Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
20.4.2011 | 00:35
1336 - Hugleiðingar um hitt og þetta
Gamla myndin
er af Bjössa bróðir að taka eitt heljarmikið trommusóló. Sem betur fer er myndin hjóðlaus með öllu.
Nú er ég farinn að muna eftir því æ oftar að linka bloggin mín við fésbókina þegar ég set þau upp. Viðbrögð fæ ég líka stundum þar.
Merkilegt annars hvað mörg blogg eru einkum einskonar fréttaskýringar þar sem sagt er frá skoðunum bloggarans á fréttum dagsins. Sama er að segja um fésbókarræfilinn. Þar hamast menn við að segja álit sitt á því sem efst er á baugi í fréttum. Þrætubókarlistin í öndvegi. Svo hamast aðrir, eins og ég, við gamaldags blogg. Stundum líka við að vera frumlegir og sérkennilegir. Margir eru farnir frá Moggablogginu því það er ekki nógu fínt að vera þar. Fínast er að hafa eigið lén. En ég nenni því ómögulega.
Óvinsældir moggabloggsins aukast stöðugt. Nú þarf ekki nema svona 60 - 70 vikuinnlit til að komast á 400 listann. Ætli ég sé ekki að verða með þeim elstu og reyndustu hérna. Finnst ég þó vera nýbyrjaður. Hef ekki bloggað annarsstaðar að neinu ráði. Er oft að flækjast á fésbókinni þó ég skilji hana hálfilla. Skoða alltof sjaldan tölvupóstinn minn. Aðallega þá til að eyða allskyns rusli, Nígeríubréfum og þessháttar. Margt er á rússnesku eða spænsku og því er ég fljótur að eyða. Er líka alltaf að fá einhverjar orðsendingar frá fésbókinni. Alvörupóstur flýtur samt stundum með.
Les ekki mörg blogg reglulega. Miðað við það eru heilmargir sem lesa bloggið mitt. Svo ég græði. Ég er samt svo illa gerður að ég kíki fremur á moggablogg en mörg önnur enda er það þægilegt þegar ég er að stússast í mínu.
Á netlendum nútímans sinnir fólk yfirleitt einungis því sem rekið er upp í andlitið á því. Tíminn sem eytt er í allskyns nettengda vitleysu eykst sífellt hjá flestum. Takist að sigrast á netfíkninni taka sjónvarpsfíknin og ræktarfíknin við. Tala nú ekki um matarfíknina. Ræktarfíkn er sennilega nýyrði hjá mér. Getur þýtt að þurfa að fara í ræktina daglega (jafnvel oft á dag) eða vera með óeðlilegan áhuga á ættfræði. Hvorttveggja er hættulegt.
Opinberar geimferðir hófust fyrir fimmtíu árum. Nú er þeim að ljúka. Það er vel. Það getur orðið spennandi að fylgjast með einkaframtakinu á þessu sviði. Einhverjir munu drepast.
Peningar ráða öllu. Elvira einhver var um daginn að boða Untergang des Abendlandes" í Silfrinu. Hef ekki mikla trú á að mannskepnan breytist stórlega þó sumir hafi hátt. Peningaöflin hafa ögn hægara um sig núna útaf kreppunni í heiminum. En þau munu ná vopnum sínum aftur og ESB aðstoðar þau við það. Sömuleiðis Bretar og Bandaríkjamenn og aðrir þegar þeir átta sig. Framfarir eru nefnilega háðar peningum og allir vilja framfarir.
Nú er sumardagurinn fyrsti að skella á og ekki verður lengur undan vorinu vikist hvað sem veðurguðirnir segja. Snjórinn sem á okkur dynur þessa dagana er þó oftast fljótur að hverfa en það mætti alveg hlýna svolítið og þorna. Kannski ég sendi kvörtun til veðurstofunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.4.2011 | 00:26
1335 - Eitt og annað smálegt
Gamla myndin
er enn og aftur af gamla skátaskálanum innst í Reykjadal. Hér má sjá næsta umhverfi skálans. Það er heiti lækurinn margfrægi sem þarna rennur umhverfis skálann og næstum í kringum hann. Gera má ráð fyrir að mannskapurinn við skálann sé sá sami og var á myndinni sem ég birti á þessu bloggi um daginn og myndin tekin í sömu ferð.
Hér eru fyrst nokkur heimagerð spakmæli. Sum spakleg en önnur ekki:
Þú ert allt sem þú hefur einhverntíma verið. A.m.k. með sjálfum þér og ef til vill í hugum annarra. Frægt fólk er eitthvað" í hugum fleiri. Það er allur munurinn.
Skák, hnefaleikar, tennis og snóker eru nauðalíkar íþróttagreinar. Þar er maður einsamall á móti öllum heiminum.
Lífið er fyrir alla og allir njóta þess eða kveljast í því.
Dauðinn er æðsti tilgangur lífsins og eina takmark þess.
Brandarar og þessháttar:
Af hverju finnst þér kjötkássa svona góð, Púlli?
- Þá get ég haft aðra hendina í vasanum.
Ég þyrfti að koma mér upp sjálfvirkri fyrirsagnavél. Ég er alltaf í vandræðum með þær.
Villi í Köben segir að ég sé hálffrosinn. Er eitthvað betra að vera þiðnaður og fljóta út um allt?
Man vel eftir Tívolíinu í Vatnsmýrinni og tækjunum þar. T.d. kassanum með myndum af fáklæddum konum sem urðu því fáklæddari sem fastar var tekið í handföngin. Reyndar var búið að gera gat aftan á kassann og hægt að skoða allar myndirnar þar en það er önnur saga.
Í stóru sirkustjaldi við Hringbrautina var sirkus Zoo til húsa (eða tjalda) eitt sumarið. Þar mátti sjá alvöru villidýr fyrir aukagreiðslu. Trúðarnir voru samt innifaldir í miðaverðinu.
Fylgdist óhemju vel með formúlu 1 einu sinni í fyrndinni þegar Schumacher og Häkkinen voru uppá sitt besta. Nenni því ekki núna. Merkilegt að skósmiðurinn skuli enn vera að. Á forsíðu Time var eitt sinn mynd af honum og sagt: This kid is fast."
Svo var það með að skíra í höfuðið á. Þó Þórey geti sem best verið skírð í höfuðið á Eyþóri hefur mér alltaf þótt best sagan af Áslaugu sem skírð var í höfuðið á Tómasi af því nafnið hans endaði á Á-S.
Þessi er víst í björgunarsveitinni Grandagarður".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.4.2011 | 00:25
1334 - Muhammad Ali
Er af Erni Jóhannssyni og Reyni Helgasyni sem kallaður var Smalli. Líklega tekin árið 1958 eða svo.
Hef að undanförnu verið að lesa ævisögu Muhammads Ali eftir Walter Dean Myers. Hann nefnir bókina The greatest" og er það engin furða.
Bók þessi er gefin út árið 2001 og ég fékk hana frá Amazon um daginn ásamt þónokkrum öðrum bókum.
Muhammad Ali er fæddur árið 1942 og varð fyrst þekktur eftir að hafa sigrað í sínum þyngdarflokki í hnefaleikum á Ólympíuleikunum sem haldnir voru í Róm á Ítalíu árið 1960.
Upphaflega hét hann Cassius Clay eins og margir muna en þegar hann tók Islamstrú tók hann upp nafnið Muhammad Ali.
Heimsmeistari varð hann árið 1964 þegar hann sigraði Sonny Liston. Þegar skrá átti hann í herinn og mögulega senda til Viet Nam setti hann sig upp á móti því og var í staðinn útilokaður frá hnefaleikum í nokkur ár á hátindi getu sinnar og sviptur heimsmeistaratitlinum. Kom samt aftur og vann titilinn að nýju. Sigraði George Foreman í frægum bardaga í Zaire árið 1974 og Joe Frazier í öðrum ekki minna frægum á Filippseyjum árið eftir.
Sinn síðasta boxbardaga háði hann í Nassau á Bahamaeyjum árið 1981 og tapaði honum.
Kveikti Ólympíeldinn eftirminnilega á Ólympíuleikunum sem haldnir voru í Atlanta árið 1996 þá illa haldinn af Parkinsonsveiki.
Muhammad Ali er án efa einhver litríkasti og eftirminnilegasti íþróttamaður allra tíma. Tímaritið Sports Illustrated útnefndi hann mesta íþróttamann tuttugustu aldarinnar.
Í gegnum tíðina (dönskusletta) hafa margir andskotast útí orðið blogg og talið það hina ömurlegustu enskuslettu. Svo er þó eiginlega ekki því þó enskir kalli Weblog gjarnan blog þá er bloggið eiginlega búið að eignast þegnrétt á íslensku, þegjandi og hljóðalaust.
Verra er með fésbókina sem virðist vera að taka við af blogginu hvað vinsældir snertir. Hún er ýmist kölluð facebook, fasbók eða fésbók. Fleiri nöfn hef ég heyrt en líkar einna best við að kalla fyrirbrigðið fésbók þó sumir leggi einhverskonar niðrandi merkingu í það.
Farsímana má sem best kalla gemsa mín vegna. Lítil hætta er á að þeim sé ruglað saman við raunverulega gemsa. Það er ekki alltaf hægt að finna orð eins og sími, þota, þyrla, berklar eða bíll sem eru bæði þjálli og styttri en alþjóðlegu orðin. Svo er líka spurning hvort við Íslendingar erum ekki sífellt að verða alþjóðlegri og æ erfiðara að koma á framfæri snjöllum nýyrðum. Þó má gera ráð fyrir að þau breiðist út með leifturhraða ef þau eru nógu góð. MS.is reynir þó og þar er einnig að finna frábært ljóðasafn.
Hér hlýtur sá frægi Ragnar Reykás að eiga heima.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2011 | 01:09
1333 - Trúmál og fleira
Gamla myndin
er greinilega tekin við gamla skátaskálann innst í Reykjadal (við kölluðum þennan stað aldrei Klambragil í gamla daga. Það nafn sáum við einhvern tíma seinna á korti minnir mig.) Skálinn fauk í ofsaveðri einhvern tíma en þessi mynd er líklega tekin í apríl 1959. Myndin er ansi óskýr en mér sýnist að eftirfarandi séu á henni: Sigurður Þorsteinsson (Siggi Þorsteins á Ljósalandi), Árni Helgason, Már Michelsen, Vignir Bjarnason, Atli Stefánsson, Jóhann Ragnarsson og Ingvar Christiansen. Fyrstu fjögur nöfnin eru ágiskun hjá mér (sérstaklega þau númer þrjú og fjögur) en ég er alveg viss um að þrjú þau síðustu eru rétt.
Nú eru gömlu myndirnar búnar að ná slíkum tökum á mér að ég er að hugsa um að blogga um mynd sem ég sá einu sinni að mig minnir hjá Kollu í Álfafelli. Hún var úr skólaferðalagi sem farið var á þessum árum eða eitthvað fyrr og tekin í tómri sundlaug við skóla í Lundarreykjadalnum (Já, við fórum Uxahryggi og síðan eitthvað víðar um Borgarfjörðinn.) Á þessari mynd voru ofan í sundlauginni ég, Jósef Skaftason og Erla Traustadóttir. Aftan á hana hafði verið skrifað eftirfarandi: Jobbi gáfaði, Erla sæta og Sæmi sniðugi.
Svanur Sigurbjörnsson moggabloggari með ýmsu fleiru skrifar nýlega á moggabloggið ágæta grein um trúmál og vil ég hérmeð hvetja alla til að lesa þá grein. Mér kom þetta í hug núna því um síðustu helgi sótti ég tvær fermingarveislur. Í öðru tilfellinu hafði viðkomandi fermingarbarn hlotið svokallaða borgaralega fermingu. Mér finnst rangt að vera að neyða börn á þessum aldri til að taka afstöðu í trúarefnum. Eiginlega er verið að múta þeim með fermingargjöfum og þess háttar. Svipað er svosem um fullorðið fólk að segja. Því finnst oft hampaminnst og einfaldast að látast trúa á þá vitleysu sem t.d. trúarjátningin er.
Félagið Siðmennt reynir að berjast á móti þessu og margt er gott um þann félagsskap að segja. Þeir sem tvístígandi eru í trúarefnum hefðu gott af að skoða vefsetur þeirra. Fáránlegast finnst mér þegar verið er að reyna að gera trúmál pólitísk. Þau eru það ekki. Sumir reyna að tengja pólitíska flokka við gáfnafar. Það er álíka fjarstæða. Fjölyrði ekki meira um þetta núna en reyni kannski að gera það seinna.
Því miður virðist spádómur minn um að Líbýu-stríðið komi til með að dragast á langinn ætla að rætast. Nú er þátttakan í því orðin að pólitísku bitbeini og þá er ekki von á góðu. Það er hart að á okkar tímum skuli fólk þurfa að láta lífið fyrir fáfengileika annarra og misskilda stórmennskudrauma.
Svona enda göngustígar oft. Jú, hugsunin er sú að allir fari gangandi í strætó, en hvað með þá sem nota göngustígana bara til að ganga á?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2011 | 00:11
1332 - Ýmsar pælingar
Gamla myndin
er líklega tekin á skólaskemmtun í hótelinu í apríl 1958. Mér sýnast vera á henni: Þórhallur Hróðmarsson (hálfur), Jónas Ingimundarson, ?? (kannski Hróðmarsson líka) Heiðdís Gunnarsdóttir og Margrét Sverrisdóttir.
Einn af þeim leikjum sem við krakkarnir fórum stundum í var nefndur fallin spýtan". Spýturæksni var látið standa upp við húsvegg. Sá sem var hann grúfði sig hjá spýtunni og taldi upp að einhverju ákveðnu en hinir földu sig á meðan. Síðan átti viðkomandi að leita að öllum. Fyndi hann einhvern átti hann að reyna að vera á undan honum að spýtunni og segja eitthvað sem ég man ekki hvað var. Hinn átti að sjálfsögðu að reyna að fella spýtuna áður en sá sem var hann komst að henni. Fremur sjaldan var farið í þennan leik og ég man ekki nákvæmlega reglurnar.
Allskonar boltaleikir voru algengir. Ef fáir voru til staðar var algengt (einkum hjá stelpum) að henda bolta í vegg með ýmsu móti (t.d. yfirhandar eða undirhandar, með því að fara með hendina aftur fyrir bak, undir fótinn eða eitthvað) og grípa síðan afur. Fyrst átti að henda einu sinni, síðan tvisvar o.s.frv. Mistækist að grípa tók sá næsti við.
Gríðarlegur fjöldi mynda er settur á fésbókina þessa dagana. Mest gaman finnst mér að skoða gamlar myndir, einkum ef þær eru af einhverjum sem maður þekkir. En hvað með gamlar landslagsmyndir? Eins og þessa hérna. Ég er viss um að hún er tekin fyrir 1960 (apríl 1959 líklega) en er hún eitthvað merkilegri fyrir það? Ekki finnst mér það vera.
Af hverju er fólk að þreyta sig á þessu pólitíska jagi? Það er ekkert allt að fara til fjandans. Auðvitað var það vanhugsað frumhlaup hjá Bjarna að flytja þessa vantraustsstillögu. Það er auðvelt að sjá það eftirá. Ríkisstjórnin veikist þó jafnt og þétt. Þau skötuhjúin Jóhanna og Steingrímur þurfa að fara að grípa til einhverra ráða. Mér finnst skrýtið að fólk sem komið er til vits og ára átti sig ekki á raunverulegu eðli Sjálfstæðisflokksins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2011 | 00:14
1331 - Hvar er þingrofsrétturinn
Gamla myndin.
Hún er greinilega af Kidda Antons og Mumma Bjarna Tomm. Tekin 1958. Hef ekki hugmynd um hvaða kveðja þetta er hjá Kidda.
Hvar er þingrofsrétturinn? Mér kæmi ekki á óvart þó ÓRG þættist hafa fundið hann á förnum vegi úti á Álftanesi. Sú var tíðin að menn þrættu sig rauða í framan yfir þingrofsréttinum og hvar hann ætti að vera hverju sinni. Nú má enginn vera að því lengur. Icesave er merkilegra, svo ekki sé nú talað um átökin í Sjálfstæðisflokknum eða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.
Horfði öðru hvoru á beina útsendingu frá umræðum og atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórnina. Svo virðist vera sem þingmenn telji sig almennt vera með þingrofsréttinn í vasanum. Ég er samt ekki viss um að svo sé. Um það og fordæmi öll verður sjálfsagt mikið deilt þegar tilefni gefst til.
Jónas Kristjánsson segir að sjónvarpað hafi verið beint frá öllu gumsinu og á þar að ég held við atkvæðagreiðsluna um vantraustið. Svo var ekki og ég hugsa að útsendingarstjórinn hjá RUV hafi átt í einhverjum erfiðleikum. Mun lengri tíma tók að ákveða sig í handboltanum en ráð var fyrir gert.
Sem betur fer þurfti mikill fjöldi þingmanna að gera grein fyrir atkvæði sínu svo þeir sem með sjónvarpinu fylgdust hafa líklega fengið úrslitin bæði í handboltanum og vantraustinu beint í æð. Sjálfur hætti ég að svissa á milli stöðva þegar ég var orðinn næstum úrkula vonar um að alþingi kæmist í sjónvarpið.
Um þessi úrslit ætla ég ekkert að fjölyrða enda hefði þá verið nær að gera það í gær. Spakmæli Harðar Haraldssonar um að aldrei skuli fresta því til morguns sem alveg eins er hægt að gera hinn daginn fellur mér æ betur í geð.
Náttúruhamfarir eru oftast hraðfara. Jarðskjálftar, eldgos, skriðuföll og flóðbylgjur gera ekki boð á undan sér. A.m.k. ekki með nógu miklum fyrirvara til að fólk nái að bjarga sér og sínum eigum. Endurtaka sig samt reglulega.
Hægfara náttúruhamfarir eru þó líklega fullt eins hættulegar. Mannkynið tekur samt frekar lítið mark á viðvörunum um slíkar hættur. Að svo miklu leyti sem hnatthlýnun, geislun og hverskonar ruslasöfnun er mönnum að kenna er sem betur fer ævinlega hægt að kenna fremur öðrum um en sjálfum sér.
Hvernig á að skipta göngustíg við svona aðstæður?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2011 | 00:07
1330 - Gömul mynd
Nú er ég kominn með dellu fyrir gömlum myndum og get bara ekkert að því gert. Á myndinni hér fyrir ofan held ég að séu eftirfarandi: Fremri röð frá vinstri, Óskar Bjarnason, Reynir Pálsson, Sæmundur Bjarnason, Benedikt ??son (Bensi á Aðalbóli), Örn Jóhannsson. Aftari röð frá vinstri: Guðmundur Stefánsson (Muggur), Reynir Gíslason, Kristinn Antonsson, Guðmundur Bjarnason og Guðjón Ingvi Stefánsson.
Þessi mynd er tekin í júní árið 1957. A.m.k. stendur svo í albúminu mínu. Þetta er úrvalslið Hveragerðis á þeim tíma og ég hef enga hugmynd um af hverju við erum bara tíu á myndinni. Á þessum tíma tíðkaðist ekki síður en nú að hafa ellefu menn í knattspyrnuliði. Ég er ekki alveg viss um öll nöfnin en flest þeirra eru áreiðanlega rétt.
Það er svolítil saga á bak við birtingu þessarar myndar. Um daginn var ég staddur í Hveragerði á sýningu sem þar var haldin. Þar voru m.a. sýndar gamlar myndir frá Hveragerði og þar á meðal ein af knattspyrnuliði sem sagt var að væri tekin árið 1962. Líklega er það ekki rétt því Óskar Bjarnason sem er á myndinni (í hlutverki markvarðar) dó að ég held árið 1961.
Lengst til hægri í efri röð á þeirri mynd er maður sem haldið hefur verið fram að sé ég. Mynd þessi er einnig birt í ritinu HSK 100 ára" og þar er sá maður sagður vera Árni Helgason. Það held ég að geti alveg staðist. Hinsvegar er enginn vafi á því að ég er í hlutverki markvarðarins á meðfylgjandi mynd.
Þessi mynd er líka örugglega tekin á túninu fyrir neðan barnaskólann í Hveragerði og það eru Reykjafjall og Ingólfsfjall sem eru í baksýn.
Svei mér ef bloggin mín eru ekki að lengjast aftur. En þegar maður er búinn að skrifa eitthvað sem maður ætlar að setja í blogg er reginfirra að geyma sér hluta af þeim skrifum. Um að gera að setja allt sem maður á. Alltaf leggst manni eitthvað til. En af hverju er betra að eiga smálager af myndum til að setja með blogginu sínu en að eiga lager af skrifum? Það veit ég ekki. Kannski úreldast myndirnar síður.
Hef birt dálítið af gömlum myndum undanfarið. Kannski ég haldi því áfram.
Hvað hefði Bubbi gert spyr DV. Hann var víst í sínu bloggi að vorkenna Baldri Guðlaugssyni. Sem betur fer spyr enginn mig hvað ég hefði gert í Baldurs sporum. Eitt get ég samt ráðlagt Bubba. Hann þurfti ekkert að blogga um þetta. Nóg annað er til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2011 | 02:52
1329 - Gamlar myndir og fleira
Hér eru fjórar gamlar myndir.
Mynd númer eitt. Þetta sýnist mér vera Jóhannes Finnur Skaftason og líklega er myndin tekin í Seldal sem er eiginlega uppá Reykjafjalli. Held að þetta sé frá útilegunni þar sem við Lalli Kristjáns sváfum úti vegna plássleysis í tjaldinu þeirra Jobba og Jóhannesar. Fengum þó lánaðan hjá þeim tjaldbotninn.
Mynd númer tvö. Þetta munum vera við bræðurnir ég og Bjöggi fyrir utan nýja húsið að Hveramörk 6.
Mynd númer þrjú. Hef bara einfaldlega enga hugmynd um hver þetta er né hvar myndin er tekin. Hjálp óskast.
Mynd númer fjögur. Þetta er greinilega Bjössi bróðir. Sennilega hef ég tekið myndina og hún er greinilega tekin fyrir utan Hveramörk 6.
Kannski verður þetta blogg ekkert lengra. Sumum finnst gaman að sjá gamlar myndir. Nóg á ég af þeim þó sumar séu lélegar og fátt á þeim að sjá.
Kannski er það merki um hve elliær ég er að verða að ég skuli vera farinn að forðast hugleiðingar um nútímann. Margt er þó að gerast t.d. í stjórnmálum. Hálftíma hálfvitanna horfi ég oft á en í vaxandi mæli leiðist mér hann og þegar þingmennirnir fara að tala um ákveðin mál gefst ég oftast upp nema ég hafi sérstakan áhuga á því sem um er rætt.
Nú virðist t.d. vera komin af stað ný undirskriftasöfnun með áskorun til forsetans um að skrifa ekki undir fjölmiðlalögin. Á síðunni sem þessari undirskriftasöfnun fylgir er vísað á lögin í pdf-skjali. Þetta skjal er svo óra- óralangt (376 blaðsíður) að ég nenni ómögulega að lesa það. Hef ég þó áhuga á fjölmiðlum. Kannski meiri en algengast er. Hef heyrt að Sögu-fólki er eitthvað uppsigað við frumvarpið og kannski er það gallagripur. Ég hef samt tilhneygingu til að treysta þingmönnum stöku sinnum.
Í umsögn Blaðamannafélags Íslands á síðu undirskriftasafnara, sem blessunarlega er ekki nema þrjár blaðsíður og því vel hægt að lesa, segir á einum stað (með leyfi forseta) og er þar verið að tala um ríkisútvarpið. Engar takmarkanir eru á umfangi þess á auglýsingamarkaði aðrar en þær sem greinir í 5. tl. 64. gr., sem eru litlar sem engar frá því sem nú er." Hvaða takmarkanir eru það? Má ekki segja frá því? Annars skil ég þessa setningu ekki almennilega og finnst hún hálfgölluð.
Umsögn Blaðamannafélagsins er í heild alls ekki mjög neikvæð og ekki er að sjá að þeir séu sammála þeim sem fara fram á að ÓRG neiti að skrifa undir lögin ef frumvarpið verður samþykkt.
Og svo er víst búið að leggja fram þingsályktunartillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Held að hún komi fljótt til umræðu og verði ekki samþykkt. Hins vegar langar Bjarna Ben að verða ráðherra, á því er enginn vafi. Nú er rétta tækifærið. Ef hann bíður lengur er hætt við að búið verði að varpa honum út í ystu myrkur þegar næsta tækifæri kemur.
Af reiðhjólum og bílum
Hér er mynd af bílventli. Man að þegar ég var strákur stunduðum við hjólamennsku grimmt. Samt voru allar götur í Hveragerði malargötur. Man að ég hjólaði þó eitt sinn án þess að snerta stýrið með höndunum allar götur eftir Heiðmörkinni frá bakaríinu og niður undir Árnýjarhús. Það þótti mér sjálfum mikið afrek.
Oft þurfti að pumpa í dekkin og ef pumpurnar voru ekki þeim mun betri var það óttalegt puð og tók langan tíma. Ef svikist var um að pumpa og halda hæfilegum þrýstingi í dekkjunum mátti búast við að gat kæmi á slönguna fljótlega. Þá var ekki um annað að gera en bæta hana og það var enn meira verk en að pumpa. Ekkert var hugsað um okkur stráklingana varðandi loft en á einum eða tveimur stöðum í þorpinu var hægt að pumpa í bíldekk með vélrænum hætti.
Einhver okkar strákanna fann þá uppá því snjallræði að taka ventil úr gamalli bílslöngu og nota hann til að pumpa í reiðhjólsdekkin. Þetta var mikill munur. Nú þurftum við lítið að hafa fyrir lífinu og vorum skotfljótir að pumpa í dekkin. Einkum þurfti að gæta þess að pumpa ekki of mikið.
Það minnir mig á að í fyrsta skipti sem ég þurfti að pumpa í dekk á fólksvagningum sem við Vignir keyptum af Gunnari í Álfafelli þá var ég staddur á Selfossi og pumpaði allt of mikið í árans dekkið og þegar ég fór af stað var eins og járnhjól væri undir bílnum.
Einu sinni þegar við bjuggum í Borgarnesi þurfti Áslaug að fara til Reykjavíkur. Ég keyrði hana á Saabinum til Akraness í veg fyrir Akraborgina. Eitthvað var að bílnum og ég þurfti sífellt að vera að bæta vatni á vatnskassann. Þegar ég kom á Akranes var ég auðvitað orðinn of seinn en flýtti mér samt niður á bryggju með reykjarstrókinn uppúr bílnum. Akraborgin var farin af stað en skipstjórinn hefur kennt í brjósti um mig og stöðvaði skipið við hornið á bryggjunni og Áslaug gat farið um borð og gott ef strákarnir voru ekki líka með.
Nei, ég held ekki að það sé búið þarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2011 | 00:08
1328 - Laugavegurinn
Í tiltektarorgíu niðri í kjallara um daginn rakst ég á eftirfarandi ferðasögu. Þeir sem lesa þessi næstum 20 ára gömlu skrif gera það á eigin ábyrgð, því þetta er óralangt. Einar níu word-blaðsíður með þeim fonti og línubili sem ég er vanastur að nota. Það sem mér finnst hvað einkennilegast þegar ég les þessa gömlu frásögn yfir er að ekki skuli minnst einu orði á saxbautann fræga sem þau Lára og Beggi höfðu með sér. Hann er þó að mörgu leyti eitt það eftirminnilegasta úr ferðinni. Sömuleiðis húskveðjan við Emstruskála og steinninn sem þar fannst. Kannski skrifa ég um þessi efni einhverntíma seinna. Hér hefst semsagt frásögnin:
LAUGAVEGSFERÐ 23. - 26. JÚLÍ 1993.
ÞÁTTTAKENDUR:
Sæmundur Bjarnason
Áslaug Benediktsdóttir
Benedikt Sæmundsson
Kristjana Benediktsdóttir
Þór Benediktsson
Sigurbergur Baldursson
Lára Leósdóttir
Ingibjörg Bjarnadóttir
Kristín Þóra Harðardóttir
Harpa Hreinsdóttir
Guðjón á Tjörn safnaði Reykvíkingunum í ferðinni saman snemma morguns föstudaginn 23. júlí að öðru leyti en því að Kristín Þóra mætti að Tunguseli 9. Nokkur angist greip hópinn þegar í ljós kom að Benni beið ekki fyrir utan Hraunbæ 80 eins og einhverjir gerðu ráð fyrir. En auðvitað kom hann von bráðar og hætt var í snatri við fyrirhugaðar björgunaraðgerðir.
Við öndvegissjoppuna Öndvegi á Skeiðavegamótum svokölluðum var staðnæmst og beðið litla stund eftir Ingibjörgu og Hörpu, en síðan haldið áfram upp Land framhjá Skarði og inná Landmannleið, norðan við Heklu um Dómadal og sem leið lá fram hjá Löðmundi og Frostastaðavatni til Landmannlauga.
Árskömm ein hafði vaxið þar nokkuð svo rútan fór ekki yfir hana og allir fengu tækifæri til að bera pokana sína nokkra tugi metra, en við borðin utan við Ferðafélagsskálann var sest að snæðingi áður en lagt yrði á hraunið.
Að lokum var ekki annað eftir en að taka nokkrar myndir og klára fáeina tómata og svo var lagt á brattann. Síðan var gengið sem leið lá í átt til Hrafntinnuskers. Ég var sá eini sem farið hafði þessa leið áður og framan af var það nokkuð stundað að spyrja mig hvar leiðin mundi ligga. Hvoru megin er farið við þetta fjall?" eða eitthvað í þá átt var kannski spurt en slíkar spurningar hættu fljótt því við þeim fengust engin svör.
Eftir því sem nær dró Hraftinnuskeri jókst snjórinn og síðustu 5 - 6 kílómetrana eða svo var nær alfarið gengið á hjarni. Rétt aðeins stóðu einstaka grjóthólar upp úr með löngu millibili. Þegar stutt var orðið til skersins voru grjóthólarnir eingöngu úr hrafntinnu og á síðasta hólnum voru nokkri steinar brotnir og sumir settu hæfilega stór brot í pokana.
Seinni hluta leiðarinnar tóku Harpa, Kristín, Þór og Benni nokkra forystu og einnhverjir hægðu ferðina nokkuð eftir því sem tíminn leið.
Á þessu bili var það sem Sigurbergur tók að tuldra fyrir munni sér vísupart sem að lokum varð að limru:
Ég fór í ferð frá Laugunum,
frá mér og þreyttur á taugunum.
En kæmist ég leiðina
yfir holtið og heiðina,
þá lenti ég eflaust á haugunum.
En í skálann við Hrafntinnusker komust allir. Lítið var þó um ferðir um nágrennið. Ég fullyrti að ekki tæki að leita að íshellunum vestan við Hrafntinnusker enda hefðu þeir engin verið í fyrra. Einnig var orðið áliðið dags og þreyta nokkur í fólki og var ekki einu sinni gengi á Söðul. Matarlyst var þó í góðu lagi og fyrr en varði var farið að bollaleggja um hvað ætti að skrifa í gestabókina að morgni. Ingibjörg fullyrti að ég ætti að geta gert skammlausa vísu til að setja í bókina og viti menn, fyrr en varði hafði mér dottið í hug eftirfarandi fyrripartur:
Hrafntinnu fá skeri skökku
skundum við nú okkar leið.
Eitthvað þótti sumum einkennilegt að kalla Hrafntinnuskerið skakkt en ég fullyrti að svo yrði að vera rímsins vegna og ekki þyrfti að hafa neinar áhyggjur af sannleiksgildi nafngiftarinnar.
Um þetta leyti eða aðeins seinna vogaði Sigurbergur sér að fara með limruna sem fyrr er getið og var nú tekið til við að botna fyrripartinn um skerið. Fyrr en varði hafði Áslaug komið með botn en Benna þótti nauðsynlegt að bæta við hann og var þetta því ekki lengur ferskeytla þegar yfir lauk heldur ein og hálf slík í einu lagi:
Hrafntinnu frá skeri skökku
skundum við nú okkar leið.
Kuldalegar kindur flökku
komu hér um óttuskeið
klyfjaðar af kóki dökku
kyrjandi sinn galdraseið.
Og var nú greinilega farið að fara lítið fyrir sannleiksgildinu, en samkomulag varð um að ekki bæri að fordæma vísuna alfarið vegna þess, því svo gæti farið að hún reyndist vera spásögn. Svo fór nú ekki en samt var hún látin flakka í gestabókina með þeim orðum að þeir sem læsu hana hefðu gott af að velta fyrir sér merkingu hennar.
Á leiðinni í Hrafntinnusker hafði hópur fólks farið fram úr þeim okkar sem öftust vorum og þegar við ræddum við þau voru þau og einkum þó fyrirliði hópsins drýgindaleg mjög yfir því að þau ætluðu sér alla leið til Álftavatns þá um kvöldið. Börn voru í hópnum og voru þau úrvinda af þreytu og þegar nær dró Hrafntinnuskeri dógst eitt þeirra ásamt konu einn verulega aftur úr og höfðum við nokkrar áhyggjur af þessu ráðslagi.
Eins og fyrr segir voru fjórir úr okkar hóp nokkuð á undan hinum að skálanum og þar á meðal Þór. Þegar fyrirliðið hópsins sem ætlaði til Álftavatns í einum áfanga kom að skálanum sagði Þór við hann í mesta sakleysi: Hæ" en fyrirliðinn frækni lét ergelsi sitt, sem líklega hefur stafað af þreytu barnanna bitna á Þór og sagði hryssingslega: Við tölum nú íslensku hérna." Ég líka", sagði Þór og lét málið niður falla.
Í umræðum um kvöldið lét íslenskukennarinn Harpa þess getið að ágæt rök væru fyrir því að telja ávarpið hæ" góða og gilda íslensku og mætti í því sambandi nefna að í ýmsum þjóðsögum kæmu fyrir setningar eins og Hó,hó og hæ, hæ.
Í viðræðum einhverra úr okkar hóp við Álftavatnshópinn kom fram að þau töldu einhverja í okkar hópi vera full aldraða í svona ferð og þegar nokkrir höfðu farið í fótabað í hvernum í gilinu um kvöldið þótti mér við hæfi að gera þessa vísu:
Fótabað var farið í
frækilegt í hvernum.
Glæsilega gengið í,
af gamalmennum ernum.
Nokkrir þátttakendur og þar á meðal Kiddý höfðu keypt sér svokallaðan energidrykk" í Útilífi í Glæsibæ fyrir ferðina og var nokkuð bollalagt um það að hve miklu gagni slíkur elexsír kæmi.
Morguninn eftir er lagt var af stað frá skálanum við Hrafntinnusker héldu engin bönd Kristjönu og þó hún hefði verið með síðustu mönnum allan fyrsta daginn tók hún nú forystu og var ekki á henni að sjá að þreyta væri henni til trafala. Um þetta þótti mér vert að gera vísu:
Kiddý að sér kveða lætur
komin er á ofsa skrið.
Enda fór hún fyrst á fætur
og fór að drekka energið".
Þetta með að hún hafi verið fyrst á fætur var bara skáldaleyfi og engar rannsóknir eða athuganir liggja þeirri fullyrðingu til grundvallar. En úr því að svo vel hafði gengið með þessa vísu ákveð ég strax að gera aðra um hugsanlega framvindu mála:
Kiddýar er kraftur þrotinn.
Kemst nú ekki lengur hratt.
Hennar er nú hugur brotinn.
Helvíti er þetta bratt."
Öfugt við spásagnarvísuna sem gerð var kvöldið áður í skálanum við Hrafntinnusker rættist þessi að nokkru leyti því Kiddý hélt ekki forystunni til lengdar og tók fjórmenningaklíkan frá deginum áður forystuna aftur. Í þeim hópi voru sem fyrr Þór og Benni og nú ákvað ég að reyna mig enn frekar við gerð spásagnarvísna með því að gera eftirfarandi vísu með hliðsjón af því að þeir höfðu ekki lykil að skálanum við Álftavatn:
Þór og Benni þramma af stað
þykjast engum háðir.
En er þeir koma á endastað
öðru kynnast báðir.
Þessi vísa rættist alls ekki og segir ekki meira af spávísum.
Á þessum kafla leiðarinnar gerði ég eitthvað meira af vísum en þær varðveittust ekki og hafa vafalaust ekki verið merkilegar. Sömuleiðis setti Sigurbergur eitthvað saman og vorum við á tímabili allfljótir að vaða elginn og það svo mjög að þær Áslaug og Ingibjörg gátu ekki orða bundist og gerðu þessa vísu í sameiningu:
Andagiftin alveg hreint
er þá báða að sprengja.
Þeir yrkja bæði ljóst og leynt.
Ljóðum saman dengja.
Við Kjúkling var áð og ég sagði söguna um hvernig hann fékk nafn sitt en sú saga er úr annarri ferð og verður ekki sögð hér.
Þegar að því kom að fara niður fjallshlíðina ofan við Álftavatn var sexmannahópurinn óratíma að komast niður og ekkert var ort á þeirri leið. Kristjana var þó fyrst og hvíldi sig vel og lengi neðan við aðalbrekkuna. Nokkru áður en við komum til Álftavatns kom á móti okkur helmingur fjórmenningaklíkunnar eða þau Þór og Harpa og voru þau okkur til trausts og halds það sem eftir var leiðarinnar til Álftavatns.
Skammt frá Álftavatni minntist Þór þess skyndilega þar sem hann gekk við hlið mér að framundan var mýri. Áslaug og Kiddý voru nokkuð á undan okkur og rétt á undan þeim útlendingar nokkrir. Sem þetta rifjast upp fyrir Þór hleypur hann af stað og hrópar til þeirra Áslaugar og Kiddýar að þær skuli snúa við því það sé mýri framundan og betra sé að krækja fyrir hana. Útlendingarnir heyra þetta einnig og snarhætta við að fara þá leið sem þeir voru á og fylgja Þór.
Skömmu síðar var komið að læk einum sem Þór stökk léttilega yfir og hjálpaði síðan öllum þeim sem að komu yfir með skíðastaf sínum og þar á meðal áðurnefndum útlendingum. Við Kristjana héldum áfram meðan Þór hjálpaði liðinu yfir lækinn og fórum að ræða um það að útlendingarnir héldu áreiðanlega að Þór væri landvörður þarna og kannski væri réttar a að kalla hann landvætt en landvörð svo vasklega sem hann gengi fram. Þá datt mér í hug þessi vísa:
Landvætturinn Lipri-Þór
lagði sig í hættu.
Yfir lækinn fimur fór
og frelsaði þá sem mættu.
Talsverð þreyta var í mannskapnum er til Álftavatns var komið. Endurbætur frá fyrra ári voru þar talsverðar. M.a. hafði verið settur vaskur einn forkunnarfagur úr stáli við skálagaflinn. Galli var að vísu á að ekki kom vatn úr þeim eina krana sem þar var nema öðru hvoru og vegna hvassviðris var oft erfitt að handsama vatnið þegar það gaf sig, en endurbót var þetta engu að síður, tvímælalaust.
Þegar við komum var verið að ljúka við uppsetningu alvöru vatnssalerna sem hugsanlega eru þau fyrstu á miðhálendinu utan Hveravalla og Landmannalauga. Munu þau að líkindum hafa verið vígð af okkur og svo glöggt stóð það að uppsetningu þeirra lyki í tæka tíð til þess að svo yrði að einhverjir þurftu að ganga rösklega í hringi áður en þeir komumst á klósettið. Nöfn þeirra sem vígðu þessi nútímaþægindi á þessum eyðilega stað verða vafalaust skráð í sögubækur framtíðarinnar.
Þór, Sæmundur, Lára og Benni fóru í kvöldgöngu og fundu leitarmannahelli sem sagt er frá í bókinni um Laugaveginn en ekki hafði tekist að finna árið áður. Skötuormarnir umtöluðu sem áttu að vera í vatninu fundust hinsvegar ekki.
Morguninn eftir á leiðinni í Hvanngil var fyrsta vaðæfing ferðarinnar þegar farið var yfir Bratthálskvísl.
Áð var í Hvanngili í góðu veðri og síðan farið sem leið lá að Kaldaklofskvísl sem er brúuð. Örstutt er síðan þaðan að Bláfjallakvísl en hana þarf að vaða. Hún reyndist vera ísköld en að öðru leyti ekki sem verst yfirferðar.
Þá tóku sandarnir við og var það heldur tíðindalítil ganga. Helsta tilbreytingin var við Innri-Emstruá en þar rann hluti árinnar framhjá brúnni og óðu þær Harpa og Kristín þar yfir en þær komu þangað fyrstar ásamt Benna. Hann stökk aftur á móti yfir ána á milli steina og beið síðan í grenndinn og aðstoðaði alla við að stökkva þar yfir en það var nokkurt erfiði og var ekki laust við að búist væri við að þar kynni að fara illa og voru ljósmyndavélar mundaðar óspart.
Vel tókst samt að komast þarna yfir þó einhverjir dýfðu fæti lítillega í vatnið.
Benni lét þess getið er björgunaraðgerðum var lokið að þessi staður skyldi nefndur Bennahlaup í höfuðið á Torfahlaupi sem enginn nennti að skoða kvöldið áður og að ekki mundi þessi atburður síður verðskulda vísnagerð en lækjarsull Lipra Þórs.
Mér tókst að koma saman vísu um þetta efni:
Bennahlaup í Emstruá
í elstu sögnum lifir.
Því Benni sjálfur beið þar hjá
og bjargaði öllum yfir.
Bar nú fátt til tíðinda fyrr en komið var að Emstruskála og þótti mörgum leiðin yfir sandana löng og tilbreytingarlaus. Við Emstruskála tókst mér loks að sýna vald mitt og virðingu því nú var í fyrsta skipti í ferðinni komið að læstum skála og mátti það ekki seinna vera. Opnaði ég nú skálann með lyklinum góða sem ég fékk hjá Ferðafélagi Íslands.
Um kvöldið var Markarfljótsgljúfur skoðað af flestum og þótti tilkomumikið sem vonlegt var.
Morguninn eftir var lagt af stað fremur snemma og bráðlega var farið að ræða um næsta farartálma sem er Fremri-Emstruá. Áslaug mismælti sig svolítið þegar hún ætlaði að spyrja hvort sú á væri ekki örugglega brúuð og spurði eitthvað á þá leið hvort við þyrftum" að fara yfir hana á brú. Þetta varð mér tilefni til eftirfarandi vísu:
Margar hræðir Emstru á
aðra sjáum glaða.
Mælti Áslaug mjög hress þá:
Má ég ekki vaða?"
En þessi á er líklega sú sem allra erfiðast mundi vera að vaða á leiðinni. Áður en brúin kom var venjan að fara upp á jökulinn til að forðasta ána en þó var hún stundum vaðin og þótti það mjög slarksamt.
Aðkoman að brúnni er hrikaleg og gljúfrið djúpt.
Nú fór leiðin í Mörkina að styttast og sást lítið til Hörpu, Kristínar og Benna fyrr en þangað var komið. Þröngá reyndist lítil hindrun en var þó líklega dýpsta áin sem vaðin var á leiðinni. Þór fór á undan þegar yfir Þröngá var komið en hélt í Húsadal í stað Langadals og kom síðastur í áfangastað. Benni lenti líka í ógöngum nokkrum og kom á endanum beint niður klettana fyrir ofan göngubrúna yfir Fossá. (Hér á væntanlega að standa Krossá - athugasemd bloggeiganda.)
Meðan beðið var eftir að lambalærin grilluðust gekk ég á Valahnúk en engir aðrir treystu sér í þá ferð. Úsýni þaðan er mikið og fagurt.
Lauk svo þessari ferð með því að Guðjón á Tjörn keyrði alla heim aftur.
Allnokkrar vísur til viðbótar þeim sem tilgreindar hafa verið urðu til í ferðinni, en mér er yfirleitt ekki mikið kunnugt um tilurð þeirra og tilefni og þess vegna eru þær ekki tilgreindar í textanum.
Hafragrautur hreysti lætur
heilmikið ranka við.
Á honum hef ég miklar mætur,
miklu betri en energið.
Benni.
Á þriðja degi árnar óðum
ofsalega vorum kaldar.
Með Sæma hjálp og ráðum góðum
komust yfir konur valdar.
Lára.
Á söndunum þreytt með sára fætur
siluðumst niður að Emstruskála.
Bílstjórum mörgum gáfum gætur
gjarnan vildum sumum kála.
Lára
Nú skælist ég áfram skítug og lúin.
skálinn að Emstrum hann sést ekki enn.
Þrekið er ekkert og þrótturinn búinn
það vildi ég óska hann birtist nú senn.
Lára.
Yfir stríða ána fór
sem ekki var þó mér að þakka
það var hann stóri og sterki Þór
sem studdi mig upp á réttan bakka.
Lára.
Þessi var gerð eftir á og þótti passa vel við mynd af Áslaugu þar sem engu var líkara en hún væri að biðjast fyrir:
Almáttugur góði guð
gætirðu nokkuð soldið.
Þverra látið þetta puð,
það mun verða goldið.
Benni og Áslaug.
Sæmundur Bjarnason
Hér eru nokkrar myndir úr þessari frægu ferð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.4.2011 | 02:30
1327 - Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu
Nú get ég haldið áfram hugleiðingum mínum um hitt og þetta. Icesavið þarf ekki að trufla mig við það eins og það hefur gert að undanförnu. Ég held að ég hafi skrifað það hér um daginn að ég á ekki von á að þeir flokkadrættir sem verið hafa að undanförnu með mönnum útaf þessu máli hafi nein sérstök eftirköst.
Það er eflaust vegna hrunsins sem varð hér haustið 2008 sem deilurnar um Icesave hafa verið með hatrammasta móti. Almennt held ég að segja megi að fólk sé orðið pólitískara nú um stundir en áður var. Það held ég að sé einkum vegna hrunsins.
Lífskjör fólks eru verri en var fyrir hrun og ríkisstjórn og alþingi virðist koma fólki meira við en áður var. Ég held samt sem áður að lífskjör hér á landi séu ekkert stórum verri en þau voru. Afturkippur hefur komið í allar framkvæmdir og þessháttar en samt er margt hér á góðu róli.
Stjórnlagaráðið á ég von á að standi sig vel. Það sem frá því kemur ætti að sætta betur þjóðina og stjórnmálastéttina sem svo oft er talað um núorðið. Þær breytingar sem hér gætu orðið á stjórnarfari öllu næstu árin vona ég að verði til góðs. Icesave er nú farið í þann farveg sem þjóðin vill og hægt er að snúa sér að öðru. Margir munu eflaust snúa sér af fullum krafti að gagnrýni á ríkisstjórnina en það er ekkert nýtt. Rifrildisefnin eru næg þó þessu sleppi.
Með þessu bloggi birti ég mynd af húsi Byrs við Hamraborg hér í Kópavogi. Því er ekki að neita að mér finnst þetta hús og allt í kringum það vera dálítið 2007. Skrítið að ártal skuli vera orðið að frasa sem flestir skilja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)