1071 - Fésbók, Ólafslög o.fl.

Alltaf er ég að læra betur og betur á þessa blessaða Fésbók (eða Fasbók eins og Páll Bergþórsson og fleiri vilja kalla hana). Meira að segja Farmville er hætt að trufla mig eins mikið og áður. Bréfskákin er það sem ég sinni mest þarna og þó ég hafi um daginn verið lækkaður um meira en 500 stig þar þá er mér alveg sama. Þetta var útaf einhverjum misskilningi sem alveg eins getur verið mér að kenna. 

Linkaðar myndir eru ekki minn tebolli. (allra síst í athugasemdum - þar er það of flókið mál) Hef samt notað slíkt en það vofir alltaf yfir manni að linkfjárinn bendi á eitthvað annað en til var ætlast. Veit að þetta er langsótt og stutta skýringin er sú að ég nenni helst ekki að linka í myndir annarra. Ég er ekki svona heiðarlegur þó ég vildi gjarnan vera það. Það sem viðgengst á Netinu í dag er það sem viðgengst í kjötheimum á morgun.

Verðtrygging og skyld mál eru ekki til vinsælda fallin hér á  blogginu. Þeir sem um þau skrifa eru fyrst og fremst að láta ljós sitt skína. Eins gott að það ljós sé sæmilega skýrt. Mitt hefur varla verið það hingað til. Ég man vel eftir ástandinu sem hér var um og fyrir 1980. Þá var það orðið augljóst að sú kynslóð sem öllu réði var önnum kafin við að stela þeim peningum sem aðrir voru svo vitlausir að geyma á banka.

Með svokölluðum Ólafslögum sem mig minnir að hafi verið sett um þetta leyti var verðtryggingin fundin upp. Hún leiðrétti talsvert þá hrikalegu skekkju sem komin var upp en var látin lafa áfram án allra lagfæringa og er nú farin að valda vandræðum. Auðvitað eiga þeir sem fyrir verðbólgunni verða í formi hækkaðra verðbóta enga heimtingu á því að fá hlut í því sem hæstiréttur hefur nú dæmt gengistryggingarfólki.

Ef peningar eru hinsvegar til og sanngirni gætt ætti þó að bæta þeim í einhverju sem skaðast hafa á verðtryggingunni ekki síður en öðrum. Kynslóðir skarast að sjálfsögðu en þær sveiflur sem verða (að óþörfu) í þjóðfélaginu vegna verðbóta, gengismunar og þessháttar ætti ekki að nota til að auka viðsjár milli þeirra.

Ef til vill má líkja hinu íslenska ástandi við pendúlslátt. Pendúllinn hefur sveiflast mjög langt frá Ólafslögunum og því ástandi sem þá ríkti og hlýtur að fara til baka. Hvernig og hversu langt er bara spurningin.

Það væri að æra óstöðugan að ætla sér að tína upp undarlegheitin og villurnar hjá fjölmiðlum landsins. Í stuttu máli sagt þá eru þeir ekki nógu góðir og ekki er annað að sjá en prófarkalestur sé með öllu aflagður hjá þeim. Sé um vefmiðla að ræða þá er oft búið að leiðrétta bögumælin áður en aðfinnslan kemur. Hér koma nokkur fyndin dæmi um það sem ég á við. Flest þeirra eru mjög nýleg.

Í frásögn af tónleikum þar sem leitað var á tónleikagestum að eiturlyfjum var sagt að: „Lögreglan hefði verið með hundinn í hurðinni." Það er svosem ekkert nýtt að orðunum dyr og hurð sé ruglað saman en blaðamenn ættu ekki að gera þessi mistök.

Í einhverri frásögn um daginn var sagt að drengur sem festist í sandbleytu hefði: „Staðið í sandinum upp að mitti á öðrum fæti". Óskiljanleg ósköp.

Í frásögn af mótmælunum við seðlabankann var sagt að einhver hefði: „Stuggað við aðaldyrunum." Vonandi að þær hafi ekki fælst alvarlega við það.

Blaðamenn eru oft ekki vel að sér í landafræði. Man ekki eftir neinum ákveðnum dæmum en oft hefur mér fundist að í þeirra huga næði t.d. Hellisheiðin alveg niður að Rauðavatni.

Eftirfarandi er orðrétt frásögn af visi.is: Andri Snær var í dágóðan tíma að elta köttinn til að koma honum út úr íbúðinni. Hann reyndi að fá köttinn til að fara út en hann hljóp alltaf frá honum. Hann fór meðal annars upp á sjónvarpið inn í stofu og braut styttu og kertastjaka. Hvers vegna Andri Snær fór uppá sjónvarpið er mér hulin ráðgáta.

Þetta er orðið ógislega langt hjá mér svo nú er ég hættur og farinn að sofa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll.

Er ekki heiti Páls Bergþórssonar á Facebook Snjáldurskinna ? Mig minnir að ég hafi heyrt Sigurð G. Tómasson nefna það.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 6.7.2010 kl. 02:10

2 Smámynd: Óskar Arnórsson

Óþolandi þetta íslenska hrognamál. Maður er hættur að skilja það almennilaega. það koma ný orð alveg á færibandi hver öðrum vitlausari...má Facebook ekki bara heita Facebook?

Óskar Arnórsson, 6.7.2010 kl. 03:07

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er löng og mikil umræða um þetta tiltekna orð á Facebook-síðu Sigurðar Þórs Guðjónssonar og mín vegna má svosem ræða málið hér. Í þessari umræðu tekur Páll Bergþórsson til máls og mælir með fasbók. Um hitt veit ég ekki.

Í mínum huga er fyrst einmitt sú spurning Óskars Arnórssonar hvort einhver þörf sé á að íslenska nafnið. Íslendingar virðast vera þannig að þeir vilja það mjög margir.

Ég hef einkum notað orðið fésbók. Neita samt alls ekki niðrandi blæ þess orðs. Hann gæti þó horfið með tímanum. Helstu kosti tel ég vera: 1. Allir skilja þetta. 2. Bein þýðing. 3. Líking með enska orðinu mikil.

Mér finnst ekki neinn galli þó mörg orð séu til um sama fyrirbrigðið. Allmargir virðast hafa horn í síðu fésbókar nafnsins og auðvitað er það galli. Þróunin til íslenskunnar spyr þó ekki að því.

Kannski er hinn niðrandi blær orðsins einmitt ástæða þess ásamt ýmsu öðru að það hefur náð svo mikilli útbreiðslu. Þeir sem eru andsnúnir fésbókarfyrirbrigðinu geta þó allt eins ráðið því hvaða orð verður einkum notað um þetta. Mér finnst fésbókin vera fremst eins og er.

Sæmundur Bjarnason, 6.7.2010 kl. 07:38

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

það verða alveg ótrúlega mörg orð algjör brandari á íslensku. Getur einhver sagt mér hvað Jórvík þýðir? Orðið fés er skammaryrði um andlit. Ég á ekki von á að íslendingar breyti merkingu og innhaldi orðs vegna samskiptaforits...

Óskar Arnórsson, 6.7.2010 kl. 08:25

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

....smettisskrudda? Er það ekki gaman fyrir útlendinga að smjatta á og læra sem eru að ræða þetta fornmál til að geðjast íslendingum?

Óskar Arnórsson, 6.7.2010 kl. 08:26

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ekki vera svona hræddur um hvað útlendingar hugsa um þig eða Íslendinga yfirleitt. Kannski hugsa þeir afar sjaldan um þá. Íslendingar eru skrýtnir og vílja hafa nöfn á öllum fjáranum á íslensku og ekki bara til þess að útlendingar skilji þá ekki.

Annars var ég að lesa grein þína um trúarfíkn og í framhaldi af því gúglaði ég nafnið Ibogaine og finnst margt mjög athyglisvert í því sambandi. Greinin líka ágæt og vekjandi.

Sæmundur Bjarnason, 6.7.2010 kl. 11:21

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Frá fornu fari höfum við Íslensk heiti yfir lönd og erlendar borgir. Hefðarinnar vegna þykir mér í lagi að halda í þau. Þess utan er ég mótfallinn því að íslenska erlend sérnöfn.

Kæmi til mín einhver John Johnsson, færi ég ekki að kalla hann Jón Jónsson.

Brjánn Guðjónsson, 6.7.2010 kl. 11:51

8 Smámynd: Óskar Arnórsson

Kanski er ég bara þreittur á þessari íslensku. Konan mín er útlens og talar enga íslensku, og bara eitt af 6 börnum talar íslensku. Ég sjálfur bý ekki á Íslandi og blogga til að viðhalda íslenskuni. Já þetta með Ibogaine. Það er á heimasíðu allt það nýjasta, www.scandicpro.se Segðu sem flestum frá því. Upplýsingadreyfing bjargar mannslífum...

Óskar Arnórsson, 6.7.2010 kl. 20:35

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú spyrð hvort einhver þörf sé á að íslenska nafnið. Svarið blasir við: Orðið facebook er mjög sjaldan notað en oftast einhvers konar íslensk nöfn, t.d. fésbók. Það bendir til þess að mönnum finnist í rauninni erfitt að vera að nota útlent orð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.7.2010 kl. 22:02

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður. Kannski og kannski ekki. Það er ekki víst að það sem við lesum og heyrum sé dæmigert. Mér finnst margir tala um facebook, sennilega fleiri en um fésbók. Framburður og stafsetning er þó sitthvað. Sumir skrifa líka feisbúkk eftir framburði. Mér finnst aðalmunurinn milli íslenskra og útlendra orða oft vera að lítill vafi er um framburð á íslenskum heitum en meiri á útlendum.

Sæmundur Bjarnason, 6.7.2010 kl. 23:13

11 Smámynd: Óskar Arnórsson

Halldór Killjan Laxness hlýtur að hafa verið meira enn lítið þreittur á íslenskunni...

Óskar Arnórsson, 6.7.2010 kl. 23:55

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

HKL var hinn mesti íslenskuhundur þó hann notaði svolítið öðruvísi stafsetningu en flestir aðrir. Margir Íslendingar kunna hrafl í öðrum tungumálum án þess að vera minni íslenskumenn fyrir vikið.

Sæmundur Bjarnason, 7.7.2010 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband