1575 - Lesvélar, stjörnufræði og ný ríkisstjórn

Scan139Gamla myndin.
Í grind af vinnuskúr í Laugarási. Bjarni Sæmundsson (eldri) og Sigurbjörn Bjarnason.

Sé ekki betur en lesvélar séu það sem koma skal í bókahorninu, en mikið ósköp eru þær búnar að vera lengi á leiðinni. Rithöfundum gengur svolítið illa að skilja þessi mál en það lagast líklega með tímanum. Áður en langt um líður munu þeir gefa sjálfir út sínar bækur og hafa lítið fyrir því. Auðvitað munu bara bækur sumra höfunda seljast og aðrir lepja dauðann úr skel. Þannig hefur það alltaf verið. Skrifarar hafa samt löngum verið þannig að þeir vilja umfram allt lifa á vinnu annarra.

Þegar ég var ungur fékk ég eitt sinn óstjórnlegan áhuga á stjörnufræði. Ég er nefnilega og hef alltaf verið dellukarl hinn mesti. Ekki var auðvelt verk að útvega sér fróðleik um þessi mál og smám saman rénaði áhuginn. Man samt eftir glímu minni við Kepler og dagatalið. Lögmál Keplers voru mér að sjálfsögðu hugleikin Eins og flestir vita fjalla þau m.a. um sporbauga í stað hringa. Ítarlega lýsingu fann ég einhversstaðar á því hvernig hann fann það út að pláneturnar gengju í sporbaugum umhverfis sólu en ekki hringjum.

Niðurstaðan úr þeim pælingum var að Jörðin færi mishratt á sporbaug sínum. Í framhaldi af því datt mér í hug án allrar aðstoðar að hægt væri að ganga úr skugga um þetta með því að telja dagana milli jafndægra á vori og jafndægra á hausti annars vegar og jafndægra á hausti og jafndægra á vori hinsvegar. Ef það bil væri ekki jafnlangt væri skilningur minn á þessu máli réttur. Ég reiknaði þetta því út í æsingi miklum og komst að raun um það mér til mikillar ánægju að þar er einmitt þannig. Á þessari uppgötvun lifði ég lengi, en fann þó aldrei neinn sem deildi þessum óslökkvandi áhuga á stjörnufræði með mér.

Þetta með ríkisstjórnina virðist ætla að rætast. Ég er sérstaklega ánægður með að losna við Jón Bjarnason. Ekki er það samt útaf Evrópumálunum heldur kvótanum og flestu sem honum tengist. Sé ekki betur en ríkisstjórnin ætli að spila á hann í næstu kosningum, enda er þar um vinsælt mál að ræða. Aðildin að ESB gengur aldrei í gegn fyrir næstu kosningar. Þessvegna er þetta eðlileg niðurstaða. E.t.v. reynir Jóhanna að flýta kosningum eitthvað ef vel gengur í sambandi við kvótann. Meirihluti stjórnarinnar í sumum málum kann að sjálfsögðu að vera í hættu en slíkt er engin nýjung og þarf ekki að verða henni til trafala.

IMG 7593Háhýsahverfið í Kópavogi. Rauða ljósið er líklega aðvörunarljós fyrir flugvélar. Veit ekki af hverju farið er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sé ekkert rautt ljós?

Ólafur Sveinsson 1.1.2012 kl. 23:17

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Stækkaðu myndina. Mig minnir að það sé á miðju húsinu eða svo. Sé núna að það ber ósköp lítið á því.

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2012 kl. 06:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband