1070 - Ríkisbensín og ríkisbuxur

Auðvitað er mesta óhæfa að hafa öll þessi olíufélög eins og Egill Helgason og sjálfur forstjóri ekki neins (úps ég meina N1) hafa bent á. Alveg er ég á sama máli og Marteinn Mosdal. Fyrst verið er með ríkisstjórn á annað borð er eins gott að hafa allt bara ríkis- eitthvað. Við drekkum hvort eð er mestmegnis ríkismjólk og borgum þegjandi og ánægð okkar ríkis-skatta og ríkis-icesave. Bless frjálsa samkeppni þú hefur brugðist. 

Allt sem snertir gengistryggðu lánin er enn tilfinningaþrungnara en Icesave og er þá mikið sagt. Líklega er best að vera alveg skoðanalaus í þessu efni. Er samt óðum að komast á þá skoðun að núverandi ríkisstjórn ráði alls ekki við allan þann vanda sem að steðjar. En hvað tekur þá við? Því er vandsvarað. Mig hryllir við að afhenda útrásarvíkingunum völdin aftur, en það óttast ég að verði afleiðingin af því að fá hrunflokkana til valda að nýju.

Þetta má vitanlega skilja á ýmsa vegu. Engir flokkar kannast ógrátandi við að vera skyldir hrunflokkunum. Vandræði okkar Íslendinga tengjast þó pólitík og stafa eingöngu af lélegu stjórnarfari til margra áratuga. Allir flokkar eru hrunflokkar. Líka þeir sem verið hafa lengst til vinstri. Kanahatur þeirra á árum áður þrýsti mörgum skynsömum manninum til þeirrar óðavitleysu sem viðgengist hefur í stjórnmálum hérlendis lengi undanfarið.

Undarlegt að menn skuli ennþá fjasa um sveigjanleik krónunnar og dásama hana fyrir það. Þessi sveigjanleiki hefur eingöngu verið notaður til þess að auðvelda útgerðarauðvaldinu að lækka laun fólks. Evran er vond en krónan er góð segir fólk unnvörpum. Það hefur ekkert með inngöngu í ESB að gera að öðru leyti en því að evran verður ekki tekin upp án inngöngu í ESB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband