín alltaf mikið við hann. Þetta þarf ég að athuga betur.

Dagar Ólafs Stephensen á ritstjórastóli Fréttablaðsins eru sennilega taldir. Jón Ásgeir Jóhannesson mun finna aðferð til að losna við hann. Kannski verður hann ekki beinlínis rekinn, en áður en varir mun hann hætta ritstjórastörfum þar. Hugsanlega þó ekki fyrr en eftir kosningar. Ástandið núna er nefnilega viðkvæmt. Eigendavald fjömiðlasamsteypa á borð við 365-miðla þarf að vera dreifðara. Annars kann að vera að JÁJ sé bara að tryggja sig fyrir þeim kosningaúrslitum sem hann óttast mest. Þá gæti verið ágætt að hafa sinnast við Ólaf og vel er hugsanlegt að hann gæti fengið inni hjá Morgunblaðinu. Davíð fúlsar varla við slíkum gullhænum. Hann (eða pabbi hans a.m.k.) er fyrrverandi sjálfstæðismaður.

Fréttir af Landsfundi Sjáfstæðisflokksins benda til harðari andstöðu við ESB innan fundarins en áður var. Ekki er víst það hafi neina þýðingu útávið, því allsekki var að skilja að ekki væri hægt að semja um það. Ég hef áður bent á að Sjáfstæðisflokkurinn getur hvenær sem er breyst í einlægan fylgisflokk ESB og mun á margan hátt eiga miklu aðveldara með það en vinstri grænir sem gerðu það hálfnauðugir því þá langaði svo í stjórn.

Ef samið verður um einhverja frestun á stjórnarskránni til næsta þings er langlíklegast að fjórflokkurinn muni halda sínu kverkataki á þjóðinni og Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn mynda næstu stjórn. Þar með verða völd fjórflokksins tryggð a.m.k. til næstu fjögurra ári og sefnan sett beint á aðild að ESB.

Flest blogg eru orðljót og svarthvít (aðallega svört) framtíðin þar. Ekki er bent á margt sem betur má fara, en þeim mun meiri er gráminn og svartþokan. Sem betur fer lesa þau ekki margir enda held ég að fáir fái borgað fyrir þau. Kannski eru þau samt áhrifamikil þegar allt kemur saman. Mesta ánægjan er fólgin í að skoða teljarann og sjá hve margir hafa glæpst á að lesa bullið. Á fésbókinni virðist mér að menn telji lækin og deilingarnar. Menn eru samt misduglegir við að gera slíkt fyrir aðra. Sumir virðast aðallega nota nota lækin sín á útlendar myndasíður. - Sko - þarna kemur útlendingafóbían í ljós hjá mér. Það er erfitt að varast þetta.

IMG 2544Harpa og umhverfi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er skratti góð vísa, hafði ekki heyrt hana áður en smá gúgl segir mér að hún sé eftir Kjartan Sveinsson (hver sem það nú er/var) http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1055767

Bjarni Gunnlaugur 25.2.2013 kl. 09:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband