277. - Kettlingum komið í skjól og fleiri krakkasögur frá Vegamótum

Þegar við vorum á Vegamótum gerði stundum ansi slæm veður.

Eitt sinn vaknaði ég upp víð það um miðja nótt að glugginn inni hjá strákunum skelltist hvað eftir annað með miklum látum.

Ég fór inn til þeirra til að loka glugganum og heyrði að Benni hafði vaknað við djöfulganginn og sagði við mig hálf aumingjalega úr sinni neðri koju.

"Hann var að reyna að loka sér sjálfur."

Við áttum á þessum tíma kött. Þetta var læða og ég man ómögulega hvað hún hét. En kettlingafull varð hún eins og katta er siður. Í fyllingu tímans gaut hún svo fjórum kettlingum í bælinu sínu. Þetta var um miðjan dag en um nóttina á eftir vaknaði Bjarni í sinni efri koju við það að kisa var að klifra upp eftir gardínunni við hliðina á kojunni hans með kettling í kjaftinum. Síðan varð hann var við að þrír kettlingar voru komnir undir sængina hans til fóta.

Þetta var semsagt síðasti kettlingurinn sem hún var að koma á öruggan stað. Hvers vegna hún ákvað að leggja allt þetta á sig til að koma kettlingunum á nýjan stað hef ég aldrei skilið.

Bjarni vildi náttúrulega helst láta kisu eftir kojuna sína fyrst hún sýndi henni svona mikinn áhuga, en ég held að kisa hafi fallist á það að lokum að fara aftur í bælið sitt.

Benni var að segja frá viðureign sinni við hunangsflugu: "Það kom fluga og stang mig en ég rakti hana í burtu."

Einn daginn kom Bjarni þjótandi inn og sagði: "Mamma, mamma. Errið er komið í mig." Og það var alveg rétt hjá honum. Hann var allt í einu hættur að vera smámæltur og farinn að segja err eins og fullorðið fólk.

Benni fann eitt sinn dauðan fugl. Þegar hann var spurður hvort ekki væri ástæða til að jarðsetja hann með viðhöfn sagði hann. "Nei, það er allt í lagi. Ég henti honum bara upp til Guðs."

Virkileg óveður komu þarna stundum með afar litlum fyrirvara. Eitt sinn sá ég að bylur var að bresta á og strákarnir voru að leika sér í snjónum nokkra tugi metra frá íbúðarhúsinu. Ég var að vinna niðri í búð, sem er í svona 150 metra fjarlægð eða svo þegar ég sá til þeirra. Ég flýtti mér að ná í þá, en svo var bylurinn svartur og svo skyndilega skall hann á að ég komst ekki heim með þá báða í einu svo ég varð að skilja annan eftir og sækja hann svo eftir að ég var búinn að koma hinum í skjól.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

  Mikið er þessi kettlingasaga falleg. Það er ekki einleikið hvað mæður leggja á sig fyrir börnin sín.

Eru ekki Vegamót mikið veðravíti svona almennt?

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.3.2008 kl. 00:41

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, Vegamót eru dálítið slæm vegna þess að það kemur oft svo mikill snjór af flóanum fyrir ofan. Það gerir aldrei óveður í Reykjavík (hvessir í mesta lagi svolítið) og heldur ekki á Akranesi held ég.

Sæmundur Bjarnason, 13.3.2008 kl. 01:02

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég kommentaði langt mál á þessa færslu í gærkvöldi en rétt áður en ég ýtti á "senda"  datt internetið út og kom ekki inn aftur. 

En skemmtileg færsla og víst var alvöru bylur á Vegamótum... bylur sem til að mynda sést aldrei í Borgarnesi. 

Anna Einarsdóttir, 14.3.2008 kl. 13:34

4 identicon

Ég vil endilega að nafnið á kisunni sem um getur í þessari frásögn komi fram hérna!

Hún hét:  Skotta Dimmalimm

asben 17.3.2008 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband