Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

1326 - Úrslitin ljós

Nú fer Icesave æsingurinn að renna af mönnum. Blogga samt fremur stutt núna því flestir þurfa að jafna sig á ósköpunum.

Er líka staddur mitt á milli tveggja fermingarveislna svo ég spara bara bloggputtana.

Úrslitin eru ekkert ólík því sem ég bjóst við. Kaus samt jáið.

Úrslitin finnst mér styrkja stjórnlagaráðið.

IMG 0941Þessi mynd af Vífilsstaðaspítala er tekin sumarið 2008. Á margan hátt er þetta eitthvert reisulegasta og sögufrægasta hús landsins. Þarna vann konan mín í eina tíð og þangað kom ég oft forðum daga. Nú skilst mér að þetta hús standi autt og sé engum til gagns á kreppu-Íslandi.


1325 - Þjóðaratkvæðagreiðsla

Nú er ég vaknaður á tiltölulega fallegum vormorgni og finnst að ég þurfi að blogga aftur á þessum merka degi. Í dag ráðast úrslit í því máli sem mest hefur verið deilt um að undanförnu. Ég fæ alls ekki séð að þjóðin hafi skipst svo í fylkingar að eftirköst verði þó óneitanlega hafi verið tekist harkalega á. Mun betra er að leysa mál með þessum hætti en að deila árum og áratugum saman um þau. 

Nú bind ég mestar vonir við stjórnlagaþingið og á von á að þaðan komi skynsamlegar tillögur um nýja, betri og skýrari stjórnarskrá sem verði þjóðinni til blessunar.

IMG 5114Nöfn á hljómsveitum geta verið skemmtileg.


1324 - Stutt blogg og ómerkilegt

Ég er nefnilega svolítið Icesave-heftur. Ætla að segja já á morgun en á samt von á að nei-ið sigri. Hef þá trú að skoðanakannanir séu vel marktækar. Er hættur að láta tölur og spádóma hafa áhrif á mig. Í mínum huga skiptir mestu máli hvað á eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni kemur.

Einkum hvort ríkisstjórnin situr áfram eða ekki. Margt á eflaust eftir að gerast næstu mánuðina í íslenskum stjórnmálum. Jóhanna og Steingrímur ætla sér eflaust að sitja áfram þó nei-sinnar sigri. Veit ekki hvort það tekst. Óvinsældir ríkisstjórnarinnar munu aukast a.m.k. fyrst í stað ef svo fer.

Mogginn hampar mjög öllum þeim sem hægt er að skilja svo að þeir séu á móti Icesave. Nú eru það Eva Joly og augu alheimsins sem eiga að gera trikkið.

Það er ekkert skrítið þó Eva Joly sé á móti Icesave og öllu sem að stjórnmálum lýtur. Þjóðir Evrópusambandsins og Íslendingar vilja bara halda því skipulagi sem ríkt hefur og forðast tilraunastarfsemi og óþarfa áhættu. Hætt er við að hún verði of dýru verði keypt.

IMG 5091Ég vissi ekki einu sinni að svona fyrirtæki væri til á Íslandi.


1323 - Danke bitte schön

Á laugardaginn kemur verður þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave. Allir hljóta að vita þetta og allir eru uppfullir af því núna. Það er heldur ekki á hverjum degi sem svona hægt er taka þátt í svona mikilvægri kosningu.

Þeir sem bloggið mitt lesa reglulega vita sjálfsagt að ég er meðmæltur því að við segjum já við þeim samningi sem nú liggur fyrir. Mér finnst ég þó ekki þekkja þetta mál svo vel að ég geti verið með sérstakan áróður fyrir því. Get líka alveg skilið og metið afstöðu þeirra nei-manna þó mér finnist sumir þeirra vera alltof ofstækisfullir í þessu máli. Fjölyrði ekki meira um það.

Siðferðislega finnst mér að okkur beri skylda til að semja um þetta mál. Mér finnst líka að með því að fara svonefnda dómstólaleið sé enn og aftur verið að veðja á möguleika sem í besta falli eru jafnir. Útrásarvíkingarnir stunduðu þetta og lengi vel lukkaðist það ágætlega. Þvílíkt háttalag getur þó aldrei gengið til lengdar.

Það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu Icesave-máli öllu er mismununin sem fólgin er í því að tryggja ekki með sama hætti innistæður í íslenskum útibúum og erlendum hjá sama bankanum.

Illt er að kenna gömlum hundi að sitja, segir máltækið. Ekki er líklegt að ég geti vanið mig af blogginu fyrirhafnarlaust. Reyni þó eins og ég get að stytta mál mitt og gera eitthvað annað.

Þýskan er mörgum hugleikin. Á Íslandi er löng hefð fyrir því að þýða „Spielen sie Kinder" með „Spilið þið kindur". Á Bifröst í gamla daga þýddum við „Der Tau viel stark" með „Táfýlan er sterk", en það er samt ekki rétt.

Ich veiss nicht was soll er bedeuten
dass ich so traurig bin.
Ein Maarchen von alten Seiten
es kommt mir nicht aus dem Sinn.

Svona er upphafið að Lorelei kvæðinu eftir Heine í mínum huga. Steingrímur Thorsteinsson þýddi þetta auðvitað snilldarlega með:

Ég veit ekki að hvers konar völdum
svo viknandi (dapur) ég er.
Ein saga frá umliðnum öldum
fer ei úr huga mér.

Í mínu minni kemur orðið dapur ekki fyrir í vísunni og þessvegna set ég það í sviga. Þegar ég fletti þessu upp á netinu var orðið þarna og þessvegna læt ég það fljóta með.

Annaðhvort í bókinni eftir Agnar Mykle sem Jóhannes úr Kötlum þýddi og kallaði „Frú Lúna í Snörunni" eða í sjálfum „Roðasteininum" er setning á þýsku sem af einhverjum ástæðum er blýföst í mínu minni.

„Das hat mich ein Vogel gesagt", segir einhver.

„Das hat mir ein Vogel gesagt", leiðréttir Askur Burlefot og síðan fylgja álnarlangar útskýringar á þýskri málfræði sem er ekki eitt af mínum áhugasviðum. 

„Sehr schön Bemerkung, nicht war?" og „Danke, bitte schön." sögðum við gjarnan í gamla daga og þóttumst voðalega menntaðir.

IMG 5376Hér er Bjarni í Guðríðarkirkju um daginn að ræða við ungu kynslóðina.


1322 - Gef oss í dag vort daglega blogg

Nú er ég hættur að blogga daglega. Ég bloggaði þó í gær og vel er hugsanlegt að ég bloggi á morgun. Það getur vel verið að þessi fyrirætlun um að vera ekki að þessu sífellda bloggstandi endist ekki lengi. Sjáum til. Allavega held á að þau séu að styttast. Eða vona það.

Eins og fleiri gæti ég svosem bloggað lítilsháttar um Icesave, en það er líka ágætt að sleppa því. Til hvers ætti ég að vera að messa um það fyrirbrigði. Það eru svo margir sem eru sífellt að því að það hálfa væri nóg.

Icesave-málið er að verða svo pólitískt að það er ekki einusinni fyndið. Samt held ég að þrátt fyrir allan gauraganginn síðustu dagana séu flestir hvort eð er búnir að taka ákvörðun um hvernig þeir ætla að verja atkvæði sínu og lætin hafi því áhrif á fremur fáa.

Nær væri að skrifa um eitthvað merkilegt. Eins og t.d. bláa bárujárnsskúrinn sem var á brekkubrúninni fyrir framan verkstæðið hjá Aage í Hveragerði. Þar fórum við stundum í „yfir" því hann var af svo hæfilegri stærð fyrir þessháttar. Vissi aldrei hvað var geymt í þeim skúr og man ekki eftir að neinn hafi einusinni haft rænu á að spyrja um það.

Það var svo margt skrítið í gamla daga þó mér hafi ekki þótt það neitt skrítið. Pabbi setti t.d. alltaf tröllamjöl á kartöflugarðinn okkar og einu sinni slor úr fiski til áburðar. Nei, lyktin af því var ekki góð.

Apríl er mikið ólíkindatól hvað veðurfar snertir. Snjókoma og hiti er að verða reglan hér á höfuðborgarsvæðinu. En ég held að vorið hljóti að fara að koma. Krókusinn heldur það greinilega líka.

Nú er nei-sinnum spáð 57% fylgi. Fyrir nokkrum dögum voru já-menn yfir með 55%. Fullmikil sveifla en gæti þó staðist. Þekki ekki þetta MMR fyrirtæki og hvaða aðferðafræði er notuð. Allt virðist stefna í spennandi kosningar.

IMG 5369Fór um daginn í veislu sem haldin var í safnaðarheimili Guðríðarkirkju í tilefni af 70 ára afmæli Guðmundar Samúelssonar. Hér er Tinna í nýja vestinu sínu og Guðmundur í baksýn.


1321 - Google

Fór snemma að sofa í gærkvöldi (mánudag) og vaknaði þessvegna óguðlega snemma í morgun (þriðjudag). Setti þá upp blogg sem ég hafði gert daginn áður og er nú semsagt byrjaður á þessu bloggi þó klukkan sé ekki nema að ganga sex á þriðjudagsmorgni. Flókið? Ekki finnst mér það. Jafnóðumblogg hentar mér ekki því ég hugsa svo hægt.

Nú nálgast Icesave-kosningin óðfluga. Og er á margan hátt eins og óð fluga. Margir vilja ekki láta uppi hvað þeir ætla að gera í þjóðaratkvæðagreiðslunni og er það skiljanlegt eins og látið er. Verð feginn þegar þessi ósköp eru liðin hjá.

Við prófun á því hvort ekki væri rétt munað hjá mér hvernig á að láta Gúgla leita á ákveðnum vefsetrum lét ég hann leita á mínu eigin bloggi. Ýtti svo á „translate" linkinn af einhverri rælni og mikil var undrun mín þegar ég sá að Friðrik Ólafsson er hjá google kallaður Fred Waters. Að öðru leyti var þýðingin bara hefðbundin gúglþýðing.

Eins og næstum alltaf þegar ég gúgla eitthvað var ég impóneraður yfir því hve fljótur Gúgli er að finna hlutina. Röðunarsystemið hjá honum á öllu því drasli sem hann safnar hlýtur að vera ansi gott. Hann er reyndar fljótur að þýða líka en þýðir illa. Sem betur fer. Aðrir þýðendur hefðu víst lítið að gera ef hann gerði þetta vel.

Nenni ekki að blogga meir í þetta sinn.

IMG 5073Hvort er bíllinn stór eða húsið lítið? Það er spurningin.


1320 - Trúarjátningin

Í gamla daga þegar ég var ungur spiluðum við fótbolta á hverju kvöldi á sumrin. A.m.k. ef veður var sæmilegt. Í minningunni var alltaf sumar og alltaf gott veður. Við spiluðum oftast á eitt mark. Það var aðeins ef óvenjumargir mættu sem íhugað var að spila á tvö mörk. Það kostaði mikil aukahlaup og var á allan hátt óhentugra. Útspörkin voru mesta vandamál markvarðarins þegar spilað var á eitt mark en ég var oft í því hlutverki. Ekki mátti sjást á neinn hátt að hann héldi með öðru liðinu þó hann gerði það að sjálfsögðu stundum. 

Í Icesave-málinu núna er greinilega spilað á tvö mörk. Í fyrra var bara spilað á eitt. Þá ákvað ég að skjóta framhjá. Þ.e.a.s. ég skilaði auðu og hef aldrei gert það fyrr. Í þingkosningum er venjulega spilað á mörg mörk og markverðirnir mjög misjafnir. Niðurstaðan er oftast lík og venjulega og eftir það er nær alltaf ákveðið að spila bara á eitt mark og hafa Óla í markinu. En stundum sest hann á boltann og heimtar að spilað sé á tvö mörk.  

Eins og núna. Úr vöndu er að ráða. Ekki er hægt að gera eins og í fyrra og  halda bara áfram að spila á eitt mark og hugsa ekki um hitt. Það er ekki um annað að ræða en fara í leikinn og ná fram úrslitum. Vonandi verða tapararnir bara ekki mjög tapsárir.

Það er samt margt annað í lífinu en þessi fótboltaleikur. Eins og til dæmis trúarjátningin sjálf. Í bók Þorsteins Gylfasonar „Sál og mál" rakst ég á hana. Ekki svo að skilja að hún hafi haldið fyrir mér vöku í lífinu. Svona var hún (og er líklega enn) Svolítið hef ég breytt um orð á einstaka stað og hef ég þá frekar það sem mig minnir að ég hafi lært á sínum tíma.

„Ég trúi á Guð föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Ég trúi á Jesúm Krist, hans einkason, sem getinn var af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr á hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma, að dæma lifendur og dauða. Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu holdsins og eilíft líf."

Þetta var maður látinn læra utanað og þylja opinberlega þegar maður var fermdur og þá eins og nú gerði ég mér auðvitað grein fyrir hverslags vitleysa þetta er. Auðvitað trúir enginn þessu bókstaflega en þó er ég ekki frá því að enn séu fermingarbörn látin þylja þetta. Þau eru látin halda að skilja eigi þetta einhverjum öðrum skilningi en bókstaflegum. En sá skilningur er líklega bara til í hugum þeirra sem um hann tala og reyna að útskýra fyrir öðrum.

Pólitískt séð erum við öll innst inni annaðhvort opingáttarfólk eða einangrunarsinnar. Með þessari kenningu má skýra margt í íslenskum stjórnmálum. Samskiptin við útlönd skipta litla þjóð jafnan miklu máli. Auðvitað hefur skoðun okkar að þessu leyti ekki úrslitaáhrif á allar okkar ákvarðanir en það glittir þó víða í hana.

Sumir orða þetta þannig að allir séu ýmist framsóknarmenn eða kratar. Í mínum huga eru þá framsóknarmenn einangrunarsinnar en kratar opingáttarmenn. Mér finnst þetta á margan hátt eins góð skýring og hægri og vinstri eða mikil eða lítil ríkisafskipti.

Auðvitað eru þetta allt saman miklar einfaldanir en stjórnmál snúast oft einmitt um einfaldanir. Mörg mál eru það flókin að ómögulegt er fyrir aðra en þá sem gjörþekkja þau að skilja um hvað er deilt í rauninni. Þá er oft hagstætt að grípa til einfaldana.

Ekki dettur mér í hug að halda að einfalt mál sé að ákveða hvort merkja skuli við já eða nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni um næstu helgi. Þó er ég búinn að ákveða mig en fjölyrði ekki meira um þetta mál að sinni.

IMG 5064Sólin er á bak við húsið. Samt ræður myndavélin við þetta á sjálfvirkri stillingu. Fallegt hús.


1319 - Friðrik Ólafsson

Einhver mesti geðprýðismaður meðal meistara skáksögunnar er Friðrik okkar Ólafsson. Þó hef ég séð hann grýta taflmönnum frá sér út á gólf. Geðprýðin er að minnsta kosti sú mynd af Friðriki sem við Íslendingar höfum. Ég held að hún sé rétt.

Þetta með að hann hafi grýtt taflmönnum útá gólf er mér minnisstætt af því að það var svo ólíkt honum. Hann gerði þetta óvart og sá greinilega samstundis eftir því. Þetta gerðist einhverntíma á árunum rétt fyrir 1970 eða svo. Hann var þá að tefla á Reykjavíkurmóti ef ég man rétt og tapaði fyrir Guðmundi Sigurjónssyni.

Eftir skákina voru þeir eitthvað að fara yfir hana og Friðrik var greinilega ósáttur með frammistöðu sína og vildi komast burt. Hann var staðinn upp og á hann komið fararsnið þegar hann uppgötvaði að hann var enn með nokkra taflmenn í hendinni. Þegar hann lagði taflmennina frá sér gerði hann það fullharkalega og einhver eða einhverjir þeirra skoppaðu útá gólf og Friðrik sá augljóslega strax eftir þessu.

Fyrir fáeinum árum var haldið hér á Íslandi hjá Háskólanum í Reykjavík heimsmeistaramót skákforrita. Einhver forritanna komu munaðarlaus hingað. Þ.e.a.s enginn fylgdi þeim. Ég var þá meðal annarra fenginn til þess að færa menn eftir fyrirsögn eins forritsins.

Þarna voru samankomnir allir frægustu menn heimsins á sviði tölvuskákar auk þeirra sem skrifað höfðu mörg bestu forritin. Skákstjórinn var að mig minnir allþekktur hollenskur skákmeistari þó ég geti ómögulega munað nafnið á honum núna. Forritið sem ég færði mennina fyrir var ekki mjög sterkt. Man að ég þurfti yfirleitt að sækja um leyfi til skákstjórans til að fá að gefast upp fyrir hönd þess.

Jafnhliða þessu heimsmeistaramóti fór fram Skákþing Íslands. Af eðlilegum ástæðum fylgdist ég ekki eins vel með því og man ekki einu sinni hver sigraði þar. Man samt vel eftir ameríska stráknum sem skrifað hafði forritið sem vann á tölvumótinu.

Þegar ein umferðin stóð yfir kvisaðist að Friðrik Ólafsson mundi væntanlega heimsækja mótið. Það gerði hann og leit á skákirnar. Meistararnir voru mjög uppveðraðir af þessu og vildu ólmir láta taka myndir af sér með „Grandmaster Olafsson" og auðvitað samþykkti Friðrik það af mikilli ljúfmennsku.

Ég bíð enn eftir því að vönduð og ítarleg ævisaga hans verði skrifuð. Það er okkur Íslendingum til stórskammar að það skuli ekki þegar hafa verið gert.

Nú langar mig að snúa mér að því málefni sem mest er deilt um þessa dagana. Ég hef áður gefið í skyn að ég muni segja já í þjóðaratkvæðagreiðslunni um næstu helgi. Mér finnst ég skulda þeim sem lesa þetta blogg reglulega nánari útskýringar á þeirri afstöðu minni.

Ýmislegt bendir til að baráttan um sálirnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um næstu helgi verði afar hörð. Skoðanakannanir benda til að ekki verði mikill munum á fylkingunum. Einnig er líklegt að fólk verði að skipta um skoðun í þessu máli fram undir það síðasta.

Ég get ekki að því gert að mér finnst of mikil áhætta falin í svokallaðri dómstólaleið og að í þessu tilfelli sé enginn augljós ávinningur af því að draga málið sem allra lengst.

Mér finnst mótsögn í því að nota þjóðaratkvæðagreiðslu til að taka málið úr höndum þjóðkjörinna fulltrúa. Líklegast er að þeir sem að lokum kæmu til með að dæma í þessu máli verði ekki kjörnir. Þetta er þó alls ekki sagt til að kasta einhverri rýrð á dómarastéttina heldur eingöngu til að vekja athygli á eðli málsins.

Lögfræðilega kunna þær spurningar sem svara þarf í þessu máli að vera mjög áhugaverðar. Niðurstaðan gæti samt orðið pólitískari en búist er við. Niðurstaða í dómsmáli fer alls ekki eftir því hve sannfærðir málsaðilar eru um sinn málstað. Ef neitað er getur málið orðið okkur dýrara en ella og skaðlegt er að hafa mál sem þetta óútkljáð lengi. Mér finnst ekki hægt að setja þetta mál upp með því að setja ákveðnar tölur í debet og kredit dálk heldur þurfi mun meira að koma til.

Fyrir mér er krafan sem um er deilt réttmæt. Það er endalaust hægt að deila um hvað hefði átt að gera á einhverjum ákveðnum tíma og bollaleggja um að einhverjar aðrar leiðir til lausnar væru hugsanlega sanngjarnari. Þetta er samt það sem við stöndum frammi fyrir núna og það er það sem við þurfum að taka ákvörðun um.

IMG 5054Þessi mynd er aðallega af Snæfellsjökli. Báturinn er bara að flækjast fyrir.


1318 - Klám og fleira

Núorðið er næstum ekkert fyndið nema það sé svolítið klámfengið líka. Í mínu ungdæmi var klám sjaldgæft. Alltof sjaldgæft fannst manni. Man eftir að farið var með „Sangen om den röde rubin" eftir Agnar Mykle og „Sexus" eftir Henry Miller eins og mannsmorð eða næstum því. „Hjónalíf" sá ég líka í fyrsta sinn um þetta leyti og undraðist að hægt væri að skrifa um svona mál eins og ekkert væri eðlilegra. Bækur sem þessar voru faldar á ólíklegustu stöðum. 

Þar sem Íslendingasögurnar og það allt var til sá maður að Bósa Saga og Herrauðs í Fornaldarsögum Norðurlanda hafði verið mikið lesin eða skoðuð og fátt annað. Askur Burlefot gat helst ekki sagt BH því það þýddi brjóstahaldari og sú mest krassandi skammstöfun sem ég lærði var að APOTHEK þýddi í rauninni Alle Piger Og Töse Har En Kusse.

Þetta var nú í þann tíð og uppeldið og allt það hafði hugsanlega þau áhrif að minna var riðið en annars hefði verið. Svo þegar maður var svolítið búinn að hrista þetta allt saman af sér þá var alnæmið komið til sögunnar og stórhættulegt að gera allt svona. Nú eru þessi mál aftur að fara í gamla Kaupmannahafnarfarið og ég er svosem feginn því, þó það komi alltof seint fyrir mig. Svona mál eiga það til að taka mikinn tíma frá unglingunum og þá er klámið og framboðið á því ekki aðalatriðið.

Svo haldið sé aðeins áfram með það sem ég skrifaði um Vanadísina í gær man ég að ég fór ekki á Selfoss til að skoða hana. Samt hef ég áreiðanlega trúað þessu eins og nýju neti. Það var bara talsvert mál að komast á Selfoss frá Hveragerði á þessum árum.

Í DV er sagt að tvö aprílgöbb hafi verið í gær. Bæði fóru fram hjá mér því ég les ekki fréttir um fræga kaffið eða fræga fólkið. Og svo les ég yfirleitt bara netútgáfur blaða.

Man samt vel að ég var búsettur í Reykjavík þegar Surtseyjargosið hófst 1963 og þá skrapp ég út austur á Kambabrún til að horfa á þá tilkomumiklu og minnisstæðu sjón. Á heimleiðinni þaðan fór ég framúr mörgum bílum því umferðin var mikil og öll á leiðinni til Reykjavíkur.

Líklega hefur það verið á þessum árum sem framhaldssleikritið „Hver er Gregory?" var flutt. Þá var maður bókstaflega límdur við útvarpið því það var svo spennandi.

Hef á tilfinningunni að Sjálfstæðisflokkurinn klofni á næstunni og stærra brotið verði undir stjórn Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Davíð hlýtur að verða einangraður með sínum öfgamönnum að lokum. Þau Bjarni og Þorgerður eru bæði tiltölulega ung og myndarleg. Þorgerður er áheyrileg þó merkingarlausu pólitísku frasarnir velli óstöðvandi upp úr henni um þessar mundir og árásir hennar á ríkisstjórnina séu ósköp fálmkenndar og marklausar. En þau skötuhjúin þurfa að fara að láta glytta í sinn ESB-boðskap fljótlega og fara með það sem eftir verður af flokknum til Jóhönnu þegar Grímsi fer í fýlu, sem verður áður en langt um líður.

Mér leiðist þetta pólitíska fjas þó það séu ær og kýr sumra. Og fjölmiðlun öll finnst mér að eigi að vera á netinu og ókeypis með öllu. Mogginn er enn að burðast við selja sig en það hlýtur að taka enda. Hann á sennilega eftir að fara á hausinn svona einu sinni eða tvisvar ennþá.

IMG 5048Þó báturinn sé einskonar Sputnik er stiginn það varla.


1317 - 1. apríl

Í dag er 1. apríl. Hvað allir athugi. Enginn vill hlaupa apríl. Hlaupa þeir apríl sem trúa einhverju rugli í fjölmiðlunum í dag? Það finnst mér ekki. Hinsvegar hlupu þeir apríl sem komu úr uppsveitum Árnessýslu, eins og svo fagurlega er kallað, og alla leið að Selfossi á sínum tíma til að skoða Vanadísina. Man eftir frásögninni í útvarpinu um komu hennar. Líklega hef ég ekki verið ýkja gamall þá. Nú er ég búinn að koma frá mér mínu morgunstefi og get farið að gera eitthvað annað.

Ekki gekk sem skyldi að setja stöðumyndina á bloggið í gær en mér er svosem sama. Sennilega hefði ég getað breytt þessu í mynd og sett það upp þannig og geri það kannski seinna ef ég þarf að setja stöðumynd inn.

Hef reynt að tileinka mér hina pólitísku og  blogglegu kaldhæðni en jafnvel hún er stundum leiðinleg. Einkum á degi eins og 1. apríl þegar allir eru hlaupandi út um allt. Er að hugsa um að hlaupa til Hveragerðis á eftir.

Merkilegt hve allir fara úr sambandi þegar minnst er á peninga. Tíumenningarnir segjast ætla að fjárfesta kannski, ef til vill, hugsanlega pínulítið og eiga eða hafa ráð á um 1700 milljörðum króna samanlagt og allir fara á límingunum. Og mærðin í mönnunum. Þetta er bara eins og ÓRG þegar hann var uppá sitt Pochahontas-besta.

IMG 5062Sennilega er enginn heima hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband