1107 - Pólitík og fleira

Vinstri menn vilja ekki völdin. Það eru sannindi sem margir skilja að því stærri sem flokkur er því auðveldara verður fyrir flokksmennina að koma sínum málum að. Þetta vilja Vinstri grænir þó ekki skilja. Alþýðubandalagsmenn áttu alltaf erfitt með að skilja það á sínum tíma. Margrét Frímannsdóttir skildi það þó en Steingrímur Jóhann alls ekki. Ögmundur og Guðfríður Lilja sjá nú þann kost grænstan að kljúfa flokkinn sinn. Það hafa vinstri menn á Íslandi löngum verið leiknir við.

Auðvitað er þetta mikil einföldun. Allir vilja gera sitt besta. Auk þess að hafa besta fólkið við stjórnvölinn þurfa flokkarnir að vera sterkir til að koma sínum málum fram. Sífelldir flokkadrættir og ósamkomulag veikja þá. Fjölmiðlar og allir þeir sem um stjórnmál tjá sig opinberlega hafa líka skyldum að gegna. Það er ekki nóg að finna að. Aldrei geta allir orðið sammála. Réttar lausnir er þó hægt að nálgast í hverju máli ef rætt er um þau æsingalaust.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra stóð sig ekki vel í kastljósviðtali um lögfræðiálitið frá Seðlabankanum. Kannski er þetta allt saman liður í þvi að koma Ögmundi Jónassyni í ríkisstjórnina aftur og sættast við óánægjuhópinn sem í kringum hann er. Ekki dugir að fjölga bara ráðherrum og hverjir liggja þá betur við höggi en þeir sem ekki hafa neinn flokk að styðjast við. Annars hef ég trú á að dragi fyrr eða síðar til tíðinda í þessari ríkisstjórn. Það verður þó frekar útaf ESB en þessu máli.

Sagt er að kettirnir á Selfossi séu komnir í verkfall og hættir að veiða máva. Þetta er vegna þess að þeir hafa sannfrétt að til standi að setja á þá beisli. Mávarnir hafa tekið þetta óstinnt upp og fjömennt (fjölmávt) á flugvöllinn þar sem þeir halda fjöldafundi reglulega. Ekki er kunnugt um hvort knattspyrnulið þeirra Selfyssinga á einhver hlut að þessu máli en flugmálastjórn er að athuga það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband