Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

1086 - Marínó G. Njálsson

Einn er sá bloggari sem stórar skoðanir hefur á hrunsmálum og hefur risið uppúr meðalmennskunni með því. Þetta er Marínó G. Njálsson. Það er einfaldlega vegna þess að hann er talnaglöggur með afbrigðum og segir það sem hann meinar. Marínó er vinsæll álitsgjafi hjá fjölmiðlum. Það er engin furða. Blaðamenn vita oftast fremur lítið í sinn haus þó ætlast sé til að þeir hafi vit á nánast öllu. 

Eflaust mun Marínó enda í framboði einhverns staðar þegar kosið verður næst. Hann þarf samt að gæta þess að vera ekki eins áfjáður í vegtyllurnar og sumir hafa verið að undanförnu.

Gagnrýni á ríkisstjórnina er í tísku. Bæði frá hægri og vinstri. Slík gagnrýni er auðveld en ekki víst að hún mundi skila sér vel í kjörkassana ef kosið væri á næstunni. Einkum er auðvelt að ásaka stjórnvöld um aðgerðarleysi. Aðgerðarleysi var á margan hátt aðaleinkenni stjórnvalda í aðdraganda hrunsins. Það voru útrásarvíkingar og handbendi þeirra sem stjórnuðu því sem þeir vildu stjórna.

Betra er samt að veifa röngu tré en öngu. Þetta mættu núverandi stjórnvöld hafa í huga. Kannski er það einmitt þess vegna sem orðrómur er um að þau ætli að setja lög á gengistryggingarvitleysuna. Gott ef Magma-málið er ekki af svipuðum rótum runnið.

Mannkynsfrelsurum hefur fjölgað á Íslandi að undanförnu. Af eðlilegum ástæðum eru forystumenn stjórnmálaflokkanna meir undir þessa sök seldir en aðrir. Gangrýnendur ríkisstjórnarinnar ættu þó að gæta þess að gagnrýni þeirra sé ekki álitin til þess eins ætluð að reyna að koma ríkisstjórninni frá.

Ég kveinka mér ekkert undan því að vera kallaður Samfylkingarmaður. Gekk ekki Ómar Ragnarsson með öllu sínu góssi í Samfylkinguna á sínum tíma? Ekki er mér vandara um en honum. Gæti hann ekki verið ESB-sinni líka? Og jafnvel kattavinur? Ég bara spyr.

Og nokkrar myndir í lokin:

005Úr villta vestrinu á Akranesi.

004Og þessi er þaðan líka.

025Haldið á vit hins óþekkta.

035Þykkblöðungur, eða hvað?

038Verk tveggja úrvals-steinsmiða. Steininn nær lagaði Páll á Húsafelli svolítið til.

022Listilegur listigarður.


1085 - Tónlist og trúmál

Sigurður Þór Guðjónsson getur skrifað um tónlist eins og það sé eitthvert vit í henni. Auðvitað er þetta bara háttbundinn hávaði sem margir þykjast geta lesið allar fjárann í. Láta sér jafnvel detta í hug að spá í hvað tónskáldið meinar. Eins og hægt sé að setja það í orð. Þá væri nær að semja greinargerð um tónverkið og láta það duga.

Svokallað tóneyra hef ég aldrei haft. Hróðmar kennari sem eitt sinn kenndi okkur söng þegar ég var í barnaskóla úrskurðaði mig laglausan. Það var stórgott því þá þurfti maður ekki að mæta í söngtíma og gat í staðinn ærslast eitthvað eða jafnvel farið í sund. Einhverjir voru í sama bát og ég að þessu leyti. Man eftir að Lalli Kristjáns var það. Atli Stefáns var hinsvegar látinn reyna aftur. Man ekki hvort betur tókst til hjá honum í það sinnið.

Á þennan hátt losnaði ég við alla söngónáttúru og lét duga að hreyfa varirnar pínulítið þega skólasöngurinn var sunginn á hverjum morgni og fáein önnur lög að auki. Snemma hef ég farið að hafa gaman af textaútúrsnúningum því textinn við eitt lagið byrjaði alltaf svona hjá mér: „Nú blikar við sólarlag sætsúpan köld." Annað byrjaði hinsvegar svona: „Eldgamalt ýsubein, hrökk onaf sveskjustein, langt út á sjó."

Best eru blogg þegar bloggarinn er ekkert að hugsa um lesendur sína. Lætur bara eins og hann sé að tala við sjálfan sig. Man eftir manni á elliheimilinu Ási í Hveragerði sem gekk mikið fram og aftur um göturnar þar í hrókasamræðum við sjálfan sig. Þetta var fyrir daga pínulitlu og handfrjálsu farsímanna sem láta notendur sína líta út eins og þeir séu að tala við sjálfa sig.

Kristinn Theódórsson og Grefillinn sjálfur eru að fara í gang með trúmálaumræðu á bloggi Kristins sem hann kallar „Gruflað og pælt". Þar verður rætt um hvort trúleysi sé trú og reynt að hafa svolitla stjórn á galskapnum. Mín reynsla er að trúmálaumræður fari oftast út um víðan völl og skili engu. Þeir ætla að reyna að hafa þetta bæði kurteislegt og „under control". Vona bara að það takist. Veit að talsvert margir munu fylgjast með þessu.

Yfirleitt er ég afskaplega seinþreyttur til undirskrifta. Er til dæmis ekki enn búinn að ganga í Ómarshópinn á fésbókinni hvað sem síðar verður. Sumir eru svo undirskriftaglaðir og mótmælasinnaðir að það tekur engu tali. Vil helst hugsa mig vandlega um áður en ég tek þátt í svona löguðu. Veit heldur ekki betur en það sé í september í haust sem Ómar á afmæli. Vonandi verð ég búinn að hugsa mig um þá.

Uppá síðkastið hefur veðrið verið þannig að ekki hefur verið hægt að haldast súrmúlandi við innandyra. Nokkrar úðflúgtir höfum við því farið í og ljósmyndalager minn hefur vaxið að undanförnu.


1084 - Bloggið ógurlega

Mikið skil ég Sigga Þór vel þegar hann segir að bloggið sé ógeðslegt og leiðinlegt. Samt er það ómótstæðilegt. Kannski er hann kominn lengra á þroskabrautinni með því að fíla fésbókina betur. (Eða fasbókina - ætla samt helst ekki að gefa mig) Mér finnst fésbókin uppáþrengjandi og staglsöm. Sennilega þarf ég bara að stjórna henni með markvissari hætti og stilla hana betur inná sjálfan mig og mínar þarfir. En þá missir maður af svo mörgu sem er í rauninni athyglisvert.

Einhver sagði (líklega á bloggi) að Daníel Hannan væri dæmi um örvæntingarfullan innflutning á breskum sérvitringum. Sammála því. Það þarf enga útlendinga til segja manni að ESB sé ómögulegt. Margir slíkir eru þeirrar skoðunar. Sumir segja að Samfylkingarmenn séu í hjarta sínu á móti ESB en láti svona vegna flokksforystunnar. Öfugt er þessu farið með mig. Er fyrir löngu orðinn sannfærður um að ESB henti okkur ekkert ver en öðrum.

Er sammála Villa í Köben um að pólitíkin er óttalega leiðinleg. Kannski erum við pínulítið líkir þegar allt kemur til alls. Hann talar um Ísrael en ég um blogg. Bæði fyrirbrigðin eru umdeild.

Er ég einn um það að vera alltaf að fá Nígeríubréf eða eru bara allir hættir að tala um þau? Hér er það nýjasta. Mér finnst aðferðafræðin fara batnandi: (greinaskilum og þessháttar sleppt.)

Greetings,
I understand that through Internet is not the best way to link up with you because of the confidentiality which my proposal demands.
However, I have already sent you this same letter one month ago,but I am not sure if it did get to you since I have not heard from you, hence i am constrain to reach you through the Internet which has been abused over the years.
I wish to notify you again that You were listed as a Heir to the total sum of (Three Million Six Hundred Thousand British Pounds) in the codicil and last testament of the deceased.(Name now withheld since this is our second letter to you). We contacted you because you bear the surname identity and therefore can present you as the Heir to the inheritance funds.
Please indicate your interest immediately for us to proceed. I shall feed you with full details of this transaction upon receipt of your reply towards this proposal.
All the legal papers will be processed in your acceptance. In your acceptance of this deal, we request that you kindly forward to us your letter of acceptance; your current telephone and fax numbers and a forwarding address to enable us file necessary documents at our high court probate division for the release of this sum of money.
I look forward to hearing from you.
Mr.Anthony Martin Esq.
Clive Fullerton
Trevor Smyth & Co
Chester House, 13 Chichester Street,
Belfast, BT 1 4JB
Private Telephone +4470111 83445

Og fáeinar myndir:

002Útimarkaður í Mosfellsdal.

011Kaka á útimarkaðnum.

017Skammt frá Reykjakoti við Hveragerði.

078Mallhvít og dvergarnir sjö.

063Fuglahús á stöngum.

082Reykjafoss.


1083 - Satt og logið

Satt og logið sitt er hvað.
Sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það,
þegar allir ljúga? 

Segir í vísunni alkunnu. Þetta getur einmitt stundum orðið að vandamáli í bloggheimum.

Alvöruleysi bloggsins er einn af ókostum þess. (Eða kostum. Ekki er vafi á að það er fyndnara fyrir vikið). Sjálfur hef ég gaman af vefjum eins og baggalutur.is og sannleikurinn.is. Þar er þó hægt að ganga útfrá því að allt sé argasti uppspuni sem sagt er. Sumir (þar á meðal Villi í Köben) blanda alvöru og alvöruleysi svo listilega saman að oft er erfitt er að gera greinarmun á sönnu og lognu. Heimspekilega má auðvitað halda því fram að ímyndun sé jafnraunveruleg og annað. Skáldsögur er oft reynt að hafa sem sennilegastar o.s.frv.

Ég hef sjálfur brennt mig á því að segja eitthvað sem alls ekki er rétt. Þetta getur stundum orðið freisting því auðvitað finnst manni að aðrir ættu að sjá það í hendi sér jafnvel og maður sjálfur að tilteknir hlutir eru uppspuni einn. Svo er bara ekki. Mannshugurinn er þannig að alltaf má búast við að þeir finnist sem trúa jafnvel því ótrúlegasta.

Hefðbundnum fréttamiðlum er vorkunn. Ætíð er búist við því af þeim að þeir geti auðveldlega gert greinarmun á sönnu og lognu. Margir stunda þá íþrótt að ljúga sennilega og auðvitað verða fjölmiðlar stundum fyrir barðinu á slíkum ugluspeglum.

Sumir eru aftur á móti haldnir svo mikilli sannleiksást (þar á meðal ég - kannski) að hátíðleikinn beinlínis lekur af þeim. Slíkir bloggarar virðast stundum halda að því orðljótari sem þeir eru þeim mun merkilegri og eftirtektarverðari séu þeir.

Á það til að ruglast á bloggum þeirra Jens Guðmundssonar og Ómars Ragnarssonar enda eru þau lík í útliti. Sérstaklega er þetta áberandi ef ég les kommentin hjá þeim. Þau eru líka oft ágæt. Báðir eru þeir afburðabloggarar án þess þó að vera í rauninni nokkuð líkir.

Mikið er talað um Pokasjóð þessa dagana án þess að minnst sé á það sem mér finnst athyglisverðast við það mál. Eru ekki Baugsverslanir með sérstakan Pokasjóð og úthluta úr honum á sinn hátt? Það er eins og mig minni það. Af einhverjum ástæðum kunna verslanir ekki við að græða á burðarpokum. Hvers vegna er það?


1082 - Þjóðarsáttin 1990

Stundum finnst mér eins og bloggið mitt hafi einhver áhrif. Þá á ég ekki endilega við að skoðanir lesenda breytist í átt við það sem mér finnst. Heldur að einhverjir taki skrif eftir mig til greina að einhverju leyti og haldi áfram með hugsunina og hún komist þannig í útbreiddari fjölmiðla og hafi þar með áhrif. Mér finnst nefnilega að stundum sé ég frumlegur og að fram komi í mínu bloggi sjónarmið og annað sem ekki er að finna allsstaðar annars staðar. 

Las í gær grein um þjóðarsáttina margfrægu frá árinu 1990. Þessi grein birtist í 29. árgangi tímaritsins „Sagnir" frá árinu 2009 og er eftir Árna H. Kristjánsson. Þetta rit fékk ég lánað á bókasafninu og las strax þessa grein frá upphafi til enda. Man vel eftir þjóðarsáttinni og var svolítið innblandaður í verkalýðsmál á þeim tíma og fyrr. Sat meðal annars nokkur ASÍ-þing og tók þátt í samningafundum. Ævisögu Steingríms Hermannssonar las ég á sínum tíma og hreifst mjög af henni. Man líka vel eftir Steingrími. Í mínum huga var hann einn af merkustu stjórnmálamönnum Íslands.

Í þessari grein er rætt um þjóðarsáttina svonefndu og hverjir hafi átt frumkvæðið að henni og átt mestan heiður af því að hafa komið henni á laggirnar. Höfundur greinarinnar berst við það sem hann kallar goðsögnina um þetta mál. Enginn vafi er á að þetta er einhver mesti stjórnmálasigur hérlendis á seinni hluta síðustu aldar. Til siðs er að þakka þetta einkum aðilum vinnumarkaðsins sem svo eru kallaðir. Ríkisstjórnin hafi bara lufsast með af því að hún gat ekki annað. Þetta er viðtekinn hugsunarháttur og náði kannski hámarki sínu þegar Einar Oddur Kristjánsson féll frá langt um aldur fram.

Höfundur telur að ríkisstjórnin sem þá var hafi átt mikinn þátt í þessum atburði og rekur upphaf hans til hugmynda Þrastar Ólafssonar frá 1986. Þá var hann formaður Dagsbrúnar og lagði fram hugmyndir sem svipaði talsvert til þeirra sem frægar urðu í þjóðarsáttinni umtöluðu árið 1990.

Ég er í hópi þeirra sem tel að ríkisstjórnin sem sat árið 1990 undir forystu Steingríms Hermannssonar hafi átt mikinn þátt í því að þjóðarsáttin varð að veruleika.  Sjálfur var ég mjög á móti henni og taldi ASÍ fórna alltof miklu með því að falla frá vísitölubindingu launa og hélt að slíkt gæti einungis staðist um skamma hríð.

Svo fór þó ekki og þau umskipti í lífskjörum sem orðið hafa síðan eru mikil. Vissulega hefur talsvert af þeim horfið með bankahruninu 2008 en samt tel ég þjóðarsáttina 1990 hafa verið til heilla fyrir þjóðina.

Skrapp til Hveragerðis um daginn. Þar var margt að sjá. Hér eru nokkrar myndir þaðan:

009Gufa úr fjallstoppi.

010Borhola.

031Grýla eða Grýta. Ekki er eining um hvort nafnið eigi að nota.

042Listaverkið „Þúfnahopp".

054Veit ekki hvað þessi veggur heitir en merkilegur er hann.

074Svona var umhorfs við Gamla Barnaskólann (sem reyndar er búinn að vera gamall ansi lengi.)


1081 - Ég vildi það sem ég vildi

Svo er margt rímið sem flímið.

Ég vildi það sem ég vildi.
Að rassinn á henni Hildi
yrði að stórum tólgarskildi.

Þetta er ekki eftir mig enda er ég enginn sérstakur tólgaraðdáandi. Sumir vita jafnvel ekki hvað tólg er. Kannski er hún ekki einu sinni seld í verslunum lengur. Hvað veit ég? Í mínu ungdæmi var lýsi og tólg oft hrært saman og úr varð bræðingur svonefndur sem notaður var sem viðbit á brauð. Ekki var hann góður en það mátti svæla honum í sig. En svona er ég víst orðinn gamall. Nútildags mætti mikið ganga á áður en fólk færi að nota bræðing ofan á brauð. Eða hræring á kvöldin en hann var gerður með því að hræra saman skyri og köldum hafragraut.

Öfgasinnaðir hægri menn nefna oft Kína sem valkost á móti ESB. Já, pólitíkin er oft mjög einkennileg. Verð að segja fyrir mig að heldur vildi ég ESB.

Það hvernig fólk skiptist nútildags hér á Íslandi eftir afstöðu til Icesave og ESB ber vott um afar ólíkan hugsunarhátt. Þessi ólíki hugsunarháttur kom áður fyrr einkum í ljós í sambandi við afstöðuna til veru Bandaríska hersins.

Vel má kalla andstöðu við þessi fyrirbrigði (Icesave og ESB) þjóðernissinnaða. Þróunin í heiminum er í áttina frá þjóðríkinu til aukinnar samstöðu og samvinnu milli þjóða. Auðvitað er ekki sjálfgefið að slík stefna sé alltaf til heilla.

Alllangt er síðan almennar styrjaldir hafa verið háðar. Áður fyrr virtist tortryggni og hatur milli þjóða leiða til víðtækra styrjaldarátaka með vissu millibili. Hugsanlegt er að ESB hafi rofið þann vítahring í Evrópu. Þjóðir sem vinna mikið saman fara síður í styrjaldir hver við aðra.

Hvaða blogg lesa bloggarar? Ég er nú svo innbilskur að halda að þar sé ég ekki neðstur á blaði. Ef dæma skal eftir athugasemdum þekkra bloggara hér þá eru þeir nokkrir sem lesa blogg mitt reglulega. Kannski er það vegna þess að ég hef náð betri tökum á Sæmundarhættinum í bloggi en þeir. Það er að blogga um blogg og þá aðallega um sjálfan sig. Mér hefur þó aldrei tekist að fá Stefán Pálsson til að kommenta hér.

Sníkjubloggun (sem er kannski hluti af Sæmundarhættinum) er glósa sem ég lærði af Hörpu Hreinsdóttur. Slík bloggun kom til umræðu í athugasemdum hjá mér í gær og tekur einkum til þess í mínum huga að menn skrifa þá langt mál og ýtarlegt í athugasemdum við önnur blogg í stað þess að blogga sjálfir. Menn eru sjaldnast langorðir í athugasemdum hér á mínu bloggi og auðvitað er gaman að fá slatta af þeim. Reyni oft að fjölga þeim svolítið sjálfur.


1080 - Að heltast úr lestinni

Það er erfitt að vera stuttorður og gagnorður. Stundum tekst það og stundum ekki. Oft verður malandinn svo mikill að maður missir athygli lesandans og það er það versta sem fyrir einn skrifara getur komið.

Margir lesanda minna muna eflaust eftir Steina Briem. Hann vandi komur sínar mjög á mitt blogg og mér þótti fremd að því. Svo fældi Gísli þýðandi hann í burtu með því að hallmæla skáldskap hans. Ég var að vona að hann kæmi aftur og færi að athugasemdast hérna en það er líklega borin von.

Steini Briem heitir Oliver Twist núna og fer sem logi yfir akur í Facebook-heimum. Það finnst mér að minnsta kosti. Eflaust er samt hægt að loka fyrir tilkynningar hans og líklega hafa sumir gert það. Hann les blöðin vel (aðallega Moggann þó) og virðist yfirleitt líka það sem hann les. 3903 vini á hann á fésbókinni svo ekki er hann á flæðiskeri staddur hvað það snertir.

Margir eru hissa á því að meinleysisgrey eins og ég skuli vera að Moggabloggast þetta daginn út og daginn inn eins og mér sé borgað fyrir það. Því er til að svara að ég er svo íhaldssamur að ég kann ágætlega við mig hérna á Moggablogginu þó því sé greinilega að fara aftur. Mér finnst ekki að mér sé að fara neitt aftur.

Á blogginu „Gruflað og pælt" sem ég held að Kristinn Theódórsson skrifi er máltæki eitt notað á þennan veg: „Þar kom annað hljóð í skrokkinn." Kannski er þetta bara prentvilla en þetta er einmitt gott dæmi um hvernig stundum er farið með málshætti sem skiljast ekki almennilega.

Þarna á að sjálfsögðu að nota orðið strokk og vísar það til þess að þegar fullstrokkað er breytist hljóðið í strokknum.

Annað dæmi um samskonar vanþekkingu er máltækið: „Að heltast úr lestinni." Þar er átt við heybandslest þar sem einn hesturinn verður haltur og getur ekki lengur fylgt hinum. Oft er sagt: „Að hellast úr lestinni."


1079 - Um hafragraut og fleira

Það hlýtur að hafa verið í vor sem leið sem ég birti hér á blogginu mínu hafragrautaruppskrift sem er með því vinsælasta sem ég hef skrifað. Þetta veit ég vegna þess að í fermingarveislu um þetta leyti kommentaði Hörður mágur munnlega á þessa hafragrautaruppskrift. Þó Hörður sé lesgjarn (eftir því sem Ingibjörg systir segir) þá er hann ekki eins skrifglaður og sumir aðrir.

Ég er ekki hættur að borða hafragraut á morgnana en nú hefur uppskriftin þróast og er nokkurnvegin svona:

Efni.
Haframjöl (4-5 skeiðar)
Salt (eitt dass eða jafnvel tvö)
Vatn (eftir þörfum)
Döðlur (2-3 stykki)
Kanill (dálítið)
Hunang (framan til í matskeið)
Mjólk (ef vill - og svo gjarnan sem útálát)
Bankabygg (ein matskeið)

Passa samt að setja bankabyggið á undan hunanginu ef sama skeiðin er notuð. Síðan má jafnvel borða grautinn með þeirri skeið. Ekkert vandamál er að nálgast bankabyggið því það er til hálfsoðið eða soðið í stórri skál í ísskápnum. Það bætir grautinn ekki beinlínis en drýgir hann mjög og er auk þess hollt og eykur skilning fólks á bankakreppunni eins og nafnið bendir til.

Þremur fyrstu efnunum og bankabygginu er blandað saman í hæfilega stóra skál sem sett er varlega í örbylgjuofninn og hann látinn í gang í 4-5 mínútur. Hinu öllu er blandað í á eftir og úr verður fínasti grautur.

Enn eru menn að katta-semdast við bloggið mitt sem kennt er við bekkjarmynd. Í orði kveðnu segjast margir vera kattavinir þó þeir séu það kannski ekki í reynd. DoctorE sagði það hafa komið sér á óvart að ég skyldi taka upp fyrir hann hanskann þegar hann var rekinn af Moggablogginu. Á sama hátt (býst ég við) kom mér á óvar að doksi skyldi vera sá kattavinur sem hann hefur sýnt sig að vera. Eins og t.d. þegar hann setti fjölda kattamynda á bloggið hans Sigurðar Þórs.

Kannski er það vitundin um dauðann sem gerir mennina svona vonda. Dýr eru oftast laus við þessa illsku sem einkennir mannfólkið. Systir mín sagði einhverntíma að ekki mætti ræða um förgun á köttum svo þeir heyrðu því þeir skildu meira en margir héldu. Einhver viðstaddra sagði þá með fyrirlitningu: „Heldurðu að kettir hafi mannsvit, eða hvað?" Hún svaraði að bragði: „Já, að minnsta kosti það."


1078 - Skák og mát og kattaumræður

Þegar maður hefur einu sinni ánetjast tölvuskrapatólunum þá er maður aldrei búinn að öllu sem maður ætlaði að gera þar eða réttara sagt á árans Internetinu. Sama hve hraðvirk og fljót tölvan er að öllu. Alltaf verður eitthvað til að glepja mann og maður fer að lesa einhvern fjárann eða skoða og gleymir því sem maður ætlaði að gera. Rétta ráðið er að forðast þessa ánetjun. Hún er að minnsta kosti eins hættuleg og ofátið sem flestir (sérstaklega tölvuaðdáendur) eru búnir að tileinka sér. Nú er ég semsagt farinn að predika og best að fara út til að leika sér (eða eyða peningum).

Allt er að verða vitlaust útaf köttum (eða fótbolta eða bara Magma Energy). Reyndar vekja kettir mestan áhuga minn af ofantöldu. Í athugasemdum við bloggið mitt um bekkjarmyndina sem ég setti upp um daginn eru þónokkuð fjörugar kattaumræður en ekkert rætt um myndina þó ég hefði frekar búist við því.

Kattaumræður eru víða og allsekki víst að ég hafi séð þær allar. Það er aðalgallinn við Internetið að maður getur aldrei verið viss um að maður sé búinn. Í gamla daga las maður sinn Mogga (eða jafnvel Þjóðvilja) og henti honum svo.

Og svo var Karpov að flækjast á Bahamaeyjum um daginn og ekki sérlega vel tekið. Hann var þar í tilefni af því að þar var haldið svæðamót. (Bjarni sonur minn er á Bahamaeyjum þessa dagana vegna þess að konan hans er þaðan). Hann býður sig fram til embættis forseta FIDE. (Karpov altsvo).  Annars er fullsérhæft að vera að fjölyrða um þetta hérna. Þeir sem áhuga hafa á skák hafa eflaust lesið um þetta á skákhorninu eða á chessbase.com.

Mikið er ég feginn að menn eins og Loftur Altice Þorsteinsson og Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson eru andstæðir þeim skoðunum sem ég hef haldið fram varðandi ESB. Þetta segi ég vegna þeirra umræðna sem nú fara fram á Moggablogginu og víðar um nýjasta „afrek" Lofts. Man enn skrif hans um að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ættu skilið sömu örlög og Mussolini. Annars finnst mér að ekki eigi að vekja sérstaka athygli á skrifum sem þessum. Velþóknun Moggablokksguðanna á skrifum af þessu tagi er samt undarleg því oft virðast þeir ekki þola mikið.


1077 - Um bekkjarmynd o.fl.

Þetta verður með lélegra móti hjá mér að þessu sinni. Samt vil ég ekki bregða þeim vana mínum að blogga á hverjum degi. 

Algeng villa hjá fólki er að halda að hlutir séu því merkilegri sem meira er um þá fjallað á fésbók, í bloggi og fjölmiðlum. Svo er alls ekki en það er auðvitað skiljanlegt að hlutir vefji uppá sig ef margir fjalla um þá. Mér leiðist bara að hlaupa eftir slíku.

Heiðdís á Selfossi hafði samband við mig á fésbókinni útaf bekkjarmyndinni sem ég setti á bloggið mitt um daginn. Guðfinna var Guðbrandsdóttir og myndin er tekin árið 1956. Margt fleira mætti eflaust segja um þessa mynd. Bekkjarmyndir voru ekki algengar í Hveragerði á þessum tíma og einmitt þess vegna er myndin svo yfirfull af minningum.

Ég sakna samt sumra á þessari mynd sem ég man mjög vel eftir. T.d. vantar Sigga í Fagrahvammi þarna. Guðjón í Gufudal, Jónu Helgadóttur og ýmsa fleiri. Bekkjarsaga mín í barnaskóla er frábrugðin margra annarra meðal annars vegna þess að ég kunni að lesa þegar ég kom fyrst í skólann. Man vel eftir sumum sem voru ýmist á undan mér eða eftir í bekk. Gaman væri að frétta meira um Hveragerði í gamla daga. Í september í haust munum við svo hittast sem höfum komið saman annað hvert ár að undanförnu og vonandi fleiri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband