Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
29.2.2012 | 23:01
1626 - Blaðamannafundur um ekkert
Gamla myndin.
Í heimsókn að Velli.
Er hægt að halda blaðamannafund um ekki neitt?
Já, það virðist vera ef maður er forseti Íslands.
Síðast þegar margir blaðamannafundir voru haldnir í röð hrundi bankakerfið. ÓRG ætlar ekki að láta það koma fyrir aftur. Heldur stuðla að því að áfram geti þjóðin reitt sig á að hann haldi vöku sinni.
Svei mér þá. Blaðamannafundurinn hjá ÓRG (sem ég missti reyndar af) virðist ekki hafa verið um neitt. Ólafur virðist bara hafa sagt þar að hann þurfi enn að hugsa sig um og geti ómögulega ákveðið sig.
Ef honum finnst þögnin vera farin að skaða sig segir hann áreiðanlega frá því með grátbólgna hvarma að hann muni fórna sjálfum sér og bjóða sig fram einu sinni enn. Hann geti ekki annað, því Dorritt sjálf hafi hvatt hann til þess. Uppá krónu eða jafnvel aura verður hann líka búinn að reikna út hve mikið fé muni sparast með því að hafa hann áfram á Bessastöðum.
Líklega mun hann sigra í forsetakosningunum í vor ef úr þeim verður. Enginn alvöru frambjóðandi mun koma fram. Platframbjóðendur eins og Ástþór Magnússon munu þó hugsanlega sjá sitt tækifæri þarna. Margir þeirra sem munu mæta á kjörstað af andstöðu við Ólaf munu skila auðu. Það gæti fleytt honum á Bessastaði að þessu sinni. Kannski býður enginn sig fram á móti honum og hvað verður þá um stjórnarskrárkosningarnar? Mér finnst ástandið vera orðið ískyggilegt.
Grein Styrmis Gunnarssonar um Ólaf Ragnar Grímsson sem hann nefnir Að týnast í sjálfum sér, er nokkuð góð. http://www.evropuvaktin.is/stjornmalavaktin/22617/ Trúarjátningar Jóns Vals Jenssonar af sama tilefni eru líka nokkuð fyndnar. Merkilegt að svona guðhræddur maður skuli leita svo langt til vinstri.
Enn er það svo að fólk virðist helst vilja lesa fréttir af útrásarvíkingum. Þeir sem blogga mest um slík mál og eru duglegir að linka í fréttir um þá virðast oft fá mestan lestur.
Fésbókin er orðin fyrirbrigði. Hún er óðum að breytast í sandkassa þar sem hver reynir að koma sínum sandi eða óhróðri og væmni yfir sem flesta. Þar lætur margt fólk allt vaða eins og það sé statt í eldhúsinu hennar Guðrúnar frænku yfir kaffibolla. Gætir alls ekki orða sinna og segir hvað sem er. Svo er það gjarnan slitið úr samhengi og komið útum allt einsog skot.
Ríkisstjórnin virðist vera búin að finna ráð til að halda áfram með málið gegn Geir Haarde og Bjarni Ben. er saltvondur yfir því. Umræður verða væntanlega í dag og atkvæðagreiðsla á morgun Líklega þá um breytingartillöguna frá eftirlitsnefndinni.
Mín kenning um orsakir hrunsins er sú að þegar þjóðarsáttin var gerð voru verðbætur á laun afnumdar en fengu að halda sér á lánum almennings. En eins og allir hljóta að muna var meginfórnin hjá launþegum. Nú er verðtrygging húsnæðislána orðin mesti bölvaldurinn. Spillingin og happdrættishugarfarið spilaði auðvitað líka sína rullu.
Af hverju skyldi þjóðin vera svona happdrættissinnuð. Hún trúði á sínum tíma allri þeirri vitleysu sem frá útrásarvíkingunum kom. Svo eru það fiskveiðarnar. Þær eru oftast mikið happdrætti. Síldarhappdrættið gaf ágætlega af sér um stund en því lauk að sjálfsögðu. Veðrið hér er líka óttalegt happdrætti, Stundum slæmt og stundum verra. Verðbólgan var líka happdrætti fyrir flesta. Sumir græddu á henni en langflestir töpuðu.
Kannski eru það vinstri sinnaðir feministar (og allir þeir sem þjást af pólitískri rétthugsun) sem ég á mesta samleið með í stjórnmálum. Þó finnst mér alltaf einsog það sé einhver íhaldssöm taug sem togi mig til hægri. Sjálfstæðisflokkinn held ég þó að ég muni aldrei kjósa.
Auk þess legg ég til að Steinunn Ólína endurskoði afstöðu sína til forsetaframboðs og bjargi með því Ólafi Ragnari frá þeim hræðilegu örlögum að þurfa að vinna kauplaust næstu fjögur árin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2012 | 22:48
1625 - Örsaga I
Gamla myndin.
Hér er Hafdís Rósa um það bil að rífa í hárið á Ingólfi Gísla Garðarssyni. Aðrir á myndinni eru: Bjarni Sæmundsson, Hjálmar Sigurþórsson, Þorgeir Einarsson, Benedikt Sæmundsson, Helga Einarsdóttir, Anna Einarsdóttir og Gerður Garðarsdóttir.
Ég veit ekki af hverju ég er að skrifa um þetta núna? Ég trúði Ævari ekki þegar hann sagði mér frá þessu upphaflega. Svo fór ég að velta þessu öllu fyrir mér nýlega og endirinn varð sá að ég er að hugsa um að segja frá þessu öllu.
Það var einhverntíma fyrir löngu síðan að Ævar kom að máli við mig sagði mér alla söguna. Ég trúði honum ekki þá og geri varla enn. Ekkert gerði ég og ekkert held ég að Ævar hafi gert í málinu. Það var líka svo langt um liðið að það var svosem ekkert hægt að gera. Ég velti því talsvert fyrir mér af hverju hann væri að segja mér þetta en komst ekki að neinni niðurstöðu.
Svo var það um daginn að ég var að Gúglast eitthvað á netinu og þá sá ég myndir sem sagðar voru vera úr Voynich handritinu. Ein myndin þar minnti mig mikið á það sem Ævar hafði sagt mér um árið svo ég fór að velta því fyrir mér hvort þetta hafi e.t.v. verið satt hjá honum.
Samt var ég á báðum áttum um hvort ég ætti að rannsaka þetta frekar. Það var ekki líklegt að neitt nýtt kæmi fram núna eftir allan þennan tíma. Auðvið gæti ég reynt að finna eitthvað fleira en þessa blessaða mynd sem renndi stoðum undir að frásögn Ævars gæti verið rétt.
Ég hélt því áfram að gúgla eins og vitlaus maður en ekkert kom í ljós. Það var sama hvað ég reyndi ég fann ekki nokkurn skapaðan hlut til viðbótar. Þessvegna er það sem ég sé ekkert annað ráð en að skrifa þessa sögu og segja einfaldlega frá því sem Ævar sagði mér og hvað það var sem leiddi mig að þeirri niðurstöðu að hugsanlega væri þetta allt rétt hjá honum.
Auðvitað væri æskilegast að spyrja Ævar bara sjálfan um allt það sem er óljóst í þessu en það er því miður ekki hægt. Hann dó fyrir þónokkrum árum og tók leyndarmálið sennilega með sér í gröfina. Ég veit a.m.k. ekki um neinn sem hann er líklegur til að hafa sagt nánar frá þessu. Þó svo væri er ekki líklegt að sá hinn sami vissi meira um þetta mál en ég.
Rétt væri sennilega að byrja á því að segja svolítið frá Voynich handritinu fræga. Eflaust kannast einhverjir við það en mér skilst að það séu einmitt hundrað ár núna frá því að það uppgötvaðist. Það er samt miklu eldra og textinn í því er öllum óskiljanlegur. Myndirnar eru heldur ekki af neinu sem menn þekkja. Aðallega eru þær af allskyns jurtum og þessháttar. Oft eru þær líkar þekktum jurtum en alls ekki alltaf. Ýmislegt fleira er líka í handritinu og margt afar einkennilegt
Það er kannski ofrausn að kalla Voynich handritið bók. Þetta er handrit á einum 270 lausum skinnblöðum og e.t.v. dálítið líkt íslensku handritunum í Árnasafni og hugsanlega skrifað á svipuðum tíma. Allmörg blöð vantar að líkindum í handritið og auðvitað veit enginn hvað hefur verið á þeim.
Myndin sem vakti athygli mína og minnti mig á frásögn Ævars er svona:
Þetta er hluti úr stærri mynd. Á myndinni sést kona á bakinu á þríhöfðuðum fugli. Hvort um er að ræða einskonar baðkar á bakinu á fuglinum veit ég ekki. Heldur ekki hverslags fittings það er sem hún er með hendurnar í.
Allt þetta mætti þó reyna að rannsaka frekar og það er einmitt það sem ég gerði. Það var samt árangurslaust og þessvegna er það sem ég sé ekkert annað ráð en að skrifa þessa frásögn.
Frásögn Ævars var á þessa leið:
Mér þótti sem ég væri Guð almáttugur. Auðvitað sat ég í hásæti mínu á himnum. Hjá mér sátu Jesús Kristur, Gabríel erkiengill og allt biblíuliðið. Fyrir neðan mig bylgjuðust bleikir akrar og slegin tún eins og segir svo fagurlega í Njálu.
Skyndilega kom hópur af fuglum úr suðri. Þeir voru í einskonar oddaflugi. Einn fugl flaug fremstur. Sá var með eitt höfuð. Í næstu röð voru þrír fuglar og voru þeir allir með tvö höfuð. Fuglarnir í þriðju röðinni voru með þrjú höfuð og áfram þannig. Í hverri röð fjölgaði höfðunum semsagt um eitt.
Ég klöngraðist niður úr hásætinu og lét mig falla niður á fuglahópinn. Greinilega lenti ég á fugli í fimmtu röð því hann var með fimm höfuð. Á margan hátt líktist hann svani en var þó miklu stærri. Ekki virtist hann muna mikið um þó ég lenti á bakinu á honum því honum fataðist lítt flugið ég hélt sínu striki.
Allt í einu gall við einskonar klukknahljómur og fuglarnir svifu mjúklega til jarðar og settust þar. Þeir fóru svo að bíta gras en ég fór af baki og litaðist um. Ekki var nokkra hreyfingu að sjá neinsstaðar fyrir utan fuglana. Nú sá ég að þeir voru allmargir og enga sá ég með fleiri höfuð en svona níu eða tíu. Skyndilega flugu allir fuglarnir upp og skildu mig eftir.
Seinna komst ég að því að þetta var skammt frá Hvolsvelli. Þangað fór ég og tók rútuna til Reykjavíkur. Ég sagði engum frá þessu því einhvern vegin fann ég á mér að þetta væri ansi ótrúlegt. Vinnu fékk ég og átti ekki í erfiðleikum með það. Herbergi tók ég á leigu og settist þar að. Á balli hitti ég svo hana Ölmu mína og við giftum okkur. Þannig er þetta nú og saga mín hefst í skýjunum og lýkur þegar ég drepst.
Mér fannst sagan svo ótrúleg að ég spurði hvort hann hefði ekki bara dreymt þetta.
Nei, Þetta var sko enginn draumur það er ég alveg viss um. Hvernig á því stóð að ég hafði nafnnúmer og kunni íslensku hef ég enga hugmynd um. Foreldra á ég enga og konan mín getur staðfest að ég á mér enga sögu. Enga ættingja. Engan fæðingarstað. Ekki neitt. Ég get sagst hafa verið hver sem er. Allt er jafn trúlegt. Sjálfur man ég ekkert eftir mér fyrr en á skýinu góða
Ég vissi ekkert um Ævar nema það sem gerst hafði síðustu árin, eftir að við fórum að fara saman á veiðar. Aldrei talaði hann neitt um æsku sína eða skyldmenni, en mér var alveg sama um það. Hann var ágætur félagi og ekki spillti að hann var vel að sér um þá hluti sem ég þurfti einkum að spyrja hann um.
Þegar Ævar dó man ég eftir að mér fannst einkennilegt að engir ættingjar hans voru við útförina. Mér þótti það skrýtið en hafði ekki orð á því. Fjölmenni var samt talsvert þar og börnin og Alma söknuðu hans greinilega mikið.
Þegar ég sá myndina í Voynich handritinu og þríhöfðaða fuglinn datt mér í hug að ég hefði átt að sannreyna hvort þessi saga gæti verið sönn. Alma dó í fyrra og ég gæti náttúrlega reynt að spyrja börnin en ég er hræddur um að þau viti lítið um þetta mál.
P.S. Ef þið eigið í vandræðum með að trúa þessu skuluð þið bara gúgla Voynich manuscript.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.2.2012 | 23:09
1624 - ESB og Steinunn Ólína
Gamla myndin.
Heilsað við heimkomu.
Óneitanlega hallast ég að því að ég bloggi of mikið. Mér finnst næstum eins og ég þurfi að skrifa eitthvað á bloggið mitt á hverjum degi. Það er óþarfi. Mest er þetta meiningarlaust blaður. Það finnst mér a.m.k. stundum eftirá. Þegar ég set ósköpin upp finnst mér það sem ég skrifa stundum vel sagt. Ekki er það samt alltaf. Stundum sé ég ósköp vel sjálfur að skrif mín eru marklaus. Einkum á það við um stjórnmálalegu skrifin, enda hef ég enga sérþekkingu á slíkum ósköpum sem pólitíkin er og ekki fæ ég upplýsingar fyrr en aðrir. Margt annað get ég skrifað um. Bollaleggingar mínar um bloggið sjálft eru kannski stundum einhvers virði. A.m.k. fyrir þá sem áhuga hafa á slíku. Að koma því sem maður hugsar sæmilega frá sér í orðum er auðvitað fyrst og fremst æfing.
ESB-málið er og verður mál málanna. Þó ég sé ekkert að bila í stuðningi mínum við aðild sé ég greinilega að ólíklegt er að hún verði samþykkt af þjóðinni í þessari atrennu. Samt er rétt að klára það ferli sem hafið er. Verði aðildarumsóknin felld í þjóðaratkvæðagreiðslu verða a.m.k. svona fimmtán til tuttugu ár þangað til næst verður reynt. Þá verður hugsanlega svo komið fyrir okkur Íslendingum að við verðum að nýju farin að dragast verulega aftur úr öðrum Evrópuþjóðum í lífskjörum. Ef hinsvegar verður hætt við alltsaman núna verður hugsanlega farið af stað aftur fljótlega. Þessu virðast ESB-andstæðingar ekki nærri alltaf gera sér grein fyrir. Andstaða þeirra við aðild að ESB snýst oft upp í ríkisstjórnarandúð. Ríkisstjórnir koma og fara en Evrópusambandsaðild ekki. Þessvegna geta þær umræður um aðild eða aðild ekki, sem væntanlegar eru, orðið óvenju hatrammar.
Á bloggi Arnþórs Helgasonar er eftirfarandi klausa sem líklega er eftir Pétur Blöndal:
Merkilegt nokk, þá er ekki útilokað að sægreifar, kommúnistar, kapítalistar, femínistar, miðaldra karlar, stjórnmálamenn, öfgatrúaðir, öfgavantrúaðir, karlrembur, lattelepjandi listamenn eða útrásarvíkingar geti haft nokkuð til síns máls.
Þarna er verið að tala um hve mikið það tíðkast að fara í manninn frekar en boltann.
Las fyrir nokkru bók um líf heimskonunnar og auðkýfingsins Sonju de Zorillo sem Reynir Traustason skrifaði. Sonja var eitthvað skyld eða tengd einhverjum á Núpum í Ölfusi og lét byggja þar íbúðarhús fyrir sig. Það sem Hvergerðingar og aðrir nágrannar hennar töluðu mest um í sambandi við það var að sundlaugin skyldi vera á annarri hæð. Þeir voru ekki að setja það mikið fyrir sig að í húsinu skyldi vera sundlaug. Það hefði samt þótt óhemju spandans í mínu ungdæmi. Held að hún hafi látið eftir sig allmikla peninga og sjóður verið stofnaður en honum verið komið lóg af útrásarvíkingum.
Auk þess legg ég til að Steinunn Ólína endurskoði afstöðu sína til forsetaframboðs. Kannski vill hún bænarskrá líka. Hugsanlega er hægt að fá afleggjara hjá Ólafi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2012 | 01:34
1623 - Hagsmunasamtök heimilanna
Gamla myndin.
Feðgar ræða saman.
Húsnæðiskerfið hér á Íslandi er tóm þvæla. Ég á ekki bara við húsnæðislánakerfið sem er nógu snúið til þess að dómstólar dæma út og suður og lögspekingar vaða uppi og raka saman fé að amerískri fyrirmynd. Íslenskt þjóðfélag er að verða þjóðfélag málaferlanna og mótmælanna. Reynt er að koma húsnæðisþvælunni allri saman yfir á almenning með því að láta hann bera ábyrgð á sem flestu. Þeir sem peningana hafa ráða þó enn öllu sem þeir vilja. Útrásarvíkingarnir eru ekkert að sleppa neinu taki. Breyta bara um baráttuaðferðir og fá aðstoð sérfræðinga við að rata um lagaflækjur þær sem þeir áttu þátt í að koma á.
Þó ríkisstjórnin sé á margan hátt viljalaust verkfæri í höndum peningaaflanna verður ekki hjá því komist að hafa einhverja stjórn á hlutunum. Það eina sem virðist geta breytt einhverju til frambúðar án þess að vandræði hljótist af er nýja stjórnarskráin. Þó er mjög óljóst hver áhrif hennar mundu verða ef frumvarp um hana verður samþykkt. Verði frumvarpið samþykkt þarf það helst að vera nokkuð afgerandi svo tekið verið mark á því. Kannski verður endirinn sá að það eina sem breytist er að völd forsetans hafa aukist að mun (vegna aðgerða ÓRG) og e.t.v. næst fram einhver réttur til þjóðaratkvæðagreiðslna.
Gísli Tryggvason, umboðsmaður neytenda, hafði í fullu tré og rúmlega það við þingmanninn Vigdísi Hauksdóttur í Silfri Egils í dag. Aðrir voru hálfgerðir statistar þar. Ótrúlegt er annað en fylgi framsóknarflokksins verði áfram lítið í næstu þingkosningum. Líklegt er líka að kosið verði um stjórnarskrárfrumvarpið samhliða forsetakosningunum í vor e.t.v. með valkostum varðandi umdeildustu breytingarnar.
Það er misjafnt hvort menn setja niður við það að auglýsa pólitíska sannfæringu sína. Geir Jón Þórisson virðist samt hafa gert það. Eflaust auglýsir hann sig þó vitandi vits. Frami hans innan Sjálfstæðisflokksins er vafasamur.
Kóngulóarvefur ég meina svell.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2012 | 22:07
1622 - Er Sýrland súrt, eða hvað?
Gamla myndin.
Hafdís Rósa þreytt á öllu tilstandinu.
Að mörgu leyti er öfgakennd vinstri stefna, óheftur feminismi og political correctness að bandarískri fyrirmynd að ná völdum á fésbókinni. Markverð umræða á mjög erfitt uppdráttar þar og reynt er eftir föngum að steypa alla í sama mót. (Bandarískt.) Vel er fylgst með þeim sem á fésbókinni eru. Leyfi einhver sér að hafa aðrar skoðanir en þær sem samræmast feminisku correctnessi er sá sami úthrópaður. Þ.e.a.s ef gæslufólki fagurs mannlífs finnst taka því. Sjónvarpið er óðum að Hollywood-erast og bolta-sérast. Ef Íslendingum væri alfarið bannað að snerta bolta held ég að hér yrðu miklar framfarir eða nær allir flyttu til annarra landa.
Læti á borð við þau sem undanfarið hafa verið í Sýrlandi eiga ekki að þekkjast. Alþjóðasamfélagið vill það ekki. Alþjóðasamfélagið er einskonar yfir-political-correctness sem enginn veit hvar á upptök sín. Hugsanlega á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Allir eiga að vera þægir og góðir og einbeita sér að því að verjast gulu hættunni sem aðallega kemur frá Indlandi og Kína.
Af hverju ráðast Bretar, Bandaríkjamenn og Frakkar ekki inni í Sýrland á sama hátt og þeir gerðu í Líbýu? Mörgum finnst munurinn auðskiljanlegur, því Assad er Vesturlandamaður en Gaddafi var það ekki og þar að auki óútreiknanlegur. Sannanir fyrir óhæfuverkum sem sveitir Assads hafa framið eru margar. Að leggja undir sig Sýrland gæti verið góð æfing fyrir USA áður en kemur að slagnum við aðalóvininn, sem auðvitað er Persía sjálf. (Íran)
Að því ríki sigruðu munu Bandaríkjamenn ráða nær öllum olíuforða heimsins og vera komnir vel á veg með þúsund ára ríkið. En það þýðir ekki bara að safna skuldum. Smástríð þurfa að vera sem víðast (Somalía) svo halda megi the military industrial complex gangandi. Hann hefur hökt svolítið núna að undanförnu, (complexinn) en með bættum fjarskiptum og bættri tækni á öllum sviðum má komast langt. Trufla t.d. farsíma og spjaldtölvur og finna ef þarf.
Tillaga Lilju Mós. og Co. í húsnæðismálum er á margan hátt dæmigerð útrásartillaga. Þar átti allt að vera áhættulaust og allir að græða. Sú var ekki raunin þegar upp var staðið. Held að þessi peningahringekja sem hún leggur til að látin verði fara um hagkerfið gangi heldur ekki upp. Ég get þó ekki hrakið hana með hagfræðilegum rökum enda hef ég enga menntun til þess. Einhvern vegin finnst mér samt að hin hagsýna húsmóðir í Vesturbænum mundi hrista hausinn yfir svonalöguðum æfingum.
Ég man vel eftir verðbólguárunum. Hugsunarháttur fólks var allt annar þá. Það er blekking að kenna verðtryggingunni sem slíkri um ófarirnar núna. Með þjóðarsáttinni svokölluðu var verðtrygging launa afnumin og stjórnvöldum (eða útrásarvíkingum) í raun fengið það vald að ákveða laun fólks. Þjóðarsáttin var samt nauðsyn því fram að henni litu launþegar og vinnuveitendur á sig sem mikla andstæðinga. Nú er reynt að etja saman kynslóðum.
Þegar Bjarni varð Bahamameistari í skák var frá því sagt í Sunnlenska fréttablaðinu og þaðan komst það í Moggann. Ekki linkaði ég samt í þá frétt af blogginu mínu þó mér væri bent á hana. Bjarni talaði við okkur á hverjum degi um þetta leyti og daginn fyrir lokaumferðina var staðan sú minnir mig að hann mátti ekki tapa síðustu skákinni því þá mundi hann missa af titlinum. Mamma hans var með böggum hildar um að spennan yrði honum um megn en ég fullyrti við hana að taugastyrkur væri einn af helstu kostum Bjarna við skákborðið. Auðvitað vann hann svo skákina.
Því minnist ég á þetta að um næstu helgi verða lok deildakeppninnar haldin á Selfossi. Ég verð sennilega fyrsti varamaður Borgarfjarðarsveitarinnar á mótinu og mun auðvitað reyna að stuðla að því að sveitin komist upp úr fjórðu deildinni.
Auk þess legg ég til að Steinunn Ólína hugsi sig betur um varðandi forsetaframboðið. Ég var eiginlega búinn að ákveða að kjósa hana.
Fyrsti bekkur Háskólans í Reykjavík (?).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.2.2012 | 21:04
1621 - Hallgrímur í Saurbæ
Gamla myndin.
Á Þingvöllum 1974.
Sá á bloggi Illuga Jökulssonar að Jónas H. Haralz er dáinn. Man mjög vel eftir þætti sem sjónvarpsstjarnan þáverandi, Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnaði. Þar tók hann bankastjórana, alla sem þá voru, á beinið og spurði þá spjörunum úr. Úr bankastjórahópnum man ég best eftir Jónasi Haralz og Jóhannesi Nordal. Jóhannes varð mjög fýldur við, því spurningar Ólafs voru ekki sérlega gáfulegar. Jónas reyndi hinsvegar að útskýra málin fyrir Ólafi og var hinn elskulegasti. Jónas Haralz var þá bankastjóri Landsbankans ásamt a.m.k. einum öðrum en Jóhannes Nordal bankastjóri Seðlabankans sem þá var tiltölulega nýskriðinn úr skúffunni hjá Landsbankanum.
Þeir sem gagnrýna nú ríkisstjórnina vinstra megin frá, sem mér finnst einkum vera svokölluð hagsmunasamtök heimilanna, hafa talsvert hátt. Hafa líklega rétt fyrir sér að verulegu leyti þar að auki. Staða ríkisstjórnarinnar veikist með hverjum deginum sem líður. Geirs Haarde-málið ætti samt ekki að verða henni skeinuhætt. Vel getur þó svo farið að fallið verði frá málarekstrinum gegn Geir og mun mörgum falla það illa.
Ríkisstjórninni virðist ekki heldur ætla að takast að hafa það taumhald sem hún helst vildi á svokölluðu stjórnlagaráði. Úr því sem komið er gæti ég trúað að best væri að greiða bara atkvæði um frumvarpið eins og það er núna og leyfa stjórnlagaráðsmönnum (a.m.k. sumum hverjum) að vera í fýlu.
Aðalgallinn við reiðu feministakonurnar er að þegar þær komast í feit embætti þá haga þær sér næstum alveg eins og karlpungarnir. Að einu leyti ættu þær samt að standa betur að vígi. Þær þekkja vandmál kvenna við að koma sér áfram í atvinnulífinu og geta hjálpað þeim. En gera þær það? Nei, mér er ekki grunlaust um að þeim gangi jafnvel betur en körlunum við að halda öðrum konum niðri. Lagalega og samningslega hefur konum gengið allvel að ná jafnrétti á undanförnum áratugum. Þær eru sæmilega fjölmennar í mörgum stöðum hjá því opinbera, en einkageirinn hefur ekki tekið við sér. Er lagasetning um skiptingu eftir kynjum í stjórnum félaga rétta leiðin og verður hún til bóta í þessu efni? Ef til vill. Skilst að hún hafi gengið bærilega hjá öðrum þjóðum
Egill Helga bloggar á Eyjunni um Villa í Köben og passíusálmahatur hans. Það hefur komið fram áður. Villi sér Gyðingahatara í hverju horni. Auðvitað var Hallgrímur Pétursson Gyðingahatari eins og fleiri á þeirri öld, en það þýðir ekki að allt sem hann samdi sé einskis virði. Einhver sagðist í athugasemd hjá Agli hafa gaman af Íslendingasögunum þó þær séu uppfullar af karlrembu og kvenfyrirlitningu. Villi er sjálfur múslimahatari og ferst ekki að vera að klína einhverjum uppnefnum á aðra. Reyndar er ég löngu hættur að hlusta á sálmana í útvarpinu og finnst þeir hundleiðinlegir. Ekki einu sinni merkilegir frá bragfræðilegu sjónarmiði. Hallgrímur kemst samt oft ágætlega að orði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2012 | 21:16
1620 - Kosningar
Gamla myndin.
Á Þingvöllum 1974.
Nokkuð öruggt er að í júní í sumar verða kosningar. Um hvað verður kosið þá? Á þessari stundu er það nokkuð óljóst. Forsetakosningar eiga að fara fram en ef Ólafur Ragnar Grímsson verður eini frambjóðandinn þar verður hann sjálfkjörinn eins og venjulega. Mun Ólafur verða í framboði, þó flestir hafi skilið hann svo í áramótaávarpinu að hann hefði það ekki í hyggju? Já, ég held að hann verði í framboði. Mun þá einhver fara fram gegn honum? Já, ég hef trú á því. Jafnvel Ástþór Magnússon af gömlum vana ef ekki vill betur.
Látum þá útrætt um forsetakosningarnar í bili.
Sá virðist vera vilji forsætisráðherra og fleiri að samhliða fosetakosningunum fari fram einhverskonar þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskárdrögin sem stjórnlagaráðið kom sér saman um fyrir nokkru.
Mér líst vel á það. Úr því að ekki er unnt að hafa þá kosningu bindandi er heilladrýgst að kjósa um drögin eins og þau leggja sig. Alþingi tekur síðan lokaákvörðun og ber ábyrgð á setningu nýrrar stjórnarskrár. Verði stjórnarskrárdrögin samþykkt eru hendur alþingis bundnari varðandi framhaldið en annars yrði. Verði drögin felld verður alþingi sjálfráðara um hvað gert verður við þau. Jafnvel er hugsanlegt að þau verði svæfð og ekkert um nýja stjórnarskrá hugsað og jafnvel ekki mikið um stjórnarskrárbreytingar. Þó gæti komið fram frumvarp um að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslur með ákveðnum skilyrðum og kannski verður reynt að draga úr valdi forseta lýðveldisins. Það er þó ekki víst og gæti farið eftir úrslitum forsetakosninganna í vor.
Fólk getur semsagt farið að búa sig undir kosningar og skoðanakönnunarfyrirtæki undir skoðanakannanir. Þetta geta vel orðið skemmtilegar og afdrifaríkar kosningar. Óvenjulegar vera þær a.m.k.
Ég er að mestu leyti búinn að ákveða hvernig ég kýs. Auðvitað fer það samt eftir því hvaða kostir verða í boði. Alþingiskosningar geta síðan orðið hvenær sem er. T.d. nálægt næstu áramótum. Þá gætu leikar farið að æsast. Væntanlega verður þá kosið um stjórn landsins næstu árin en auk þess um ESB og jafnvel fleira. T.d. stjórnarskrá, nýja eða gamla. Gaman, gaman.
Líklega er meira en helmingur allra þeirra mynda sem birtast á fésbókinni fótósjoppaður eða lagfærður á ýmsan hátt í öðrum forritum. Auðvitað gerir það lítið til þó ágætt væri að vita af því þegar svo er. Það sem skrifað er á fésbókina skiptir sífellt minna og minna máli. Það eru myndirnar og videóin sem skipta mestu. Bókaraðdáendur verða einfaldlega að sætta sig við það. Vegur hins prentaða máls fer sífellt minnkandi. Svo er óskapast útaf því að unglingar lesi ekki bækur. Bækurnar henta þeim þá ekki og eru einfaldlega lélegar sem því nemur. Unglingarnir eru nákvæmlega eins og við vildum hafa þá. Sennilega betri ef eitthvað er.
Að mínum dómi er einhver markverðasta stjórnarskrárumræðan á Moggabloggsvefnum hjá Ómari Ragnarssyni http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/ Það er vissulega kominn tími til að hefja umræðu um stjórnarskrána nýju. Því miður virðast samt margir vera óvenju hatursfullir í þeirri umræðu og ekki sjá neitt annað en ESB-draug í hverju skoti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2012 | 22:42
1619 - Carl Sagan
Gamla myndin.
Frá Þingvöllum 1974. Þessi mynd snýr sennilega öfugt.
Kannski er hagfræði Lilju ekkert vitlausari en sú sem riðið hefur hér húsum undanfarna áratugi. Voodoo-hagfræði, hókus-pókus-hagfræði eða hagfræðiheimsku mætti eflaust kalla flest af því sem hér hefur verið reynt. Svo þykjast hagfræðigerpin vera afskaplega gáfuð ef þau geta rutt úr sér sem flestum tölum og tengt þær saman á sem óskiljanlegastan hátt. Tala nú ekki um ef tekst að finna einhvern útlending sem getur rutt úr sér viðlíka vitleysu.
Þetta er orðalag sem virðist ganga vel í fólk en auðvitað er ekki neitt á bak við þetta. Hugvísindi eru jafnan þannig að allir þykjast vita betur.
Þegar presti einum varð það á í miðju biskupsfárinu í fyrra að minnast á að til væru falskar minningar ætlaði allt vitlaust að verða. Er um þessar mundir að lesa bók eftir Carl Sagan þar sem hann segir frá fölskum minningum. Einkum þeim sem snerta alien abduction, satanic rituals og kynferðislega misnotkun og það er satt að segja einkennilegur lestur. Bók þessi heitir: The demon-haunted world. Science as a candle in the dark og var gefin út árið 1997 og kostar $12,83 hjá Amazon. Það er einkum vegna þess að ég met Carl Sagan mikils sem vísindamann sem ég fór að lesa þessa bók. Er ekki búinn með hana og fór ansi hratt yfir sögu þar sem hann var að lýsa nornum og galdrabrennum á miðöldum.
Get ekki að því gert að mér finnst þetta bloggstand á mér alla daga með því merkilegra sem ég geri. Það eru líka ótrúlega margir sem lesa þetta og ekki eru þeir að því bara til að gleðja mig. Sjálfur fæ ég öðru hvoru dellu fyrir bloggi hjá einhverjum ákveðnum aðila en það stendur sjaldan mjög lengi núorðið. Áður var ég kannski reglulegur lesandi mun lengur. Þá voru bloggin líka færri og oft persónulegri. Ég hef reynt að forðast að gera þetta blogg of persónulegt og held að mér hafi tekist það sæmilega.
Umræðuefnin eru ekki alltaf merkileg. Þó eru þau oftast spegilmynd af því sem ég er að velta fyrir mér. Sumt af því sem ég skrifa um leiðist mér afskaplega. Yfirleitt hugsa ég að bloggið mitt sé heldur neikvætt. Það er þá bara af því að ég er sjálfur svolítið neikvæður allajafna. Spyrjið bara konuna mína og börnin. Aha, þarna kom ég ykkur á óvart. Sjálfum mér líka. Hélt að ég ætti erfitt með að viðurkenna neikvæðnina. Á hina síðuna eru svo margmennisblogg eins og baggalútur. Ég get endalaust hlegið með sjálfum mér þegar ég les vitleysuna þar. Þeir skrifa samt ekki nema þegar þeim dettur eitthvað sniðugt í hug. Ég er hinsvegar síbloggandi og ekkert lát á neikvæðninni. Reyni þó að takmarka mig sem minnst við ákveðin efni og skrifa um hitt og þetta.
Hér má sjá sérkennilegt fésbókarviðfangsefni. Kannski er þetta samt ekki eins ómerkilegt og það virðist vera. Hvet þá sem eru kannski með svolítið bilaða sjón eins og ég (en með áhuga á öskudagssiðum) til að klikka nokkrum sinnum á myndina og sjá hvort hún stækkar ekki. Annars man ég líka eftir því að einu sinni var alltaf kennt á öskudaginn og að sjálfsögðu var merkilegast að hengja öskupoka aftan í kennarana. Flestir þeirra tóku því allvel og margir fluttu öskupokana framan á sig og báru þá eins og heiðursmerki. Svo var hætt að kenna á öskudaginn og það þótti mér miður því þá voru færri til að hengja aftan í. Þeir sem voru á manns eigin aldri voru svo varir um sig. Annars minnir mig að strákar hafi átt að hengja á stelpur og öfugt. Ekkert var í öskupokunum þó okkur hafi verið sagt að áður fyrr hafi gjarnan verið aska eða steinar í þeim. Á þessum tíma var kötturinn bara sleginn úr tunnunni á Akureyri en ekki sunnanlands. Búningar og gotteríisát þekktist ekki. Bolludagur og sprengidagur voru líka haldnir hátíðlegir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2012 | 22:28
1618 - Ólafur og stjórnarskráin
Gamla myndin.
Frá Þingvöllum 1974.
Alltaf fer þeim fjölgandi sem láta móðann mása á fésbókinni. Það er gott. Þá fáum við þessir fáu sérvitringar, sem enn erum að bögglast við að blogga, tækifæri til að láta ljós okkar skína.
Fyrir utan fésbókarskrifin eru margir sískrifandi athugasemdir í netúgáfur dagblaðanna og í netmiðlana en skrifa helst ekki neitt annars staðar. En sumir eru með óstöðvandi ritræpu eins og ég og blogga eins og enginn sé morgundagurinn. Virðast oft geta fyrirhafnarlaust leyst fjárhagsvanda allra ef bara væri hlustað á þá og farið eftir þeim. Flestir besservisseranna láta sér samt sem betur fer nægja að predika yfir vinum og ættingjum.
Sannleikurinn.com og Baggalutur.is eru vefsetur sem reyna að gera grín að öllu. Bæði þessi vefsetur eru orðin svo vinsæl að erfitt er að komast þangað. Sannleikurinn er verri að þessu leyti. Kannski er bandbreiddin ekki nóg hjá þeim.
Hugsanlega verður reyndin sú að forsetakosningarnar í vor verða óttalega ómerkilegar hvort sem Ólafur býður sig fram einu sinni enn eða ekki. Ef kosið verður um stjórnarskrárfrumvarpið um leið eru kosningarnar í vor búnar að fá allt annað vægi. Örugglega verða allir algjörlega á móti einhverju ákvæðinu þar. Ég er ekki búinn að ákveða enn hvaða ákvæði ég verð mest á móti. Ekki er samt öruggt að mótstaða mín við það ákvæði verði til þess að ég leggist á móti stjórnarskrárfrumvarpinu í heild. Sumir munu samt áreiðanlega gera það. Engin von er til að stjórnarskráin verði samþykkt með miklum meirihluta. Kannski skiptir afstaða ÓRG til hennar máli. Gæti trúað að hann væri einmitt að velta því fyrir sér núna. Er ekki í neinum vafa um að hann ætlar að bjóða sig fram einu sinni enn.
Já, ég er eiginlega orðinn talsvert á móti Ólafi forseta þó ég hafi kosið hann á sínum tíma. Það er ekki bara af pólitískum ástæðum þó greinilegt sé að Ólafur sækir fylgi sitt núorðið á talsvert önnur mið en áður. Mér finnst hann líka vera búinn að vera svo lengi á Bessastöðum að ég er búinn að fá leið á honum. Steinunn Ólína hefði verið miklu betri en nú er hún víst hætt við. Ég get eiginlega ekki annað en gert svolítið grín að Ólafi núorðið. Nýlega fundaði hann með Hagsmunasamtökum heimilanna og auðvitað er fátt annað en gott um það að segja. Tók þó eftir því að á mynd sem birt er í blöðunum frá þeim atburði tekur Ólafur í hendina á sjálfum sér eins og hann gerir oftast á myndum nútildags. Þarna hefur ímyndarfræðingur líklega haft áhrif því áður blakaði hann jafnan höndunum eins og hann væri með vængi. Nú er frekar eins og hann sé að óska sjálfum sér til hamingju með góðan árangur.
Ef Jóhönnustjórninni tekst að koma því í gegn að þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá fari fram um leið og forsetakosningarnar næsta vor er það mikið afrek. Mikið er nú reynt til að koma í veg fyrir það. Meira að segja Geirs Haarde-málið er fallið í skuggann.
Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar (sem alltaf er heldur að vaxa í áliti hjá mér) mismælti sig (eða mislas) áðan í ræðustól alþingis og sagði fjarnám en meinti fjárnám. Leiðrétti sig að vísu strax en þetta leiddi mig að afbökuðum málshætti: Oft veltir lítil komma þungu hlassi. Mismæli á svona virðulegum stað geta haft örlagaríkar afleiðingar. Ég man lítið eftir ræðu hennar nema þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2012 | 22:54
1617 - Elín Þorsteinsdóttir og Guðmundur Andri
Gamla myndin.
Frá Þingvöllum 1974.
Allt það sem á gengur núna um þessar mundir gæti þýtt að pólitísk stórtíðindi séu á næsta leiti. Ég á við Haarde-málið, Bjarna Ben-málið, forsetamálið og FME-málið og jafnvel fleiri. Iðnaðarsaltið og eitraði áburðurinn eru orðin smámál sem enginn nennir að sinna.
Fjármálahirðinum Gunnari (ekki í Krossinum) var sagt að taka pokann sinn. En hann tók bara vitlausan poka. Held að hann hafi tekið Geirspokann þó þungur væri.
Verð að viðurkenna að ég er svo vitlaus að ég skil ekki hvernig Lilja Mós. og fleiri ætla að fara að því að búa til 200 milljarða og láta þá hverfa strax án þess að nokkur verði var við það. Ég er víst orðinn of gamall til að skilja svona hókus pókus hagfræði.
Elín Þorsteinsdóttir, mamma Áslaugar, hefði orðið 100 ára í gær (sunnudag) hefði hún lifað. Man ennþá eftir þegar þau systkinin komu að máli við mig þegar Benedikt maðurinn hennar dó og báðu mig um að skrifa eftirmæli um hann því ég hefði skrifað svo fallega um Elínu. Þau sýndu mér úrklippu af minningargreininni sem ég hafði skrifað um hana og ég var alveg hissa á hvað hún var vel skrifuð. Auðvitað átti hún svo sannarlega skilið að fallega væri um hana skrifað, en ég hafði alls ekki þekkt hana lengi þegar hún dó. Reyndar eru minningargreinar síður en svo mitt fag og ég hef ekki skrifað þær margar um ævina.
Í tilefni dagsins fóru þau börn hennar sem búa hér í Reykjavík ásamt mökum sínum og fengu sér að borða á Aski. Maturinn þar var prýðilegur og vel útilátinn og ég veit ekki betur en allir hafi verið ánægðir með hann.
Nú ætla ég að reyna að blogga bara stutt til að þeir sem hingað líta bara öðru hvoru þurfi ekki að lesa alltof mikið. Tíu dagar eru jafnan á fyrstu síðu og það held ég að sé default hjá Mogganum og það er alveg kappnóg og ekki vil ég fara að fikta í því.
Guðmundur Andri Thorsson skrifar greinar í Fréttablaðið á hverjum mánudegi og birtir þær líka á fésbókarsíðu sinni. Í gær (20. febrúar) skrifaði hann grein um höfundarrétt sem ég er alls ekki sammála. Þó er ég oft sammála því sem hann skrifar, enda er hann fagmaður. Hann byrjar grein sína á að líkja saman þvottavélarviðgerðum og bókmenntaskrifum. Sú hugsun sem Guðmundur vill planta í huga lesandans með því er að þvottavélarviðgerðarmaðurinn fái alltaf borgað fyrir sína vinnu, en alltaf séu einhverjir sem vilji stela af rithöfundum og öðrum listamönnum.
Síðan segir Guðmundur:
Gott og vel. Á listamönnum dynja að minnsta kosti sífelldar kröfur um að gefa eftir réttinn til að fá arð af vinnu sinni. Þessar kröfur eru settar fram í nafni réttlætisins og lýðræðisins og tjáningarfrelsisins en einkum þó framtíðarinnar. Það er erfitt hlutskipti að vera andvígur framtíðinni. Hún er eitthvað svo óhjákvæmileg.
Þetta er alls ekki rétt hjá honum. Hann er bara að búa sér til strámann sem þægilegt er að ráðast á. Það vefst ekki fyrir Guðmundi að telja sjálfan sig listamann og ekki ætla ég mér að draga úr því. En eru allir listamenn sem gefa út bækur eða skrifa í Fréttablaðið? Ekki dettur mér í hug eitt andatak að Guðmundur skrifi ókeypis í blaðið.
Það vill svo til að ég er ákaflega andvígur ýmsu sem Guðmundur segir í greininni. Hann er samt prýðilega sannfærandi. Hafi menn enga eða lítt mótaða skoðun á höfundarréttarmálum er nær öruggt að þeir séu að langmestu leyti sammála Guðmundi að lestri loknum.
Það segir þó ekkert um það hvort hann hefur í meginatriðum rétt fyrir sér eða ekki.
Guðmundur segir líka í grein sinni:
Bókin er afurð markaðssamfélagsins, í eðli sínu vara sem gerð er úr orðum og pappír og á fyrir sér lengri framtíð en hugsjónamenn um bókleysi dreymir um. En bókfellið velkist og stafirnir fyrnast og fúna". Rétt eins og tónlistin lifði af dauða kassettutækisins þá mun sagnalistin líka lifa af dauða ipadsins. Sagnalistin mun meira að segja lifa bókina og allan þann iðnað sem henni fylgir.
Þetta er eins og hvert annað bull. Bókin er ekkert afurð markaðssamfélagsins. Af hverju ræðst Guðmundur ekki á bókasöfnin. Þau lána bækur rithöfunda næstum (eða alveg) ókeypis? Hver kynslóð dreifir hugsunum rithöfunda (og annarra listamanna) með þeim hætti sem best hentar. Það er misskilningur að listamenn eigi einhvern heilagan rétt til íhaldssemi og að ekki megi hrófla við einhverju skipulagi sem einu sinni hefur komist á. Þeir þurfa auðvitað að lifa eins og aðrir en ef þeir geta ekki aðlagað sig að breyttum tímum bíður þeirra ekkert annað en gleymskan. En það er alveg rétt hjá Guðmundi að bókin mun lifa en það er ekki sjálfsagt að lítil málsamfélög eins og það íslenska muni lifa endalaust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)