280. - Langir svarhalar eru leiðinlegir aflestrar og stundum enda þeir ekki fyrr en allir eru orðnir leiðir á þeim

Ég les samt alltaf öll komment sem ég fæ og aldrei verð ég fyrir því að fá langa svarhala, en missi mjög oft af því sem fram kemur í svarhölum annarra.

Það er líka undir hælinn lagt hvað ég nenni að skoða af linkum og myndböndum sem vísað er í á þeim bloggum sem ég heimsæki.

Bloggvinalistinn er mjög góð uppfinning og ég reyni alltaf að heimsækja alla bloggvinina daglega eða svo, ef kerfið segir mér að þeir hafi bloggað nýlega. Ef mér liggur mikið á þá les ég samt sum bloggin á hálfgerðu hundavaði til að komast yfir sem flest. Stundum eru það löngu bloggin sem verða fyrir barðinu á þessari ritskoðun minni, þó þau hafi oft inni að halda merkilegasta efnið.

Hvað skyldi það vera sem fær rithöfunda til að blogga? Tekur þetta ekki bara dýrmætan tíma frá öðru? Eru bloggskrif ekki áberandi annars flokks?

Það er varla hægt að kalla þetta alvarleg skrif. En skrif eru það samt. Kannski finnst mönnum eins og þeir séu að gæla við rithöfundinn í sér með því að blogga. En þeir sem þegar hafa gefið út bækur og skrifað flottan texta? Getur verið að þeir hafi gaman af að bloggast?

Þegar ég tefldi sem mest á yngri árum þá skeði það stundum að góðir skákmenn urðu briddsinum að bráð. Til dæmis man ég eftir að Jón Baldursson þótti efnilegur skákmaður í eina tíð. Hann varð svo reyndar heimsmeistari í brids, en það er önnur saga. Ég býst við að rithöfundar segi gjarnan um þá sem þeim finnst hafa rithöfundarhæfileika, en fara að blogga, að þeir verði blogginu að bráð.

En hvað er svona slæmt við bloggið? Er ekki ágætt að geta losnað við þau steinbörn úr maganum sem þar hafa nærst áratugum saman. Betra en að þau lendi bara í kistunni þegar öllu lýkur. Nú eða skrifborðs-skúffunni margfrægu.

Mér finnst stórgaman að geta fengið viðbrögð við skrifum mínum svotil samstundis. Þurfa ekki að klára bókina snemmsumars og bíða svo eftir áramótauppgjörinu eftir jólin og síðan er það spurningin um það hvort nokkur nennir að ritdæma afurðina.

Einu sinni gaf ég út blað sem ég kallaði Rafritið. Það var aldrei, eða næstum aldrei, prentað út heldur lifði sínu lífi sem tölvuskrá. (Hægt er að nálgast það hér ). Á þessum tíma rak ég líka BBS sem var í notkun uppi á Stöð 2 og var í orði kveðnu fyrir þýðendur til að senda þýðingar sínar á.

Það voru samt yfirleitt engir aðrir en Páll Heiðar Jónsson sem sendu þýðingar sínar á svo nýtískulegan hátt. Hann sendi þær yfirleitt með sínu 1200 baud módemi og ég man að textinn við eina meðalkvikmynd var svona 10 mínútur að rúlla í gegn.

Oft sat ég frameftir kvöldi við að ganga frá efni í Rafritið og svo setti ég það á BBS-ið þegar ég var búinn að því. Ég man ennþá hvað mér þótti eitt sinn stórkostlegt að sjá að ekki liðu nema nokkrar sekúndur, frá því að ég var búinn að ganga frá blaðinu og setja skrána á sinn stað, þar til fyrsti lesandinn var byrjaður að sækja blaðið. Tilfinning engu öðru lík. Helst að bloggið nái einhverju svipuðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ansi var þetta löng færsla. Eins gott að ég var búinn að loka öllum öðrum síðum, þar sem ég er að pakka öllu niður fyrir flugið til Íslamds. Annars er ég sammála þér með myndböndin og linkana. Skemmtilegar langlokur lika. Tímaskorturinn er að ágerast í seinni tíð.

Annars er þetta bara innlitskvitt. Ég fer áður en kommentið verður og langt...

Villi Asgeirsson, 16.3.2008 kl. 08:19

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég reyni að kíkja inn hjá öllum mínum blogvinum með reglulegu millibili.  Stundum rúlla ég yfir yfirskriftina, í öðrum tilfellum les ég færslur og komment og kem með mín komment þar sem það á við. Ég þyrfti sjálfur að vera duglegri að blogga, en ég hef ekki tíma þar sem ég "þarf" að kíkja inn hjá öllum bloggvinunum

Góða helgi 

Sveinn Atli Gunnarsson, 16.3.2008 kl. 10:49

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég skal vera stuttorð, Sæmi minn...   

Fór að ráðum þínum með að gera athugasemd að færslu eins og þú hefur kannski lesið um í löngu færslunum mínum. Aldrei þessu vant eru komnir langir svarhalar hjá mér líka.

Lára Hanna Einarsdóttir, 16.3.2008 kl. 10:55

4 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Mér sýnist á öllu að þú sért föðurbróðir minn

Brynja Hjaltadóttir, 16.3.2008 kl. 15:52

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er eflaust rétt hjá þér. Hálfbróðir minn heitir Hjalti og býr á Hvolsvelli. Ég hef lítið fylgst með blogginu þínu hingað til, en líklega breytist það.

Sæmundur Bjarnason, 16.3.2008 kl. 18:00

6 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er búinn að lesa færsluna en hef ekkert að segja.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 16.3.2008 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband