Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

1105 - Hávaði sem leit að þögn

Fór áðan í gönguferð út á Kársnesið norðanvert. Greinilega var eitthvað af fólki í Nauthólsvíkinni enda veðrið gott. Ekki heyrðist í því enda yfirgnæfði tónlistin það. Skil ekki af hverju það er nauðsynlegt að spila tónlist af miklum styrk á stað sem þessum. Hef líka tekið eftir því að ungt fólk virðist þurfa að hafa glymjandi tónlist einhvers staðar nálægt sér til að geta lært. Er hugsanlegt að það fólk sé að útiloka truflandi hljóð? Datt þetta bara svona í hug. Ærandi þögn er eitthvað það besta sem ég veit, en sjaldgæf mjög. 

Lokanir á Moggablogginu eru að ganga af því dauðu. Það þarf ekki nema áttatíu og fimm vikuheimsóknir til að komast á 400 listann núna. Öðru vísi mér áður brá þegar meira en 300 slíkar heimsóknir þurfti til að komast á nefndan lista. Sú hugmynd að allir geti bloggað ókeypis er góð. Kannski er það samt hún sem er að ganga endanlega frá þessu bloggsvæði.

Reglurnar sem settar hafa verið upp hérna á Moggablogginu eru ekkert galnar. Það er framkvæmd þeirra sem er ekki eins og hún ætti að vera. Það er ekki góð latína að loka bara hægri vinstri. Það þarf að gera vinsælum bloggurum það ljóst að þeir geta ekki sagt allt sem þeim dettur í hug á þann hátt sem þeim dettur í hug. Aðrir skipta ekki máli. Þeir sem stjórna Moggablogginu eru alveg hættir að koma með nýjungar og er það skaði. Annað hvort skilar manni áfram eða fer aftur. Það er ekki hægt að standa í stað í þessum efnum.

Eiginlega er ég hissa á því að ég skuli endast til að blogga á hverjum degi. Þetta verður samt sífellt auðveldara. Finnst þetta afar lítið mál núorðið. Sú var tíðin að þetta var beinlínis fyrirkvíðanlegt. Svo er ekki nú. Reyndar ætti ég að fara að gera eitthvað að gagni en nenni því ekki. Mest er ég hissa á að nokkur skuli nenna að lesa þetta.

Stundum eru einfaldir hlutir gerðir svo flóknir að það tekur marga bloggmetra að úskýra þá. Þannig er því oft varið með hrunfréttir enda er ég að mestu hættur að reyna að skilja þær og get því ekki bloggað um slík vísindi lengur. Marínó G. Njálsson er meistari í þessu. Skrifar óralangar hrungreinar eins og ekkert sé.

Í bloggheimum sé ég að badabing sjálfur er að skrifa ævisögu Miðbaugs-Katalínu og svo er Sölvi á handahlaupum í detoxinu hennar Jónínu Ben. Jólabókaflóðið ætlar að verða athyglisvert að þessu sinni. Áherslurnar koma ekki á óvart.


1104 - Dalalíf

Er að lesa „Dalalíf" Guðrúnar frá Lundi þessa dagana. (Miðbindið að ég held) Það er átakalítill og þægilegur lestur. Guðrún er ekkert að fara í launkofa með það hvaða sögupersónur eru innundir hjá henni eða hverjar henni er í nöp við. Það er allt í lagi. Áhrifin sem það hefur á framvindu sögunnar liggja ekki nærri alltaf í augum uppi og eru ekki spennusagnahöfundar nútímans einmitt alltaf að reyna að leyna því hvernig þeim líkar við sögupersónurnar? 

Jú, jú. Framvindan er hæg en það hentar mér ekkert illa. Sagan er skrifuð fyrir fólk sem á minningar frá fyrstu áratugum tuttugustu aldar og eflaust er margt í sögunni sem það mundi kannast við. Orðaval Guðrúnar er stundum þannig að ég skil hana illa en það er svo sjaldan að það gerir lítið til. Sími, tölvupóstur og þess háttar nýmóðins dót er ekki að flækjast fyrir söguhetjum Guðrúnar og gott ef það er ekki bara til bóta. Ketilríður og fleiri þurfa kannski þess vegna að bregða sér oftar af bæ en annars mundi vera. Allt gott um það samt að segja.

Margir hafa fárast yfir því hve mikið kaffi er drukkið í sögum Guðrúnar frá Lundi. Ekki finnst mér það. Verri finnst mér bílavöntunin. Fólk getur ekki farið neitt nema gangandi eða á hestum.

Orðaval fólks segir margt um tíðarandann. Ekki hefði Guðrún frá Lundi talað um valdstjórnina. Hið opinbera hefði hún frekar sagt. Nú til dags eru lögregluþjónar kallaðir lögreglumenn. Ekki veit ég af hverju. Það var Skorrdal sem benti á þetta í athugasemd einhvers staðar minnir mig.

ESB-umræðan er að harðna. Einum LÍÚ-forkólfi varð það á að gefa í skyn að kannski væri óráð að hætta við ESB-viðræðurnar. Hann var samstundis tekinn í gegn og hefur nú beðist afsökunar á ósómanum. Samkeppniseftirlitið svonefnda vogaði sér líka að hafa skoðun á samkeppnismálum og sagði að frumvarp um sektir fyrir mjólkurframleiðslu drægi úr samkeppni. Slík afglöp eftirlitsins voru að sjálfsögðu stöðvuð í fæðingu.


1103 - Skattskráin 2010

Að Moggabloggsvist mín skuli vera ókeypis með góðri þjónustu og tryggja þar að auki allnokkra útbreiðslu hefur vissulega áhrif á ákvörðun mína um tryggð við þetta bloggsvæði. Það hefur líka áhrif að Moggabloggið var alveg frá upphafi úthrópað sem óalandi og óferjandi af snobbelítunni í blogginu. Mér er alveg sama um það og líka sama þó sumir Moggabloggarar næli sér í meiri vinsældir en þeir eiga í rauninni skilið með því að krækja í sem flestar og mest krassandi fréttir.

Það er árleg skemmtun að rífast um skattskrána. Blöðin velta sér sem mest uppúr þessu og þeir sem eru á móti hamast við að útskýra af hverju tekjur eigi að vera leyndarmál. Aðeins er leyfilegt að skoða þetta í visst langan tíma og ýmsar takmarkanir eru á skoðuninni. Þetta millibilsástand er asnalegt. Þeir sem eru svo óheppnir að blaðamenn álíti þá fræga verða að sæta því að fá birtar upplýsingar um það opinberlega hverjar tekjur þeirra eru. Aðrir sleppa.

Eðlilegast væri auðvitað að þetta væri með öllu lokað alltaf eða opið öllum á netinu.

Langstærsti galli bloggsins er hve pólitísk skrif eru þar áberandi. Það efni virðist vera vinsælt og heimsóknir margar hjá þeim sem það stunda. Margir þeirra leggja áherslu á að tengja blogg sín við fréttir á mbl.is. Það getur verið beggja handa járn því fréttirnar takmarkast við það sem gerist á hverjum tíma og pólitíska sýnin hjá mbl.is er oft skrýtin. Svo keppast bloggarar jafnan við að vera sem neikvæðastir og oft eru þeir hver öðrum líkir í umfjöllun sinni.

Annar stór flokkur í blogginu er málfarsumræðan. Hún er oft mjög smásmuguleg og leiðinleg. Auk þess er vafamál að hún geri nokkurt gagn. Til þess er hún of tilviljanakennd og losaraleg. Þeir sem helst þyrftu á málfarslegum leiðbeiningum að halda lesa hana greinilega ekki.Til hvers er þá að vera að þessu?


1102 - Moggablogg

Það er siður hjá þeim Moggabloggsmönnum að loka bloggum þeirra sem ekki blogga eins og þeir vilja. Þannig eru Grefillinn sjálfur, DoctorE og Hildur Helga Sigurðardóttir ásamt Skúla Skúlasyni komin í einhvern heiðurslaunaflokk þar. Eflaust eru fleiri í honum en ég man ekki eftir öðrum í bili. Jú, áreiðanlega er Skorrdal í honum líka.

Með þessu er víst hugmyndin að Moggabloggið verði ekki einhvers konar sandkassi þar sem hver eys óhróðrinum yfir næsta mann. Ég held að það sé ekki pólitíkin sem þarna ræður heldur orðbragðið og hvernig menn haga sér.

Grefils&Kristins málið er þó alltaf að verða skrýtnara og skrýtnara. Hef til dæmis ekki hugmynd um hvort Grefillinn er inni eða úti akkúrat núna. Kannski er best að tékka hjá Birni Birgissyni Þori varla að skrifa meira um þetta mál. Kannski hafa Moggabloggsstjórnendur farið á taugum við nágrannaerjurnar í Garðabænum. Það er annars merkilegt að ekkert skuli heyrast meira um það mál.

Davíð Oddsson hefur að mínu áliti lítil áhrif á það hvernig Moggabloggið er. Auðvitað stjórnar hann því sem ritstjóri hvaða efni birtist í Morgunblaðinu sjálfu og þar birtist pólitísk sýn hans og aðdáenda hans enda er plássið takmarkað. Sé ekki hvernig hann ætti að stjórna Moggablogginu. Jú, ég veit að menn munu benda á Loft Altíce og orðbragð hans. Mér finnst bara að pólitísk skrif megi vera öðruvísi en önnur.

„Eigi leyna augu ef ann kona manni" segir í Gunnlaugs sögu ormstungu. Ætti þá ekki að gilda það sama um karlmenn?  Ekki er víst að svo sé. Kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi er líklegt að karlmaður hafi samið þetta spakmæli og auk þess hafa karlmenn allra tíma talið sig hafa fyllsta rétt til að horfa með girndaraugum á allt kvenfólk án þess að unna konum sínum hliðstæðra réttinda.

„Esa gapríplar góðir
gægur es þér í auga."

Sagði Þórhildur skáldkona þó er hún atyrti Þráinn Sigfússon eiginmann sinn fyrir að góna of mikið á fjórtán ára dóttur Hallgerðar langbrókar í giftingarveislunni frægu að Hlíðarenda. Frá þessu er sagt í sjálfri Brennu-Njáls sögu og ef til vill er þetta byrjunin á feminisma nútímans.

Þórhildur fór reyndar illa útúr þessu.


1101 - Fiskidagurinn mikli

Ekki er að sjá að Grefils&Kristins-málinu sé að ljúka. Varla hafa þó aðrir áhuga lengur fyrir þessu máli en hörðustu aðdáendur. Deilur af þessu tagi eru samt ekki einskisverðar. Vel má hugsa sér framhald á einhverju sem þessu líkist. Gæta verður þess þó að deilur að kappræðum loknum verði ekki eins hatrammar og langvinnar og nú. 

Nú virðist Grefillinn hafa læst nýja blogginu sínu með lykilorði. Ég hef slæma reynslu af slíku háttalagi en kannski er þetta allt misskilningur, jafnvel rangur misskilningur eins og svo margt í þessu máli öllu. Yfir og út.

Tek það svolítið til mín þegar Sigurður Þór fárast yfir ómarkvissum bloggurum á sínu bloggi. Af einhverjum ástæðum virðist hann samt hafa áhuga á mínu. A.m.k. kommentar hann þar stundum. Ég deili ekki veðuráhuga hans en les samt oft veðurpælingarnar lauslega yfir. Reyni ekki að festa mér í minni uppýsingar sem þar eru. Ekkert pláss. Skaði að hann skuli hafa misst áhugann fyrir venjulegu bloggi en við því er ekkert að gera.

Hundabann á Fiskideginum mikla. Að hugsa sér. Sagt er að það sé aðallega sett á vegna hundanna sjálfra. En hvað eiga þeir þá að éta í staðinn ef þeir fá engan fisk? Fór einu sinni á þennan fiskidag en kom því miður aðeins of seint þangað og fékk engan fisk. Fór í staðinn áfram til Ólafsfjarðar og kynntist þá jarðgöngunum þangað. Hef síðan verið meira á móti Héðinsfjarðargöngum en ég var áður og er þá þónokkuð sagt.

Gegnumtrekkur olli slysi í álverksmiðjunni í Reyðarfirði. Í gamla daga var talið að gegnumtrekkur gæti gert konur óléttar og um mann hef ég heyrt sem var Trekkvindsson. Annars er ál víst aðallega notað í hergögn. Segir Svanur Gísli og ekki lýgur hann. Eigum við Íslendingar í alvöru að fórna okkar verðmætu náttúruauðlindum í að drepa fólk? Ég bara spyr.


1100 - Hvítá

Vorið 1844 varð hörmulegt slys í Hvítá í Árnessýslu skammt frá svonefndu Langholtshverfi. Tveir menn drukknuðu þar af fimm sem farið höfðu út á ána á báti sem þeir höfðu tekið traustataki. Erindi þeirra var að steypa undan veiðibjöllu sem gert hafði sér hreiður í hólma úti í ánni. 

Straumur hreif bátinn fljótlega og aðeins 2 árar voru í honum og önnur þeirra brotnaði innan skamms. Bátnum hvolfdi síðan og yngsti maðurinn sem var um tvítugt (hinir voru allir mun eldri, flestir fimmtugir eða meira) komst í land og sótti hjálp. Tveir menn björguðust þá en tveir mannanna fundust ekki og drukknuðu í ánni.

Því skrifa ég um þetta hér að frásögn af þessu slysi las ég nýlega í bók sem ég fékk lánaða á bókasafninu. Sú bók heitir „Íslenskt mannlíf I" og er eftir Jón Helgason ritstjóra. Margar frásagnir eru í þessari bók sem er vel skrifuð og ýtarleg. Frásögnin af þessu slysi tekur þar einar sjö blaðsíður (með einni teiknaðri mynd og ítarlegri ættfærslu á öllum sem við sögu koma). Þó er oft skrifað enn lengra mál um ómerkilegri atburði.

Nú er orðið nokkuð umliðið síðan ég birti síðast ímyndað viðtal við sjálfan mig. Blaðamenn BloggTíðinda eru samt alltaf á eftir mér og einn þeirra náði að króa mig af um daginn:

BT:  Til hvers ertu að blogga?

SB:  Nú, til þess að vera lesinn.

BT:  Og heldurðu að einhverjir lesi þetta bull?

SB:  Já.

BT:  Jæja, kannski. En tölum um eitthvað annað. Hvernig líst þér á trúmáladeilurnar hér á Moggablogginu.

SB:  Alveg svakalega.

BT:  ?? Vel eða illa?

SB:  Bara bæði.

BT:  Nú?

SB:  Já. Sumt er fjári gott en annað afskaplega lélegt.

BT:  Já, svoleiðis.

SB:  Já, einmitt.

BT:  En nú er Moggabloggið að deyja....

SB:  Hvur segir það?

BT:  Allir bara.

SB:  Ekki ég. Annars færi ég eitthvert annað.

BT:  Já, einmitt. Af hverju ferðu ekki eitthvert annað?

SB:  Bara nenni því ekki. Allt of mikið fyrirtæki. Nú er ég með ærnu erfiði búinn að koma mér upp svolitlum hópi sem virðist lesa bloggið mitt reglulega. Ætti ég að yfirgefa þennan hóp og fara eitthvert annað án þess að vita hvort margir fyndu mig þar? Eða nenntu yfirleitt að leita?

BT:  Já. Ef þú ert nógu góður hljóta þeir að gera það.

SB:  Er ég nógu góður til þess?

BT:  Veit það ekki. Kannski mætti prófa.

SB:  Vil ekki gera þannig tilraunir.

BT:  Ég sagði að Moggabloggið væri að deyja. Lesendum þess og fylgifiskum er a.m.k. að fækka mikið. Ef þú yfirgæfir þetta bloggsvæði hvert mundir þú fara?

SB:  Hef ekki hugmynd um það.

BT:  Nú.

SB:  Ja, ef einhverjir vildu endilega fá mig og byðu mér peninga.....

BT:  Heldurðu að bloggið þitt sé svo mikils virði?

SB:  Nei, eiginlega ekki.

BT:  Heldurðu að margir bloggarar fái borgað fyrir að skrifa?

SB:  Nei, alls ekki. Kannski Egill Helga. Varla margir aðrir.

BT:  Nú bloggar þú svolítið öðruvísi en aðrir. Fjasar mikið um blogg og þykist vera voða gáfaður....

SB:  Nú, er það?

BT: Mér finnst það a.m.k.

SB:  Og er það eitthvað marktækt sem þér finnst?

BT:  Kannski. Sumum finnst....

SB:  Þú ferð bara undan í flæmingi.

BT:  Ja, ég er nú eiginlega....

SB:  Já, datt mér ekki í hug. Eiginlega á móti bloggi. Og samt ertu að vinna hjá BloggTíðindum. Og taka viðtal við stórbloggara eins og mig. Það er....

BT:  Hmm, er ég að taka þetta viðtal eða þú?

SB:  (afundinn) Líklega þú. Haltu þá áfram að spyrja.

BT:  Hvert var ég kominn? Sjáum til. Já, einmitt. Jú, hvert mundir þú fara ef þú hættir að blogga á Moggablogginu?

SB:  Ég er ekkert að hætta þar.

BT:  Ertu einhver Davíðsaðdáandi eða hvað?

SB:  Nei, sko eiginlega ekki, en þessir afturhaldskommatittir vaða nú dálítið uppi. Finnst þér það ekki? Þykjast alltaf vera „Góða fólkið", eins og hann Tryggvi Herbertsson segir. Ágætismaður hann Tryggvi.

BT:  Iss, mér finnst nú ekki mikið til hans koma. Svo vil ég ekki vera að tala um einhverja ákveðna menn. Bara blogg almennt og svoleiðis.

SB:  Nú, varst það ekki þú sem byrjaðir?

BT:  Byrjaði á hverju?

SB:  Að tala um ákveðna menn.

BT:  Nei alls ekki.

SB:  Ég hélt að þú hefðir verið að tala um Davíð Oddsson.

BT:  Já, ég spurði þig víst hvort þú værir aðdáandi hans. Ertu það?

SB:  (óttasleginn) Nei, nei.

BT:  Er það hættulegt?

SB:  Kannski. Margir bloggarar segja að hann sé að reyna að koma sínum skoðunum og sínu fólki að á Moggablogginu.

BT:  Og reka hina eða loka blogginu þeirra.

SB:  Já, einmitt.

BT:  Og trúir þú þessu?

SB:  Nei, eiginlega ekki.

BT:  Nú ert þú búinn að blogga lengi. Hvað....

SB:  Hver segir það?

BT:  Bara allir. Eða a.m.k. flestir.

SB:  Ekki eins lengi og Jónas.

BT:  Hvaða Jónas?

SB:  Jónas Kristjánsson.

BT:  Nú hann. Er hann búinn að blogga lengi?

SB:  Já. Fyrst bloggaði hann á Vísi og ýmsum öðrum blöðum. Svo fór hann að blogga á eigin vefsetri. Er þetta ekki fínt orð hjá mér? Vefsetur. Virkilega flott.

BT:  Jú, jú. En þá dettur mér það einmitt í hug. Hvernig skilgreinir þú blogg.

SB:  Skilgreini? Ég skilgreini það ekki neitt.

BT:  Hvað er blogg?

SB:  Kannski allt sem skrifað er. Og svo rífa hundarnir það í sig.

BT:  Hvaða hundar?

SB:  Bara hundar. Einhverjir hundar. Æ, ég er búinn að fá leið á þessu. Slökktu á þessu fjárans tæki.

Og svona endaði þetta. Og bloggið mitt líka.


1099 - Kristnitökuhraun

Eftir talsverða orrahríð í athugasemdakerfi mínu er nú farið að lægja í Grefils&Kristins-málinu. Búið er að loka báðum bloggunum hans Grefils og er það helsta afleiðing þessarar deilu. Það sem eftir situr að mínum dómi er það að eins og oft vill verða fara bloggdeilur (séstaklega um trúarbrögð) gjarnan úr böndunum. Sigurður Þór Guðjónsson hefur þó oft staðið fyrir slíkum deilum án þess að skaði hafi hlotist af. (Finnst mér). Grefill braut reglur mbl.is í eftirmálanum og verður að gjalda þess. 

Að annar deiluaðila skuli hafa haft úrskurðarvald í sambandi við form umræðnanna sjálfra er galli sem aðilar hefðu átt að sjá í upphafi. Það sem skeð hefur í þessu máli í dag fyrir utan lokunina sem áður er áminnst er að Kristinn kvartaði við mbl.is útaf fyrirsögnunum hjá Grefli og síðar náðu þeir samkomulagi á bloggsíðu Óskars Helga Helgasonar (svarthamar.blog.is) en það samkomulag fór síðan í vaskinn og ég veit ekki hvernig þessu reiðir af.

„Hverju reiddust goðin þá er hraun það brann sem nú stöndum vér á?" Sagði Snorri goði á Alþingi fyrir margt löngu. Þetta var gáfulega ályktað hjá honum og ekki aðrir klárari í jarðfræðinni á þeim tíma. Þá bjó annar goði sem Þóroddur var nefndur á Hjalla í Ölfusi. Gott ef hann var ekki lögsögumaður. Þá var Kristnitökuhraunið (sem enginn veit nú hvar er) að renna í áttina að Hjalla. Var Svínahraun kannski Kristnitökuhraun? Minnir að ég hafi einhverntíma heyrt því haldið fram.

Nú er ég búinn að finna aftur bloggið hans Davíðs Þórs. Það var Harpa Hreinsdóttir sem vísaði mér á það. (Já, ég er spar á linkana. Man ekki linkinn á Davíð - gúglið hann bara.) Var nefnilega alveg búinn að týna honum. Setti hann umsvifalaust í „readerinn" minn en þar eru samankomnir allir mínir uppáhaldsbloggarar. (Og jafnvel fleiri) Ég sé Fréttablaðið afar sjaldan (og nenni jafnvel ekki að lesa það ef ég sé það). Davíð Þór skrifaði bakþanka í blaðið um daginn um norðlensku hljóðvilluna. Gott hjá honum. Annars virðast ekki mjög margir haldnir þessari villu á háu stigi og gaman er að heyra hermt eftir henni.

Nú er sumri tekið að halla og útihátíðir hafa flestar tekist ákaflega vel þó nú sé á mánudegi farið að rigna hér í Kópavoginum. Mikið hefur verið drukkið af bjór og víni og margir setjast nú til vinnu endurnærðir á sál og líkama.


1098 - Veðurfar og Icesave

Öfgakenndur veðurfarsáhugi er einskonar lífsflótti. Alveg eins og of mikill áhugi á hvers kyns íþróttum er það. Stjórnmál eru samt ekki lífið sjálft þó sumir virðist halda það. Atvinnumál ekki heldur. Listasnobb enn síður. Heppilegast er að blanda öllu saman. Hafa áhuga á sem flestu. Heilmiklu er hægt að ráða um það en þó ekki öllu. Allir eru betri en náunginn í einhverju. Bloggi ef ekki vill betur. 

Þessi var nokkuð góður (eða átti a.m.k. að vera það) Ég er búinn að blogga svo lengi að sumir eru farnir að telja mig betri en náungann í því. (Þar á meðal ég sjálfur.) Erfiðast í því stríði öllu er að þegja. Sumt er algjör óþarfi að blogga um og í athugasemdum er auðvelt að glata sjálfum sér og fimbulfamba villt og galið öllum til ama.

Finnur Bárðarson bloggar um handahreyfingar Ögmundar Jónassonar og telur þær benda til þess að hann hugleiði mjög forsetaframboð. Ég hef tekið eftir þessum handahreyfingum Ögmundar, vængjaslætti ÓRG og spenntum greipum Margrétar Tryggvadóttur, en tel að meira felist í forsetaembættinu en handahreyfingarnar einar. Ég kaus ÓRG á sínum tíma og þó mér finnist hann hafa brugðist á sumum sviðum er hann ennþá minn forseti. Tek ekki undir áróður allra þeirra sem telja hann óalandi og óferjandi. Forsetaembættið er heldur ekki óþarft. Allra síst eins og stjórnarfarið er á þessu landi. Stjórnarskrá Íslands er líka fremur lélegt plagg.

Alltaf er gaman að andskotast á blogginu. Er líka að æfa mig í að setja hitt og þetta mismerkilegt á fésbókina. Þá get ég sleppt að blogga um það. Stundum dettur mér of margt í hug til að hægt sé að setja það allt á bloggið. Þá er gott að eiga fésbókina að.

Vissulega er búið að flækja Icesave-málið fram og aftur á allan mögulegan hátt. Eftir stendur þó í mínum huga að Íslenska ríkisstjórnin (studd af nægilegum fjölda þingmanna sem til þingsetu voru kjörnir af þartil bærum aðilum) ábyrgðist (og greiddi, eða tryggði greiðslu á) allar innistæður aðila sem búsettir voru á Íslandi en ekki annarra.

Slík mismunun er ekki liðin hjá samtökum þjóða. Kannski er hægt að komast hjá að greiða Icesave en þá erum við Íslendingar ekki tækir í alþjóðlegt samstarf. Kannski fyrirgerðum við þeim rétti okkar með því að hafa ekki nægilegt eftirlit með vafasömum bankaeigendum.

Og nokkrar myndir:

rau22Rótarhnyðja.

rau33Stigi í skógi.

kjós16Krækiber.

kjós23Komiði sæl.

kjós26Sveitaverslun.


1097 - Grefill og Kristinn

Deila þeirra Grefils og Kristins Theódórssonar kemur mér fyrir sjónir sem alltof ómarkviss og orðmörg. Kristinn er fastur í sínum skilningi á rökræðum og fremur hógvær. Grefill finnst mér hafa komið skyndilega fram sem orðhákur hinn mesti. Fæstir bjuggust held ég við því. Kannski er hann „troll" en hann er þá óvenju skemmtilegur sem slíkur. 

Deilu þeirra finnst mér vel mega ræða um án þess að nefna trúmál sem þeir þó deildu í fyrstunni um. Báðir vildu ráða því hvernig umræðan þróaðist og auðvitað var Kristinn í betri aðstöðu við það þar sem umræðan fór fram á hans bloggi.

Veit ekki hve margir fylgdust með þeirri deilu né hve margir fylgjast nú með eftirköstum hennar. Þau eru samt ekki síður áhugaverð en deilan sjálf. Grefillinn boðar ritgerð um net-ofbeldi og ég bíð eftir henni.

Hægir svefn á meltingu? Ég spyr sjálfan mig að þessu vegna þess að ég get alls ekki tekið það gott og gilt þó mér sé sagt að morgunverður sé besta og mikilvægasta máltíð dagsins. Að óathuguðu máli gæti ég álitið að meltingin ætti að geta dundað sér við sín störf meðan maður sefur og þarf ekki að vera að gera neitt annað. Þykir nefnilega best af öllu að fá mér eitthvað í gogginn rétt áður en ég fer að sofa en samkvæmt morgunverðarvísindunum ætti það ekki að vera hollt. En af hverju?

Þéranir eru sjaldgæfar í auglýsingum núorðið. Þó ekki með öllu óþekktar. Heyrði nýlega sagt í útvarpsauglýsingu: „Kaupið yður (eitthvað sem ég man ekki hvað var) - Verslunin Geysir." Véranir eru þó með öllu aflagðar í máli manna. Síðasti maðurinn sem ég man eftir að véraði sig með látum og gerði það vel var Kristján Eldjárn forseti.

Icesave-vitleysan kemur til með að tröllríða fréttum bráðlega og ekki síðar en þegar þingið kemur saman í haust. Líklegast er að hún blandist Evrópusambandsviðræðunum þó ekki sé ljóst hvernig hún gerir það. Sjálfstæðismenn og aðrir hrunverjar hljóta að reyna að koma því í gegnum þingið að hætt verði við þær viðræður.

Og nokkrar myndir:

rau06Mosavaxinn staur.

rau009Svartur sveppur.

ak040Hið úfna Akrafjall.

kjós11Fífa.

kjós14Foss.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband