Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

1616 - Þegar kviknaði í á Vegamótum

Untitled Scanned 581Gamla myndin.
Þessi mynd er tekin við Hveramörk 6 og þetta er útsýni sem ég kannast ákaflega vel við. Lengst til vinstri er hús Baldurs Gunnarssonar þá Sigursteinshús og síðan Bakaríið og að lokum verkstæðið hjá Aage.

Það mun hafa verið laust eftir 1970 (kannski 1972 eða 1973) sem það kviknaði í fatnaði sem var í þvottahúsinu í íbúðarhúsinu ofan og norðan við Veitingahúsið að Vegamótum. Ástæða þessa eldsvoða mun líklega hafa verið ofhitnun á sótlúgu sem var rétt við fatnaðinn. 

Þetta mun hafa verið um átta eða níuleytið um kvöldið og af einhverjum ástæðum vorum við Áslaug bæði sofandi en þó á sitthvorum staðnum. Benni var heima en Bjarni í skólanum í Laugargerði. Benni varð fyrstur var við eldinn og vakti okkur. Þá var reykur farinn að liðast um allt húsið og þegar ég opnaði þvottahúshurðina var allt fullt af eldi og reyk þar inni.

Ég flýtti mér því að hringja niður í Veitingahús með beiðni um að senda strax með slökkvitækið uppeftir því kviknað væri í. Kristján frá Hraunhálsi kom fljótlega hlaupandi með slökkvitækið og fór beint af augum upp að íbúðarhúsinu. Mér er minnisstætt að talsverður snjór var yfir öllu og þegar Kristján kom að skurðinum sem er nokkurn vegin miðja vegu milli húsanna sökk hann í snjóinn og datt en var fljótur á fætur aftur og kom von bráðar með slökkvitækið til okkar þar sem við stóðum á stéttinni við útidyrahurðina. Man ekki með vissu hvort Erling á Eiðhúsum (og líklega fleiri) var kominn þá eða kom fljótlega á eftir en hann átti einfaldlega leið um að mig minnir.

Þegar slökkvitækið var komið tók ég það og fór með inn og opnaði hurðina inn á þvottahúsið og slökkti eldinn og var fljótur að því. Slökkvitæki þetta var dufttæki og þó það kæfði eldinn fljótt og vel gaus hann fljótlega upp aftur því kælingin var engin. Ég hraðaði mér síðan út á stétt aftur. Eftir svolitla stund ákvað ég að fara aftur inn og athuga hvort eldurinn og reykurinn í þvottahúsinu væri ekki að minnka. Þá sá ég að eldurinn hafði tekið sig upp að nýju. Fór þá og náði í slökkvitækið aftur og slökkti eldinn. Eldurinn gaus fljótlega upp aftur og ég man ekki hvort ég fór einu sinni enn útá stétt og svo inn aftur til að reyna að slökkva hann. Að lokum fór ég inn í þvottahúsið og út um útdyrahurðina þar og jós snjó á eldinn og náði fljótlega að slökkva hann með því. Á meðan biðu aðrir eftir mér á stéttinni og þótti ég vera lengi en fundu þó fljótlega hver ástæðan var.

Með þessu móti tókst að slökkva eldinn en ekki hefur mátt miklu muna að illa færi því stiginn upp á háaloftið og loftlúgan voru talsvert sviðin. Þrifin á húsinu sem að mestu fóru fram daginn eftir voru talsverður handleggur og ég man að Magndís í Lynghaga hjálpaði okkur við þau.

Þó ekki sé enn staðfest hvað nákvæmlega hafi ollið því að stjórn Fjármálaeftirlitsins hafi sagt forstjóranum, Gunnari Andersen, upp störfum

Svona byrjar frétt sem ég sá áðan á Eyjunni og hætti auðvitað snimmhendis að lesa. Mér finnst það blaðamannslegt að vera alltaf að finna upp sögnina „að olla“ og finnst vera búið að fjölyrða svo oft um þetta að blaðamenn ættu að fara að læra að hafa þetta rétt.

IMG 7921Mosagróinn steinn.


1615 - Snorri í Betel

Untitled Scanned 80Gamla myndin.
Hér skemmta menn með miklum tilþrifum í sundlauginni í Laugaskarði. Líklega er myndin tekin 17. júní.

Margt bendir til að kreppan sé um það bil að taka enda. Núverandi ríkisstjórn getur þó varla setið út kjörtímabilið. Þar er Evrópusambandsaðildin of stór ásteitingarsteinn. Líklega verða næstu þingkosningar afar þýðingarmiklar. Komist Sjálfstæðisflokkurinn á ný til valda er eins víst að hrunstarfsemi hefjist hér að nýju. Þó kann að vera að sú stefna flokksins sem hruninu olli verði mildari að þessu sinni. Endurnýjun þingmanna flokksins er þó nauðsynleg og það sama má segja um Samfylkinguna. Stjórn hennar að undanförnu hefur einkum komið til vegna skorts á öðrum kostum. Læt svo lokið stjórnmálapælingum að þessu sinni og reyni að snúa mér að öðru.

Ég hef orðið þess var bæði í athugasemdum og annars staðar að sumir lesenda minna (sem eru furðu margir) hafa verið ósáttir við það sem ég hef skrifað um Snorra í Betel. Kannski skulda ég þeim skýringu.

Fyrir mér er málfrelsi heilagt og ég reyni að styðja það ef ég mögulega get. Að mínum dómi eru DoctorE og Snorri í Betel á sínum endanum hvor á trúarbragðaásnum. Báðir blogga og DoctorE var rekinn af Moggablogginu en Snorri endurreistur þar. Sjálfur tel ég mig DoctorE- megin við miðju. Með öfgum sínum og óbilgirni tel ég þó DoctorE skaða nokkuð trúleysi, afneitun og efahyggju. Á sama hátt tel ég Snorra í Betel skaða mikið aðra Jesúhoppara með skoðunum sínum og jafnvel alla kristni þó það sé að teygja málið ansi langt. Les reyndar afar sjaldan bloggið hans Snorra en hef heyrt því haldið fram að sumt þar sé beinlínis hatursáróður. Með slíka flokkun verður að fara afar varlega því mikil hætta er á að niðurstaða í slíku litist af pólitískri sannfæringu. Það á alls ekki að nægja til þöggunar, heldur finnst mér nauðsynlegt að menn með mjög ólíka pólitíska sýn séu sammála um slíka flokkun svo mark sé á henni takandi.

Hvað snertir brottrekstur Snorra úr kennarastarfi verð ég að viðurkenna að ég þekki málið ekki eins vel og vera þyrfti til að ég geti kveðið upp marktækan dóm um það. Margt bendir samt til að það sé einkum vegna skoðana Snorra (sem aðallega birtast á blogginu hans) sem hann er rekinn úr starfi. Sé svo finnst mér brottvikningin óréttmæt og ekki í samræmi við það sem tíðkast yfirleitt í skólum. Réttur vinnuveitanda hlýtur samt oftast að vera a.m.k. jafn rétti launþega.

IMG 7914Frá Kópavogi.


1614 - ÓRG

Untitled Scanned 73Kappsund í sundlauginni í Laugaskarði. Merkilegt hvernig fánarnir á miðri mynd blakta. Líklega eru þetta Byggingin og stóra húsið á Reykjum sem gnæfa yfir búningsklefana.

Mér finnst ekki sérlega gáfulegt hjá Samtökum lánþega að vera að líkja sér við Portúgal eins og ég sá einhversstaðar. Hinsvegar er það greinilegt að ríkisstjórnin hefur gert sig seka um meiriháttar afglöp. Þeir sem styðja hana núorðið gera það flestir af því ekki virðist völ á neinu skárra. Sighvatur talaði fyrir kosningum næsta haust og kannski er það alveg rétt hjá honum. Stjórnin ætti að taka frumkvæði í þessum málum og stefna strax á kosningar þá, en ekki láta hrekja sig þangað. Mismunur á milli gengistryggðra lána og verðtryggðra er nú orðinn svo mikill að ríkisstjórninni er varla sætt miklu lengur. Vel getur orðið um þrjár mikilvægar kosningar að ræða á þessu ári: Forsetakosningar, kosningu eða þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárfrumvarp og alþingiskosningar.

Rauðvín er betra en gallsúr áróður. Þessvegna datt mér í hug að skrifa frekar um mótorhöfuðs-rauðvín en hæstaréttardóma enda eru líklega margir sem láta ljós sitt skína um þá. Þetta með popp-rauðvínið er merkilegt mál. Í grunninn sýnist mér það snúast um hver eigi að ráða vöruvalinu í verslunum sem ríkið rekur. Þetta er alls ekki einfalt mál eins og það væri sennilega ef um einkarekna verslun væri að ræða. Þá væri sjálfsagt að hafa til sölu það sem fólk vill kaupa. Taka þyrfti samt tillit til ýmissa atriða sem snerta siðferði og þessháttar. Starfsfólk ÁTVR reynir að skjóta sér á bakvið eitthvað slíkt en satt að segja er það ekki mjög sannfærandi. Ég hef séð myndir af þessum rauðvísflöskum og finnst óþarfi að hindra sölu þeirra, ef fólk vill kaupa vínið.

Eiginlega er það alveg ólíðandi að forseti lýðveldisins sýni landsmönnum öllum þá ókurteisi og fyrirlitningu sem Ólafur Ragnar Grímsson gerir núna. Augljóst er að með háttalagi sínu hefur hann óeðlileg áhrif á það hverjir hugsanlega bjóða sig fram á móti honum næsta vor. Það getur verið að lagatæknilega séð sé svona háttalag verjandi. Ég kaus ÓRG á sínum tíma en mun áreiðanlega ekki gera það aftur. Þrjátíu þúsund manns hafa undirritað áskorun til hans um að bjóða sig fram einu sinni enn. Á engan hátt hafa þessir Íslendingar þó skuldbundið sig til að kjósa hann ef hann verður við áskoruninni. Hiklaust má gera ráð fyrir að stuðningsmönnum hans fari mjög fækkandi ef hann svarar ekki fljótlega spurningunni um það hvort hann muni svara kalli þessa hóps.  

Hannes Pétursson skáld og Álftnesingur skrifar skemmtilega grein um ÓRG nýlega og ég sá hana ekki fyrr en núna áðan. Linkurinn er svona: http://www.visir.is/felulitir-/article/2012702179997

Annaðhvort er Moggabloggið skyndilega orðið óhemju vinsælt eða bandvíddin þangað er afar lítil (hefur jafnvel verið minnkuð) Sá nefnilega í gærkvöldi að viðbrögð höfðu verið við athugasemdum mínum en ég gat ekkert svarað þeim eða lesið nema rétt upphafið af þeim og auðvitað ekki sett upp nýtt blogg sem þó var tilbúið. Óþægilegt.

IMG 7907Hreppur, bær eða kaupstaður.


1613 - Fíflið í stofunni (eða var það fíllinn)

Untitled Scanned 72Gamla myndin.
Veit að þetta eru Hvergerðingar en ekki hverjir. Sennilega eru þetta verðlaunaskjöl sem þau eru með í höndunum. Dálítið kuldalega klædd. Veit ekki hvar myndin er tekin.

Svo er sagt að veturinn sé ekki einu sinni kominn. Hryllilegt. Svartsýni sem jafnvel veðurglöggur maður eins og Sigurður Þór gæti vel sætt sig við. Ég vil aftur á móti trúa því að vorið sé á næsta leyti. Klukkan níu er farið birta talsvert jafnvel þó þungbúið sé og rigningarlegt. Auðvitað eiga eftir að koma hret, en ég vona að þau verði ekki neitt óskapleg. Sá snjór sem kann að eiga eftir að falla (og á örugglega eftir að falla) staldri ekki lengi við o.s.frv.

Hefur lengi langað til að skrifa smávegis um Voynich handritið. (Best af öllu fyrir þá sem vilja fræðast um þetta sérkennilega mál er að gúgla „Voynich manuscript“ og stilla gúglið t.d. á myndir. Þannig)  http://www.google.is/search?hl=is&q=voynich+manuscript&gs_upl=&bav=on.2,or.r_gc.r_pw.,cf.osb&biw=1280&bih=855&pdl=500&wrapid=tljp1329300261770010&um=1&ie=UTF-8&tbm=isch&source=og&sa=N&tab=wi&ei=V4Y7T5P8Noqi0QWs-f1s eða stilla ekki á myndir og kynna sér þá t.d. hvað Wikipedia segir um málið.

Á þessu ári eru 100 ár liðin síðan handritið kom fyrst fram og enn eru menn ekki búnir að ráða mikið í það sem þar stendur. Svo geta menn setið við (Seti@home) og látið eins og þeir séu að leita að útvarpsmerkjum frá fjarlægum menningarsamfélögum. Segjum að torkennileg útvarpsmerki fyndust; er öruggt að vel gengi að ráða framúr þeim?

Eiríkur Örn Norðdahl er einn ágætur rithöfundur nefndur. Mér finnst hann vera einn af fáum rithöfundum íslenskum sem hefur svipaðar skoðanir og ég á höfundarréttarmálum. Fyrir skömmu lýsti hann því t.d. í smáatriðum hvernig hann fór að því að nálgast ólöglega á netinu bók Hallgríms Helgasonar um konuna við þúsund gráður. Sumir eru þeirrar gerðar að þeim finnst þjófnaður ekki vera þjófnaður nema um sé að ræða íslenskt efni. Eiríkur Örn sýndi fram á að auðvelt er að komast framhjá læsingum þeim sem settar hafa verið á bókina. Um þetta má margt segja en ég ætla að sleppa því núna og vísa bara á Eirík Örn. Hann bloggar oft og þar má lesa um skoðanir hans: http://blogg.smugan.is/kolbrunarskald/ .

Ástæðan fyrir því að ég minntist á Eirík er líka sú að mig langaði að koma að Nordals-brandaranum fræga. Kannski hefur Eiríkur Örn minnst á hann á blogginu sínu en ég minnist þess ekki að hafa séð hann þar.

Þegar Sigurður Nordal var í skóla á sínum tíma fannst honum ómögulegt að geta ekki stytt nafnið sitt svolítið. Hann fór því að nota undirskrift sem var einhvern vegin svona: Sig. Nordal. Þá brá svo við að allir fóru að kalla hann Signor Dal. Það þótti honum ekki gott svo hann breytti undirskriftinni og fór að skrifa bara S. Nordal. Þá fóru menn að kalla hann Snordal.

Til að fylgjast almennilega með hef ég nú neyðst til að setja bloggið hans Snorra í Betel í blogg favorítin hjá mér; það hef ég ekki gert áður og man varla eftir að hafa litið á það blogg. Mér finnst samt að hann eigi að hafa málfrelsi meðan hann skaðar engan. Eru annars einhverjir neyddir til að lesa bloggið hans?

„Gemsa? Já, bóndinn hélt nú það, hvort hann ætti! Hann sagðist eiga bæði gemlingsgimbur og gemlingshrúta, vanka-gemlinga, þrifnaðargemlinga og hálfgerða horgemlinga, veturgamla og yngri. Stelpan að sunnan virtist ekki hafa hugmynd um hvað hann var að fara.“

Þetta er textinn sem ég hafði fyrir framan mig áðan meðan ég hámaði í mig hafragrautinn og sjálfsagt er þetta vandaður texti; greinarmerkjafræðin í góðu lagi líka. Gat samt ekki annað en furðað mig á því hvers vegna bóndinn ætti bara eina gimbur á þessum aldri en marga hrúta. Kannski er þetta misskilningur hjá mér með fleirtölumyndina eða getur verið að aðili af þessu tagi hafi rangt fyrir sér?

IMG 7894Já, svona voru gangastéttarnar í Kópavogi.


1612 - Æ, þegiðu

Untitled Scanned 66Gamla myndin.
Hjólað á skólatúninu. Gamli barnaskólinn vinstra megin á myndinni og hornið á þeim nýja til hægri. Auk þess Garðyrkjustöðin á Reykjum, Laugaskarð og fjósið á Reykjum.

„Hér er því rangur hattur settur á ráðuneytið, líkt og þegar Jón Hreggviðsson setti upp hatt böðulsins í Galtarholti forðum.“

Þessi orð Össurar Skarphéðinssonar á alþingi hafa orðið tilefni nokkurra orðahnippinga. Siv Friðleifsdóttir þóttist vera að taka upp hanskann fyrir flokkssystur sína og gerði þessi ummæli að umtalsefni á alþingi og Illugi Jökulsson skrifar um málið á Eyjubloggi sínu. Mér finnst að fólk eigi að láta svonalagað eiga sig. Ef menn vilja strá í kringum sig tilvitnunum þá mega þeir það mín vegna. Séu þær vitlausar eða óviðeigandi hljóta þær að hitta ræðumann sjálfan fyrir. Annars eru þær bara eins og þær eru.

Nú er ég búinn að skrifa á fésbókarvegginn minn bæði um Snorra í Betel og Bjarna Benediksson og þar með búinn að eyðilegga mögulega umfjöllun um þá hér á blogginu blessaða. Þá verð ég bara að reyna að finna eitthvað annað. Já, ég hélt semsagt framhjá blogginu mínu í gær og setti það sem mér fannst vera talsverð gullkorn á fésbókina. Þar skrunar það niður í glatkistuna á no time eða það finnst mér. Get ekki að .því gert að mér finnst bloggskrif vera varanlegri en fésbókarskrifelsið. Sjálfhverfan og sjálfsánægjan er meira að segja svo mikil að ég er að hugsa um að setja þessi tímamótaveggskrif (gæsalappalaus) hér í bloggið:

Bjarni Benediktsson gerði augljós mistök í viðtalinu við Helga Seljan áðan þegar hann reyndi að gera lítið úr upphæðinni sem deilt er um í Vafningsmálinu. Sömuleiðis er það misskilningur hjá honum að gamlar fréttir tapi gildi sínu bara við það að vera gamlar. Ástæða þess að aðrir fjölmiðlar en DV fengu áhuga á málinu einmitt núna er sú að Bjarni hefur hingað til ekki viðurkennt að hafa vitað um hagræðingu dagsetninga í málinu.

Kannski hefur Barnaskóli Íslands á Akureyri sérstakar reglur um það hvaða skoðanir kennarar þar mega hafa. Þannig getur vel verið að brottvikning Snorra í Betel sé réttmæt. Hinsvegar finnst mér að skólanefndinni komi lítið við hvað skrifað er um á bloggi sem ekki tengist skólastarfinu á neinn hátt. Stangist það á við lög eða stjórnarskrá er samt sjálfsagt að kæra málið.

Og lofa að gera þetta helst ekki aftur. Ef ég linka svo í þessi bloggskrif á fésbókina eins og ég geri stundum er ég þá ekki búinn að ná mér svolítið niðri á fésbókarræflinum?

IMG 7891Útidyr og snjór.


1611 - Eiturlyfið fésbók

Untitled Scanned 64Gamla myndin.
Hveragerði og gamli vegurinn í Kömbum. Þó ekki gamli gamli vegurinn. Mig minnir að sjá megi ummerki um fjóra vegi þarna. 1. Núverandi vegur. 2. Gamli vegurinn. 3. Gamli gamli vegurinn. 4. Elsti vegurinn.

Sennilega er öruggast fyrir íhaldsandstæðinga að sameinast undir merki Breiðfylkingarinnar til að hafa raunhæfa möguleika á að koma í veg fyrir nýja ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknar. Ekki er líklegt að Samfylkingin eða VG geri það. Af ríkisstjórnarflokkunum stendur VG sennilega jafnvel verr að vígi en Samfylkingin í þeim kosningum sem líklega verða næsta haust. Staða Samfylkingarinnar er alls ekki góð og eina haldreipið er ESB.

Líklega verða næstu kosningar dálítið ruglingslegar. Margir munu leggja áherslu á ESB-málin eða kvótamálin og sumir verða líklega uppteknir af skuldastöðu heimilanna. Kannski Sjálfstæðisflokknum gangi öðrum betur að fiska í því gugguga vatni sem búast má við. Hrunið er nefnilega við það að gleymast. Svo kann allt í einu að færst líf í Sérstakan þegar dregur að hausti og það gæti haft áhrif.

Fésbókin er eins og hvert annað eiturlyf. Ég reyni að nota það lyf sem allra minnst. Aðallega til að skoða. Pósta, læka og séra eins lítið og ég get komist af með. Vona að með því móti verði ég minna háður henni en ella. Fésbókarvinir mínir eru 441. Já, ég veit að það er alltof mikið. Innleggin skruna svo hratt framhjá að ég sé fæst þeirra. Svo er ég með einhverja 10 eða 20 nána vini og fæ tilkynningar strax ef þeir gera eitthvað. Verst að þeir gera alltof mikið. Ef maður notar Facebook aðallega og helst eingöngu til þess að halda sambandi við sína nánustu og lætur alla forvitni um aðra lönd og leið þá getur vel verið að hún verði minni tímaþjófur en oftast er. Nú virðast gamlar myndir og allskyns myndbönd vera mesta tískan á fésbók. Hún er líka farin að hægja svo mikið á sér að til vandræða horfir.

Söngvakeppnin í sjónvarpinu var hundleiðinleg og ég held að íslenska lagið nái ekki langt í Eurovision. Einfaldlega vegna þess að Austantjaldsþjóðirnar eiga þá keppni og virðast halda að hún skipti einhverju máli. Kannski kemst íslenska lagið samt uppúr undankeppninni.

Lesendum mínum er að stórfækka. Það er eðlilegt. Fésbókin virkar æ betur og þar vill fólk eyða tölvutímanum sínum. Alltaf eru samt einhverjir sem glepjast hingað inn. Meðan svo er held ég áfram að skrifa. Engin hætta á öðru. Er kominn með dellu fyrir að lesa vísindaskáldsögur eftir Isaac Asimov. Held að hann hafi skrifað þær ansi margar svo ég þarf ekki að kvíða lesefnisleysi. Svo má alltaf stytta sér stundir við að kíkja á fésbókina.

Mín tilfinning er sú að Vaðlaheiðarmálinu og máli Kínverjans Nubo verði slegið saman þó engin ástæða sé til þess. Þannig verði Vaðlaheiðargöngin samþykkt en Nubo sagt að hætta þessu þvargi. Um þetta verði kannski ekki beinlínis samið en afgreiðsla mála verði með þessum hætti. En þetta er bara tilfinning. Held nefnilega að stjórnvöld ætli sér að gera göngin hvað sem hver segir.

Staða Vafninga-Bjarna versnar stöðugt. Nú neyðist hann til að viðurkenna að DV hafi haft rétt fyrir sér allan tímann. Slíkt eru harðir kostir. Stjórn hans á Sjálfstæðisflokknum er fyrir bí. Held að flokkurinn skipti um formann sem allra fyrst og reyni síðan að gera enn eina atlögu að Jóhönnu. Á endanum tekst það, því hún er farin að mæðast mikið. Ólafur forseti fer þó að verða ansi fyrirferðarmikill í fréttum á næstunni. Það er ekki eðlilegt hvernig hann lætur.

IMG 7885Snjór.


1610 - Where is everybody?

Untitled Scanned 59Gamla myndin.
Skrúðganga í Hveragerði. Þetta er í Bláskógum og húsið hans Kristins Péturssonar í baksýn fyrir miðju.

Var að enda við að lesa merkilega bók sem er um möguleikana á að líf kunni að finnast á öðrum hnöttum. Höfundurinn gengur mjög skipulega til verks og fer yfir 50 helstu skýringarnar á Fermi-þversögninni og útskýrir hana fyrir lesendum.

whereisÞannig er gerð grein fyrir bókinni á Amazon.com:

Ég er fæddur í september árið 1942. Þann 2. desember það sama ár má segja að kjarnorkuöldin hafi hafist. Þá tókst mönnum í fyrsta sinn að koma af stað kjarnaklofnun í úrani. Sem betur fer var sú kjarnaklofnun „under control“ eins og sagt er. Það var Enrico Fermi sem hafði þá stjórn með höndum. Þetta var hluti af svokallaðri Manhattan-áætlun sem eins og margir vita fólst í því að smíða kjarnorkusprengju. Arthur Holly Compton var stjórnandi keðjuverkunar-verkefnisins og hringdi til James Bryant Conant sem stjórnaði Harvard háskólanum á þessum tíma og sagði: „Jim, you will be interested to know that the Italian navigator has just landed in the new world.“

Þetta hef ég meðal annars úr þessari bók. Þ.e.a.s. ég vissi svosem að Fermi stjórnaði fyrstu kjarnaklofnuninni og að hún átti sér stað skömmu eftir að ég fæddist. Hitt er úr bókinni og þar er að sjálfsögðu margt fleira.

Einn merkilegasti kaflinn í bókinni finnst mér vera undir lokin. Það ræðir höfundur um málstöðvar heilans og máltöku barna. Það mál er afar merkilegt. Þar ræðir hann meðal annars um kenningar Chomsky‘s um að vissir þættir í máltökunni hljóti að vera meðfæddir. Það er nefnilega alveg undur og stórmerki hve fljót börn eru að læra að tala og hvernig þau gera það. Fátt held ég að sé betur til þess fallið að kynnast starfsemi heilans en að setja sig vel inn í þau mál.

Kannski geri ég betur grein fyrir þessari bók seinna. Hún á það alveg skilið. Það er ólíkt merkilegra að velta fyrir sér UFO-um, lífi á öðrum hnöttum og þessháttar en íslenskum stjórnmálum og íslensku Hruni. Flestir fara ekki lengra en að ESB og Grikklandi ef þeir vilja finna eitthvað merkilegra, en hvers vegna ekki að fara alla leið?

„Ekkert er stórt og ekkert er smátt án samanburðar við annað.“ Þetta minnir mig að Jónatan Swift hafi sagt. Ég, eins og margir fleiri, las með áfergju Gullivers-bækurnar á sínum tíma og þó mörgum finnist ég oft gera lítið úr Íslandi og íslenskum veruleika vil ég bara minna á spakmæli þetta og boðskap þess. T.d. á þetta  vel við um samanburð á UFO og Hruninu.

Sveiflast alltaf á milli þess að álíta að fólk sé fífl og álíta að það sé ekki fífl. Þegar ég horfi t.d. á boltaleiki í sjónvarpinu verður fyrri fullyrðingin oftast ofaná. (Já, nú verður þú að athuga hvort ég nefndi á undan.) Við kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur verður það oftast sú síðari. Jafnvel þó ég lendi í miklum minnihluta. Hvernig stendur eiginlega á þessu?

IMG 7880Ofan gefur snjó á snjó.


1609 - Hrun, skattar og skátar

Untitled Scanned 45Gamla myndin.
17. júní hátíðahöld í Laugaskarði sýnist mér.

Allt í einu eru menn búnir að fá leið á að tala um Hrunið og farnir að tala um lífeyrissjóðina. Ég hef verið þeirrar skoðunar allt frá Hruninu sjálfu að á endanum muni stjórnmálin gleypa það. Umræðan hefur samt breyst á undanförnum árum og gott ef fólk er ekki orðið mun meðvitaðra um sín pólitísku réttindi. Kosningaúrslit munu samt ráða því enn um skeið hvernig landinu er stjórnað.

Bæði í umræðum um skattamál og lífeyrissjóðamál er rétt fyrir fólk að gera sér grein fyrir því að það kostar okkur talsvert að vera svona lítil. Við erum að rembast við að halda uppi alvöruþjóðfélagi þó við getum það varla. Skattar eru háir hér á landi og lífeyriskerfið meingallað. Meðan lifað var á lyginni í aðdraganda Hrunsins var reynt að telja okkur trú um að við værum öðrum fremri. Svo er ekki. Alveg fram á tuttugustu öldina drógumst við í sífellu aftur úr nágrannaþjóðunum. Síðan kom blessað stríðið rétt fyrir miðja öldina og framfarir hér á landi urðu gríðarlega miklar og örar. Þær framfarir byggðust nær eingöngu á sjávarafla (og hermangi) og geta ekki haldið áfram endalaust.

Þó við höfum nær kollsiglt okkur nú nýlega er margt sem bendir til þess að við séum að ná okkur furðanlega aftur. Stjórnmálaástandið er samt undarlegt hérna svo ekki sé meira sagt. Útlendingar eiga erfitt með að skilja hvernig stjórnarfarið virkar. Mér finnst að reynt hafi verið síðastliðin tuttugu ár eða svo að teygja stjórnarfarið í átt að því Bandaríska meðan við ættum að taka okkur Norðurlandaþjóðirnar til meiri fyrirmyndar. Þessu hefur Jón Baldvin Hannibalsson haldið fram og ég er ekki frá því að hann hafi sannfært mig.

Auðvitað er ég krati. Hef ekki einu sinni reynt að halda öðru fram. (Jú, einu sinni þóttist ég vera kommúnisti en þeir eru víst svotil útdauðir – kratarnir eru skyldir þeim. Þjónkun þeirra við fjármagn hvaðan sem það kemur er samt stundum óþægilega mikil.) Mér er alveg sama þó „bloggskrifandi hagfræðingum“ hafi fjölgað mjög að undanförnu. Þeir hafa ekki sannfært mig. Þó mikið sé talað um að allt sé að fara í kaldakol hér á Íslandi hef ég ekki í hyggju að flýja land. Skil samt vel það unga fólk sem leggur saman tvo og tvo og fær það út að lífið sé auðveldara annars staðar.

Þessi sífelldi bloggmalandi í mér er aðallega vandamál vegna þess hvað bloggin verða oft löng. Þetta blogg er svosem orðið ansi langt, en ég hef bara svo margt að segja. Auðvitað reyni ég alltaf að sýnast gáfaðri og merkilegri en ég er, en það gera flestir.

Sá áðan fyrirsögn á mbl.is sem hljóðaði svona: „Skart stöðvað á leið úr landi.“ Þetta hefði ég viljað sjá. Lítið er að græða á fréttinni sjálfri enda er fyrirsögnin langtum merkilegri.

Einu sinni var rætt um að flytja út teikningar af gatnakerfinu í Kópavogi, enda er það einstakt.

Nú er mikið rætt um Snorra í Betel. Hélt reyndar að Betel væri í Vestmannaeyjum. Það skiptir þó ekki máli. Honum er legið á hálsi fyrir að skrifa eitthvað kristilegt á bloggið sitt. Virðist trúa Biblíunni eins og nýju neti. Furðulegt. En mér finnst ansi hart að reka manninn úr starfi fyrir það eitt að einhverjum líki illa við það sem hann skrifar á bloggið sitt. Ef krakkarnir eru ánægð með hann sem kennara þá á hann að halda áfram að kenna. Svona mál á ekki að leysa á síðum blaða eða á fésbók. Á ekkert erindi þangað. Fésbókarfurstarnir vilja samt skipta sér af öllu og fordæma allt. Niður með þá.

Krakkarnir fá spjaldtölvur í skólanum og foreldrarnir rífa sig niður í rassgat á fésbókinni. Hvar endar þetta eiginlega? Ég er þeirrar skoðunar að þjóðin sé sífellt að vera gáfaðri og gáfaðri. Man eftir því að þegar ég var í Borgarnesi þá stofnuðum við félag sem hafði það á stefnuskrá sinni að koma tölvum í skólana. Ekki gekk það. Könnun sem mælir bara hve margar bækur hver og einn les er orðin úrelt áður en byrjað er á henni. Afl og afkastageta hjá tölvum tvöfaldast á hverjum 18 mánuðum. Hugbúnaður þróast ögn hægar en samt er augljóst að bylting er í vændum.

Benjamín Axel Árnason skrifaði mér á fésbókinni og bað mig að séra og læka síðu hjá skátunum. Gerði það og minnist þess um leið að ég var í þýðendahópi í fyrra sem var að þýða Suður-Ameríska bók sem átti að verða einskonar foringjahandbók. Tók síðan þátt í útgáfuteiti s.l. vor þegar bókin var gefin út. Benjamín Axel leiddi þýðendahópinn og gerði það vel. Mér finnst ég vera mun fróðari um skátastarf allt eftir það. Þegar ég var unglingur starfaði ég talsvert í skátunum í Hveragerði og tók þátt í því með Öllu Möggu og Árna að blása að nýju lífi í Skátafélag Hveragerðis. Kannski ég bloggi einhverntíma um það. Minnir þó að ég hafi gert það. Hvað ég hef bloggað um áður og hvað ekki er þó alltaf að verða óljósara og óljósara í mínum huga.

IMG 7879Greinar trjánna svigna.


1608 - Norðdahl

Untitled Scanned 041Gamla myndin.
Ruslahaugur niðri í sveit. Líklega hjá Völlum. Einu sinni var farið með allt rusl sem féll til í Hveragerði þangað. Elstu ruslahaugarnir sem ég kannast við voru reyndar neðst í Kömbunum.

Eiríkur Örn Norðdahl segist vera hættur á fésbók og gerir grein fyrir því á http://blogg.smugan.is/kolbrunarskald/2012/02/09/sjotiuogtveir-rum-til-ad-hugsa/ Þó hann sé orðmargur er margt athyglisvert í því sem hann segir. Ekki er ég skáld og ekki get ég skrifað jafnlengi og hann um sama efni. Þó er ég töluvert sammála honum. Hann skrifaði líka um daginn um hvernig hann gat nálgast heitu konuna hans Hallgríms Helgasonar án þess að borga uppsett verð fyrir bókina og lýsti því nákvæmlega hvernig hann gerði það. Hann virðist hafa mikinn áhuga á rafrænni útgáfu bóka og þar er ég honum sammála. Skiljanlega vill hann samt hafa tekjur af skrifelsinu og það vildi ég líka. Sætti mig samt alveg við að hafa það ekki.

Þetta skrifa ég í mitt blogg-wordskjal og vel getur verið að ég birti það ekki. Fésbókin má aldrei vera að því að bíða eftir neinu þess háttar. Áreiðanlega birti ég það ekki fyrr en eftir einhverja klukkutíma og kannski verður það orðið úrelt þá.

Leiðist flokkspólitískur stjórnmálaáróður ákaflega mikið. Finnst flokkspólitískt fólk líka oft afar fljótt að taka ákvarðanir. Samtök og einstakt fólk fær ekkert tækifæri til að sanna sig. Ef það hefur einhverntíma gert eitthvað sem ekki hefur fallið flokkspólitíska fólkinu í geð er það brennimerkt um aldur og æfi. Nú virðist samkvæmt Smugunni alls ekki sama hver þjónustar þá sem verða fyrir kynferðisofbeldi. Óþarfi er að hugsa nokkuð um rök. Óhætt að hjóla strax í þá sem þetta eiga að gera því þau tilheyra vitlausum flokki.

Íþróttagreinin samkvæmisdans hefur hingað til verðið blessunarlega laus við rifrildi það og skítkast sem aðrar greinar íþrótta hafa flestar búið við lengi. Nú er ekki annað að sjá en tekist hafi að koma upp nokkrum keppninsbönnum þar með aðsoð útlendinga. Eins og venjulega eru það einkum iðkendur íþróttarinnar sem tapa á þessu. Hvers vegna í ósköpunum eru stjórnendurnir að þessu? Þeir virðast ekki græða neitt á því. Eina skýringin sem mér dettur í hug er sú að meðan hægt sé að láta líta svo út að íslensk danslist sé í hávegum höfð erlendis sé hægt að komast í fjölmiðla hérlendis. Þar er ekki auðvelt að komast að fyrir þeim sem á fleti eru fyrir.

IMG 7874Snjórinn kemur sér þar fyrir sem hægt er.


1607 - Lífeyrissjóðirnir

Untitled Scanned 32Gamla myndin.
Nýju búningsklefarnir í Laugaskarði. Einhvern tíma voru þeir a.m.k. nýir. Ég man reyndar mun betur eftir þeim sem voru á undan þessum. Hér stendur greinilega eitthvað til þó ekki sé margmennt.

Þetta með lífeyrissjóðina er alls ekki eins og fjölmiðlarnir vilja láta það líta út akkúrat núna. Stóri munurinn á því máli og hruninu sjálfu er að allt er og hefur löngum verið uppi á borðinu varðandi lífeyrissjóðina. Vissulega er það rétt að launþegar ættu að ráða mun meiru þar en þeir gera. Þetta eru þeirra peningar. Atvinnurekendur ættu ekki að hafa þau áhrif á lífeyrissjóðakerfið sem þeir hafa. Krukk ríkisstjórna á hverjum tíma í kerfið er miklu meira ákvarðandi um eðli þess en nokkuð annað.

Lífeyrissjóðakerfið og hið opinbera tryggingakerfi spila á margan hátt saman og segja má að ríkið hafi á ýmsan hátt yfirtekið sjóðina eða stolið þeim á undanförnum áratugum. Þessi tvö kerfi eru orðin alltof flókin og vissulega er þörf á að einfalda hlutina þar. Ekki er þar með sagt að okkur Íslendingum henti best söfnunarkerfi á þann hátt sem tíðkast í Bandaríkjunum. Mun nærtækara væri fyrir okkur að hafa lífeyriskerfi á líkan hátt og tíðkast á Norðurlöndunum.

Það var eitt af einkennum allrar stjórnunar í aðdraganda hrunsins að líkja sem mest eftir USA en Norðurlöndin eru okkur á margan hátt skyldari.

Horfði á Helga Seljan rífast við Ögmund ráðherra um lífeyrismál og fannst þeir báðir standa sig nokkuð vel. Er talsvert sammála Ömma um þetta mál en gjörsamlega ósammála honum um Haarde-málið. Um heiðarleika hans og hreinskilni efast ég samt ekki. Þar sem ég er búsettur í Kópavogi eins og sumir vita getur verið að ég fái áður en langt um líður tækifæri til að sýna álit mitt á Ögmundi Jónassyni og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur í prófkjöri.

Mikið er nú rætt hvort hætta skuli við að mæta á Evrópusöngvakeppnina. Palli Magg er beggja blands og þorir hvorki að segja já eða nei. Tilefnið er e.t.v. illa valið en tilgangurinn góður. Fyrir suma væri það mikil fórn en lítil fyrir aðra. Það er helsti gallinn. Aldrei væri samt hægt að velja rétt tilefni til mótmæla sem allir væru sammála um. Ætli við fylgjum ekki meirihlutanum í þessu eins og við erum vön. Ekki verða Bandríkjamenn samt til þess að leiðbeina okkur í málinu. Stjórnmálaskoðanir ráðamanna munu sennilega ráða mestu að lokum.

Alveg er það stórskrýtið þetta Nubo-mál. Nú vill hreppsnefndin kaupa Grímsstaði og leigja kínverjanum. Þessi jörð hefur lengi verið notuð til landbúnaðar. Ef taka á svona stóra jörð og nota hana til einhvers annars finnst mér það koma ríkinu við. Annars er þetta mál allt saman svo skrýtið og óljóst að mér finnst að það þurfi að stórvara sig á því.

IMG 7868Trén fá sinn skammt af snjó.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband