282. - Kong Christian stod ved hójen mast og holdt sig fast

Ég minntist á Rafritið hér á blogginu um daginn.

Það má nálgast með því að fara fyrst á síðu Netútgáfunnar (www.snerpa.is/net) og svo áfram. Margt var að finna í Rafritinu og þeir sem gaman hafa af ýmiss konar gömlum fróðleik ættu kannski að skreppa þangað ef þeir hafa tíma.

Hér er innlegg sem birtist í 3. tölublaði Rafritsins og er komið frá Atla Harðarsyni sem nú er aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskólann á Akranesi og bróðir Bjarna framsóknarþingmanns.

Atli átti líka fjölmargar mjög góðar greinar í Rafritinu um heimspekileg efni. 

Kong Christian stod ved hójen mast

Það hefur lengi verið útbreiddur misskilningur meðal íslenskra textafræðinga, málvísindamanna og sagnfræðinga að textinn við lag D. L. Rogerts um Kristján konung byrji svona:

Kong Christian stod ved hójen mast
og holdt sig fast.

Þetta er auðvitað ekki rétt. Nefndur texti er eftir danska ljóðskáldið Johannes Ewald og fyrsta erindið er svona:

Kong Christian stod ved hójen mast
í róg og damp.
Hans værge hamrede saa fast,
at Gotens hjælm og hjerne brast.
Saa sank hvert fjendligt spejl og mast
i róg og damp.
Fly, skreg de, fly, hvad flygte kan.
Hvo staar for Danmarks Christian
i kamp.

Kristján konungur hélt sér sem sagt ekki í mastrið eins og íslenskir textafræðingar, málvísindamenn og sagnfræðingar hafa talið.

Eftirfarandi er líka úr Rafritinu.

Íslendingar hafa aldrei kunnað að ferðast. Landnámsmennirnir voru svo miklir ratar í ferðalögum að eftir að þeir flæktust hingað treystu þeir sér ekki til að fara aftur og settust frekar að.

Ef Íslendingasögurnar eru lesnar vekur það athygli að varla hafa menn getað skroppið lengra en í næstu sveit án þess að þurfa að hafa vetursetu eins og þar var kallað.

Greinilega var aumingjaskapur manna á ferðalögum það mikill að þeir treystu sér ekki til að ferðast nema í júlí og ágúst. Á öðrum tímum var hætta á að þeim yrði kalt á nóttunni því ekki kunnu þeir að sauma almennileg tjöld. Og þá varð það fangaráð manna ef þeir fóru af einhverjum ástæðum í lengri ferðir að hafa vetursetu og er margar lýsingar á þeirri íþrótt að finna í fornsögum.

Þá settust menn upp hjá fólki með eða án samþykkis þess frá því í september og fram í maí eða lengur. Það fór síðan eftir ýmsum atvikum hver framvindan í vetursetunni varð. Oft tóku vetursetu-menn það til bragðs út úr leiðindum að nauðga kvenfólki á bænum og drepa vinnumenn og þræla og gátu þá orðið eftirmál út af þessu og þótti búendum stundum á sig hallað.

Ekki tíðkaðist þó mikið að menn gyldu líku líkt og tækju síðar upp vetursetu hjá þeim sem áður höfðu vetursetið þá. Meiri stæll þótti yfir því að finna fjarskylda ættingja í öðrum landshlutum til að vetursitja. Með þessu móti urðu stundum til leikfléttur sem stóðu áratugum saman með tilheyrandi ferðalögum, vetursetum og sumarreiðum.

Þrátt fyrir þetta fór ferðakunnátta Íslendinga lítt batnandi.

Þegar kom fram á Sturlungaöld olli þetta oft nokkrum vandræðum í fjölmennum herferðum, því þá voru sveitirnar sem hersetnar voru stundum ekki nógu stórar til að taka við heilum herflokkum til vetursetu og urðu af þessu árekstrar og vandræði og kom jafnvel fyrir að reynt var að brjótast með herflokka milli landshluta þó snjóföl væri á jörðu og fór þá oft illa og varð mörgum kalt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Bráðskemmtilegir þankar um ferðalög og vetursetu landnámsmanna! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.3.2008 kl. 02:08

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Gísli Jónsson íslenskukennari kenndi okkur þetta svona; Kong christan stod ved höjen mast og holdt sig fast.....

Hólmdís Hjartardóttir, 18.3.2008 kl. 02:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband