1075 - Bekkjarmynd

bekkurHér er bekkjarmynd frá Miðskólanum í Hveragerði. Veit ekki með vissu hvenær hún er tekin. Líklega í kringum 1957 eða svo. 

Á myndinni eru: Aftasta röð frá vinstri. Einar Sigurðsson, Ásgeir Jónsson, Atli Stefánsson, Sæmundur Bjarnason, Jóhann Ragnarsson, Theódór Kristjánsson og Guðmundur Bjarnason.

Næstaftasta röð talið frá vinstri: Guðrún Gunnarsdóttir, Ágúst Guðmundsson, Þórhallur Hróðmarsson, Magnús Karlsson, Frank Michelsen, Jósef Skaftason og Kristinn Antonsson.

Næstfremsta röð talið frá vinstri: Jónína Jónsdóttir, Auður Sigurðardóttir, Sigurbjörg Lundholm, Ástríður Baldursdóttir, Karitas Eyþórsdóttir, Kolbrún Gunnarsdóttir, Erla Traustadóttir og Þyrí Magnúsdóttir.

Fremsta röð frá vinstri: Þórður Jóhannesson, Hjörtur Jóhannsson, séra Helgi Sveinsson, Guðbjartur Gunnarsson skólastjóri ásamt syni og eiginkonu, Guðfinna kennari (man ómögulega hvers dóttir hún var) og Heiðdís Gunnarsdóttir.

Það er ótrúlegt hvað myndir af þessu tagi geta kallað fram margar minningar. Fólkið á þessum myndum stendur manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum með öllum sínum kostum og göllum. Myndin er beinlínis afmarkaður partur úr eilífðinni.

Þessa mynd er hægt að stækka töluvert án þess að hún láti mikið á sjá. Að sjálfsögðu mega allir sem vilja prenta hana út eða afrita með öðrum hætti. Líka væri gaman að heyra frá einhverjum sem muna vel eftir þessu fólki. T.d. til að leiðrétta villur sem eflaust hafa slæðst inn hjá mér, eða til að fá hjá mér afrit af myndinni úr því að ég er búinn að hafa fyrir því að skanna hana. Stærðin á henni er 1,77 MB segir tölvan mér.

Óeðli í Árborg. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson er bloggvinur minn. Oft stóryrtur og orðljótur mjög. Ísraelsvinur og fornleifafræðingur með meiru. Skrifar samt skemmtilega. Nú nýlega skrifaði hann bloggpistil með áðurnefndri fyrirsögn. Hélt fyrst að óeðlið sem hann væri þarna að vísa til væri viðkomandi uppgreftrinum á líki RJF, en svo var ekki.

Óeðlið sem hann var að tala um þarna var kattabandsfréttin sem var í fjölmiðlum um daginn. Alveg er ég sammála honum. Fuglaveiðar katta geta farið fyrir brjóstið á einhverjum og ekkert er einkennilegt við það. Samlíkingin við hunda sem skylda er að hafa í bandi er hinsvegar alveg útí hött. Kettir ráðast ekki á fólk nema þeir séu neyddir til þess.

Og svo er einn helsti og frægasti kattavinurinn hér á Moggablogginu búinn að læsa blogginu sínu. Þetta er að sjálfsögðu Sigurður Þór Guðjónsson. Kannski opnar hann það fljótlega aftur en ég hef áhyggjur af köttunum. Það er ekki nóg að þeim sé hampað af fáeinum fésbókarskrifurum. Meira þarf til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú fórstu með það Sæmundur.  Af hverju á ég að loka sandkassanum mínum, á hverju kvöldim, fyrir annarra manna köttum?

Ólafur Sveinsson 10.7.2010 kl. 00:39

2 identicon

Það er auðvitað til þess að það fjúki ekki úr sandkassanum þínum yfir í annarra manna garða, Ólafur. Þess vegna áttu að loka honum á hverju einasta kvöldi, og líka þegar enginn er að leika sér í honum. Svo er heldur ekki gott að láta rigna óheft ofan í hann. Kemur köttum ekkert við, frekar en hundum, fuglum, rottum eða öðrum dýrum. Því fylgir ábyrgð að eiga sandkassa. Axlaðu hana með reisn og karlmennsku og vertu ekki að kenna saklausum dýrum um þína eigin vanrækslu.

Grefill 10.7.2010 kl. 05:22

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ólafur. Allir geta valið um það hvort þeir eru með inniketti eða útiketti. Ég er alls ekki að mæla gegn því að þeir sem kjósa að láta sína ketti valsa sjálfráða út og inn séu skyldaðir til að merkja þá vel og bera fulla ábyrgð á því sem þeir gera. Sú aðferð sem Árbæjaryfirvöldin hafa valið er bara kjánaleg og óþörf. Leysir ekki vandann og verður ekki framfylgt.

Sæmundur Bjarnason, 10.7.2010 kl. 05:38

4 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ha, er Sigurður búinn að loka? Mali var á blogginu mínu í gær að mótmæla helförinni í Árborgarhreppi. Mali hefur gert eitthvað við tæknina. En kannski er Siggi kominn á Eyjuna? Þeir eru búnir að bjóða mér það oft, en Egill Helgason hefur þá sagt ætla hætta og fara yfir á Moggann. 

Hver nennir að vera með blogg eins og Egill, þar sem allir segja að þeir séu sammála manni? Við erum ekki svoleiðis, Sæmundur.

Ég er ekki orðljótur. Ég kem bara frá hverfi í Reykjavík, þar sem menn töluðu svona, þegar þeir voru ekki í golfi.

Flott mynd. Þið hafið rokkað á skólaböllunum sýnist mér.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 10.7.2010 kl. 07:35

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Hver nennir að vera með blogg eins og Egill, þar sem allir segja að þeir séu sammála manni? Við erum ekki svoleiðis, Sæmundur.

Þú Villi.. þú lokar á alla sem ekki eru sammála þér ;)

lausakettir eru meindýr.. 

Óskar Þorkelsson, 10.7.2010 kl. 08:55

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, það er harðlæst hjá Sigga. Held samt ekki að hann sé farinn á Eyjuna. Skrifar þeim mun meira á Facebook (sem hann vill ekki að sé kölluð fésbók). 

Vilhjálmur, þú ert kannski ekki beinlínis orðljótur en oft mjög meinlegur í þínum skrifum og það stuðar marga.

Óskar, kettir eru ekki meindýr. Villikettir er samt oftast til óþurftar. Heimiliskettir eiga að vera að fullu á ábyrgð sinna eigenda án þess að vera fjötraðir.

Sæmundur Bjarnason, 10.7.2010 kl. 13:22

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Óskar, kettir eru ekki meindýr. Villikettir er samt oftast til óþurftar. Heimiliskettir eiga að vera að fullu á ábyrgð sinna eigenda án þess að vera fjötraðir.

hvernig ætlar þú að koma köttum undir ábyrgð eigenda sinna ef þeir ganga sjálfala ? sjálfala köttur er og verður meindýr. 

Óskar Þorkelsson, 10.7.2010 kl. 14:21

8 identicon

Ef kettir eru meindýr... hvað eru menn þá?

Fullt af sögum í fréttum af hinum illgjörnu kisum... mér segir svo hugur að það sé ekki tilviljun... þarna er verið að útbúa enn einn skattstofn..

Það kemur stundum inn kisa hjá mér... þegar ég sá hana fyrst, þá gekk ég rólega að henni, talaði til kisu með blíðri röddu... fyrr en varði vorum við orðnir hinir bestu mátar.... auðvitað fór ég í smá leik-slag við kisuna.. klóraður og fínheit... ég fór ekki í stífkrampasprautu... ég fór ekki grátandi til DV og sagði að ljóta kisan hafi verið vond við mig og mína kisu...
Ég hefði hugsanlega lent í verri málum ef ég hefði hlauðið að kisunni með vuvuflautu og æsing... :)


doctore 10.7.2010 kl. 15:58

9 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hve margir kettir hafa tekið stöðu gegn krónunni, sett fjölskyldur úr á guð og gaddinn, fellt heilt fjármálakerfi, hækkað verðbólguna, átt leynikattamat á Tortólu og gert alþjóða gjaldeyrissjóðinn að landsstjóra?

einhver?

eigum við að ræða meindýr?

Brjánn Guðjónsson, 10.7.2010 kl. 17:04

10 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Því meira af fólki maður kynnist þeim mun betur líkar manni við ketti.  Sjálfur deili ég heimili með þrem, en þeir voru fjórir fyrir nokkrum vikum.  Enginn þeirra fer út, en ef það væri bara einn í heimili myndi ég hleypa honum út.

Axel Þór Kolbeinsson, 10.7.2010 kl. 23:52

11 Smámynd: Óskar Þorkelsson

enginn vill svara því hvernig koma á ábyrgð yfir á kattareigandan ef kattarófétið skemmir eigur annara... merkilegt.

Óskar Þorkelsson, 11.7.2010 kl. 07:26

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, Óskar minn. Það er ekkert merkilegt. Lesendum þessa bloggpistils fækkar með tímanum. Kattarófétið, meindýrið, lausakötturinn, sjálfala kötturinn eða hvað sem þú kýst að kalla hann er merktur ef hann á eiganda. Það er vandalaust að handsama ketti þó lúðrablástur og vatn séu ekki það heppilegasta til þess. Kannski þarf ekki einu sinni að handsama þá.

Sæmundur Bjarnason, 11.7.2010 kl. 09:39

13 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Í mörgum bæjarfélögum er skylt að tryggja ketti fyrir því tjóni sem þeir geta valdið.  Önnur bæjarfélög hafa keypt heildsölutryggingu sem er innifalin í skráningargjaldi.

Axel Þór Kolbeinsson, 11.7.2010 kl. 12:09

14 identicon

Kettir eru vinsælustu gæludýr mannanna. Það er af því að við erum svo æðislegir og ómótstæðilegir. Við höfum fylgt Íslendingum frá landnámi, fyrst í sveitunum en svo líka í bæjunum eftir að þeir fóru að myndast. Við erum háttprúð dýr og varkár gagnvart ókunnugum. Við förum ekki inn í vistarverur sem við ekki þekkjum nema þá fyrir slysni. Þá skiptir máli hvernig við okkur er tekið. Auðvelt er að nálgast okkur og koma okkur út ef menn sýna viðskap og blíðuhót. En ráðist menn að okkur með hrópum, svívirðingum og ofbeldi snúumst við auðvitað til varnar með kjafti og klóm. Það eru tólin sem guð gaf okkur til varnar. Það eru algjörar ýkjur að heimsóknir okkar í ókunnug hús sé svo tíðar að orð sé á því gerandi og eitthvað meiri nú en áður. Þetta hefur aldrei þótt vera sérstakt vandamáll fyrr en nú að einhverjir vandræðamenn, grimmir og guðlausir, hafa skorið upp herör gegn okkur köttunum sem sannarlega eru kóróna guðs sköpunar. Og við gerum ekki okkar stykki út um allt. Við gröfum slíkt í sand með kurti og mikilli pí. En það er ekki farandi um sum húsasund fyrir mannahlandsstækju. Þetta mannfólk mígur og skítur hvar sem Það stendur og stendur þó ekki í lappirnar oft og tíðum vegna brennivbínsþambs en við kettirnir eru algjörir bindindiskettir. Og í sveitum þessa lands kvarta bændur og búalið um það að krakkaormar séu sprænandi út um bílglugga á allar koppoagrundir og foreldrarnir hendandi kúkableyjum. Enginn æsir sig út af þessu. Þessari vanvirðu gegn landinu. Það hefur eflaust skeð að köttur lokist inni í ókunnri íbúð og verði þá að pissa nettlega ef ekki líka kúka settlega af hreinni neyð. En það er áreiðanlega svo sjaldgæft að það réttlætir ekki þær ofsóknir  sem sumir hafa nú uppi gegn okkur heiðursköttum. Áður kunnu mennirnir að meta fjölbreytni lífsins og höfðu gaman af okkur dýrunum fyrir nú utan allar nytjarnar. En nú hafa mennirnir ofmetnast í hroka og meinfýsi, sumir þeirra eru algjör MEINdýr, og vilja drepa allt og alla sem sem standa þeim framar í lífsbarátunni.

Þær sakir sem nú eru á okkur kettir bornar eru ýktar langt út fyrir allt velsæmi. Mikil er þeirra skömm er að slíku standa og skyldu þeir aldrei þrífast.

P.S. ég hef tekið völdin af Nimbusi húsbónda mínum og lokað hans bloggi því við kettir höfum skömm á hvers kyns ónytjahjali. Bloggið er leikur fávísra manna.

P.S. númer tvö: Sem hluti hóps sem nú sætir ofsóknum miklum verð ég að segja að ef ég væri af gyðingaættum og þekkti sögu þeirra eins vel og Vilhjálmur Örn myndi ég vera miklu orðljótari en hann og myndi rífa andstæðinga mína og ofsækjendur á hol með kjafti og klóm án minnstu miskunnar.

Ég er sko ekki Mali the malicious fyrir ekki neitt. 

Óvirðingarfyllst og   með meðaumkunarkveðjum til aumra manna,

Mali the malicious

Sigurður Þór Guðjónsson 11.7.2010 kl. 12:21

15 Smámynd: Óskar Þorkelsson

kettir eru vinsælusu gæludýrin því þeir eru ókeypis og hægt að fá þá hvar sem er og því sem næst hvenær sem er.. bara svo það sé sagt..

Óskar Þorkelsson, 11.7.2010 kl. 17:05

16 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Eftir því sem aldurinn færist yfir, kann ég betur að meta ketti og minna að meta fólk.  Hvað á að banna næst ?  Hestum að hlaupa !! ?

Kettir gera annars meira gagn en þeir gera skaða og sjá t.d. um að halda músum fjarri.  Mér dettur því í hug að senda eftirfarandi setningu til þeirra sem vilja banna lausagöngu katta:

Ertu maður eða mús ?

Anna Einarsdóttir, 11.7.2010 kl. 22:58

17 Smámynd: Óskar Þorkelsson

kettir eru ofmetnustu músaveiðarar í heimi... orðspor þeirra sem músaveiðara er stórlega ýkt..

settu kött inn í hús með 10 músum.. og hann veiðir kannski einaef hann nennir.. settu terrier hund inn í sma hús og allar mýsnar eru dauðar innna nokkrura mínutna ;)

Óskar Þorkelsson, 12.7.2010 kl. 03:37

18 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það virðist ætla að verða fjörlegasta kattaumræða hér. Ádrepan hjá Sigurði Þór er góð. Óskar er sá eini sem hallmælir köttum. Ekki loka ég á hann fyrir það.

Mín reynsla af músaveiðum katta er sú að þeir veiði bara ef þeim sjálfum sýnist og aðallega ef þeir eru svangir. Drepa semsagt ekki bara til að drepa eins og sumir. En kettir vilja oft leika sér að músum og fuglum og jafnvel færa einhverjum sem þeim líkar við.

Sæmundur Bjarnason, 12.7.2010 kl. 10:31

19 identicon

Það er ekki liðin vika síðan ég fékk að gjöf mús og fugl frá kisu sem heitir Ómar.

Fyrst kom hann með músina, sem reyndist hafa fengið taugaáfall, en hljóp samt af stað og hvarf inn í grasið þegar ég sleppti henni.

Svo kom hann með fuglinn, 10 mínútum síðar. Lítinn, nýfleygan skógarþröst. Ómar sleppti honum á mottuna um leið og hann kom inn og þrösturinn forðaði sér í hvelli inn í strigaskóinn minn. Svo malaði Ómar, reigði sig og mjálmaði á mig. Stoltið skein úr augum hans. Held hann hafi verið svona þakklátur af því ég gef honum stundum rækjur.

Fuglinum sleppti ég nokkrum mínútum síðar. Ég hélt á honum í opnum lófa og þar stóð hann dágóða stund og leyfði mér meira að segja að klappa sér. Svo flaug hann á brott út í buskann.

Grefill 12.7.2010 kl. 11:03

20 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Grefill segir það sem segja þarf.. kisa er meindýr :)  hún drepur það sem hún getur drepið eða leikur sér að því þar til vesalings fórnarlambið er orðið sturlað af hræðslu og ásér varlaviðreysnar von í þessum heimi.. en þær mala svo vel þessar elskur að við fyrirgefum þessa lausagöngu auðvitað ;)

notagildi katta miðast við fótaupphitun eingöngu.. já og kannski róandi mal út í horni

Óskar Þorkelsson, 12.7.2010 kl. 16:53

21 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér Óskar um það að veiðieðli katta er ofmetið en félagsskapur þeirra ekki. Sumir kettir mjálma þegar þeir sjá flugu á vegg og ætlast til að þeim sé hjálpað við að veiða hana. Oft er það líka gert.

Sæmundur Bjarnason, 12.7.2010 kl. 17:56

22 identicon

Kettir eru ekki meindýr, Óskar, hvar lastu það í skrifum mínum? Kettir eru vissulega rándýr eins og maðurinn. En "meindýr" eru þeir ekki.

Grefill 12.7.2010 kl. 18:38

23 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég skilgreini lausaketti sem meindýr.. þeir eru gæludýr heima við flestir hverjir..en á víðavangi eru þeir meindýr.   Það er þetta sem ég er að reyna af veikum mætti að benda þeim ásem eiga ketti og sleppa þeim út þar sem þeir ganga sjálfala.. sjálfur hef ég átt helling af köttum um ævina og hef ekkert á móti þeim ef þeir eru með bjöllu og vel merktir.. en það er langt í frá að svo sé um velflesta ketti sem ráfa um borgir og bý sjálfala.. útrýmandi fuglalífi í leiðinni.. og hér í Oslo.. eru íkornar horfnir.. skrítið.

Óskar Þorkelsson, 12.7.2010 kl. 20:03

24 identicon

Þegar þú kallar ketti meindýr, Óskar, þá ertu sem sagt að tala um villiketti, ekki vel merkta og gelda heimilisketti með bjöllu?

Villikettir eru að sjálfsögðu allt annað mál. En Árborgarbannið er gegn venjulegum, merktum og geldum heimilisköttum með bjöllu. Það eru slíkir kettir sem var verið að tala um, ekki villiketti.

Grefill 12.7.2010 kl. 20:22

25 Smámynd: Óskar Þorkelsson

flestir kettir sem eru ekki með bjöllu og merktir eru heimiliskettir.. það eru ekkert voðalega margir villikettir á íslandi og sérstaklega ekki eftir að hitaveitan lokaði gömlu leiðsluhólkunum sínum.

Óskar Þorkelsson, 13.7.2010 kl. 03:49

26 Smámynd: Óskar Þorkelsson

aðgengi að köttum er alltof auðvelt (kettlingum) og ábyrgð langflestra á sínum meindýrum er ekkert.. þannig er það bara.

Óskar Þorkelsson, 13.7.2010 kl. 03:49

27 identicon

Ég er reyndar alveg sammála því að aðgengið er of einfalt og gerir ábyrgðalausu fólki kleyft að fá sér kött og hlaupast síðan frá ábyrgð sinni með því að gelda ekki, merkja ekki, setja ekki bjöllu ... eða henda kettinum bara út á guð og gaddinn þegar þeim þóknast.

Það þarf að koma í veg fyrir að slíkt fólk geti fengið sér gæludýr, enda kastar það bara rýrð á alla hina sem stunda ábyrgt dýrahald.

Grefill 13.7.2010 kl. 04:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband