Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

1076 - Um ketti o.fl.

Kattafærsla mín í gær hafði einhver áhrif. Systir mín er orðlögð kattakona og mér hefur alltaf líkað vel við þá. Hundar geta líka verið góðir en helsti ókosturinn við þá er að það þarf yfirleitt að sinna þeim mjög mikið ef vel á að vera. Kettir eru sjálfstæðari. 

Margir eru ótrúlega æstir yfir þessum kattamálum. Það er óþarfi. Hundamál voru einu sinni mál málanna hér í Reykjavíkinni. Nú er þetta breytt. Enn bíta þó hundar fólk.

Mér finnst Moggablogginu vera að hraka og það veldur mér áhyggjum. Marka vinsældir þess fyrst og fremst á því hve mörg innlit þarf til að komast á 400 listann. Þeim fer fækkandi.

Vinsælir og góðir bloggarar eru horfnir héðan af Moggablogginu. Sumum hefur gengið vel að fóta sig annars staðar en öðrum ekki. Sumir skrifa víða og virðast reyna að hafa sem mest áhrif. Gera það líklega en mér finnst best að þurfa ekki að láta bloggstaðinn hafa áhrif á sig. Íhaldssemi er oft góð.

Vorkenni útrásarvíkingunum ekki vitund að þurfa að standa fyrir máli sínu í New York. Allt þeirra tal um hve skelfilegt sé að þurfa að verjast þar hefur minni áhrif eftir því sem þeir væla meira og ef þeir eiga í erfiðleikum með að skilja ensku er mér bara alveg sama. Hrunfréttir eru annars langt frá því að vera mín sérgrein.

Fáeinar myndir:

IMG 2319Einhverskonar hvönn held ég að þetta sé.

IMG 2331Fenjasvæði á Íslandi. Nánar tiltekið í Elliðaárdalnum.

IMG 2334Sama hér. Brúin aðeins farin að gefa sig.

IMG 2337Og svona eru Elliðaárnar.

IMG 2342Þessi rós er líka þar.


1075 - Bekkjarmynd

bekkurHér er bekkjarmynd frá Miðskólanum í Hveragerði. Veit ekki með vissu hvenær hún er tekin. Líklega í kringum 1957 eða svo. 

Á myndinni eru: Aftasta röð frá vinstri. Einar Sigurðsson, Ásgeir Jónsson, Atli Stefánsson, Sæmundur Bjarnason, Jóhann Ragnarsson, Theódór Kristjánsson og Guðmundur Bjarnason.

Næstaftasta röð talið frá vinstri: Guðrún Gunnarsdóttir, Ágúst Guðmundsson, Þórhallur Hróðmarsson, Magnús Karlsson, Frank Michelsen, Jósef Skaftason og Kristinn Antonsson.

Næstfremsta röð talið frá vinstri: Jónína Jónsdóttir, Auður Sigurðardóttir, Sigurbjörg Lundholm, Ástríður Baldursdóttir, Karitas Eyþórsdóttir, Kolbrún Gunnarsdóttir, Erla Traustadóttir og Þyrí Magnúsdóttir.

Fremsta röð frá vinstri: Þórður Jóhannesson, Hjörtur Jóhannsson, séra Helgi Sveinsson, Guðbjartur Gunnarsson skólastjóri ásamt syni og eiginkonu, Guðfinna kennari (man ómögulega hvers dóttir hún var) og Heiðdís Gunnarsdóttir.

Það er ótrúlegt hvað myndir af þessu tagi geta kallað fram margar minningar. Fólkið á þessum myndum stendur manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum með öllum sínum kostum og göllum. Myndin er beinlínis afmarkaður partur úr eilífðinni.

Þessa mynd er hægt að stækka töluvert án þess að hún láti mikið á sjá. Að sjálfsögðu mega allir sem vilja prenta hana út eða afrita með öðrum hætti. Líka væri gaman að heyra frá einhverjum sem muna vel eftir þessu fólki. T.d. til að leiðrétta villur sem eflaust hafa slæðst inn hjá mér, eða til að fá hjá mér afrit af myndinni úr því að ég er búinn að hafa fyrir því að skanna hana. Stærðin á henni er 1,77 MB segir tölvan mér.

Óeðli í Árborg. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson er bloggvinur minn. Oft stóryrtur og orðljótur mjög. Ísraelsvinur og fornleifafræðingur með meiru. Skrifar samt skemmtilega. Nú nýlega skrifaði hann bloggpistil með áðurnefndri fyrirsögn. Hélt fyrst að óeðlið sem hann væri þarna að vísa til væri viðkomandi uppgreftrinum á líki RJF, en svo var ekki.

Óeðlið sem hann var að tala um þarna var kattabandsfréttin sem var í fjölmiðlum um daginn. Alveg er ég sammála honum. Fuglaveiðar katta geta farið fyrir brjóstið á einhverjum og ekkert er einkennilegt við það. Samlíkingin við hunda sem skylda er að hafa í bandi er hinsvegar alveg útí hött. Kettir ráðast ekki á fólk nema þeir séu neyddir til þess.

Og svo er einn helsti og frægasti kattavinurinn hér á Moggablogginu búinn að læsa blogginu sínu. Þetta er að sjálfsögðu Sigurður Þór Guðjónsson. Kannski opnar hann það fljótlega aftur en ég hef áhyggjur af köttunum. Það er ekki nóg að þeim sé hampað af fáeinum fésbókarskrifurum. Meira þarf til.


1074 - Ruslpóstur og þ.h.

Undarleg árátta að vera að blogga á hverjum degi. Finnst endilega að ég þurfi þess. Hræddur um að enginn lesi bloggið mitt ef ég bregst í því efni. Var það allavega. Er að reyna að venja sjálfan mig af þeirri hugsun. 

Meiri ósköpin sem safnast á öllum heimilum af ruslpósti og hverskyns auglýsingum. Hvernig væri að skylda auglýsendur til að sækja þetta á heimilin og koma því fyrir kattarnef? Svipað er að segja um rukkunarpóstinn. Enginn fær venjuleg sendibréf lengur eða minnsta kosti afar fáir. Bara rukkanir, auglýsingar og allslags tilkynningar frá bönkum og þessháttar stofnunum. Væri ekki sniðug hugmynd að henda öllu slíku og bera bara út raunverulegan póst. Þannig var það í gamla daga. (Finnst mér) En nú er pósturinn einkavæddur svo varla verður úr því.

Minntist á Google-readerinn í síðasta bloggi. Held að þónokkrir noti hann eða RSS-strauma á annan hátt. Hef stundum velt því fyrir mér hvort hann hafi áhrif á teljara Moggabloggsins. Eiginlega hlýtur það að vera. Af þeim sökum kann lesendafjöldinn hjá mörgum (þar á meðal mér) að vera svolítið ómark því líklega eru einhverjir líkir mér og nenna jafnvel ekki að lesa almennilega allt sem readerinn safnar saman. Bara pæling sem auðvitað mætti taka lengra með því að rannsaka ítarlega tímasetningar.

Horfði á leikinn í gær á milli Spánverja og Þjóðverja. Venjulega er það svo að þegar ég horfi á fótbolta held ég ósjálfrátt meira með öðru liðinu og get ekki alltaf skýrt hversvegna. Í þetta skipti var mér alveg sama hvort liðið ynni. Spánverjarnir léku vel og það hefði verið verulega ósanngjarnt ef Þjóðverjar hefðu unnið. Spái engu um úrslitaleikinn.

Og nokkrar myndir:

IMG 2250Beinagrind af fugli. (Sennilega)

IMG 2315Lúpínan er í blóma um þessar mundir.

IMG 2305Fjalldalafífillinn líka.

IMG 2311Þetta er skammt frá gömlu rafstöðinni í Elliðaárdalnum og gætu verið rústir af einhverri byggingu frá Innréttingunum sálugu. T.d. af einhverju sem tilheyrði þæfingu, litun eða sútun.

IMG 2328Skítalækur í Elliðaárdalnum með olíubrák og öllu.


1073 - Facebook og blogg einu sinni enn (nr. 473??)

Það að tala alltaf illa um feisbókina og skrifa meira á bloggið en hana er auðvitað tilraun til að sýnast merkilegri en aðrir. Ef teljarinn á blogginu sýnir einhvern lestur að ráði þá er freisting að halda sig frekar við það. Að fá svo marga fésbókarvini er heilmikil fyrirhöfn. Og svo veit maður ekki hverjir fela skrifin manns. Þá er betra að fimbulfamba út í loftið og vona að sem flestir álpist til að lesa það sem þar stendur.

Eitt er það þó sem feisbókin hefur fram yfir bloggið. Þar geta menn með engu móti litið á skrif sín sem varanleg og einhvers virði en kannski hættir sumum bloggurum til þess.

Sigurður Þór Guðjónsson birtir stundum blogg-greinar eftir sig á Moggablogginu og tekur þær svo niður. Birtir þær síðan aftur og þá kannski breyttar og bættar, hvað veit ég. Þetta er galli og ef maður hefur kannski kommentað á greinina þá gæti kommentið verið orðið marklaust. Ég nenni t.d. yfirleitt ekki að skrifa mikið um málfarsfjólur á netmiðlum sem þó eru algengar. Meðal annars er það vegna þess að oft eru þær leiðréttar fljótlega.

Þegar ég er búinn að pósta grein á bloggið mitt þá finnst mér að lesendur og þeir sem láta svo lítið að kommenta á hana eigi hana. Mér finnst ég bara hafa leyfi til að gera lítilsháttar stafsetningarbreytingar og þessháttar á henni. Þetta kann þó að breytast síðar, veit það ekki.

Úr því að ég er kominn í kvörtunarhornið er hér önnur bloggumkvörtun. Björn Birgisson liggur á því lúalagi að birta sömu blogg-greinarnar aftur og aftur undir mismunandi fyrirsögnum. Það finnst mér að minnsta kosti. Kannski er þetta bara óvart hjá honum en það fer samt í taugarnar á mér því greinarnar er oft mjög góðar. Man eftir því að einu sinni var gert grín að Birni Bjarnasyni þar sem hann var að breyta blogg-greinum frá Kína. Varla vill nafni hans Birgisson falla í sama pyttinn.

Annars á ég svolítið erfitt með að úttala mig um þetta því oft rekst ég á greinar í google-readernum mínum sem ég hef lesið áður. Ég get engum kennt um það nema sjálfum mér. Trassa nefnilega oft að lesa það sem readerinn safnar saman.


1072 - ESB-aðild og hvalskurður

Að mörgu leyti er ESB og umsóknin um aðild að því að verða mitt hjartans mál. Það herðir mig fremur í minni afstöðu að sjá að skoðanakannanir sýna aðildarsinna í talsverðum minnihluta. 

Það er ekki tímabært að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og satt að segja kemur ekki til mála að hætta við umsókn. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður. Það er með öllu óhugsandi að það nægi að Alþingi taki ákvörðum í þessu máli. Það er auðveldur leikur fyrir peningaöflin í landinu (sem eru að byrja að endurskipuleggja sig) að kaupa þessa 63 alþingismenn.

Finnst merkilegt að óánægjuhópurinn í VG, þar sem Lilja Mósesdóttir er að reyna að taka forystuna, sé algerlega sammála öfgahægrimönnum í andstöðu sinni við aðild. Vissulega beita þeir ekki sömu rökum en samt er afstaða þeirra vatn á myllu þjóðernisofstækisafla.

Eitt sinn í fyrndinni þegar ég var útibússtjóri á Vegamótum á Snæfellsnesi var ég á leiðinni vestur einu sinni sem oftar og tók upp á leið minni túrista í Hvalfirðinum. Þá voru göngin ekki kominn og Hvalfjörðurinn langur og leiðinlegur.

Í hvalstöðinni var verið að skera hval. Ég bauð því túristunum uppá að stoppa þar og horfa á hvalskurðinn. Það þótti þeim meiriháttar og stórmerkilegt að sjá menn vaða þar í blóðinu á mannbroddum og hamast við að skera hvalkjöt í búta og henda þeim svo niður um göt í planinu.

Datt þetta í hug þegar ég las blogg Dr. Gunna þar sem hann lýsti komu sinni í hvalstöðina. Á þessum tíma var hægt að vera á útsýnispalli rétt við skurðarplanið og á skiltum var margítrekað hve hált væri á planinu og alveg bannað að fara þangað.


1071 - Fésbók, Ólafslög o.fl.

Alltaf er ég að læra betur og betur á þessa blessaða Fésbók (eða Fasbók eins og Páll Bergþórsson og fleiri vilja kalla hana). Meira að segja Farmville er hætt að trufla mig eins mikið og áður. Bréfskákin er það sem ég sinni mest þarna og þó ég hafi um daginn verið lækkaður um meira en 500 stig þar þá er mér alveg sama. Þetta var útaf einhverjum misskilningi sem alveg eins getur verið mér að kenna. 

Linkaðar myndir eru ekki minn tebolli. (allra síst í athugasemdum - þar er það of flókið mál) Hef samt notað slíkt en það vofir alltaf yfir manni að linkfjárinn bendi á eitthvað annað en til var ætlast. Veit að þetta er langsótt og stutta skýringin er sú að ég nenni helst ekki að linka í myndir annarra. Ég er ekki svona heiðarlegur þó ég vildi gjarnan vera það. Það sem viðgengst á Netinu í dag er það sem viðgengst í kjötheimum á morgun.

Verðtrygging og skyld mál eru ekki til vinsælda fallin hér á  blogginu. Þeir sem um þau skrifa eru fyrst og fremst að láta ljós sitt skína. Eins gott að það ljós sé sæmilega skýrt. Mitt hefur varla verið það hingað til. Ég man vel eftir ástandinu sem hér var um og fyrir 1980. Þá var það orðið augljóst að sú kynslóð sem öllu réði var önnum kafin við að stela þeim peningum sem aðrir voru svo vitlausir að geyma á banka.

Með svokölluðum Ólafslögum sem mig minnir að hafi verið sett um þetta leyti var verðtryggingin fundin upp. Hún leiðrétti talsvert þá hrikalegu skekkju sem komin var upp en var látin lafa áfram án allra lagfæringa og er nú farin að valda vandræðum. Auðvitað eiga þeir sem fyrir verðbólgunni verða í formi hækkaðra verðbóta enga heimtingu á því að fá hlut í því sem hæstiréttur hefur nú dæmt gengistryggingarfólki.

Ef peningar eru hinsvegar til og sanngirni gætt ætti þó að bæta þeim í einhverju sem skaðast hafa á verðtryggingunni ekki síður en öðrum. Kynslóðir skarast að sjálfsögðu en þær sveiflur sem verða (að óþörfu) í þjóðfélaginu vegna verðbóta, gengismunar og þessháttar ætti ekki að nota til að auka viðsjár milli þeirra.

Ef til vill má líkja hinu íslenska ástandi við pendúlslátt. Pendúllinn hefur sveiflast mjög langt frá Ólafslögunum og því ástandi sem þá ríkti og hlýtur að fara til baka. Hvernig og hversu langt er bara spurningin.

Það væri að æra óstöðugan að ætla sér að tína upp undarlegheitin og villurnar hjá fjölmiðlum landsins. Í stuttu máli sagt þá eru þeir ekki nógu góðir og ekki er annað að sjá en prófarkalestur sé með öllu aflagður hjá þeim. Sé um vefmiðla að ræða þá er oft búið að leiðrétta bögumælin áður en aðfinnslan kemur. Hér koma nokkur fyndin dæmi um það sem ég á við. Flest þeirra eru mjög nýleg.

Í frásögn af tónleikum þar sem leitað var á tónleikagestum að eiturlyfjum var sagt að: „Lögreglan hefði verið með hundinn í hurðinni." Það er svosem ekkert nýtt að orðunum dyr og hurð sé ruglað saman en blaðamenn ættu ekki að gera þessi mistök.

Í einhverri frásögn um daginn var sagt að drengur sem festist í sandbleytu hefði: „Staðið í sandinum upp að mitti á öðrum fæti". Óskiljanleg ósköp.

Í frásögn af mótmælunum við seðlabankann var sagt að einhver hefði: „Stuggað við aðaldyrunum." Vonandi að þær hafi ekki fælst alvarlega við það.

Blaðamenn eru oft ekki vel að sér í landafræði. Man ekki eftir neinum ákveðnum dæmum en oft hefur mér fundist að í þeirra huga næði t.d. Hellisheiðin alveg niður að Rauðavatni.

Eftirfarandi er orðrétt frásögn af visi.is: Andri Snær var í dágóðan tíma að elta köttinn til að koma honum út úr íbúðinni. Hann reyndi að fá köttinn til að fara út en hann hljóp alltaf frá honum. Hann fór meðal annars upp á sjónvarpið inn í stofu og braut styttu og kertastjaka. Hvers vegna Andri Snær fór uppá sjónvarpið er mér hulin ráðgáta.

Þetta er orðið ógislega langt hjá mér svo nú er ég hættur og farinn að sofa.


1070 - Ríkisbensín og ríkisbuxur

Auðvitað er mesta óhæfa að hafa öll þessi olíufélög eins og Egill Helgason og sjálfur forstjóri ekki neins (úps ég meina N1) hafa bent á. Alveg er ég á sama máli og Marteinn Mosdal. Fyrst verið er með ríkisstjórn á annað borð er eins gott að hafa allt bara ríkis- eitthvað. Við drekkum hvort eð er mestmegnis ríkismjólk og borgum þegjandi og ánægð okkar ríkis-skatta og ríkis-icesave. Bless frjálsa samkeppni þú hefur brugðist. 

Allt sem snertir gengistryggðu lánin er enn tilfinningaþrungnara en Icesave og er þá mikið sagt. Líklega er best að vera alveg skoðanalaus í þessu efni. Er samt óðum að komast á þá skoðun að núverandi ríkisstjórn ráði alls ekki við allan þann vanda sem að steðjar. En hvað tekur þá við? Því er vandsvarað. Mig hryllir við að afhenda útrásarvíkingunum völdin aftur, en það óttast ég að verði afleiðingin af því að fá hrunflokkana til valda að nýju.

Þetta má vitanlega skilja á ýmsa vegu. Engir flokkar kannast ógrátandi við að vera skyldir hrunflokkunum. Vandræði okkar Íslendinga tengjast þó pólitík og stafa eingöngu af lélegu stjórnarfari til margra áratuga. Allir flokkar eru hrunflokkar. Líka þeir sem verið hafa lengst til vinstri. Kanahatur þeirra á árum áður þrýsti mörgum skynsömum manninum til þeirrar óðavitleysu sem viðgengist hefur í stjórnmálum hérlendis lengi undanfarið.

Undarlegt að menn skuli ennþá fjasa um sveigjanleik krónunnar og dásama hana fyrir það. Þessi sveigjanleiki hefur eingöngu verið notaður til þess að auðvelda útgerðarauðvaldinu að lækka laun fólks. Evran er vond en krónan er góð segir fólk unnvörpum. Það hefur ekkert með inngöngu í ESB að gera að öðru leyti en því að evran verður ekki tekin upp án inngöngu í ESB.


1069 - BBS o.fl.

Gæti svosem haldið áfram að fjasa um skilningarvitin en nenni því ekki. Eitt af því sem verður meira áberandi þegar maður eldist er hvað maður nennir fáu. Athyglisverð athugasemdin frá hinum bráðunga Guðmundi Bjarnasyni hér við bloggið mitt í gær. Man vel hvað okkur þóttu BBS-in merkileg í gamla daga. 

Vorum við svona langt á undan okkar samtíð? Held ekki. En skilningur okkar á því hvað væri merkilegt var ekki sá sami og annarra . Flestum fannst asnalegt að nota símann til annars en að kjafta í hann. Nú heyrir þetta allt saman sögunni til og þykir fáum merkilegt. Varla öðrum en einstöku grúskurum.

Sem dæmi um það hve skilningur fólks á eðli tölvusamskipta var takmarkaður á þessum tíma man ég eftir grein um BBS í Morgunblaðinu sem sennilega birtist þar eftir að við BBS-arar buðum upp á útlandasamband fyrir afar lítinn pening.

Þar var óskapast yfir okrinu hjá íslenskum BBS-um og birt númer í Bandaríkjunum þar sem sagt var að hægt væri að ná sambandi við ókeypis BBS. Enda væru þau oftast ókeypis í Guðs eigin landi. Greinarhöfundur gætti þess bara ekki að til að ná sambandi við þetta númer þurfti að borga Pósti og Síma óheyrilegt gjald. Margfalt BBS-mánaðargjald fyrir viðtalsbilið.

Þjónusta margra BBS-a á Íslandi var reyndar ókeypis og almennt var þjónusta þeirra ódýr. Sennilega alltof ódýr enda lognuðust þau útaf í samkeppninni við Internetið.

Þegar ég var nýkominn úr baði í gær fann ég upp nýtt spakmæli. Það er svona: „Aumur er úrlaus maður ." Ég var nefnilega búinn að finna gleraugun og leit á handlegginn á mér til að vita hvað klukkna væri. Minnir mig á orðið„Kúbúá", sem söguhetjan í „Sulti" fann upp í svengd sinni og umkomuleysi. Frábær saga. Vildi að ég ætti hana ólesna.

Merkilegt að Guðmundur skuli segjast vera háður því að lesa bloggið mitt. Ég er nefnilega orðinn háður því að skrifa það. Sama hve vitlaust það er. Það er þó að minnsta kosti eitthvað öðruvísi en flest önnur. Það finn ég vel.

Ein röksemd þeirra sem tjáð hafa sig um gjaldeyrisdóm hæstaréttar er að það sé svo afskaplega flókið (fyrir bankana) að reikna út alla þessa mismunandi samninga. Sú röksemd er að engu hafandi. Fyrir um 50 árum reiknaði ég út ullaruppbót fyrir alla bændur á Suðurlandi (Viðskiptamenn KÁ og MBF). Vissulega var það dálítið verk en síðan hafa orðið framfarir í tölvutækni og nú er þetta alveg áreiðanlega bara spurning um forritunarvinnu sem stendur ekki í neinu sambandi við fjölda samninganna.

Og nokkrar myndir.

IMG 2225Brosandi steinn með eitt auga og neflaus.

IMG 2233„Kríuskítur og kamrafretur" (þ.e.a.s. sígarettur)

IMG 2251Í öruggu skjóli.

IMG 2276Auðvitað er andlit efst á þessum fjára.

IMG 2163„Hæg er leið til helvítis,
hallar undan fæti."


1068 - Bjölluat í Brussel

Er umsókn okkar Íslendinga kannski ekkert annað? Allt í plati við meintum þetta ekkert. Eru atkvæði aumingja þingmannanna einskis virði? Sumir í vinstri grænum greiddu atkvæði með umsókn þó þeir séu á móti henni. Sögðu þeir að minnsta kosti. Sumir sem atkvæði greiddu á móti voru örugglega í hjarta sínu meðmæltir umsókn, en flokkshandjárnin héldu. Breski íhaldsflokkurinn er á móti aðild en ætla Bretar að ganga úr ESB? Nei, aldeilis ekki. Þar líður þeim vel. Geta andskotast á minni máttar án þess að ESB skipti sér af því. 

Jón Bjarnason er á móti ESB-aðild. Samt er hann ráðherra í ríkisstjórn sem hefur sótt um aðild og mun auðvitað reyna með öllu móti að koma í veg fyrir hana. Eflaust eru fleiri mótfallnir aðild en meðmæltir. Þessvegna lætur Bjarni Ben. svona. Ef þetta snerist nú við á næstunni, ætli Bjarna finnist að við ættum þá að sækja um aftur?

Að gengistrygging njóti forgangs gagnvart verðtryggingu er kannski ekki sanngjarnt, en sanngirni hefur hingað til ekki haft neinn forgang í samskiptum manna. Síst af öllu þegar peningar eru annars vegar.

Maðurinn hefur fimm skilningarvit: Sjón, heyrn, ilman, smekk og tilfinningu. Svona lærði ég romsuna endur fyrir löngu. Smekkur á við bragðskyn og tilfinning við snertiskyn. Oft er talað um sjötta skilningarvitið og þá er átt við skilning sem erfitt er að skýra hvernig fenginn er. Getur verið draugagangur, trúarreynsla, röntgensjón og hvað sem er.

Mörg dýr hafa greinilega annarskonar skilningarvit en við. Ekki dugir að spyrja þau svo við vitum lítið um hvernig þau eru. Menn (t.d. nautabanar) geta lært ágætlega á viðbrögð dýra við ýmsu áreiti en það segir ekki endilega mikið um skilningarvitin.

Sú blanda sem heili mannsins myndar samkvæmt tilkynningum frá þessum skilningarvitum gerir hvern einstakling einstakan. Við getum aldrei verið alveg viss um að aðrir skynji heiminn á sama hátt og við.


1067 - Már Högnason

Nú er Már Högnason byrjaður aftur að kveða sínar kersknisvísur hér á Moggablogginu. Gaman að því. Víst eru vísurnar góðar og margir sem fylgjast með þeim. Kannski ég fari að dæmi hans og reyni að yrkja hér á Moggabloggið. Minnir að ég hafi verið með sérblogg sem ég notaði til þess arna. Athuga það.

Már hefur sinn sérstaka stíl og Gísli fóstri hans einnig. Alvöruleysi og snilld Más á ég erfitt með að tileinka mér. Hann er líka góður í limrum sem ég kann alls ekki að gera. Man samt að einhverntíma fóru vinsældir vísnabloggsins míns framúr vinsældum alvörunnar. Gerði alltaf ráð fyrir að það væri vegna þess að þær voru bara um fréttir mbl.is og linkaðar í þær. Vísnavinir á Íslandi eru þó margir.

Man að mér líkaði hvað verst við Má þegar hann beindi spjóti sínu að okkur Moggabloggurum og þóttist miklu betri þó hann væri slíkur  sjálfur. Betra og verra er ekki til í bloggheimum og þó Mogginn reyni að flokka sína bloggara eftir vinsældum og öðru er lítið að marka það. Það er bara hægt að geðjast sínum eigendum eða ekki og eigendurnir spegla sig í ímynduðum vinsældum viðhlæjenda sinna.

Eiður Guðnason heldur áfram að gagnrýna málfar og gerir það vel. Þegar hann bregður útaf því finnst mér hann vera einum of pólitískur. Stundum skrifar hann líka um sitt uppáhaldsefni sem er sjónvarpið þar sem hann vann lengi. Mér finnst of mikil einhæfni í málfarsgagnrýni hans. Með tímanum hefur hann þó auðvitað áhrif. Íslenska eldri kynslóðarinnar heldur samt áfram að vera öðruvísi en íslenska unga fólksins. Við því er ekkert að gera.

Miðlarnir og bloggeigendurnir setja þó sín viðmið og ætlast til að þeim sé fylgt. Eftir að Netið kom þurfa menn ekki að hlíta þeim viðmiðum frekar en þeir vilja. Um það ber fésbókin vitni og nútildags geta bloggarar bara farið eitthvert annað ef þeim líkar ekki við eigendur bloggsins. Þannig verður það ansi lítið sem eigendurnir geta ráðið.

Guðbjörn Guðbjörnsson segir á sínu bloggi: „Við miðju- hægrimenn eigum betra skilið en þennan þjóðernissinnaða íhaldsflokk, sem kallar sig Sjálfstæðisflokk." Vel sagt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband