1109 - Bloggsaga

  

Internetsambandið hefur verið bilað hjá mér undanfarna daga. Gekk svo langt að ég fór á aðra bæi til að koma Moggabloggsinnleggi mínu að í gær. Veit lítið um hvernig því hefur verið tekið. Þegar ég sendi þetta blogg (föstudagsbloggið - sem nú er orðið að laugardagsbloggi!!) verður sambandið vonandi komið á. Nei, ekki fór það svo. Ætli ég verði nokkuð kominn með sjónvarps- og Internetsamband fyrr en eftir helgi.

Við erum alltof háð árans Internetinu. Að hafa hvorki sjónvarp né Internet er alveg sambærilegt við rafmagnsleysið sem hrjáði mann stundum í gamla daga. Nú getur maður samt gert það sem mann lystir en einhvern vegin strandar allt á því að Internetið og sjónvarpið eru ekki á sínum stað.

Mér finnst ég ekki hafa bloggað mjög lengi. Sumum finnst það þó kannski. Áður en ég byrjaði hafði ég í allnokkurn tíma fylgst með öðrum. Fyrstu bloggin sem ég sá voru á vefsetri sem kallað var Nagportal. Man ekki hvort endingin var .com eða .is.

Meðal þeirra forkólfa sem ég fylgdist andagtugur með á þessari braut voru til dæmis Salvör Gissurardóttir, Már Örlygsson, Bjarni Rúnar Einarsson og fleiri. Seinna meir fór ég að reyna að tileinka mér stílbrögð sumra bloggara eins og Stefáns Pálssonar, Ágústar Borgþórs, Hörpu Hreinsdóttur, Jónasar Kristjánssonar, Egils Helgasonar og annarra.

Bloggarar koma og fara. Nú er Lára Hanna hætt, a.m.k. í bili. Þeir sem ég fylgist einkum með núorðið auk sumra þeirra sem áður eru taldir eru Sigurður Þór Guðjónsson, Dr. Gunni, Davíð Þór Jónsson og Gísli Ásgeirsson.

Annars er „neimdropping" af þessu tagi fremur lítils virði. Sýnir eingöngu að ég hef fylgst svolítið með í bloggheimum. Moggabloggið hefur bæði gert bloggið að almenningseign og spillt þeirri ímynd sem það áður hafði.

Kannski er bloggið á niðurleið, ekki veit ég það. Sjálfum finnst mér þægilegra að skrifa á bloggið en fésbókina enda orðinn vanur því. Þeir bloggarar sem komið hafa fram í kjölfar hrunsins og vakið athygli fréttaþyrsts almennings, meðal annars vegna stóryrðaflaums og gífuryrða, hafa fæstir vakið sérstaka athygli mína.

Sjálfur er ég hissa á að ég skuli endast til að blogga á hverjum einasta degi án þess að hafa í rauninni nokkuð að segja. En þetta er enginn vandi og síst erfiðara að blogga daglega en öðru hvoru. Allt kemst upp í vana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Sættir þú þú þig við Internet þjónustu sem býður þér uppá bilun í nokkra daga??

Kveðja

Halldór Agnarsson 15.8.2010 kl. 01:13

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Virðist verða að gera það. Skipti við Símann og er ekki sannfærður um að Vodafone sé betra. Veistu um fleiri?

Sæmundur Bjarnason, 16.8.2010 kl. 09:35

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Internetaðgangurinn minn er reyndar hjá Snerpu á Ísafirði en ADSL-ið hjá símanum.

Sæmundur Bjarnason, 16.8.2010 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband