Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
12.3.2008 | 00:14
276. - "Svans caput"
Einu sinni þóttist ég vera mikill áhugamaður um kvikmyndir.
Þá þótti fínt að horfa á myndir eftir Fassbinder. Ingmar Bergman var svolítið kominn úr tísku og þótti ekki eins frumlegur. Ég dreif mig einhverntíma í að horfa á mynd eftir Fassbinder, en fannst hún afspyrnuleiðinleg. Ég man samt glögglega eftir einu atriði úr myndinni.
Stór og myndarlegur svertingi (innflytjandi?) var inni á bar einhverjum og nokkrar ungar konur á sveimi í kringum hann. Kannski voru það gleðikonur, ég veit það ekki. Þær voru greinilega að reyna við hann og hann fann það vel sjálfur og sagði um leið og hann reyndi að ýta einni þeirra frá sér:
"Svans kaput."
Ég kunni ekki mikið í þýsku þá og kann ekki enn. Þetta þóttist ég þó skilja og þótti nokkuð vel sagt. Ekki held ég að þetta hafi verið þýtt, en íslenskur texti hlýtur að hafa verið á myndinni þó ég muni ekkert eftir honum.
Í Kópavogi er fyrirtæki sem heitir Svansprent. Ég geng stundum framhjá því og þegar ég sé orðin prent svans í gluggunum minnir það mig alltaf á áðurnefnda senu. Að vísu veit ég ekki hvort prentsvansinn er orðinn kaput, en það gæti vel verið.
Að mörgu leyti er bloggið sem fyrirbrigði mitt aðaláhugamál um þessar mundir. Mitt eigið blogg þó auðvitað sérstaklega. Sumum finnst svo eðlilegt og sjálfsagt mál að blogga að það sé lame" að vera að tala um það. Svo er þó alls ekki. Það er ákaflega merkilegt að bloggið skuli hafa náð svo mikilli útbreiðslu sem raun ber vitni.
Sem fyrirbrigði vekur Moggabloggið sérstaka eftirtekt mína. Áður en það kom til skjalanna var talsvert viðurhlutameira að blogga og ég býst við að bloggarar þá hafi komið út talsvert öðrum þjóðfélagshópum en nú er.
Með tilkomu Moggabloggsins má segja að svo einfalt hafi orðið að blogga að allir sem einhverja ánægju höfðu af skriftum gátu með hægu móti látið til sín taka. Samfélagið sem myndaðist er einstakt.
Mikilvægast í þessari samfélagsmyndun eru líklega bloggvinatengslin. Það eru fáir sem tjá sig mikið um þau og margir virðast vera farnir að líta á þau sem sjálfsagðan hlut.
Hvernig nýta menn sér bloggvinamöguleikann? Hvernig blogga þeir? Hve oft? Lesa þeir blogg bloggvinanna? Blogg annarra? Ég er viss um að það er kominn tími til að rannsaka þetta allt saman ýtarlega.
Sjálfur er ég svo illa haldinn af bloggsýki að ég hugsa oft og mikið um það hvernig mitt næsta blogg eigi að vera. Mikilvægast af öllu í sambandi við þessa bloggnáttúru mína (eða ónáttúru) er að ég hef ennþá gaman af þessu og það er ekki orðin nein kvöl og pína að blogga eitthvað á hverjum degi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.3.2008 | 05:08
275. - Enn um Breiðavíkurmálið. Ennig svolítið um skák og vísnagerð
Mikið hefur verið rætt og ritað um Breiðavíkurmálið og það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn hjá mér að ætla að bæta einhverju við þá umræðu. Fyrst þegar ég heyrði um þetta heimili, sem var á meðan það enn starfaði, hélt ég að það væri í Breiðuvík á Snæfellsnesi.
Ég las líka á sínum tíma bókina "Stattu þig, strákur", sem fjallaði um Sævar Ciesielski og þar var meðal annars rætt við hann um veru hans á Breiðuvíkurheimilinu. Ég man vel eftir að mér fannst hann lýsa ástandinu þar þannig að annaðhvort væri hann að ýkja þetta stórlega eða athugun á þessu máli væri í réttum farvegi. Það hlyti höfundur bókarinnar að hafa gengið úr skugga um. Að jafnvel þeir sem vissu vel hvernig ástandið hafði verið og vissu líka að engin ástæða var til að draga orð Sævars í efa hafi þó kosið að gera ekki neitt, datt mér aldrei í hug.
Boris Spassky segist vera svartsýnn á framtíð skákarinnar. Það er fyllsta ástæða til að hlusta þegar þessi spekingur lætur í sér heyra. Ég gæti vel trúað að skákeinvígi verði aldrei framar í heimsfréttunum eins og gerðist í einvígi þeirra Fischers og Spasslys árið 1972, en samt er fyllsta ástæða til að hvetja krakka til að leggja stund á skák.
Skákin er miklu hollari en margt það sem ruglar krakka í ríminu nú á þessum síðustu og verstu tímum. Heilbrigður metnaður er hollur og þó sumir fáist ekki til að viðurkenna það, þá er enginn efi í mínum huga að skákin er íþrótt og sem slík miklu hollari en margar líkamlegar íþróttir sem þó beinast mjög að andlega sviðinu. Þarna á ég auðvitað við austulenskar bardagaíþróttir sem ganga undir ýmsum nöfnum og mörgum finnst afar fínt að stunda.
Líkamlegar íþróttir eru að sjálfsögðu líka hollar og ekkert sem mælir á móti því að stunda bæði skák og aðrar íþróttir. Í flokkaíþróttum lærir fólk að taka tillit til annarra. Skákin er hins verar hin dæmigerða einstaklingsíþrótt. Þar er engum öðrum hægt um að kenna og velgengni einstaklingsins honum einum að þakka.
Eftirfarandi vísu sá ég fyrst í gestabók í skála Skátafélags Hveragerðis í Klambragili, sem þá var reyndar alltaf sagður standa innst í Reykjadal. Áreiðanlega eru meira en 50 ár síðan þetta var. Rétt er að taka fram að á þeim tíma sem vísan var ort hefur Teresía Guðmundsdóttir verið veðurstofustjóri. Ég held þó að hún hafi ekki verið það lengur þegar ég sá vísuna fyrst.
Harðna tekur tíðarfar
Teresía spáir byl.
Hver sem verður tittlings var
veiti honum skjól og yl.
Þarna held ég að höfundurinn hafi verið að leika sér með hina tvöföldu merkingu orðsins tittlingur. Ég man að mér þótti þessi vísa afar vel gerð á sínum tíma og hugsanlega hefur hún með öðru orsakað áhuga minn á vísum og vísnagerrð. Annað sem hefur haft áhrif á það er að á sínum tíma átti ég fremur auðvelt með að læra bragfræðina sem troðið var í okkur í íslenskutímunum í skólanum.
Eftirfarandi orð eru að ég held úr einhverri þjóðsögu eða þess háttar. Þarna held ég að orðið tittlingur eigi bara við smáfugl og ekkert annað. Þarna finnst mér höfundurinn einungis vera að leika sér að rími og því sem ég vil kalla hálfrím. Ekki man ég hvar ég sá þennan samsetning fyrst en það kann að hafa verið í einhverri skólabók. Síðustu línunni bætti ég nú bara við af því mér fannst hún eiga ágætlega heima þarna.
Karl og kerling
riðu á Alþing.
Fundu tittling,
stungu í vettling.
Og svo sneru þau sér í hring.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í dag (sunnudag) fór ég á bókamarkaðinn í Perlunni. Þar var margt eigulegra bóka. Einkum meðal ævisagna, bóka um söguleg efni og ættfræðirita.
Sameiginlegt með öllum bókum þarna fannst mér þó að þær voru alltof dýrar. Samanburðurinn sem ég hef er auðvitað ekki alveg sanngjarn, því ég stunda af mikilli ástríðu bæði Bókasafn Kópavogs og Borgarbókasafnið.
Niðurstaðan varð því sú að ég keypti ekki eina einustu bók þarna, en hefði gjarnan viljað glugga í sumar þeirra sem ég sá. Skáldsögurnar sem boðið var uppá fannst mér ekki merkilegar. Það er kannski ekki að marka því ég er nánast hættur að lesa skáldsögur. Barnabækurnar voru margar og hafa sennilega verið ágætar. Að minnsta kosti var ekki svona mikið úrval af barnabókum þegar ég var ungur.
Labbaði svo í kringum Perluna og tók nokkrar myndir. Þar á meðal þá sem hér er fyrir ofan.
Í eina tíð hélt Héraðssambandið Skarphéðinn frjálsíþróttamót á Þjórsártúni á hverju sumri. Eitt sinn var ég á slíku móti. Keppni í 5000 metra hlaupi stóð yfir. Jón Guðlaugsson var náttúrulega langfyrstur. Hann var stundum kallaður Jón sterki og var pínulítið skrýtinn. Að minnsta kosti var skemmtilegt að stríða honum og þótti fínt.
Slangur af áhorfendum var handan við kaðal sem strengdur hafði verið rétt við hlaupabrautina. Þar vorum við nokkrir strákar úr Hveragerði meðal annarra og innan við kaðalinn voru fáeinir starfsmenn mótsins og þar var líka Sigurður Greipsson úr Haukadal.
Allt í einu hrópar Kalli Jóhanns sem stendur við hliðina á mér stríðnislega: "Jón Boli Tuddason" í áttina að Jóni Guðlaugssyni þegar hann hleypur framhjá okkur.
Sigurður Greipsson heyrir þetta og verður öskuvondur. Snýr sér að mér og skammar mig blóðugum skömmum. Ég man ekki hvað hann sagði en það var ekki fallegt.
Ég gat ekki sagt nokkurn skapaðan hlut, því ég var svo hissa á að Sigurður skyldi halda að ég hefði sagt þetta. Sigurður var svo æstur þegar hann var að skamma mig að munnvatnið frussaðist í allar áttir svo líklega var eins gott að ég gat ekki sagt neitt.
Mig minnir að Bjarni sonur Sigurðar hafi unnið glímuna á þessu móti og auðvitað þekkti ég hann vel, því hann átti heima í Hveragerði. Þeir bræður Bjarni, Greipur og Þórir unnu yfirleitt glímuna á Þjórsártúni á þessum árum.
Síminn stendur sig illa, segir Lýður Pálsson sem ekki aulýsir Lottóið. Jafnvel verr en Voðafónið sjálft. Ég er nú ekki vanur að gera upp á milli þessara fyrirtækja. Finnst þau bæði jafnslæm. Það getur þó vel verið að sendarnir þeirra séu misöflugir. Lýður lýsir því ágætlega þegar sambandið við farsímana er svo slæmt að annaðhvort þurfa menn að vera úti við eða halla sér vel útum glugga til að ná sambandi. Andskoti er þetta nú léleg þjónusta annars.
Um daginn var enn eitt megaklúðrið í Kastljósinu. Sýna átti auglýsingu frá frú Clinton en einhver misheppnaður útúrsnúningur um þá auglýsingur fór í loftið. Það var nú ekki meira en svo að sérfræðingarnir sem voru í sjónvarpssal áttuðu sig á þessu og þáttarstjórnandanum var greinilega skítsama um þetta. Kannski var þetta líka viljandi gert, hvað veit ég. Hefði litið illa út ef við værum hluti Bandaríkjanna eins og sumir virðast helst vilja. Líklega hefði Þórhallur fokið þá. Mér fannst þetta eiginlega bara fyndið.
Sagt er að Patrekur Svæsni sé með krabbamein og Britney ólétt. Auðvitað skiptir þetta gríðarlega miklu máli. Það er að segja fyrir þau, en ekki fyrir mig þó DV og aðrir fjölmiðlar haldi það greinilega.
Haukur Nikulásson bloggvinur minn fjallar á sínu bloggi um það leiða ósið allmargra bloggara að leyfa ekki ótakmörkuð komment á sínum bloggsíðum. Ég geri ráð fyrir að fólk hafi yfirleitt einhverjar afsakanir fyrir háttalagi að þessu tagi, en samt er það alls ekki til fyrirmyndar og ætti ekki að þekkjast. Að minnsta kosti er óþarfi að leyfa fólki að banna komment með öllu. Við vissar kringumstæður geta samt vel skapast þannig aðstæður að bloggari þurfi að losna við komment um tíma og þá er að taka á því.
Auðvitað er ekki til fyrirmyndar að hafa fólk af þessu tagi meðal bloggvina sinna, en það gera nú samt margir. Ég hef tekið eftir því að einn af bloggvinum mínum virðist ekki þola komment og eftir því sem Haukur segir er einn annar vafasamur þó mér sýnist hann nú leyfa komment. Kannski væri ástæða fyrir mig að endurskoða þennan bloggvinskap, þó ekki væri nema prinsippsins vegna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.3.2008 | 00:13
273. - Netútsending rofin áður en "Gettu betur" lýkur - óþolandi. Einnig um kristniboð í Kína og málflutning Vilhjálms Arnar um Ísrael
Um daginn var "Gettu betur" viðureign milli Menntaskólans í Reykjavík og Borgarholtsskóla. Af því að ég var að vinna gat ég ekki fylgst með viðureigninni í sjónvarpinu, en þátturinn var sendur beint út á Netinu svo ég gat fylgst með honum þar.
Þessi þáttur var nokkuð spennandi og undir lokin voru úrslitin komin undir því hvernig liðin svöruðu síðustu spurningunni. Þá var það sem útsendingin á Netinu rofnaði og kom ekki aftur.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona lagað kemur fyrir. Ég hef líka bloggað um það áður. Svo virðist vera sem fyrirfram ráðgerður tími sé settur inn í tölvuna sem sendir þetta á Netið. Þegar sá tími er liðinn lýkur útsendingunni þar. Enginn virðist fylgjast með hvort útsendingin fari fram yfir áætlaðan tíma og að þetta sé í lagi. Þeir sjónvarpsmenn ættu að skammast sín fyrir þetta og þá vantar bara viljann til að gera þetta almennilega.
Sú eina og sanna Björk okkar stríddi Kínverjunum um daginn eftirminnilega með því að minnast á sjálfstæði Tíbet. Gott hjá henni. Einmitt núna um þessar mundir þegar allir virðast skíthræddir við Kínverja og óttast veldi þeirra.
Hannes Jóhannsson sem var eitt sinn tæknistjóri á Stöð 2 sagði mér tvær sögur frá Kína sem falla mér ekki úr minni. Hannes er eins og margir vita sonur Jóhanns Hannessonar sem lengi var trúboði í Kína. Hannes er fæddur í Hong Kong ef ég man rétt.
Móðir hans hafði snúið kínverskri konu sem vann hjá henni til kristinnar trúar. Sú kínverska var ákveðin í að kasta sinni fyrri trú, en það var eitt mál tengt þessu sem var til mikilla vandræða. Hvað átti hún að gera við stytturnar af gömlu guðunum? Trúarlegur viðsnúningur hennar var nú ekki sterkari en svo að hún gat alls ekki hugsað sér að henda þeim í ruslið. Slíkt væri mikil óvirðing við guðina. Ekki gat hún heldur beðið aðra fjölskyldumeðlimi sína að sjá um guðina og stytturnar. Það var alltof hættulegt. Guðirnir gætu snúist öndverðir við slíku og farið að gera mönnum ýmsan miska.
Þetta var mikið og torleyst vandamál og hún trúði móður Hannesar fyrir því að hún sæi eiginlega enga leið útúr þessu og myndi líklega neyðast til að hætta við að taka kristna trú.
Þá var það sem mamma Hannesar fékk skyndilega hugdettu:
"Þú getur bara gefið mér stytturnar," sagði hún.
Þetta fannst þeirri kínversku slík snilldarhugmynd að hún tók gleði sína að fullu aftur. Ef einhver gæti tjónkað við guðina sem bjuggu í styttunum hlyti það að vera eininkona sjálfs trúboðans. Málið var einfaldlega leyst og allir tóku gleði sína á ný.
Hin sagan sem Hannes sagði mér var öllu dapurlegri. Háskólagenginn fjölskylduvinur þeirra bjó skammt frá þeim. Þetta var á dögum menningarbyltingarinnar svonefndu og skyndilega fréttist það einn daginn að þessi fjölskylduvinur hefði verið handtekinn og færður fyrir byltingardómstól sem settur var saman í skyndingu.
Þau hjónin íslensku gerðu allt sem þau gátu til að fá rauðu varðliðana til að láta manninn lausan. Höfðu samband við þau yfirvöld sem þeim gat til hugar komið að hefðu mögulega áhrif í þessu efni og gerðu í stuttu máli sagt allt sem þeim datt í hug að gæti bjargað manninum úr klóm varðliðanna. Þegar dagur var að kveldi kominn kom þó í ljós að þetta var allt unnið fyrir gýg. Maðurinn hafði verið dæmdur til dauða og tekinn af lífi án minnstu tafar.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson skrifar á bloggsíðu sína pistil sem hann kallar Íslenskir öfgabloggarar" og á þar greinilega ekki við sjálfan sig. Í mínum huga er Vilhjálmur sjálfur þó ekkert annað en ótíndur öfgamaður sem notar hvert tækifæri sem hann getur til að réttlæta allar gerðir Ísraelsstjórnar. Ég hef samt engan sérstakan áhuga á að rökræða um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs sem margir hafa þó reynt að gera. Öfgamenn finnast bæði meðal Palestínumanna og Ísraelsmanna.
Þeim sem gjarnan vilja kynna sér hvernig öfgamenn hugsa get ég bara bent á að lesa blogg Vilhjálms. Vilhjálmur réðist heiftarlega að Bobby Fischer eftir að hann lést, af þeirri ástæðu einni að Fischer hafði talað illa um Gyðinga. Fischer var reyndar í ummælum sínum álíka öfgafullur og einstrengislegur og Vilhjálmur. Á yngri árum hafði Fischer þó mörg fleiri áhugamál en Gyðingahatrið, en Vilhjálmur virðist um fátt annað hugsa en Gyðinga og Ísrael.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.3.2008 | 00:46
272. - Um Netútgáfuna
Þetta er erindi sem ég flutti á bókavarðaráðstefnu á Selfossi í fyrra eða hittiðfyrra og birti á blogginu mínu í nokkrum hlutum fyrir mörgun mánuðum:
Þó margir virðist álíta að það sé tiltölulega nýtilkomið að bækur séu gefnar út á Netinu, fer því fjarri að svo sé.
Það var árið 1971 sem Project Gutenberg hóf starfsemi sína og þó hægt hafi gengið til að byrja með, er það magn bóka sem nú er gefið út á vegum Gutenberg gríðarlega mikið.
Eins og mörgum er kunnugt gefur Gutenberg út bækur, sem ekki er lengur virkur höfundarréttur á, í tölvutæku formi á Netinu og eru þær tiltækar hverjum sem er án endurgjalds. Margir leggja þar hönd á plóg og eru tugir ef ekki hundruð bóka á ensku og ýmsum öðrum tungumálum gefin út í hverjum mánuði.
Uppruna Netútgáfunnar má má rekja til ársins 1990, en þá ákvað sonur minn að slá Bandamannasögu inn á tölvuna sína. Það gerði hann einkum til að æfa sig í fingrasetningu. Bandamannasögu var síðan dreift með efni sem við dreifðum á vegum PC-tölvuklúbbsins. Þar var einkum um að ræða Shareware leikjaforrit og ýmislegt þessháttar.
Árið 1992 tók vefsetrið Runeberg til starfa og einbeitti sér að útgáfu norrænna rita með svipuðum hætti og Gutenberg gaf út enska texta. Fljótlega sendi ég Bandamannasögu til Runeberg og nokkru seinna sló dóttir mín Hafdís Rósa Grænlendingasögu og Grænlendingaþátt inn á tölvu og þær sögur voru einnig sendar til Runeberg.
Á árunum 1993 og 1994 gaf ég út tímaritið Rafritið sem var einkum merkilegt fyrir þá sök að það var næstum aldrei prentað út, heldur aðeins dreift sem tölvuskrá. Rit þetta er að sjálfsögðu að finna á vef Netútgáfunnar. (www.snerpa.is/net)
Á árunum 1994 til 1996 var unnið að undirbúningi Netútgáfunnar og var það einkum dóttir mín Hafdís Rósa sem það gerði. Hún átti einnig hugmyndina að nafninu. Upphaflega ætluðum við okkur að koma Netútgáfunni á fót í samstarfi við Ísmennt, sem var eitt af allra fyrstu Internetfyrirtækjum landsins. En um þetta leyti var skipulagi þess fyrirtækis breytt og ákveðið að það yrði eingöngu fyrir skóla landsins.
12. janúar 1997 tók Netútgáfan til starfa. Internetfyrirtækið Snerpa á Ísafirði sem Björn Davíðsson rak þá, veitti okkur netaðgang og netpláss eftir þörfum án endurgjalds. Nútildags þykir ekki mikið að hafa aðgang að nokkrum tugum megabæta á Netinu en á þessum tíma var það nokkurs virði.
Þegar Netútgáfan hóf starfsemi áttum við orðið í fórum okkar 4 íslendingasögur, 5 fornaldarsögur Norðurlanda, ýmis fornkvæði, Rafritið allt, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og einar 8 þjóðsögur.
Ég man að 16. nóvember (á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar) árið áður en Netútgáfan hóf starfsemi sína var heilmikið húllumhæ og stofnað til svokallaðs dags íslenskrar tungu. Það munaði ekki miklu að við værum tilbúin með að starta Netútgáfunni þá, en það tókst ekki alveg.
Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði, gáfum við út eitthvert efni um hver mánaðamót. Stundum meira og stundum minna eins og gefur að skilja. Meðal verka sem komu út á þessu tímabili má nefna: Biblíuna (í samstarfi við Hið íslenska biblíufélag) Njáls sögu og mikinn fjölda íslendingasagna og ýmissa fornrita, Pilt og Stúlku og Mann og Konu efir Jón Thoroddsen, Höllu og Heiðarbýlið og raunar mikið af verkum Jóns Trausta, en hann dó eins og kunnugt er, langt um aldur fram í spænsku veikinni árið 1918. Passíusálmana, Ljóðasafn Jónasar Hallgrímssonar og svo mætti lengi telja.
Það var um haustið 2001, sem Netútgáfan hætti að gefa út nýtt efni. Ástæðan fyrir því var einfaldlega sú að við gátum ekki lengur séð af öllum þeim tíma sem í þetta fór. Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði fékk hún aldrei neinn annan styrk en þann sem fólginn var í þeim ókeypis aðgangi að Netinu sem Snerpa ehf. á Ísafirði veitti okkur og veitir enn.
Þau ár sem við stunduðum útgáfu á Netinu kom okkur á óvart að rithöfundar virtust ekki hafa áhuga á að setja gömul verk sín á Netið til kynningar. Okkur fannst það blasa við að hjá langflestum rithöfundum væri höfundarréttur að löngu útgefnum verkum orðinn harla lítils virði.
Ég hef nokkrum sinnum reynt að stuðla að því að endurvekja Netútgáfuna í svipuðu formi og hún var. Nægilegt efni er til þó ekki sé hugsað til þess að gefa út annað efni en það sem höfundarréttur er runninn út á eða hefur af einhverjum ástæðum aldrei verið nýttur. Netútgáfan hefur unnið sér nokkurn sess einkum meðal skólafólks og ef haldið yrði áfram á svipaðri braut og gert var mundi það eflaust auka veg hennar. Nauðsynlegt er þó að bæta á allan hátt útlit vefsins, koma upp leitarvél og gera ýmislegt fleira. Gæta þarf þess þó, eins og við höfum alltaf gert, að aðgangur blindra og sjónskertra að efni útgáfunnar versni ekki.
Ekkert er því til fyrirstöðu að endurvekja starfsemina. Það eina sem þarf er tryggt fjármagn eða að einhverjir einstaklingar eða hópar séu tilbúnir til að leggja fram þá vinnu sem til þarf.
Þó saga Netútgáfunnar sé merkileg í sumra augum þá bendir hún svosem ekki á neinn hátt til framtíðar. Það er mála sannast að víða um lönd eru á Internetinu söfn þjóðlegra bókmennta sem komin eru úr vernd höfundarlaga.
Netútgáfan var að mörgu leyti einstakt framtak á sínum tíma og ég er dálítið hissa á því að ekki skuli hafa komið fram neitt hliðstætt á þeim 5 árum sem Netútgáfan hefur ekki starfað.
Margt hefur þó gerst í sambandi við bóka- og tímaritaútgáfu á Netinu, en flest er það tengt vísindum og fræðum. Varahlutalistar og allt þess háttar er eiginlega alfarið komið á Netið líka, en bókaútgáfa fyrir almenning hefur alls ekki færst þangað.
Margar tilraunir hafa verið gerðar til þess víða um lönd að selja bækur á lágu verði sem tölvuskrár en þær tilraunir hafa ekki tekist ýkja vel. Það er ekki nóg að hafa yfir merkilegu efni að ráða, ef fáir eða engir vita af því. Kynningarmálin hafa oftast nær verið erfiðast hjallinn hjá þeim sem vilja hasla sér völl án þess að leita til hinna hefðbundnu bókaforlaga.
Einnig er það óneitanlega svo, að enn þykir flestum betra að lesa sér til skemmtunar á bók heldur en á tölvuskjá og ef prenta á út þær tölvuskrár sem keyptar eru er sparnaðurinn enginn orðinn hjá neytendunum. Einnig hefur tilfærsla fjármuna á Netinu alltaf verið dálitlum erfiðleikum háð og mörgum finnst enn eins og á árdögum Netsins að þar eigi allt að vera ókeypis.
Þegar við vorum að hefja starfsemi Netútgáfunnar var það ofarlega í huga margra að bækur og bóklestur væri heldur á undanhaldi. Netið mundi að miklu leyti taka yfir hlutverk bókanna og fólk mundi sækja sínar bækur og tímarit í sívaxandi mæli af Netinu.
Svo hefur þó alls ekki farið, bókin heldur svo sannarlega velli. Oft hefur það verið svo að menn hafa illa séð fyrir hvert tækninýjugar stefna. T.d. álitu sumir símann ekki vera merkilega uppfinningu á sínum tíma.
Ég held að bókin (og blöðin) haldi einkum velli vegna þess að prentað mál hefur beinan og milliliðalausan aðgang að lesendum. Allir aðrir miðlar þurfa að einhverju marki að leita á náðir tækninnar og þar eru sífellt að koma fram nýjungar sem á stundum gera það sem eldra er úrelt.
Bókaútgáfa fer vaxandi hér á Íslandi og þó dýrt sé að prenta bækur fer tækninni í því efni sífellt fram og prentvélarnar verða stöðugt fullkomnari. Nú er svo komið að vélar þurfa ekki annað en tölvuskrá með handriti bókarinnar til að geta búið til bækur.
Þetta er kallað "print on demand" eða "publish on demand" og hefur rutt sér nokkuð til rúms í Bandaríkjunum og víðar undanfarin ár.
Það eru einkum lítil útgáfufyrirtæki sem nýta sér þessa þróun og svo höfundar sem vilja af einhverjum ástæðum gefa út bækur sínar sjálfir, hvort sem það er af einhvers konar metnaði, eða þá að þeir telja sig einfaldlega geta haft meiri tekjur af skrifum sínum með þessu móti.
Kosturinn við þessa aðferð er sá að það er ekkert sem heitir startgjald og bækurnar sem gerðar eru með þessari aðferð kosta jafnmikið í prentun hvort sem prentuð eru tvö eintök eða tvö þúsund, eða jafnvel tvö hundruð þúsund.
Fyrirtæki í Bandaríkjunum bjóða t.d. höfundum að prenta fyrir þá bækur fyrir 500 dollara eða svo. Þá fær höfundurinn svona 50 bækur sjálfur og 30 % af útsöluverði bókarinnar í sinn hlut og allskonar þjónustu og aðstoð frá fyrirtækinu, auk þess sem verkið tekur ekki langan tíma.
Niðurhal á efni af Netinu mun án efa aukast á næstu árum hvað snertir tónlist, sjónvarpsefni og kvikmyndir. Væntanlega ná höfundar slíks efnis og dreifendur samkomulagi um fyrirkomulag sem verður neytendum til hagsbóta. Ég er sannfærður um að þeir sem sækja sér slíkt efni yfir Netið vilja fremur nota löglegt efni en ólöglegt.
Ein ástæða fyrir því að efni eins og kvikmyndir og tónlist á greiða leið að neytendum um Netið er eflaust sú að þar fær fólk efnið á líku formi og það er vant, það er að segja þess verður ekki neytt nema tæknin komi til aðstoðar.
Um bækur gegnir allt öðru máli, þær hafa fylgt manninum um aldir og munu gera lengi enn. Auðvitað er það samt svo að í raun eru bækur samsettar úr textaskrá sem hefur að geyma efni það sem er í bókinni og síðan tækinu til að koma efninu á framfæri sem er bókin sjálf.
Á sama hátt eru kvikmyndir og tónlist bara skrár sem hafa inni að halda upplýsingar um hvernig koma eigi efninu til skila. Af hverju hefur bókin fest sig svona í sessi að henni verður varla hnikað þaðan? Því er erfitt að svara en þó hefur mjög mikið af efni sem er tæknilegs eða vísindalegs eðlis að mestu hætt að koma út á bókum og blöðum en farið í þess stað á Netið.
Kannski munu bækurnar einhvern tíma verða úreltar en örugglega ekki nærri strax. Uppflettibækur og ýmsar handbækur munu þó eflaust eiga erfitt með að keppa við Netið, en bækur til skemmtunar, barnabækur og þær bækur sem kalla má prentgripi, munu eflaust halda gildi sínu enn um sinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.3.2008 | 00:38
271. - Morðið við Kolviðarhól (þar sem Hellisheiðarvirkjun er núna)
Í ágústmánuði árið 1881 var 28 ára gamall maður, Kristmann Jónsson að nafni, drepinn skammt frá gistihúsinu á Kolviðarhóli.
Það stóð skammt frá þeim stað þar sem Hellisheiðarvirkjun er núna. Síðastliðið sumar kom ég þangað og sá rústirnar af þessu mikla og merkilega húsi. Grafreiturinn í túninu skammt sunnan við bæinn þar sem þau hjónin Valgerður Þórðardóttir og Sigurður Daníelsson eru grafin er aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð frá virkjuninni nýju.
Þetta hús sem margir þekktu og var síðast skíðaskáli og hafði síðan staðið autt um tíma, var brennt til grunna fyrir allnokkrum árum. Það stóð við Hellisskarð sem liggur uppá Hellisheiðina milli Reykjafells og Skarðsmýrarfjalls skammt frá Sleggjubeinsskarði.
Kristmann var í útreiðartúr með þremur öðrum, tveimur karlmönnum og einni konu nokkuð fyrir norðan Kolviðarhól og fengust aldrei áreiðanlegar fréttir af því hvað raunverulega kom fyrir, en lík hans var illa leikið þegar veitingamaðurinn á Kolvíðarhóli kom þar að. Guðmundur og Sigurþór ferðafélagar Kristmanns voru báðir nokkuð drukknir þegar þetta gerðist en Kristmann líklega ekki.
Mál þetta var á sínum tíma mjög umtalað og kallað Kristmannsmálið. Aldrei fékkst neinn botn í það hver morðinginn var og rannsókn yfirvalda var öll í skötulíki. Ýmsar heimildir eru til um þetta mál, meðal annars er stór og þykk bók um 300 blaðsíður á Þjóðskjalasafninu um það og Kristmann Guðmundsson rithöfundur ritaði frásögn um þetta sem á sínum tíma birtist í Lesbók Morgunblaðsins. (30. árgangi 26. tbl.)
Lesbókina er hægt að nálgast á vefsetrinu timarit.is og kynna sér þetta mál betur ef áhugi er fyrir hendi.
Mín frásögn af þessu er byggð á bókinni Saga Kolviðarhóls eftir Skúla Helgason sem út kom á Selfossi árið 1959.
Margt fleira merkilegt er í þessari bók og mun ég ef til vill skýra frá einhverju af því seinna. Mamma vann eitt sinn um tíma á Kolviðarhóli og ég man vel eftir Valgerði Þórðardóttur eiginkonu Sigurðar Daníelssonar síðasta veitingamannsins þar.
Valgerður bjó síðust árin sem hún lifði í Hveragerði og mamma kallaði hana alltaf Völu á Hól og gætti virðingar í rómnum þegar hún talaði um hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2008 | 01:02
270. - Vódafón gambíturinn
Margir sem ekki tefla skák vita þó hvað gambítur er.
Það er byrjunarbragð í skák sem venjulega felur í sér fórn. Nýjasti gambíturinn er Vódafón gambíturinn svonefndi. Hann er stórhættulegur þó engu sé fórnað, en sem betur fer er auðvelt að verjast honum.
Nýjustu skákreglur segja að hringi farsími hjá öðrum hvorum keppanda eftir að skák er hafin skuli skákin umsvifalaust dæmd töpuð fyrir vörslumann farsímans. Þeir sem í þessu lenda eru sagðir hafa fengið á sig Vódafón gambítinn.
Liðsstjórar í sveitakeppni í skák hafa gjarnan meðal annars það hlutverk að prófa að hringja í farsíma allra keppenda í andstæðingasveitinni. Þannig er hugsanlegt að fá einhverja ódýra vinninga. Vörnin við þessum gambít felst að sjálfsögðu í því að gæta þess að slökkva á farsímanum áður en skákin hefst.
Ég er hræðilegur dellukarl. Einu sinni safnaði ég frímerkjum af svo mikilli áfergju að ekkert annað komst að hjá mér og ég eyddi öllum mínum peningum í þessa vitleysu. Þar á meðal man ég að ég keypti dýrum dómum heildarútgáfu af frímerkjum nýs ríkis í Afríku sem Ghana heitir. Forseti þess ríkis og helsta fyrirsæta á frímerkjum þaðan um þær mundir hét Kwame Nkrumah. Sko, þetta man ég þó ennþá.
Ég var líka svo heillaður af skákinni á tímabili að ef ég kom á hellulagt svæði gat ég um ekkert annað hugsað en mannganginn. Dreymdi líka oft og einatt um skák. Þetta var þegar ég var um fermingu.
Svo var það fyrir rúmum áratug eða svo að ég fékk óstjórnlegan áhuga fyrir Formúlu 1. Þetta var um það leyti sem sjónvarpsútsendingar frá þessari keppni voru á Eurosport og mér fannst hlægilegt ef fólk þekkti ekki ökumenn á útliti hjálmanna. Að þekkja lið eftir lit á bílum var líkt og munurinn á hægri og vinstri. Nokkrum sinnum sá ég útsendingar frá formúlunni á Ríkissjónvarpinu eftir að rétturinn fór þangað og hneykslaðist mikið á fáfræði þeirra sem lýstu. Þá hafði rétturinn til útsendinga verið tekinn af Eurosport einu ári fyrr og uppúr því fór áhugi minn á þessu eðla sporti að dvína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2008 | 01:01
269. - Internetið, Netútgáfan, BBS og fleira
Hvað er Internetið?
Hvernig kynntist fólk því fyrst?
Sumir álitu það bara tölvupóst.
Aðrir irk.
Enn aðrir álíta það bara blogg.
Sumir hafa mestan áhuga á netflakki og álíta það bara vafra.
Internetið þróast. Fyrst var Gopher, svo Lynx, síðan Mosaic, þar á eftir Netscape, þá Internet Explorer o.s.frv.
Þetta er bara um vafrana. Svipað má segja um annað. Ég man að fyrsta póstforritið sem ég notaði hét Elm. Seinna var ég svo sakaður um að vera einn af síðustu notendum þess forrits hér á landi. Upphaf Internetsins má rekja til sjöunda áratugar síðustu aldar þó sumir haldi að þetta sé nýlegt fyrirbrigði.
Internetið er að verða svo altækt í nútímasamfélögum að vel er hægt að tala um byltingu, sem jafna má við prentlistina. Það er hjóm eitt að vera að tala um einstök fyrirbrigði eins og útvarp, sjónvarp, síma eða tölvur í samanburði við Internetið. Heimurinn verður aldrei samur eftir þá byltingu sem Internetið hefur valdið.
Hér á Íslandi var undanfari Internetsins á margan hátt BBS-in svonefndu. Þau voru gríðarlega vinsæl hér á árunum uppúr 1980. Fyrst líklega á Keflavíkurflugvelli, en síðan um landið allt. Svolítið ágrip af sögu þeirra er að finna í Rafritinu sem ég gaf út á árunum eftir 1990. Það má finna á vef Netútgáfunnar. Um Netútgáfuna mun ég ef til vill blogga meira á næstunni.
Netútgáfan var merkileg tilraun sem ég stóð að ásamt börnunum mínum þremur. Netfangið er snerpa.is/net. Ekkert hefur þó bæst við af efni þar síðan árið 2001. Ég hef ekki látið verða af því að breyta netfanginu þó það væri auðvitað í lófa lagið. Vel mætti líka endurvekja þetta framtak. Í rauninni er ég hissa á að enginn skuli gera það. Nóg er til af efni.
Í fyrra var ég beðinn um að halda smátölu um Netútgáfuna á bókavarðarþingi eða einhverju þessháttar sem haldið var á Selfossi. Ef til vill mun ég birta þá samantekt fljótlega.
Afleiðing af því hve oft ég blogga og mikið er sú að ég óttast stundum að ég sé að endurtaka mig. Þó held ég að ég hafi ekki gert mikið af því hingað til. Hafi einhverjir samt orðið varir við slíkt bið ég þá endilega að láta mig vita í kommenti. Þau les ég alltaf. Svo má líka senda mér e-mail á netfangið saemi@snerpa.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.3.2008 | 01:18
268. - Moggabloggs-samfélagið og bloggið almennt
Moggabloggs-samfélagið er einstakt.
Ekki er furða þó aðrir bloggarar öfundi okkur á Moggablogginu og finni því flest til foráttu. Það gerir okkur ekkert til.
Kommentin eru sál bloggsins hvort sem þau eru mörg eða fá. Þeir bloggarar sem ekki lesa kommentin sín vegna þess hve mörg þau eru eiga alla mína samúð. Þeir eru að missa af miklu. Jafnvel þó kommentið sé ekki nema einfalt innlitskvitt er það nokkurs virði. Sjálfur kommenta ég alltof sjaldan, en er alltaf að hugsa um að bæta mig í því.
Einhvern tíma hef ég sagt á bloggi að ekki skuli spandera góðum hugmyndum í komment heldur reyna að nota þær (kannski auknar og endurbættar) í komandi blogg. Þetta má til sanns vegar færa að einhverju leyti því örugglega missa margir af kommentum á öðrum bloggum. Sá sem bloggið á hlýtur þó í flestum tilfellum að skoða þau.
Sigurður Þór (sem alltaf er mér ofarlega í huga þó ég kommenti sjaldan á bloggið hans) er að spyrja um elstu bloggara landsins. Í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér kynnum mínum af blogginu. Fyrst í stað skildi ég ekkert um hvað þetta snerist. Síðan rakst ég á grein um fyrirbrigðið eftir Salvöru Gissurardóttur og í framhaldi af því fór ég að fylgjsast með bloggum sem sett voru á nagportal.net. Þau voru ekki ýkja mörg en mig minnir að Már Örlygsson hafi verið þar. Allavega voru blogg þeirra Salvarar og Más meðal þeirra allra fyrstu sem ég fylgdist reglulega með.
Má kynntist ég líka vegna þess að hann sendi mér eitt sinn bréf og spurði mig hvernig í ósköpunum við fjármögnuðum Netútgáfuna. Svar mitt var á þá leið að hún væri ekki fjármögnuð með neinu öðru en fyrirhöfninni.
Í framhaldi af grein Salvarar og samkvæmt ábendingu hennar prófaði ég aðeins að blogga á pitas.com. Það var ekki lengi og ég lét engan vita af því og þar af leiðandi voru heimsóknir engar.
Ég veit ekki hvenær þetta var en líklega hefur það verið svona 1999 - 2000. Örugglega ekki seinna en 2001. Egill Helgason og Björn Bjarnason byrjuðu líka snemma að blogga þó þeir vilji kannski kalla sitt Netdaður eitthvað annað.
Það voru þónokkur blogg sem hægt var að nálgast í gegnum nagportal.net en ég man ekki eftir neinum nöfnum þar. Mér fannst þetta áhugavert en ekki neitt sérstaklega merkilegt. Á þessum tíma voru ekki mjög margir nettengdir og ekki kom ég auga á hina gríðarlegu möguleika bloggsins.
Það var svo ekki fyrr en seint á árinu 2006 þegar Moggabloggið fór að tröllríða bloggheimum sem ég byrjaði aftur að blogga. Upphaflega voru lesendur afskaplega fáir, en þeim hefur fjölgað hægt og sígandi síðan og einkum þó núna síðustu dagana.
Stundum set ég myndir á bloggið mitt, einkum gamlar myndir og ég reyni yfirleitt að hafa bloggin mín ekki óhóflega löng, en blogga þeim mun oftar. Nokkuð vel hefur til tekist í þessu og undanfarna mánuði hef ég bloggað flesta daga.
Héraðsdómur er nú genginn í D++ málinu og var hann Smáís í vil. Ég er satt að segja talsvert hallur undir þá í D++ að því leyti að mér finnst andstæðingar þeirra verðleggja vörur sínar alltof hátt og að því leyti kalla torrenta og þess háttar yfir sig. Auðvitað eiga menn samt að fylgja landslögum. Það þýðir ekkert fyrir þá að hallmæla dómurum ef dómar ganga gegn þeim. Þetta er aðferð sem fundin hefur verið upp til að jafna ágreining manna á milli og hávaði er ekki rétta leiðin til að breyta því.
Það er samt rétt að hamra járnið sem mest og reyna að benda á rök fyrir því gagnstæða. Á endanum hlýtur skynsemin að sigra. Geri hún það ekki er margt í hættu. Internetið er nýi tíminn og menn eru bara að berja höfðinu við steininn með því að viðurkenna það ekki.
Friðrik Skúlason (frisk.blog.is) viðhefur stór orð um þá istorrent-menn og heldur áfram að kalla þá þjófa. Ég er samt alls ekki viss um að hann sé jafnslæmur og rétthafar tónlistar og kvikmynda í verðlagningu vöru sinnar. Hann lendir bara þarna vegna þess að hagsmunir þeirra fara að talsverðu leyti saman. Úrslit þessara mála eru mjög áhugaverð, ekki bara hér á Íslandi heldur í vestrænum löndum öllum. Dómi héraðsdóms verður að líkindum áfrýjað svo ekki er hægt að segja að úrslit séu komin í málið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.3.2008 | 00:06
267. - Vísnagerð og vanhæfir alþingismenn
Þú ert kátur með þitt mát
þó meiri gát ég vildi.
En í gráti aldrei lát
enda hláturmildi.
Þetta er sennilega einhver dýrast kveðna vísa sem ég hef gert. Vissulega hef ég gert þónokkrar sléttubandavísur, en mér finnst ekki að þær séu dýrari en oddhendur. Vel gerðar oddhendur finnst mér taka flestu fram. Afhendingarhátt hef ég glímt við og sett saman vísur eftir þeim reglum sem þar gilda. Meiningin í þeim vísum vill þó fara veg allrar veraldar þegar formið eitt yrkir orðið vísuna. Af einhverjum ástæðum hefur mér jafnan gengið verst að gera limrur.
Ofangreind vísa er úr ljóðabréfi til Þóris E. Gunnarssonar og ég man að við tefldum líka bréfskák um leið og felldum leikina í ferskeytlur eins og allt annað í bréfunum, jafnvel dagsetningarnar. Hann hótaði að máta mig í byrjun skákar og þess vegna varð þessi vísa til. Skákin varð ekki löng og lauk líklega aldrei. Ein af fyrstu vísunum sem ég gerði í þessum ljóðabréfaflokki var svona:
Ofsalegt æfingarleysi
er mér til tafar um stund.
Á Pegasus þegar ég þeysi
á Þóris hins spaka fund.
Ekki veit ég hversvegna ég man þessa vísu svona vel. Hún er þó alveg sæmilega lipur. Yfirleitt man ég ekki lengi þær vísur sem ég geri.
En frá sjáflhælninni og að öðrum málefnum.
Ég hef oft velt fyrir mér hve alþingismenn eru undarlegur þjóðflokkur. Dæmi um það er frumvarp sem ég heyrði sagt frá fyrir nokkru, en veit ekki hvar er statt núna. Þar er gert ráð fyrir að hver og einn landsbyggðarþingmaður geti ráðið sér einn þriðja hluta af aðstoðarmanni.
Þvílík della. Í fyrsta lagi er engin leið að koma auga á hversvegna þetta á bara að ná til landsbyggðarþingmanna en ekki annarra. Eru þeir eitthvað hjálparlausari en aðrir? Í öðru lagi er það út í loftið að hafa bara einn þriðja hluta aðstoðarmanns og getur alls ekki gengið til lengdar.
Ef þessi ósköp verða samþykkt þá líður ekki á löngu áður en þessir aðstoðarmenn verða orðnir jafnmargir og þingmennirnir og allir í fullu starfi. Hlutverk þeirra verður öðru fremur að tryggja sínum manni endurkjör í prófkjörum og alþingiskosningum og sjálfum sér þar með áframhaldandi atvinnu. Með þessu má komast hjá óhóflegri endurnýjun í þingliðinu og sú er væntanlega hugsun flutningsmanna þessa fáviskufrumvarps.
Ef ekki væri gert ráð fyrir að þingmenn sjálfir réðu sér aðstoðarmenn væri mögulegt að koma viti í þetta frumvarp. Ekki er ég á móti því að þingmenn sinni sínu starfi betur.
Einn af kostunum við að blogga er að þetta er ágæt aðferð til að koma frá sér allskonar efni. Það sá ég best um daginn þegar það datt í mig að setja saman einskonar ljóð. Með því að henda því inn á bloggsvæðið mitt var ég laus við það. Auðvitað má ekki nota þessa öskutunnuaðferð í óhófi en sé hún sparlega notuð er hún úrvalsgóð.
Óróinn við Upptyppinga fer nú vaxandi. Áslaug stendur jafnan skjálftavaktina og veit um svonalagað löngu áður en sagt er frá því í sjónvarpinu, þökk sé úrvalsupplýsingum um þetta á Netinu á slóðinni vedur.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)