1111 - Skáldskapur o.fl.

Kúnstin við að skrifa skáldsögur er að teygja lopann nógu mikið. Kannski ekki alveg GuðrúnarfráLundi lengi en næstum því. Svo gæti reynst vel að hafa titilinn nógu frumlegan. Til dæmis eitthvað um Úkraínska traktora eða bara Handbók um hugarfar kúa. Byrjaði einmitt nýlega að lesa bók með því nafni en gafst upp fljótlega. Svo er ágætt að hafa sem ýtarlegust greinaskil. Ein koma hér. 

Annars nenni ég ekki að skrifa skáldsögu. Held að ég mundi tapa þræðinum fljótlega. Auk þess er það bölvað ofbeldi að ætlast til þess að fólk lesi allt bullið sem þarf til þess að fylla mörg hundruð blaðsíður. Nei, þá eru nú ævisögur og allskyns fræðibækur skárri. Jafnvel greinasöfn. Úrelt kannski en samt er alltaf möguleiki að finna grein sem hægt er að lesa. Bókasöfn eru ómissandi. Þrátt fyrir sektirnar. Mistökunum má alltaf skila aftur og enginn þarf að komast að þeim.

Best er auðvitað að blogga. Þá er alltaf hægt að hætta bara ef maður lendir í ógöngum. Ömurlegt hlutskipti að hamast við skáldsögu uppá 480 blaðsíður í heilt ár eða meira og uppgötva þá að hún byggist öll á einhverjum sáraeinföldum misskilningi auk þess sem búið er að skrifa hana mörgum sinnum áður.

Er búinn að vera Internetslaus og sjónvarpslaus í næstum viku eða síðan á miðvikudaginn í síðustu viku. Samskipti mín við þau fyrirtæki sem þessu stjórna eru efni í sérstaka bloggfærslu og vel getur verið að hún birtist hér fljótlega.

Í þessu Internetleysi hefur mér orðið ljóst að Netið og allt sem því fylgir hefur alltof sterk tök á manni. Þetta er gervilíf sem vissulega fyllir ágætlega dauðar stundir en veldur líka því að maður vanrækir margt annað. Netið uppfyllir margar þarfir og auðveldar allskyns samskipti en það er samt rétt að gæta sín á því.

Bankahrunið haustið 2008 hefur valdið talsverðri hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni. Umræða öll hefur orðið opnari. Fleiri tjá sig en áður. Stjórnmál eru að breytast verulega. Flokkarnir þó lítið. Ef þeir fylgja ekki þróuninni verða þeir einfaldlega skildir eftir.

Fór í bókasafnsferð í dag og tók meðal annars að láni eina nýútkomna bók eftir Þórberg Þórðarson. Hissa varð ég svo þegar farið var að fjalla einmitt um þessa bók í Kastljósi kvöldsins. Sýnir vel hve nýjar bækur eru oft á bókasöfnunum.

Og nokkrar gamlar myndir sem ég fann á tölvunni.

IMG 0165Aumingja hjólið. Skyldi því ekki vera kalt.

IMG 0252Loftmynd af gömlu mjölkurstöðinni.

IMG 0323Þessi er talsvert 2007 þó hún sé tekin í febrúar 2008.

IMG 0608„Hverslags ófreskja er þetta nú?"

IMG 0778Öskureiður tjaldur.

IMG 0526Móskarðshnjúkar í „Himalayafjöllum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband