Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
21.8.2010 | 00:21
1115 - Stjórnlagaþing
Margir vilja komast á stjórnlagaþingið í haust. Ekki veit ég hvernig þetta fer en er óttalega hræddur um að venjuleg flokkapólitík ráði þessu á endanum eins og flestu öðru. Svo þarf samt alls ekki að vera. Að stjórnlagaþingið skuli aðeins vera ráðgefandi getur einmitt leitt til þess að flokkarnir hafi ekki eins mikinn áhuga á að koma sínum mönnum að og ella.
Kannski verður ekki rætt um annað en Icesave í undirbúningi þingsins og á því sjálfu. Margt annað þyrfti samt að ræða meðal annars kosningafyrirkomulag, þjóðaratkvæðagreiðslur og aðkomu forseta Íslands að stjórn landsins. Ekki er víst að Alþingi treysti sér til að hrófla við þeim atriðum sem góð samstaða næst um á þinginu. Umræður um störf þingsins meðal þjóðarinnar geta líka ráðið miklu. Mesta hættan er að þar ráði stjórnmálaflokkar og fjölmiðlar ferðinni að mestu. Ofætlun er að gera ráð fyrir nýrri stjórnarskrá. Breytingar á þeirri núverandi eru alls ekki ólíklegar.
Eflaust verður mikið hægt að byggja á störfum þeirra sem áður hafa fjallað um þetta mál. Bloggarar og aðrir sem mikið skrifa um þjóðfélagsmál gætu orðið áhrifavaldar þarna og jafnvel lent á þinginu sjálfu. Útvarp Saga og þeir sem stjórna umræðu- og innhringiþáttum þar vilja einnig hafa áhrif og kannski hafa þeir það. Ég er ekki frá því að hlustun á Sögu hafi aukist að undanförnu.
Og nokkrar myndir.
Ártúnsholt í baksýn. Gangstéttin er breið eins og vera ber.
Nú er hún Snorrabúð stekkur." Hér var áður aðalinngangur Stöðvar 2. Myndin er tekin nokkru fyrir hádegi.
Buslað í Elliðaánum í góða veðrinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2010 | 00:38
1114 - Ríka fólkið og stjórnlagaþingið
Ljóst er að af stjórnlagaþinginu verður. Það verður samt talsvert háð stjórnmálaástandinu og varla nema svipur hjá sjón miðað við það sem sumir sáu fyrir sér. Alþingi lætur sitt úrslitavald ekki svo glatt af hendi. Danir létu sitt vald af hendi með góðu. Það mun Alþingi ekki gera. Allra síst svona fyrirfram og án þess að vita hvað kemur í staðinn. Þess vegna meðal annars er reynt að koma í veg fyrir að hver sem er geti boðið sig fram til setu á þessu þingi. Það mundi líka bara leiða til öngþveitis. Þeir sem þar verða í framboði geta varla boðið sig fram með árangri nema þeir hafi stuðning stjórnmálaflokks/flokka og/eða fyrirtækja. Þar hefur valdið alltaf verið og þar mun það halda áfram að vera.
Nú orðið versla ég ekki síður í Krónunni en í Bónusi. Skilst að það sé trendið. Krónumenn spara mikið. Stafi jafnvel . Sá þar um daginn auglýsta tannbusta. Já, errið vantaði alveg. Þegar nánar er að gætt er það líklega horfið úr framburði og þessvegna finnst fólki að ekki þurfi að nota prentsvertu í svoleiðis óþarfa. Annars er það að æra óstöðugan að vera sí og æ að fárast yfir stafsetningu á opinberum vellvangi. Í vefnaðarvörudeild Kaupfélagsins í Borgarnesi voru eitt sinn auglýst pils með ypsiloni. Það þótti réttritunarnördum skrítið. (Jafnvel skrýtið)
Skelfing er tíminn fljótur að bruna frá manni ef maður gætir sín ekki. Stundum ætlar maður bara að sinna einhverju smáviðviki en áður en við er litið er komið kaffi eða eitthvað enn verra. Einu sinni var ég svo slæmur (og grannur) að ég gleymdi stundum að borða heilu dagana.
Svo eru Sigurður og Óli orðnir sáttir. Það eru hrunfréttirnar í dag og allir keppast við að leggja útaf því. Þó ekki ég. Nenni bara ekki að æsa mig yfir því. Nóg er nú samt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.8.2010 | 00:27
1113 - Blogg vs. fésbók
Því segi ég það. Bloggið er betra en árans fésbókin. Hún hentar samt ágætlega til sumra hluta. En séu menn haldnir messufíkn eins og ég þá er bloggið betra. Þetta með messufíknina tengist þó ekki Guðsorði. Ég er heldur á móti því en finnst gaman að messa yfir fólki og er vanur því. Semsagt einskonar besservisser. Verst hvað fáir nenna að kommenta hjá mér. Skil það samt vel. Ekki kommenta ég víða. Les þó talsvert af því sem á Netið fer. Fréttir líka.
Gera má greinarmun á bloggi og greinaskrifum. Sumir sem látast vera að blogga eru í rauninni að skrifa greinar. Slík blogg les ég oft. Einkum ef greinarnar eru ekki of langar. Ef þær eru það þreytist ég gjarnan og hætti. Ímynda mér að það sé vegna þess að ég veð oftast úr einu í annað sem fólk les bloggin mín. Nú er ég farinn að skilgreina blogg. Blogg er bara það sem ég segi að sé blogg. Svona vinna besservisserar.
Er búinn að finna ný nöfn á Facebook. Fjasbók gæti hún sem best heitið eða til dæmis Skvaldurskinna. Annars dettur mér jafnan í hug málshátturinn sem er einhvernvegin svona: Kært barn hefur mörg nöfn." Það er alveg rétt. Ef menn hafa nenningu til að fjasa um nafnið á fyrirbrigðinu þá finnst þeim það einhvers virði.
Minntist á trúmál í síðustu færslu. Það var eins og við manninn mælt, margur þurfti að kommenta. Rök eru að mestu ónýt í trúmálaumræðu, þessvegna verður hún oft svona illvíg. Bíð eftir bókinni um netofbeldið.
Tölvur og tölvutækni allskonar skipar æ stærri sess í lífi nútímmannsins. Margt sem ekki þekktist fyrir nokkrum áratugum þykir sjálfsagt núna. Ætla ekki í neina upptalningu á slíku, en þessi þróun á mikinn þátt í þeim lífsgæðum sem við Íslendingar höfum notið undanfarið. Nýjungagirni okkar er talsverð og stundum sjáumst við ekki fyrir og ýmislegt fer aflaga. Nú er ég farinn að nálgast hrunumræðu og stjórnmál svo það er best að hætta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.8.2010 | 00:06
1112 - Trúmál enn og aftur
Ég þykist vera búinn að sjá af hverju trúmáladeilur fara oftast út í einhverja vitleysu. Flestir vilja eingöngu ræða slík mál útfrá einhverju einu sjónarmiði. Verða gjarnan mjög einstrengingslegir ef aðrir vilja ekki fallast á það. Jafnvel æstir og ofsafengnir. Séra Baldur í Þorlákshöfn segir að trúardeilur þeirra vantrúarmanna séu lítils virði og gefur í skyn að þeir séu einstrengingslegir í hugsun.
Kristinn Theódórsson vill til dæmis alltaf ræða trúmál en rökræðurnar verða að vera á hans forsendum. Þá getur hann notið sín. Grefillinn gerði þá reginskyssu að fallast á (óbeint þó) að Kristinn stjórnaði umræðunum í kappræðum þeirra um daginn.
Nú er ég kannski að vekja upp mál sem menn voru loksins búnir að svæfa að mestu. Það verður bara að hafa það. Ekki er ég lausari við að vera einstrengingslegur í hugsun en aðrir. Trúmáladeilur finnst mér vera eins og ég segi að þær séu. Amen.
Illugi Jökulsson segir í Trésmiðju sinni á DV.is eftirfarandi:
"Þetta stöðuga tusk við lögregluna af þessu tilefni gerir alla vega lítið til bæta málstað níumenninganna."
Þarna er ég ósammála Illuga. Meðan einhverjir nenna að mótmæla þessari heimsku sem komin er frá Alþingi Íslendinga er von til þess að vitleysan verði stöðvuð. Dómari á ekki að þurfa að úrskurða um svona lagað. Réttur til mótmæla er skýlaus.
Neikvæðni er auðveld. Jónas Kristjánsson segir að löggan sé ofbeldishneigð. Alhæfingar ganga oft vel í fólk. Skapa jafnvel stundarvinsældir. Auðvelt er að finna dæmi um hitt og þetta og alhæfa útfrá þeim. Til að breyta þjóðfélaginu þarf þó samningsvilja og sanngirni. Sjá málin frá fleiri hliðum en einni. Gagnrýnisleysi og meinleysi hverskonar er þó hættulegt líka. Svartsýnismenn eins og Jónas eru vissulega nauðsynlegir. Svo skrifar hann svo fjandi vel.
Oft má segja það sama um Sigurð Þór Guðjónsson og Jónas. Hann skrifar þó miklu sjaldnar en hann og er jafnvel á móti blogginu líka. Hefur samt þennan sama sans fyrir því sem skiptir máli og er ekki síður gagnrýninn og vinstrisinnaður en Jónas. Hávær mótmæli eru líka ær og kýr vinstri skribenta. Hægri sinnuðum skrifurum verður það oft á að reyna að verja það sem óverjandi er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
17.8.2010 | 00:15
1111 - Skáldskapur o.fl.
Kúnstin við að skrifa skáldsögur er að teygja lopann nógu mikið. Kannski ekki alveg GuðrúnarfráLundi lengi en næstum því. Svo gæti reynst vel að hafa titilinn nógu frumlegan. Til dæmis eitthvað um Úkraínska traktora eða bara Handbók um hugarfar kúa. Byrjaði einmitt nýlega að lesa bók með því nafni en gafst upp fljótlega. Svo er ágætt að hafa sem ýtarlegust greinaskil. Ein koma hér.
Annars nenni ég ekki að skrifa skáldsögu. Held að ég mundi tapa þræðinum fljótlega. Auk þess er það bölvað ofbeldi að ætlast til þess að fólk lesi allt bullið sem þarf til þess að fylla mörg hundruð blaðsíður. Nei, þá eru nú ævisögur og allskyns fræðibækur skárri. Jafnvel greinasöfn. Úrelt kannski en samt er alltaf möguleiki að finna grein sem hægt er að lesa. Bókasöfn eru ómissandi. Þrátt fyrir sektirnar. Mistökunum má alltaf skila aftur og enginn þarf að komast að þeim.
Best er auðvitað að blogga. Þá er alltaf hægt að hætta bara ef maður lendir í ógöngum. Ömurlegt hlutskipti að hamast við skáldsögu uppá 480 blaðsíður í heilt ár eða meira og uppgötva þá að hún byggist öll á einhverjum sáraeinföldum misskilningi auk þess sem búið er að skrifa hana mörgum sinnum áður.
Er búinn að vera Internetslaus og sjónvarpslaus í næstum viku eða síðan á miðvikudaginn í síðustu viku. Samskipti mín við þau fyrirtæki sem þessu stjórna eru efni í sérstaka bloggfærslu og vel getur verið að hún birtist hér fljótlega.
Í þessu Internetleysi hefur mér orðið ljóst að Netið og allt sem því fylgir hefur alltof sterk tök á manni. Þetta er gervilíf sem vissulega fyllir ágætlega dauðar stundir en veldur líka því að maður vanrækir margt annað. Netið uppfyllir margar þarfir og auðveldar allskyns samskipti en það er samt rétt að gæta sín á því.
Bankahrunið haustið 2008 hefur valdið talsverðri hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni. Umræða öll hefur orðið opnari. Fleiri tjá sig en áður. Stjórnmál eru að breytast verulega. Flokkarnir þó lítið. Ef þeir fylgja ekki þróuninni verða þeir einfaldlega skildir eftir.
Fór í bókasafnsferð í dag og tók meðal annars að láni eina nýútkomna bók eftir Þórberg Þórðarson. Hissa varð ég svo þegar farið var að fjalla einmitt um þessa bók í Kastljósi kvöldsins. Sýnir vel hve nýjar bækur eru oft á bókasöfnunum.
Og nokkrar gamlar myndir sem ég fann á tölvunni.
Aumingja hjólið. Skyldi því ekki vera kalt.
Loftmynd af gömlu mjölkurstöðinni.
Þessi er talsvert 2007 þó hún sé tekin í febrúar 2008.
Hverslags ófreskja er þetta nú?"
Móskarðshnjúkar í Himalayafjöllum."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2010 | 11:22
1110 - Hvernig verða peningar til?
Hvernig verða peningar til? Bankar og fjármálastofnanir (sparisjóðir, verðbréfastofur, vogunarsjóðir, lífeyrissjóðir og ýmisskonar sjóðir o.s.frv.) hafa leyfi frá Seðlabankanum og samkvæmt lögum til að lána miklu meira en peningar eru til fyrir. Ef þess er til dæmis krafist að eiginfjárhlutfall þeirra sé10% þýðir það á mannamáli að þeim er leyfilegt er að lána tíu sinnum meira en eignir þeirra segja til um. (Eignir = peningar, fasteignir, hlutafé, hlutafjárloforð, viðskiptavild o.s.frv.)
Hvernig breytist þetta í peninga? Eftir vissum reglum er Seðlabankinn skyldugur til að kaupa skuldabréf af þessum aðilum og þar eru peningar prentaðir eftir þörfum.
Er ekki einhver áhætta fólgin í því í frjálsu hagkerfi ef fjármálastofnanir fara ógætilega með þetta vald sitt? Jú, auðvitað gætu tökin á verðbólgunni linast og hún ætt áfram. Það er hinsvegar vel hægt fyrir stjórnmálamenn að beita sér fyrir ýmsu til að draga úr verðbólgu og þeim má auðvitað múta ef rétt er að farið. Sömuleiðis geta fjölmiðlar haft áhrif í þessu efni því almenningsálitið verður að vera hagstætt peningaöflunum til þess að þetta sé hægt.
Til viðbótar þessu var auðvelt fyrir fjármálastofnanir að fá ódýrt lánsfé erlendis frá og auka þar með ráðstöfunarfé sitt tífalt. Eina snilld útrásarvíkinganna var að vita (eða finna á sér) hverjum þurfti að múta og hvernig.
Var þetta virkilega svona auðvelt? Já, en auðvitað þurftu aðstæður að vera réttar og upphafsfé fyrir hendi. Stjórnmálamenn gáfu að vísu vildarvinum sínum þessháttar dót, því ríkið átti eignir sem breyta mátti í peninga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2010 | 21:02
1109 - Bloggsaga
Internetsambandið hefur verið bilað hjá mér undanfarna daga. Gekk svo langt að ég fór á aðra bæi til að koma Moggabloggsinnleggi mínu að í gær. Veit lítið um hvernig því hefur verið tekið. Þegar ég sendi þetta blogg (föstudagsbloggið - sem nú er orðið að laugardagsbloggi!!) verður sambandið vonandi komið á. Nei, ekki fór það svo. Ætli ég verði nokkuð kominn með sjónvarps- og Internetsamband fyrr en eftir helgi.
Við erum alltof háð árans Internetinu. Að hafa hvorki sjónvarp né Internet er alveg sambærilegt við rafmagnsleysið sem hrjáði mann stundum í gamla daga. Nú getur maður samt gert það sem mann lystir en einhvern vegin strandar allt á því að Internetið og sjónvarpið eru ekki á sínum stað.
Mér finnst ég ekki hafa bloggað mjög lengi. Sumum finnst það þó kannski. Áður en ég byrjaði hafði ég í allnokkurn tíma fylgst með öðrum. Fyrstu bloggin sem ég sá voru á vefsetri sem kallað var Nagportal. Man ekki hvort endingin var .com eða .is.
Meðal þeirra forkólfa sem ég fylgdist andagtugur með á þessari braut voru til dæmis Salvör Gissurardóttir, Már Örlygsson, Bjarni Rúnar Einarsson og fleiri. Seinna meir fór ég að reyna að tileinka mér stílbrögð sumra bloggara eins og Stefáns Pálssonar, Ágústar Borgþórs, Hörpu Hreinsdóttur, Jónasar Kristjánssonar, Egils Helgasonar og annarra.
Bloggarar koma og fara. Nú er Lára Hanna hætt, a.m.k. í bili. Þeir sem ég fylgist einkum með núorðið auk sumra þeirra sem áður eru taldir eru Sigurður Þór Guðjónsson, Dr. Gunni, Davíð Þór Jónsson og Gísli Ásgeirsson.
Annars er neimdropping" af þessu tagi fremur lítils virði. Sýnir eingöngu að ég hef fylgst svolítið með í bloggheimum. Moggabloggið hefur bæði gert bloggið að almenningseign og spillt þeirri ímynd sem það áður hafði.
Kannski er bloggið á niðurleið, ekki veit ég það. Sjálfum finnst mér þægilegra að skrifa á bloggið en fésbókina enda orðinn vanur því. Þeir bloggarar sem komið hafa fram í kjölfar hrunsins og vakið athygli fréttaþyrsts almennings, meðal annars vegna stóryrðaflaums og gífuryrða, hafa fæstir vakið sérstaka athygli mína.
Sjálfur er ég hissa á að ég skuli endast til að blogga á hverjum einasta degi án þess að hafa í rauninni nokkuð að segja. En þetta er enginn vandi og síst erfiðara að blogga daglega en öðru hvoru. Allt kemst upp í vana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.8.2010 | 11:34
1108 - Enn um trúmál
Mér heyrðist eftirfarandi samtal eiga sér stað um daginn. Kannski voru þetta þeir Kiddi og Doktorinn. Líklega er ekkert að marka þetta og kannski voru þetta einhverjir allt aðrir. Ef þetta er þá ekki tóm ímyndun hjá mér.
K: Af hverju hafa þeir ólíku frumuhópar sem saman mynda líkama manna og dýra ákveðið að vinna saman?
D: Veit það ekki, en finnst óþarfi að gera ráð fyrir einhverjum tilgangi með því.
K. Er lífið þá tómt tilgangsleysi?
D: Líklega.
K: En er siðferði til einhvers?
D: Sennilega ekki. Samt er vissara að gera ráð fyrir því.
K: Og vera semsagt ekki alvondur?
D: Gæði og vonska hafa enga merkingu. Eru bara eftiráskýringar.
K: Allt það góða og fallega sem fyrirfinnst er það þá bara eigingirni?
D: Já.
K: Úff. Siðferði stjórnar þá ekki mönnum?
D: Alls ekki.
K: Og himnaríki stjórnar þeim þá ekki heldur, er það?
D: Ennþá síður. Einhverntíma var það þó svo.
K: Og það er þá þroskamerki að afneita nú slíkum hégiljum?
D: Það finnst mér.
K: Hvaðan kemur vitundin?
D: Hef ekki hugmynd um það. Hvort ertu að tala um vitund manna eða dýra?
K: Er öruggt að hún sé ólík?
D: Kannski ekki, en er líklegt að vitund ógeðslegrar pöddu sé lík mannlegri vitund? Hver skapaði veirur? Spurði Helgi Hós.
K: Er ekki vitundin um sjálfið grunnurinn að mannlegri tilveru?
D: Vitund eða grunur. Það er ekkert víst að þitt sjálf líkist mínu.
K: Vitund eða grunur segirðu. Sjálfið er til. Það er enginn grunur.
D: Sjálf mannsins já.
K: En er sjálfið ekki til hjá dýrum?
D: Nei, það er í besta falli grunur.
K: Hafa dýr þá ekkert sjálf?
D: Nei.
K: Ertu viss?
D: Já.
K: Er það þá vitundin um sjálfið sem aðskilur menn og dýr?
D: Kannski.
K: Og kannski það eina?
D: Kann að vera.
K: Dýrin hafa þá ekkert sjálf, en einhverja vitund um tilveruna?
D: Já, ég býst við því.
K: Sagt er að dauðinn sé eina staðreynd lífsins.
D: Ef enginn dæi væri lífið öðruvísi en það er.
K: Dauðinn er semsagt nauðsynlegur?
D: Óhjákvæmilegur.
Nei, þetta er of háspekilegt fyrir mig. Læt það samt flakka ef einhverjir skyldu vilja ræða þessi mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.8.2010 | 00:11
1107 - Pólitík og fleira
Vinstri menn vilja ekki völdin. Það eru sannindi sem margir skilja að því stærri sem flokkur er því auðveldara verður fyrir flokksmennina að koma sínum málum að. Þetta vilja Vinstri grænir þó ekki skilja. Alþýðubandalagsmenn áttu alltaf erfitt með að skilja það á sínum tíma. Margrét Frímannsdóttir skildi það þó en Steingrímur Jóhann alls ekki. Ögmundur og Guðfríður Lilja sjá nú þann kost grænstan að kljúfa flokkinn sinn. Það hafa vinstri menn á Íslandi löngum verið leiknir við.
Auðvitað er þetta mikil einföldun. Allir vilja gera sitt besta. Auk þess að hafa besta fólkið við stjórnvölinn þurfa flokkarnir að vera sterkir til að koma sínum málum fram. Sífelldir flokkadrættir og ósamkomulag veikja þá. Fjölmiðlar og allir þeir sem um stjórnmál tjá sig opinberlega hafa líka skyldum að gegna. Það er ekki nóg að finna að. Aldrei geta allir orðið sammála. Réttar lausnir er þó hægt að nálgast í hverju máli ef rætt er um þau æsingalaust.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra stóð sig ekki vel í kastljósviðtali um lögfræðiálitið frá Seðlabankanum. Kannski er þetta allt saman liður í þvi að koma Ögmundi Jónassyni í ríkisstjórnina aftur og sættast við óánægjuhópinn sem í kringum hann er. Ekki dugir að fjölga bara ráðherrum og hverjir liggja þá betur við höggi en þeir sem ekki hafa neinn flokk að styðjast við. Annars hef ég trú á að dragi fyrr eða síðar til tíðinda í þessari ríkisstjórn. Það verður þó frekar útaf ESB en þessu máli.
Sagt er að kettirnir á Selfossi séu komnir í verkfall og hættir að veiða máva. Þetta er vegna þess að þeir hafa sannfrétt að til standi að setja á þá beisli. Mávarnir hafa tekið þetta óstinnt upp og fjömennt (fjölmávt) á flugvöllinn þar sem þeir halda fjöldafundi reglulega. Ekki er kunnugt um hvort knattspyrnulið þeirra Selfyssinga á einhver hlut að þessu máli en flugmálastjórn er að athuga það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2010 | 00:56
1106 - Kirkjumál
Kirkjan vill ekki skera niður nema um fimm prósent þegar ríkisstjórnin vill skera útgjöld til kirkjumála niður um níu prósent. Skamm, skamm. Mér finnst að kirkjan ætti að ganga á undan með góðu fordæmi og ekki láta eins og óþægur krakki.
Kirkjan er óþörf segja margir. Að ýmsu leyti er hún úr takti við tímann. Hefur eiginlega alltaf verið það. Mörgum finnst blóðugt að vera að eyða peningum í stórum stíl í þetta apparat þegar illa stendur á eins og núna. Það finnst mér líka. Kannski væri gott ráð hjá þeirri vinstri stjórn sem nú situr að auka vinsældir sínar með því að setja kirkjunni stólinn fyrir dyrnar. Þó kannski ekki, hvað veit ég?
Vilja Íslendingar hafa kristna kirkju þó þeir séu illa kristnir sjálfir upp til hópa? Guðsorð er þeim ekki tamt á tungu en hatrammar bloggdeilur benda til trúarþarfar.
Mér finnst ekki að blogg eigi að vera einskonar framlenging fréttaskrifa. Réttara sagt fréttaskýring, meina ég. Hver og einn skýrir fréttirnar með sínu nefi (eða tölvu) og allir eru einstakir. Eru þeir sem duglegir eru að skrifa eitthvað betri en aðrir? Blogg eiga að vera hugleiðingar um lífið og tilveruna. Sjálfur hugleiði ég mest blogg og það speglast í skrifum mínum. Bloggið er upphaf og endir alls. Samtal við sálina. Búksorgir eru hismi.
Minn daglegi pistill er oftast um blogg. Get ekki að því gert. Svona er þetta bara.
Og nokkrar myndir:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)