Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

1565 - Losaði þvag

Scan78Gamla myndin.
Hjálmar Sigurþórsson.

Hvað er það sem heldur mér sískrifandi og síbloggandi? Skil það bara ekki. Helst dettur mér í hug að það sé vegna þess að mér finnist þeir sem lesa bloggið mitt vera að láta í ljós einhverja aðdáun á þessum skrifum mínum með því að lesa það. Þó getur það varla verið því mér skín í rauninni ekkert gott af þessu. Þeir eru líka ekki svo margir sem þetta gera. Hvað getur það þá verið? Róar það mig að skrifa og er það mér ekkert verulegt átak? Það getur vel verið. Þessi tími sem vill til að ég lifi á er sérstakur að því leyti að framfarir á öllum sviðum eru hið eðlilega ástand hlutanna og allir hafa tækifæri til að láta ljós sitt skína. Jú, þeir allra bestu hafa kannski alltaf náð í gegn. Þ.e.a.s. komist í gegnum allar síurnar sem á vegi þeirra hafa orðið. Allir hinir hafa þurft að sætta sig við að vera gerðir afturreka. Hvorki komist lönd né strönd. Nú geta aftur á móti allir talað við alla. Internetið er mikil blessun. Með því gefst öllum kostur á að láta í sér heyra og samskiptin geta aukist manna á meðal eftir því sem hver vill.

Stórstyrjaldir hafa líka yfirgefið okkur og koma vonandi aldrei aftur. Í framtíðinni held ég að tuttugustu aldarinnar verði minnst fyrir heimsstyrjaldirnar tvær, en eftir þá síðari má segja að samfellt blómatímabil hafi ríkt á jörðinni. Alls ekki án undantekninga samt. Sumir halda áfram að eiga um sárt að binda þrátt fyrir allt. Hlýnun jarðarinnar og samspil mannskepnunnar við náttúruna koma e.t.v. til með að einkenna þá öld sem nú er nýhafin. Þó margir séu svartsýnir er samt engin ástæða til að örvænta. Lausnir á flestum vanda finnast á endanum.  

„Hann stóð uppi á húsþaki og losaði þvag yfir fólkið“. Eitthvað á þessa leið var sagt í víðlesnu vefriti. Meig hann ekki bara yfir það? Var hann virkilega með kopp þarna uppi og skvetti úr honum? Er tepruskapurinn og pólitíska rétthugsunin að gera útaf við fólk? Er virkilega klám að segja að einhver hafi migið eða pissað yfir fólk? Skil þetta ekki. Klámbylgjan ógurlega er að gera útaf við alla. Það er bókstaflega þannig hjá sumum að ekkert virðist vera mikilvægara en koma í veg fyrir alla nekt og allt kynlíf. Sá áðan ágætan pistil um þetta eftir Evu Hauksdóttur. Hún var m.a.að bera saman þær ægilegu og hroðalegu nauðganir sem klámvæðingin kallar yfir okkur á Vesturlöndum og þær þægilegu og ánægjulegu nauðganir sem eiga sér stað annars staðar.

IMG 7475Rör.


1564 - Staðgöngumæðrun og landsdómur

Scan75Gamla myndin.
Við Vegamót. Hafursfellið sést vel á þessari mynd.

Mér finnst einkennilegar þær fréttir að til standi að flytja tillögu um að hætta málarekstri gegn Geir Haarde. Fæ ekki séð að neitt það hafi breyst sem til þess gæti orðið að þingmenn skiptu um skoðun í því máli. Minnir að flokkslínur hafi riðlast talsvert þegar greidd voru atkvæði um þetta á sínum tíma. Ef flutningsmenn hafa ekki tryggt sér öruggan meirihluta fyrirfram við slíka tillögu er hún aðeins málþófstaktík. Fjölmiðlar fjalla einkennilega um þessa hugmynd. Það er varla þeirra hlutverk að mynda þrýsting á þingmenn hvað þetta varðar.

Reynir Tómas Geirsson er prófessor í fæðinga- og kvensjúkdómafræði og yfirlæknir á Landsspítala. Hann mun vera einn helsti sérfræðingur landsins í slíkum fræðum og skrifaði nýlega grein í Fréttablaðið. Sú grein var um staðgöngumæðrun. Ekki ætla ég mér að deila við Reyni Tómas um þau mál sem hann hefur sérþekkingu á þó vel megi finna kafla í greininni sem orka tvímælis. Undir lok greinarinnar segir hann: Bloggheima og fésbækur þarf að forðast. Þarna opinberar hann augljósa fordóma og þekkingarleysi. Ekki er hægt að sjá annað en hann álíti Fréttablaðslega umfjöllun um mál annarri umfjöllun æðri. Blogg og Facebook þekkir hann örugglega ekki. Umfjöllun þar er miklu minna og jafnvel ekkert síuð eins og er á stóru fjömiðlunum. Margt er þar að finna miður fallegt eða fréttnæmt en það má engu að síður segja um stóru fjölmiðlana. Samt er það svo að þetta er hluti af tækni nútímans og á bloggi og fésbók er oft að finna það sem ekki er hægt að finna annars staðar.

Hulda á Mel var lærð ljósmóðir. Hún sagði oft: Pétur sagði, þegar læknisfræðileg mál bar á góma. Hún hafði lært hjá Pétri Jakobssyni og bar mikla og djúpa virðingu fyrir honum. Held að Pétur hafi verið fyrirrennari Reynis Tómasar í starfi og eflaust vill Reynir að borin sé virðing fyrir sér. Hann þarf þá að temja sér vandaðri vinnubrögð.

Las á fésbókinni í dag um að fésbókin hefði étið peningaveski einhvers eða farsíma með því að flokka póstinn eftir eigin höfði. Man ekki eftir að hafa lent í slíku með fésbókina enda er ég fésbókaróvinur og nota hana sem minnst. Lendi stundum í því með bloggið mitt að þar eru skrifuð einskonar bréf í gestabókina en ekki athugasemdirnar. Lít alltof sjaldan í hana og þessvegna getur liðið talsverður tími áður en ég uppgötva tilskrifið. Einnig á ég það til að kíkja alltof sjaldan í pósthólfið mitt á snerpa.is.

IMG 7464Ber.


1563 - Dumbur hefur konungur heitið

Scan70Gamla myndin.
Á hlaðinu við Vegamót. Benni er í rauða bolnum, aðra þekki ég ekki.

Kannski Vantrúarmálinu sé að ljúka. Er þetta ekki bara angi af biskupsmálinu? Eru það ekki trúmál sem alltaf vekja heitustu umræðurnar? Hrun-umræðurnar eru að verða dálítið þreyttar, en það má alltaf finna nýja fleti á trúmálunum. Ég þarf þó ekki að fylgja straumnum frekar en ég vil. Leiðist þetta mál svolítið.

Var að enda við að lesa kiljubók af bókasafninu sem heitir „Litháinn“. Þetta er svona ósköp venjulegur krimmi. Heldur manni alveg sæmilega við efnið en prófarkalesurinn hefði getað verið mun betri. Villurnar og misskilningurinn vaða uppi og stinga talsvert í augun. T.d. virðist höfundurinn ekki gera greinarmun á hurð og dyrum, en það finnst mér afspyrnu ljótt að sjá. Held að þetta sé ný bók og skil ekki af hverju hún er í kiljuformi. Vaninn hér á landi er að hafa slíkar bækur vandlega innbundnar þó ómerkilegar séu. Tilvísanir í fréttir dagsins eru margar í bókinni og gera hana stórum verri en annars væri.

Varðandi Icesave-málið, sem virðist vera að rakna úr rotinu núna, vil ég bara segja að líklega væri heillavænlegast að semja ef það er hægt. Hugsanlega þarf að gera það sem fyrst en satt að segja er ég ekki mjög hræddur um að þetta fari illa. Það hefur hingað til reynst okkur Íslendingum ágætlega að hunsa þá dómstóla sem okkur sýnist. ESB mun þó e.t.v. reyna að þvinga okkur til einhvers sem við héldum að við slyppum við. T.d. er hætta á að mismununin verði okkur mun þyngri í skauti en ríkisábyrgðin.

Í upphafi Bárðar sögu Snæfellsáss segir:

Dumbur hefir konungur heitið. Hann réð fyrir hafsbotnum þeim er ganga norður um Helluland og nú er kallað Dumbshaf og kennt var við Dumb konung. Hann var kominn af risakyni í föðurætt sína og er það vænna fólk og stærra en aðrir menn en móðir hans var komin af tröllaættum og brá því Dumbi í hvorutveggju ætt sína

Og Dumbur minnir mig að hafi verði pabbi Bárðar. Því minnist ég á þetta að Magnús Þór Hafsteinsson á Akranesi hefur skrifað bók sem hann nefnir „Dauðinn í Dumbshafi“ og er um skipalestirnar sem fóru til Murmansk og höfðu jafnan viðkomu í Hvalfirði. Einnig las ég fyrir skömmu bók eftir séra Róbert Jack sem hann skrifaði fyrst á ensku og fjallar um daglegt líf í Grímsey þegar hann var prestur þar. Sú bók var á íslensku kölluð „Dagar í Dumbshafi“.

Þetta sambland af gamni og alvöru sem ég hef tileinkað mér fellur greinilega einhverjum í geð. Sé ekki betur en lesendum mínum fari fjölgandi. Ekki dregur það úr pælingum mínum eða fjarlægir mig frá blogginu á neinn hátt.

IMG 7456Líkan af Sveitabæ.


1562 - Meira um Vantrúarmálið o.fl.

Scan36Gamla myndin.
Hér er hlaupið hratt. Líklega er myndin tekin á Breiðabliki.

Mér finnst menn vera óþarflega æstir útaf þessu Vantrúarmáli. Hef reynt að kynna mér það svolítið með því m.a. að lesa blogg Helga Ingólfssonar og svarhalana við það, ásamt einhverju fleiru. Ef hægt væri að segja að þessi kynni ættu að leiða til einhvers sérstaks þá mundi það fremur vera að fólk ætti að segja sig úr Þjóðkirkjunni, en í hana aftur. Reyndar á hún ekkert að koma þessu máli við. Ég hef t.d. aldrei gengið úr Þjóðkirkjunni og tel veruna þar skaðlausa með öllu. Ég sé t.d. allsekki að nauðsynlegt sé að ganga í Vantrú ef menn segja sig úr Þjóðkirkjunni og efast um það sé yfirleitt gert.

Jón Valur Jensson heldur áfram að skattyrðast við einhvern í athugasemdum við Síonistabloggið mitt sem ég setti upp 1. desember s.l. Það kalla ég þrautseigju. Ég er löngu hættur að leggja þar orð í belg. Fylgist þó dálítið með því sem þar gerist. Síðasta innlegg Jóns er frá því 11. desember. Er ekki viss um að hægt sé að halda þessu áfram mikið lengur.

Kannski tapaði Gunnar Thoroddsen fyrir Kristjáni Eldjárn í forsetakosningunum 1968 aðallega vegna þess að hann var karlremba hin mesta. Er minnisstætt að í áramótaskaupi einhverju sinni tók „fréttakvenmaður sjónvarpsins“ í gervi Svölu Thorlacius viðtal við einhvern í gervi Gunnars. Man vel eftir alvöruviðtalinu þar sem Gunnar gat með engu móti leynt fyrirlitningu sinni á Svölu.

Alveg kemur það fyrir að Jónas Kristjánsson hafi rétt fyrir sér þó hann sé mest fyrir stóryrðin og hrokann á bloggi sínu. Nýlega skrifaði hann um orðaleppa annarra og kallaði þá hugtakafalsanir. Það er alveg rétt hjá honum að gengisbreyting hljómar betur en gengisfelling. Sömuleiðis hljómar mun betur að tala um að „fara á svig við“ lögin en að „brjóta“ þau. Ólafur sérstaki segist ekki vilja tala um símhleranir heldur símhlustun. Hver hlustar ekki í símann? Í versta falli hlusta menn á sjálfa sig þegar þeir tala í síma. Já, sumir eru þannig. Hugtakafölsun er þetta ekki en ber vott um mikla hugsunarfátækt.

IMG 7447Við Fossvog.


1561 - Stóra Vantrúarmálið

Scan35Gamla myndin.
Helga í Holti og Júlíana.

Verð að viðurkenna að „stóra Vantrúarmálið“ hefur hingað til að mestu farið framhjá mér. Þó hef ég orðið svolítið var við illt umtal um félagsskapinn Vantrú bæði á fésbók og annarsstaðar.

Tók mig því til í gærkvöldi og las á blogginu greinargerð Helga Ingólfssonar um málið og ógnarlangan svarhala við hana. Þrátt fyrir lengdina er sá svarhali mestan part mjög áhugaverður og þar með ólíkur þeim langa svarhala sem ég fékk fyrir nokkru við blogg-grein mína sem ég nefndi „Síonistann í Kaupmannahöfn.“ Horfði líka um daginn á viðtal við Bjarna Randver háskólakennara í Kastljósinu um þetta allt saman en skildi því miður lítið í því og fannst stjórnandinn hafa sífelldar áhyggjur af því að Bjarni væri of langorður.

Vel er hugsanlegt að einhverjir sem þetta lesa séu eins fáfróðir um þetta stórmál og ég var þangað til í ég las grein Helga og svarhalann. Þessvegna ætla ég að reyna að endursegja með mínum orðum um hvað þetta mál snýst alltsaman. Auðvitað er sú endursögn mjög lituð af mínum skoðunum og hugsanlega alls ekki rétt.

Vantrúarmenn virðast hafa verið óánægðir með umfjöllun háskólakennarans Bjarna Randvers um félagsskapinn við kennslu í guðfræðideild Háskóla Íslands og kært Bjarna til siðanefndar háskólans. Það er ekki óeðlilegt, þó auðvitað hefði mátt láta óánægju sína öðruvísi í ljós. Mál þetta hefur að því er virðist grasserað lengi í háskólasamfélaginu og rannsóknarnefnd verið skipuð á vegum Háskólans til að rannsaka þetta yfirgripsmikla mál.

Umfjöllun um það virðist hafa verið mikil og m.a. í greinum í Morgunblaðinu. Það blað les ég aldrei og hef því misst af þeim greinum. Svo virðist sem bæði Helgi Ingólfsson rithöfundur og Harpa Hreinsdóttir og hugsanlega fleiri hafi látið þetta mál hafa svo mikil og sterk áhrif á sig að þau hafa að eigin sögn látið skrá sig að nýju í þjóðkirkjuna. Lengra er varla hægt að ganga.

Yfirlýsing um málið er birt í mörgum fjölmiðlum í dag og safnað undir hana ótal undirskriftum. Ekki get ég séð að þessi yfirlýsing skýri margt. Finnst gagnrýnin þó einkum beinast að siðanefndinni en í minna mæli að Vantrú. Sé ekki betur en þetta mál sé á leiðinni úr öllu samhengi við allt.

Það er vandlifað fyrir bloggara í veröldinni. Fyrir ekki mjög löngu fóru margir bloggarar í flæmingi miklum frá Moggablogginu því Davíð Oddsson gerðist ritstjóri Morgunblaðsins. Allmargir þeirra fluttu sig yfir á Eyjuna. Nú er víst ekki almennilega líft þar lengur, en hvert á að fara?

Forsetakosningar eru miklu skemmtilegri en alþingiskosningar. Prestskosningar voru samt skemmtilegastar. Nema kannski fyrir prestana sjálfa. Ástæðan var sú að þar ríkja persónurnar einar. Málefnin skipta engu máli. Það t.d. hvort viðkomandi drekkur eða ekki, hvort hann hefur haldið framhjá konunni sinni eða ekki, eru fullkomlega gild umræðuefni.

Persónuleg reynsla mín af prestskosningum er samt afar lítil. Þorbjörn Hlynur, bróðir Árna Páls man ég þó að hafi komið í heimsókn til mín eitt sinn í Borgarnesi útaf þvílíkum kosningum.

Forsetakosningum man ég samt eftir allmörgum. Fyrst ber þá auðvitað að telja baráttuna á milli séra Bjarna og Ásgeirs Ásgeirssonar. Ég hafði auðvitað ekki kosningarétt þá en man eftir að hafa oft séð Ásgeir og forsetabílinn sjálfan sem ekki var síður merkilegur og einkum þó númerið á honum. Ásgeir var bróðir Ragnars á Helgafelli í Hveragerði og kom oft í heimsókn til hans.

Gunnar Thoroddsen, tengdasonur Ásgeirs ætlaði að sjálfsögðu að taka við af honum. Það var bara óvart Kristján Eldjárn þjóðminjavörður sem kom í veg fyrir það. Auðvitað kaus ég Kristján og man vel eftir fundi sem stuðningsmenn hans héldu í Laugardalshöll og var svo fjölsóttur að margir þurftu að standa úti og hlusta á ræðuhöldin þar. Þar á meðal ég. Man að ég stóð nærri suðvesturhorni hallarinnar.

Svo var það Vigdís. Ég kaus hana líka og talaði meira að segja fyrir hönd Borgnesinga á fundi sem stuðningsmenn hennar héldu í Samkomuhúsinu í Borgarnesi.

Einnig kaus ég Ólaf Ragnar á sínum tíma. M.a. vegna þess að Pétur Hafstein sem var hans helsti keppinautur var óþægilega hallur undir Davíð Oddsson og taldi sig þurfa leyfi hans til að bjóða sig fram. Þannig var fundur þeirra a.m.k. túlkaður af mörgum.

IMG 7441Fossvogur.


1560 - ESB, eilífðarmálin o.fl.

a1Gamla myndin.
Ég sjálfur með Bjarna.

Man að í ársbyrjun 2008 keyptum við bílinn okkar sem var model 2007. Hann kostaði ekki nema nokkurra mánaða vinnu (jæja, þónokkurra mánaða) og þótti mér það ótrúlegt. Enda voru þessi lífskjör tóm lygi. En maður trúði svosem bankabesefunum þegar þeir fullyrtu að allir væru sannfærðir um að fjárans-kerfið íslenska væri svo sterkt að það gæti ómögulega farið á hausinn. Bankarir væru þar á ofan orðnir svo stórir að veröldin öll lægi fljótlega fyrir fótum okkar Íslendinga. Auðvitað læddist smáefi að manni um að allir aðrir gætu verið svona tröllheimskir, en vot ðö fokk, ef þeir vildu endilega láta gáfuðu Frónbúana ráða yfir sér var ekki um annað að gera en sætta sig við það.

Svo kom hrunið mikla. Útlendingar sumir áttu erfitt með að skilja hvað var eiginlega að gerast. Geir ákallaði Guð og Björgólfur Þór fór í einu stökki niður tröppurnar við ráðherrabústaðinn. Samt varð ekki feigum forðað. Bjöggi sá þó um sig.

Nútíminn er trunta. Þetta eru engin ný sannindi. Allt koðnar niður. Occupy-hreyfingin sem virtist ætla að verða sterkt afl er að koðna niður og fjármagnseigendur hlæja. Þeim tókst að kveða hana í kútinn. Lífskjörin hafa samt batnað í heiminum frá því sem áður var. Allir geta látið til sín heyra a.m.k. hér á Vesturlöndum. Samstarfið og sameininguna vantar samt alveg. Hver og einn puðar í sinu horni og álítur sitt sjónarmið það mikilvægasta. Samt þokast heimurinn í rétta átt og verður smám saman grænni og grænni, réttlátari og réttlátari. En það gengur grátlega hægt og þeir sem vilja fara hraðar kljúfa sig frá hinum. Þeir sem vinstra megin eru á hinum pólitíska ási sundrast æ meir. En hugsjónir og framsæknar hugsanir brjóta sé farveg inn í steinrunnin sjónarmið. Alltaf er samt eitthvað eftir til að rífast um.

Það er alveg ljóst að þeir sem vildu ganga í ESB til að geta fengið evruna fljótt hafa haft rangt fyrir sér. Það er alls ekki öruggt að evran sé það rétta fyrir okkur Íslendinga. Það hafa atburðir síðustu vikna og mánaða fært okkur sanninn um. Samt finnst mér rétt að halda viðræðunum við ESB áfram því fyrr eða síðar munum við ganga í það samband. Það er samt ekkert víst að rétti tíminn sé núna en ágætt er að fá að vita hvernig landið liggur. Þróun íslensks þjóðfélags hlýtur að ganga í svipaða átt og Evrópusambandsins eins og verið hefur lengi. Við eigum líka alls ekki gott með að hætta öllu samstarfi við bandalagið þó sumir virðist halda það. Það er ekki eftirsóknarvert að þróast á svipaðan hátt og USA hefur verið að þróast undanfarin ár og áratugi. Þá er nú Evrópska stórríkið skárra.

Aðildin að NATO var ekki lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu þó margir hafi viljað það. Hugsanlegt og jafnvel líklegt er að aðildin hefði verið felld þá. Eitt helsta tromp þeirra sem nú eru á móti aðild að ESB (sem eru að hluta til þeir sömu) er að aðildin að ESB verði aldrei lögð í þjóðaratkvæði. Um nákvæmlega þetta atriði er líklegt að tekist verði á um í næstu alþingiskosningum. Eins og mál hafa þróast er líklegast að ESB-málið verði þá óafgreitt.

Guðmundur og Heiða voru hjá Agli í silfrinu í gær. Horfði á þau en ekki annað í silfrinu. Sennilega er betra að vera sannfærður um réttmæti pólitískra skoðana einhvers af fjórflokknum en að vera alltaf svona sammála síðasta ræðumanni. Get ekki að því gert að a.m.k. fyrst eftir þáttinn var ég algjörlega á þeirra bandi.

Jónasinn sjálfur fjasar svolítið um blogg og fésbók, sennilega af því að Egill Helga minntist á það. Mér finnst hann nú aðallega tala um fésbókina sem auka-athugasemdahít. Enda leyfir hann ekki athugasemdir á sínu bloggi. Er bæði kjaftfor og vel að sér um margt eftir langa ritstjóratíð. Í gamla daga fannst bændum gaman að hata hann. Man eftir honum á einhverju ungmennafélagsmóti þar sem hann keppti í hlaupi við Stefán í Vorsabæjarhól. Mér finnst ég sjálfur samt mestur og bestur og reyni að láta ekkert hagga því.

Skrýtið að hugsa til þess að maður hljóti að drepast áður en mjög langt um líður og trúa samt ekki á neitt framhaldslíf. „Undarleg örlög að deyja,“ sagði Hannes skáld Pétursson fyrir margt löngu í ljóði einu sem ég las. Les ekki mörg ljóð en man samt vel eftir þessu. Verð eiginlega að reyna að koma mér upp einhvers konar endurholdgunartrú áður en kallið kemur. Nei, ég er ekki að grínast. Það er dálítið hart að gera ekki ráð fyrir neinu fyrir handan. Svona er þetta samt. Hindurvitnin og annað þess háttar er svo ótrúverðugt að ekkert-ið er bara sæmilega sennilegt. Erfitt samt að sætta sig við það. Að ræða eilífðarmálin á þennan hátt hér á Moggablogginu er e.t.v. ávísun á ógnarlangan svarhala. Þá er bara að taka því hraustlega. Þó er ekki víst að Síonistabullið verði slegið út.

Það er erfitt að hemja sig þegar bloggið er annarsvegar. Ég á alltaf erfitt með að hætta að skrifa. Tekst þó oftast að stilla mig um að senda á bloggið annað en það sem ég hef lesið yfir einu sinni eða tvisvar.

IMG 7439Steinar.


1559 - Að pressa vefinn

Scan287Gamla myndin.
Snemma beygist krókurinn. Hér er greinilega stundað peningaspil. Þorgeir Einarsson, Benedikt Sæmundsson, Bjarni Sæmundsson, Anna Sigríður Einarsdóttir og Sæmundur Bjarnason.

Vefpressu-umræðan virðist sýna að netumræðan sé að þroskast svolítið. Umræðan á netinu um hundinn sem átti að hafa verið drepinn en var það ekki sýndi netumræðuna sem taugaveiklaða vitleysu. Netnotendur hafa síðan reynt að finna tilefni til að bæta ímynd sína. Vefpressu-umræðan hefur hjálpað til þess.

Efalaust er að netinu fylgja völd og áhrif. Málshöfðunarhótanir sterkra aðila þar eru enginn leikur. En hvað eru þessir sterku aðilar að flækjast á netinu ef það skiptir engu máli? Vefmiðlarnir vilja halda sínum áhrifum án þess að kosta nokkru til.

Góð íslenskukunnátta skiptir ekki máli. Mbl.is hefur sannað það. Það sem sagt er skiptir máli og myndir að sjálfsögðu. Að geta hrætt fólk skiptir máli. Bloggarar eru smám saman farrnir að skipta máli. Það að allir geta orðið sagt það sem þeim sýnist skiptir máli. Völd hliðvarðanna eru að hverfa. Það finnst þeim illt.

skákHér eru þrjár skákvísur sem ég fann á netinu. Sjálfsagt eru þær ekki ókunnar öllum. Þær eru úr bók Williard Fiske sem nefnist „Chess in Iceland.“

Fólk þarf að skilja að ekkert er með öllu leynilegt sem fram fer á netinu eða í símanum. Njósnarar eins og 007 nota áreiðanlega ekki farsíma eins og annað fólk. Ætli þeir séu ekki innbyggðir hausinn á þeim. Öruggast er þó að fara upp í Öskjuhlíð.

Þegar fésbókaræði rennur á menn er eins gott að vera ekki fyrir þeim. Ég kalla það að vera fyrir þeim að hafa slysast til að kalla þá nána vini. Það er bara enginn friður. Nei, ég ætla engin nöfn að nefna. Auðvitað er hægt að leysa þetta vandamál í gegnum fésbók. Til þess er hún. Að leysa allskyns vandamál. Sum þeirra skapar hún reyndar sjálf. Besta lausnin er auðvitað að hætta að nota þessi ósköp. Þannig höfðu sumir það varðandi Moggabloggið á sínum tíma.

Mér finnst fréttirnar á Baggalúti oft meinfyndnar. Þannig er kímnigáfa mín og ég get ekkert að því gert. Þekki heldur aldrei nein lög sem spiluð eru í Útsvari. Kannski er það fæðingargalli. Hef áhuga fyrir hlaðborðsumræðunni hjá Jens Guði, því ég er að vinna í ístrusöfnun eins og fleiri og á ekki ótakmarkaða peninga frekar en vesalings útrásarvíkingarnir. Eða ekki.

IMG 7433Hér vantar bara barnið.


1558 - Hættuleg pressa

Scan271Gamla myndin.
Þorgeir Guðmundsson mjólkurbílstjóri. Hér staddur á Vegamótum.

Hljóðstilling skiptir máli bæði í sjónvarpi og annarsstaðar. Jón Benediktsson, fyrrum bóndi á Velli ræddi á fésbókarsíðu sinni um hækkað hljóð í sjónvarpsauglýsingum og ýkti málið kannski örlítið. Þetta hefur lengi tíðkast og er sennilega hluti af því sem auglýsendur og auglýsingastofur telja sig vera að kaupa. Auðvelt væri samt að laga þetta. Man vel eftir því að þegar ég vann á Stöð 2 reyndu auglýsendur líka oft að svindla svolítið á tímalengd auglýsinga. Þegar ný og nákvæmari tímamæling var tekin upp tók ég eftir að gjarnan vantaði örlítið aftan á auglýsingar sem sýndar voru. Að sjálfsögðu lærðu auglýsendur samt á þetta.

Annars er að verða hættulegt að segja of mikið svo ég er hættur í bili. Samt er ekki hægt að þegja við öllu. Að hóta þeim málsókn sem skora á aðra að sniðganga ákveðna fjölmiðla er of langt gengið. Megi Vefpressunni mistakast þetta ofbeldi.

IMG 7412Við Kringlumýrarbraut.

1557 - Ofbeldi og myndbirtingar

Scan249Gamla myndin.
Í þungum þönkum og spekingslegir mjög. Ragnar Jónatansson, Vignir Bjarnason, Bjarni Sæmundsson (eldri), Hörður Vignir Sigurðsson og Ólafur Jónsson.

Ég er á móti öllu ofbeldi. Líklega skrifa ég því ekki undir áskorun sem gengur nú ljósum logum um netheima um að hætta að lesa hitt og þetta. Þar minnir mig að bæði Eyjan.is og Pressan.is séu nefnd. Fleiri miðlar voru nefndir þar og nokkrir sem ég kannaðist alls ekki við. Veit ekki hvers vegna ég ætti að vera að skrifa undir þessa auglýsingu. Finnst það tilætlunarsemi ef ekki eitthvað annað verra. Auðvelt virtist vera þangað til fyrir nokkru að fá fólk til að skrifa undir hvað sem er á netinu. Hræddur er ég um að sú tíð sé liðin. Reynt er að láta líta svo út sem þeir sem ekki skrifa undir ósköpin séu sammála einhverri nafnbirtingu eða myndbirtingu sem ég hvort eð er missti af og hefði sennilega ekki komið mér að neinu gagni. Þetta hefur bara ekkert að gera með skoðanir mínar á einu né neinu.

Fyrir nokkru sagði Jens Guð á bloggi sínu frá fundi sem til stóð að halda í Grasrótarmiðstöðinni að Brautarholti 4. Mér sýndist eftir dagsrkárkynningunni að dæma að það væri Frjálslyndi flokkurinn sem stæði fyrir þessum fundi. Þó var þarna að finna nöfn manna sem hingað til hafa ekki tengst flokknum mér vitanlega eins og t.d. Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra og Lýðs Árnasonar, læknis.

Ég hef ekki séð annars staðar minnst á þennan fund og velti þessvegna fyrir mér hvort hann hafi farið fram og hvort hann hafi verið fjölsóttur. Auðvitað má taka þetta sem gagnrýni á Frjálslynda flokkinn, en það er þó ekki það sem mér er efst í huga. Mín spurning er sú hvort þessi fundur tákni endurkomu flokksins í stjórnmálalíf landsins og hvort kosningar séu að nálgast. Einnig finnst mér Grasrótarsamtökin missa svolítið af sjarma sínum og sakleysi með svona fundi. Það er semsagt tækifæri núna til að koma smááróðri að í kommentakerfinu mínu. Vona samt að það verði ekkert Síonistabull.

Myndbirtingar og annað á netinu. Mér finnst og hefur lengi fundist að mikillar varúðar þurfi að gæta við þá opinberu birtingu sem internetið er. Hvet þá sem áhuga hafa á þessu máli til að skoða kommentin við síðustu færslu mína á undan þessari. Það er alls ekki sama hvað sagt er. Myndir af fólki er heldur ekki alltaf sjálfsagt að birta. Þegar þær eru orðnar 30 – 40 ára gamlar finnst mér þó gegna öðru máli.

Nýtt stjórnmálaafl er að taka sín fyrstu skref um þessar mundir. Það er að segja að svo virðist sem Guðmundur Steingrímsson og Besti flokkurinn ætli að gera alvöru úr hótun sinni. Sjá: http://heimasidan.is/

IMG 7411Brúin yfir Kringlumýrarbraut í Fossvoginum.


1556 - Um rafbækur

Scan239Gamla myndin.
Byggingareftirlitið mætt á staðinn!! Kristín Þóra Harðardóttir og Bjarni Sæmundsson.

Menn geta verið doktorar í ýmsu. Held samt að t.d. doktor Gunni sé ekki doktor í neinu. Bloggar samt alveg prýðilega. Minnir að Katrín menntamálaráðherra hafi skrifað lokaritgerð á einhverju bókmenntaprófi um Arnald Indriðason. Kannski er hún að vinna að doktorsritgerð um hann núna. Ath. svona verða sögurnar til. Getsakir um eitthvað verða undir eins að staðreyndum. Man vel eftir pabba Arnaldar eins og eflaust margir aðrir. Mundi frekar vilja lesa ævisögu Indriða G. Þorsteinssonar en sonar hans Arnaldar.

Er nokkuð hugsi yfir athugasemd Hörpu Hreinsdóttur við bloggið mitt frá í gær. Því fer fjarri að mér sé eitthvað illa við Óla Gneista Sóleyjarson. Sé samt þegar ég fer á vefinn hans: http://rafbokavefur.is/ að þar stendur söluvefur innan sviga. Man samt ekki betur en ég hafi tekið fram við hann að ekki mætti (eða ætti að) selja bækur sem byggðar væru á texta frá Netútgáfunni og sé ekkert sem bendir til að svo sé. Kannski eru einhverjar bækur til sölu á rafbókavefnum en ég kannast ekki við að texti þeirra sé frá Netútgáfunni kominn.

Á ekki rafbókalesara og hef ekki hingaðtil átt í neinum erfiðleikum með að útvega mér það sem mig hefur langað til að lesa án sérstakra útgjalda. Geri ekki ráð fyrir að það eigi eftir að breytast á næstunni. Þ.e.a.s. þetta með útgjöldin. Rafbókalesarinn gæti komið í hús fljótlega.

Minnir að ég hafi lesið einhvers staðar fyrir nokkru að rithöfundar hafi gert samning við útgefendur um að fá aðeins 23% af verði rafbóka í sinn hlut vegna þess að svo dýrt væri að koma í veg fyrir að þær væru afritaðar í óleyfi. Úgefendum dettur semsagt ennþá í hug að hægt sé að koma í veg fyrir það. Aðalatriði hverrar bókar er efni hennar. Ekki útgáfa, prentun, markaðssetning, afritunarvarnir eða hvað annað sem útgefendum dettur í huga að telja mönnum trú um. Auðvitað skiptir allt svona verulegu máli en er ekki aðalatriðið.

Þegar texta er sleppt út í netheima lýkur yfirráðum höfundar yfir honum. Auðvitað eru til undantekningar frá þessu og dómarar hvers konar og lögfræðingar munu í vaxandi mæli hafa atvinnu af málum sem tengjast höfundarrétti og málfrelsi. Ekki er sjáanlegt að hægt sé til lengdar að láta eins og internetið sé ekki til. Ekki er hægt að taka aftur töluð orð eða tapaðan meydóm segir máltækið.

Í gömlu bloggi fann ég þessa gullvægu setningu: „Það þýðir ekkert að efna og efna en lofa svo aldrei neinu!!“ Þessi setning er ekki frá mér komin en ég man samt ekki hvaðan. Líklega hefur einhver ruglast á orðum. Afbakaðir talshættir geta verið óbærilega fyndir. 

IMG 7398Þetta skilti er í Kópavogi. Ekki er ég samt viss um að allir Íslendingar skilji þetta. Chopper tel ég að geti bæði þýtt þyrla og endursmíðað (eða endurbætt) mótorhjól.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband