1319 - Friðrik Ólafsson

Einhver mesti geðprýðismaður meðal meistara skáksögunnar er Friðrik okkar Ólafsson. Þó hef ég séð hann grýta taflmönnum frá sér út á gólf. Geðprýðin er að minnsta kosti sú mynd af Friðriki sem við Íslendingar höfum. Ég held að hún sé rétt.

Þetta með að hann hafi grýtt taflmönnum útá gólf er mér minnisstætt af því að það var svo ólíkt honum. Hann gerði þetta óvart og sá greinilega samstundis eftir því. Þetta gerðist einhverntíma á árunum rétt fyrir 1970 eða svo. Hann var þá að tefla á Reykjavíkurmóti ef ég man rétt og tapaði fyrir Guðmundi Sigurjónssyni.

Eftir skákina voru þeir eitthvað að fara yfir hana og Friðrik var greinilega ósáttur með frammistöðu sína og vildi komast burt. Hann var staðinn upp og á hann komið fararsnið þegar hann uppgötvaði að hann var enn með nokkra taflmenn í hendinni. Þegar hann lagði taflmennina frá sér gerði hann það fullharkalega og einhver eða einhverjir þeirra skoppaðu útá gólf og Friðrik sá augljóslega strax eftir þessu.

Fyrir fáeinum árum var haldið hér á Íslandi hjá Háskólanum í Reykjavík heimsmeistaramót skákforrita. Einhver forritanna komu munaðarlaus hingað. Þ.e.a.s enginn fylgdi þeim. Ég var þá meðal annarra fenginn til þess að færa menn eftir fyrirsögn eins forritsins.

Þarna voru samankomnir allir frægustu menn heimsins á sviði tölvuskákar auk þeirra sem skrifað höfðu mörg bestu forritin. Skákstjórinn var að mig minnir allþekktur hollenskur skákmeistari þó ég geti ómögulega munað nafnið á honum núna. Forritið sem ég færði mennina fyrir var ekki mjög sterkt. Man að ég þurfti yfirleitt að sækja um leyfi til skákstjórans til að fá að gefast upp fyrir hönd þess.

Jafnhliða þessu heimsmeistaramóti fór fram Skákþing Íslands. Af eðlilegum ástæðum fylgdist ég ekki eins vel með því og man ekki einu sinni hver sigraði þar. Man samt vel eftir ameríska stráknum sem skrifað hafði forritið sem vann á tölvumótinu.

Þegar ein umferðin stóð yfir kvisaðist að Friðrik Ólafsson mundi væntanlega heimsækja mótið. Það gerði hann og leit á skákirnar. Meistararnir voru mjög uppveðraðir af þessu og vildu ólmir láta taka myndir af sér með „Grandmaster Olafsson" og auðvitað samþykkti Friðrik það af mikilli ljúfmennsku.

Ég bíð enn eftir því að vönduð og ítarleg ævisaga hans verði skrifuð. Það er okkur Íslendingum til stórskammar að það skuli ekki þegar hafa verið gert.

Nú langar mig að snúa mér að því málefni sem mest er deilt um þessa dagana. Ég hef áður gefið í skyn að ég muni segja já í þjóðaratkvæðagreiðslunni um næstu helgi. Mér finnst ég skulda þeim sem lesa þetta blogg reglulega nánari útskýringar á þeirri afstöðu minni.

Ýmislegt bendir til að baráttan um sálirnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um næstu helgi verði afar hörð. Skoðanakannanir benda til að ekki verði mikill munum á fylkingunum. Einnig er líklegt að fólk verði að skipta um skoðun í þessu máli fram undir það síðasta.

Ég get ekki að því gert að mér finnst of mikil áhætta falin í svokallaðri dómstólaleið og að í þessu tilfelli sé enginn augljós ávinningur af því að draga málið sem allra lengst.

Mér finnst mótsögn í því að nota þjóðaratkvæðagreiðslu til að taka málið úr höndum þjóðkjörinna fulltrúa. Líklegast er að þeir sem að lokum kæmu til með að dæma í þessu máli verði ekki kjörnir. Þetta er þó alls ekki sagt til að kasta einhverri rýrð á dómarastéttina heldur eingöngu til að vekja athygli á eðli málsins.

Lögfræðilega kunna þær spurningar sem svara þarf í þessu máli að vera mjög áhugaverðar. Niðurstaðan gæti samt orðið pólitískari en búist er við. Niðurstaða í dómsmáli fer alls ekki eftir því hve sannfærðir málsaðilar eru um sinn málstað. Ef neitað er getur málið orðið okkur dýrara en ella og skaðlegt er að hafa mál sem þetta óútkljáð lengi. Mér finnst ekki hægt að setja þetta mál upp með því að setja ákveðnar tölur í debet og kredit dálk heldur þurfi mun meira að koma til.

Fyrir mér er krafan sem um er deilt réttmæt. Það er endalaust hægt að deila um hvað hefði átt að gera á einhverjum ákveðnum tíma og bollaleggja um að einhverjar aðrar leiðir til lausnar væru hugsanlega sanngjarnari. Þetta er samt það sem við stöndum frammi fyrir núna og það er það sem við þurfum að taka ákvörðun um.

IMG 5054Þessi mynd er aðallega af Snæfellsjökli. Báturinn er bara að flækjast fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er  að verða mestmyndaða bátshró landsins :)  Er þetta ekki gamli Höfrungur? Altént kannast ég mjög við mótífið frá ljósmyndurum heimilisins þótt ég muni kannski ekki nafnið rétt.

Harpa Hreinsdóttir 4.4.2011 kl. 11:03

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hef ekki hugmynd um nafnið, Harpa. En myndin er allavega frá Akranesi. Það er ótrúlega gefandi að labba þar um með myndavél.

Sæmundur Bjarnason, 4.4.2011 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband