278. - Saumavélamennirnir stórhættulegu og óveður undir Hafnarfjalli

Ljótar eru fréttirnar um saumavéla-spekúlantana sem eru að leggja undir sig landið.

Það vill svo til að ég þekki vel fólk sem lenti í þeim. Nú situr það uppi með úrvalssaumavél sem fékkst á mjög góðu verði og bíður bara eftir því að Selfosslögreglan komi í heimsókn og stingi það á versta stað með þvaglegg.

Eiginlega er bara eitt í sambandi við þetta mál sem ég skil ekki. Hvað kom Neytendastofu þetta eiginlega við? Eru þessir aumingja menn, sem telja sig hafa einkarétt á að féfletta sauðsvartan almúgann, ekki færir um það sjálfir að hafa samband við Selfosslögregluna ógurlegu?

Ég er svolítið kunnugur í Árnessýslu og hef heyrt að sýslumaðurinn sem var á undan þeim núverandi hafi stundum verið gagnrýndur fyrir að gera lítið. Sá sem nú hefur tekið við er aftur á móti stundum gagnrýndur fyrir að gera of mikið. Já, það er vandlifað í henni verslu.

Annars er það með hálfum huga sem ég blogga þetta. Hvað veit ég nema útsendarar valdstjórnarinnar lesi öll blogg eða geti leitað að öllum sem voga sér að minnast á saumavélar. Eiginlega er það hið mesta vogunarspil hjá mér að setja þetta stórhættulega orð í fyrirsögn bloggsins.

Mesta óveður sem ég hef lent í um ævina var undir Hafnarfjalli. Saab bíllinn sem ég var á var það þungur að ég óttaðist ekki svo mjög að hann fyki. Snjór var á jörðu og ferðin sóttist afskaplega seint. Ég var í lest sem í voru eitthvað innan við tíu bílar. Veðrið var þannig að það gekk á með óskaplegum hryðjum en lægði mikið á milli og þá var hægt að sjá lítið eitt í kringum sig.

Þegar einni hryðjunni slotaði svolítið sá ég að afturljósin á bílnum á undan voru hvort uppaf öðru. Bíllinn var semsagt að fjúka út í buskann. Sem betur fer lenti hann í vegkantinum þegar hryðjunni slotaði og fólkið í honum gat komist út. Ég fór útúr bílnum til að aðstoða fólkið og það gerðu fleiri.

Meðan við vorum að bollaleggja um hvort nokkurt viðlit væri að koma bílnum á réttan kjöl aftur skall næsta hryðja á. Þá tókst bíllinn sem fokið hafði aftur á loft og rúllaði í burtu en við forðuðum okkur í skyndi inn í bílana.

Síðan var ekið á Akranes og gist þar. Okkur leist nefnilega ekki á að fara fyrir Hvalfjörð í þessu veðri. Morguninn eftir var komið ágætisveður.

Mig minnir að þetta hafi verið þegar ég var á leiðinni í jarðarförina hans pabba.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þú ert ofurhugi á saumavélar sem annað!

Ég var einmitt að keyra undir Hafnarfjalli og Kjalarnesið í gær á leið til og frá Borgarnesi að sjá Brák. Veðrið var nú bara ágætt en engu að síður kiptti hann vel í bílinn nokkrum sinnum á báðum stöðum - allsendis fyrirvaralaust svo manni brá svolítið. Ekki vildi ég lenda í svipuðu óveðri og þú lýsir þarna, hviðurnar eru ótrúlegar á þessum slóðum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.3.2008 kl. 09:53

2 identicon

Það má vel vera að engin ástæða hafi verið til að stöðva saumavélasöluna. Þessum mönnum ætti e.t.v. að vera frjálst að ljúga í auglýsingum, selja saumavélar á hærra verði en innlendir aðilar, án verslunarleyfis og stinga svo af með vaskinn. Hvað á Neytendastofa að gera ef hún veit að verð sé að pretta neytendur? Hvað á löggan að gera ef henni er bent á lögbrot?

sigkja 14.3.2008 kl. 12:12

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vissi neytendastofa að verið var að pretta neytendur? Hvernig vissi hún það? Voru það neytendur sem sögðu það? Hleypur fólk þar til í hvert skipti sem einhver segir að verið sé að pretta neytendur?

Ég veit ekkert hvernig neytendastofa starfar, en mér finnst hún starfa einkennilega í þessu máli.

Ef sölumennirnir stinga af með vaskinn er það mál yfirvalda en ekki neytenda að stöðva það.

Ég er alls ekki að segja að yfirvöld hafi ekki mátt gera neitt í þessu máli, bara að lýsa þeirri hlið málsins sem ég þekki. 

Sæmundur Bjarnason, 14.3.2008 kl. 13:02

4 identicon

Góð athugasemd hjá sigkja. Hvað finnst þér einkennilegt við viðbrögð Neytendastofu í þessu máli? Umboðsaðilar og meðvitaðir neytendur hafa að sjálfsögðu samband við Neytendastofu sem þá biður lögregluna að athuga starfshætti þessara kóna. Þeir koma hingað í örfáa daga í senn til að rusla þessu út, ljúga blákalt í auglýsingum, borga engin gjöld osfrv. Það hlýtur að þurfa að bregðast hratt við í slíkum tilfellum. Það er nógu erfitt að standa í rekstri án þess að þurfa að keppa við svona lagað.

Halldór 14.3.2008 kl. 17:04

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einkennilegt hjá bæði sigkja og Halldóri að geta ekki komið fram undir fullu nafni í þessu máli.

Mér finnst að Neytendastofa þurfi alls ekki að hlaupa eftir öllu sem umboðsaðilar segja. Hvaða meðvitaðir neytendur eru þetta sem þú ert að tala um, Halldór?

Svo væri líka ágætt að  fá að vita meira um þessa lýgi í auglýsingum. Slíkt ætti að vera auðvelt að kæra.

Sæmundur Bjarnason, 14.3.2008 kl. 18:42

6 identicon

Ég kalla mig sigkja. Ég gæti gert eins og þú og notað eitthvað fullt nafn sem gæti átt við nokkra einstaklinga, ekki endilega mig. Og sett með mynd sem sýnir einhvern óþekkjanlegan bakvið kött til að gera þig ánægðan. Mér þykir bara heiðarlegra að þú gerir þér strax ljóst að ég nota dulnefni. Mitt er bara augljósara en þitt.

Auglýsingin er frekar langur texti og nær öll ósönn. T.d.; Þetta eru ekki óseldar pantanir heldur vélar keyptar í heildsölu og seldar með góðri álagningu. Sölumennirnir tengjast framleiðanda ekki á nokkurn hátt. Gefið er í skyn að vél sem kostar hjá þeim um 19000 kosti hér hátt í 50000 þegar hið rétta er að hún er á um 17000. Ábyrgðin er bara stöðluð ábyrgð frá framleiðanda 2 eða 3 ár að mig minnir ekki 25 ár o.s.frv.

Og skattsvik koma okkur öllum við.

sigkja 14.3.2008 kl. 23:12

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er almennt á móti dulnefnum nema brýn ástæða sé til. Þú mátt alveg halda að mitt nafn sé dulnefni, ég reikna ekki með að aðrir geri það.

Ég álít að jafnvel þó vélar séu keyptar í heildsölu geti verið um ósóttar pantanir að ræða. Þetta sem þú segir um lýgina í auglýsingunni finnst mér ekki sannfærandi.

Þegar ég greiði virðisaukaskatt af vöru er ég ekki vanur að ganga úr skugga um að skattinum sé skilað á réttum tíma og á réttan hátt.

Sæmundur Bjarnason, 15.3.2008 kl. 00:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband