Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

87. blogg

 

Með mjöl í augum

 

Þetta er undarlegt. Þegar ég vakna get ég ekki opnað augun. Allt er hulið myrkri. Þó veit ég og heyri að einhverjir eru komnir á stjá og það ætti að vera búið að kveikja ljós. Áður en mér vinnst ráðrúm til að gera mér verulegar áhyggjur út af skyndilegri blindu minni, ákveð ég að nudda hægra augað með hnúunum. Og viti menn, það síast birta inn fyrir augnalokið og eins fer með hitt augað.

Þetta var í Þorlákshöfn rétt fyrir jólin árið 1958. Í fréttum var það helst að ný ríkisstjórn var að taka við. Ég hafði ekki mjög mikinn áhuga fyrir fréttum á þessum árum, en það voru nú ekki ríkisstjórnarskipti á hverjum degi, svo ég held ég hljóti að muna þetta rétt.

Ég var semsagt ásamt fleiri Hvergerðingum við uppskipunarvinnu niðri í Þorlákshöfn. Við afgreiddum 3 skip í þessari lotu. Fyrst mjölskip, síðan timburskip og svo aftur mjölskip, sem við kláruðum þó ekki alveg að losa, því við vorum látnir hætta klukkan þrjú um nóttina, þó talsvert væri eftir af mjöli, því með því sparaðist að borga okkur klukkutíma langan matartíma í næturvinnu og stjórnendum Meitilsins þótti borga sig betur að senda skipið til Reykjavíkur, þó það kostaði að flytja þyrfti það sem eftir var af mjölinu með bílum til Þorlákshafnar. Það er semsagt ekkert nýtt að reynt sé að féfletta þá sem minnst mega sín.

Ég var bara 16 ára þegar þetta var og ég man að mér þótti talsverð upphefð í því að vera talinn fullgildur karlmaður við þessa vinnu og ég fékk laun í samræmi við það. Í Þorlákshöfn voru of fáir menn á lausu til að ráða við að afferma skipin svo það var sent herútboð í nærliggjandi hreppa. Siggi Árna hafði einhvern pata af því að ég kynni að vera fáanlegur til þessarar vinnu. Sá eini sem ég man eftir af öðrum Hvergerðingum í þessari uppskipunarvinnu var Atli Stefánsson bekkjarbróðir minn.

Uppskipunin var þrælavinna. Lest skipsins var smekkfull af fimmtíu kílóa sekkjum af mjöli. Á þessum árum var fóðurblöndunarstöð í Þorlákshöfn og mjölið áreiðanlega ætlað í fóðurblöndu. Svonefndar stroffur voru lagðar niður og 20 til 30 mjölsekkjum síðan staflað ofan á þær. Heisinu var síðan lyft á vörubílspall og þegar hæfilega mörg voru komin á hann var ekið upp í mjölskemmu.

Það var eftir uppskipunina úr fyrsta skipinu sem ég gat ekki opnað augun eftir að hafa vaknað. Við höfðum verið að vinna langt fram á nótt og ég farið strax að því loknu að sofa og þegar ræst var til vinnu morguninn eftir var mjölrykið í augunum á mér orðið samanklesst svo ég gat ekki opnað þau.

Næst á dagskránni var að losa timburskip sem komið var til hafnar með borðvið frá Rússlandi. Undarlegt þótti mér að sjá að greinilega höfðu þeir sem skipuðu timbrinu út reykt mikið og það greinilega dálítið óvenjulegar sígarettur því stubbarnir sem þarna voru út um allt sýndu að munnstykkið hafði verið ótrúlega langur pappahólkur holur að innan en með engu tóbaki. Sígaretturnar sem við krakkarnir vorum að fikta við að reykja á þessum árum voru hinsvegar úttroðnar af tóbaki. Camel var vinsælast og Cheserfield reyktu sumir. Það var síðan ekki fyrr en nokkru seinna sem filtersígarettur komu á markaðinn. Ég man að ég þurfti að hætta að reykja í nokkurn tíma til að geta skipt úr Camel í Viceroy.

Erfitt var að stafla mjölpokunum á stroffurnar, en ennþá erfiðara var að eiga við helvítis timbrið. Plankarnir voru mislangir, misbreiðir og misþykkir og þó tvær stroffur væru jafnan notaðar við að útbúa heisin vildi það öðru hvoru koma fyrir að kranastjórarnir áttu í erfiðleikum með að ná timburbúntunum upp um lestaropið. Oft var það vegna þess að langir plankar stóðu út úr búntunum. Þá gripu þeir gjarnan til þess fangaráðs að rykkja búntinu upp, svo plankinn sem útaf stóð brotnaði af. Þá var eins gott að vera ekki að flækjast fyrir þegar búturinn af plankanum datt niður í lestina aftur.

Þegar búið var að skipa upp svona helmingnum af timbrinu bauðst mér að vinna við að taka á móti timburbúntunum á pallinum á bílunum sem voru uppá bryggjunni. Auðvitað þáði ég það með þökkum því það var augljóslega mun auðveldari vinna. Þar unnum við Atli hreppstjórans svo við að taka á móti timburbúntum, losa þau og koma þeim fyrir á bílpöllunum.

Timburbúntin sveifluðust jafnan talsvert til, en með hægðinni var oftast hægt að láta þau stöðvast í sæmilegri stöðu og koma þeim þannig fyrir á pallinum. Ekki man ég hve mörg búnt voru sett á pallinn í hvert sinn, en líklega hafa þau verið svona tvö til þrjú. Það sem einkum þurfti að athuga var að vera alltaf sjálfur á réttum stað þegar búntin sveifluðust til. Ekki máttu þau lenda landmegin við mann.

Einu sinni lenti ég þó í því að timburbúnt sem sveiflaðist mikið lenti öfugu megin við mig og stefndi beint á mig þar sem ég stóð á pallbrúninni. Frekar en að lenda hugsanlega milli skips og bryggju tók ég undir mig mikið stökk og stökk um borð í skipið. Ég man að ég lenti á einhverju spýtnabraki og undraðist það mest hve langt var upp á bílpallinn.

Vinnan á bílpallinum var samt ekki tómt vesen og vandræði því þaðan sá ég einhver þau furðulegustu norðurljós sem ég hef séð um ævina. Þau voru rauð en ekki græn eins og algengast er. Þau voru heldur ekki útbreidd um allan himininn eins og venjuleg norðurljós eru oft, heldur voru þau einkum í suðrinu og sumir segja að þetta fyrirbrigði kallist suðurljós.


86. blogg

Um dauðans óvissa tíma.

 

Mér hefur alltaf staðið ógn af dauðanum. Einu sinni var ég sannfærður um að ég mundi deyja ungur. Nú er ljóst að svo verður ekki.

Fyrir nokkru síðan var ég líka sannfærður um að ég mundi eiga stutt eftir. Í mesta lagi mánuði eða misseri. Þetta reyndist síðan einnig hin mesta firra. Já, það lifir lengst sem hjúum er leiðast, eins og segir í máltækinu.

Bjarni í kaupfélaginu sagði mér einu sinni að hann væri svo hræddur við að deyja að hann hrykki stundum upp með andfælum um miðjar nætur við tilhugsunina eina saman. Þetta fannst mér merkilegt.

Eins og margir vita þá byrjaði Hveragerði í raun að byggjast af krafti á stríðsárunum (1939 - 1945). Er virkilega ástæða til að setja þessi ártöl þarna? Ekki finnst mér það. Áður hafði einkum verið um að ræða sumarhúsabyggð þar. Það þótti góður kostur að hægt var að hita húsin þar með hveravatni á ódýran hátt.

Pabbi var einn af frumbyggjunum þarna og flutti á þessum árum með fjölskylduna frá Drumboddsstöðum í Biskupstungum til Hveragerðis.

Bjarni Tómasson var einnig einn af frumbyggjunum í Hveragerði. Sonur hans, Óskar Bjarnason, var einn af kunningjum mínum en fáeinum árum eldri. Við tókum báðir þátt í knattspyrnuæfingum og kepptum í raun um þann heiður að fá að standa í marki hjá úrvalsliði Hveragerðis í fótbolta.

Ég minnist leikja við t.d. Hvolsvöll. Sá leikur fór fram á nýslengnu túni þar sem ekki hafði verið leikin knattspyrna fyrr og mörkin voru bara tvær stengur. Einnig lékum við einhverju sinni við úrvalslið úr Arnarbælishverfi. Selfyssingar voru þó að sjálfsögðu aðalóvinurinn. Einhverju sinni lékum við gegn rökurum í Reykajavík á Háskólavellinum svonefnda. Seinna (líklega svona laust eftir 1960) lékum við svo við Hafnfirðinga í Hafnarfirði. Sá leikur fór illa. Ég man ekki betur en við höfum tapað 14:0

Guðmundur bróðir Óskars var bekkjarbróðir minn. Óskar dó ungur úr krabbameini. Hann dó heima. Guðmundur bróðir hans hafði sagt við einhvern sem spurði um líðan Óskars daginn sem hann dó:

"Ja, hann dó nú í morgun."

Guðjón Guðjónsson í Gufudal sem var hrekkjusvín mikið í skóla og ógnvaldur okkar hinna gerði grín að Mumma fyrir þetta og hermdi eftir honum.

Mér fannst þetta óvirðing hin mesta og þótti honum hefnast fyrir það þegar hann dó sjálfur nokkru seinna.

Á þessum árum dó einn af kennurum Barna- og Miðskólans í Hveragerði úr heilablóðfalli. Það var Hróðmar Sigurðsson. Þórhallur sonur hans var bekkjarbróðir minn.

Mér er í fersku minni þegar Hróðmar dó og man enn uppnámið og lætin sem urðu þegar það uppgötvaðist að hann hafði fallið til jarðar skammt frá kaupfélginu á leiðinni heim.

Daginn sem hann var jarðsettur var gefið frí í skólanum og þótti mér það sjálfsagt og eðlilegt. Nokkru fyrir jarðarförina vorum við nokkrir strákar staddir í Nýja Reykjafossi. Þórhallur sonur Hróðmars var þar á meðal.

Ragnar kaupmaður í Reykjafossi var eitthvað að ræða við okkur og þar kom tali okkar að við sögðum honum að frí yrði í skólanum vegna jarðarfararinnar.

"Hvað, eins og það taki því að vera að gefa frí þó einn kennari drepist," sagði Ragnar og hló við eins og hans var vani.

Mér þótti þetta afar óvirðulega að orði komist og fannst Ragnari hefnast fyrir þetta þegar hann dó svo sjálfur ekki löngu seinna.

Fyrsta afbrýðisemis morðið sem ég veit um hér á landi, átti sér stað á Reykjum í Ölfusi á sjötta áratug síðustu aldar. Svo vildi til að ég þekkti persónulega bæði morðingjann og hina myrtu. Það var Bjössi fjósamaður á Reykjabúinu sem skaut Concordiu Jónatansdóttur til bana með riffli.

Að sjálfsögðu vakti þessi atburður gríðarlega athygli í litlu plássi eins og Hveragerði. Fjölmiðlar skrifuðu ekki svo ýkja mikið um þetta mál, en sögurnar sem maður heyrði voru þeim mun áhrifameiri.

Ég var lengi að jafna mig á þessum atburði og hann hafði mikil áhrif á mig. Dauðinn hafði fram að þessu ekki verið neitt sem maður velti fyrir sér. Þó var hann alltaf nálægur og þó maður setti hann ekki í samband við sjálfan sig, vissi maður að hann beið í rólegheitum handan við hornið.

Ekki man ég eftir því hvenær ég fór að gera mér grein fyrir því að dauðinn biði okkar allra. Mér er næst að halda að ég hafi alltaf vitað það þó ég hafi náttúrlega eins og flestir unglingar álitið sjálfan mig nánast ódauðlegan.

Af þessu öllu má sjá að ég álít að sýna beri dauðanum virðingu og að mönnum hefnist fyrir léttúðugt og ábyrgðarlaust tal um hann.

En eru þetta ekki léttúðug og ábyrgðarlaus skrif hjá mér?

Mun mér hefnast fyrir þetta?


85. blogg

Um rabbarbara og gamlar minningar.

Undarlegt með þessar minningar. Stundum flykkjast þær að manni og ætla allt að kæfa, en svo þegar maður reynir að festa á þeim hendur þá er eins og þær leggi strax á flótta.

Síðan er það einfaldlega svo að gamlar minningar eiga það til að vera rangar. Það er ekki skemmtilegt að uppgötva að eitthvað sem maður trúir að sé satt og rétt reynist vera tóm vitleysa þegar til á að taka. Samt er nauðsynlegt að vera við því búinn að svo sé.

Sumar minningar eru eins og myndir. Það er hægt að skoða þær og velta fyrir sér raunveruleika þeirra. Reyna að lagfæra það sem maður er ekki alveg viss um að sé rétt.

Aðrar minningar geta verið einstök orð, lykt, tilfinning eða óljós mynd sem kannski er í einhverju sambandi við aðrar myndir og kannski ekki.

Mér finnst eins og ég sé staddur í húsinu vesturfrá þar sem við vorum árið eftir að brann. Mér finnst eins og ég sé staddur í einskonar þvottahúsi í norðvesturhorni hússins og að þar séu bakdyr.

Þetta með þvottahúsið og bakdyrnar getur þó vel verið tóm vitleysa því það er einmitt svo í húsinu við Hveramörk 6, að í norðvesturhorni þess eru bakdyr og þvottahús.

Á gólfinu liggur allstórt knippi af rabbarbara. Um það er bundið snæri og búið er að skera blöðin af leggjunum. Vel getur verið að þetta séu tíu kíló eða svo, jafnvel meira. Einhver strákur er með mér og ég veit að mamma ætlar að nota rabbarbarann til þess að gera úr honum sultu.

Strákurinn spyr mig hvort ég haldi að við megum fá okkur rabbarbara. Ég gef lítið út á það og langar ekkert sérstaklega mikið í hann, en kalla þó til mömmu:

"Mamma, megum við fá rabbarbara?"

"Já, já."

Við tökum sitt hvorn rabbarbaralegginn og göngum út á götu.

Eiginlega er minningin ekki lengri en þetta. Þó er önnur mynd sem örugglega tengist þessari og er um það að strákurinn segir við mig:

"Mikið er mamma þín góð!"

Þetta gerist eflaust nokkru seinna og kannski þar sem við röltum eftir götunni og nögum okkar rabbarbara.

Af hverju þessi minning er svona föst í huga mér, er mér ekki nokkur leið að skilja. Á sínum tíma man ég að mér fannst þessi athugasemd stráksins í mesta lagi undarleg, en eiginlega ekki neitt til að gera veður útaf.

Mér finnst líka undarlegt að ég get ekki með nokkru móti munað hvaða strákur þetta var.

Seinna man ég að ég velti því fyrir mér hvort virkilega væru til mæður sem ekki vildu gefa börnum sínum rabbarbara jafnvel þó þær nóg af honum.

 

Jæja, þá er komið að því. Bjarni fer af stað í ævintýraleit sína til Karíbahafsins í fyrramálið. Klukkan hálfellefu eða svo fer hann af stað frá Keflavík. Fyrst til Boston, þaðan til Fort Lauderdale og svo samdægurs til Nassau á Bahamaeyjum.

Það er örugglega ekki lítið átak að hefja svona algjörlega nýtt líf eins og hann gerir. Gifta sig og flytjast síðan í nýtt land í annarri heimsálfu.

Samt er þetta eflaust minna átak nú en áður var. Mér verður t.d. hugsað til Vesturfaranna svonefndu, sem fluttu til Bandaríkjanna og Kanada um og nokkru fyrir aldamótin 1900. Þá var fólk beinlínis að flýja sult þann og seyru sem beið þess hér á landi.

Það er ekki alltaf viðurkennt af öllum, en í raun var á þessum tíma hungursneyð á Íslandi. Gjarnan er reynt að fegra aðstæður og framan af var reynt að gera lítið úr Vesturfara-agentum og þessháttar fólki. Samt er hafið yfir allan vafa að þetta fólk komst ágætlega af, þó fyrstu árin hafi eflaust verið mjög erfið.

Einkennilegt finnst mér alltaf að svo virðist sem sama fólkið lofsyngi viðleitni til viðhalds þjóðernis ef við erum réttu megin borðsins, en sé tilbúið til að fordæma samskonar viðleitni hjá innflytjendum til Íslands nútímans.


84. blogg

Mál málanna í dag er greinilega framlagning skattskráa.

Ég hef litla samúð með þeim Heimdellingum, sem berjast gegn því að skattskrár séu lagðar fram. Þetta hefur lengi tíðkast hér og engin ástæða er til að breyta því eingöngu breytinganna vegna.

Rökin um að þetta sé hvergi annars staðar gert bíta afar lítið á mig. Ef við Íslendingar höfum ekki efni á því að vera öðruvísi en aðrir, hverju í ósköpunum höfum við þá efni á.

Mér finnst þetta á margan hátt vera skylt umræðunni um launaleyndina. Þeir sem launaleyndina styðja halda því gjarnan fram að hún sé stjórntæki í fyrirtækjunum.

Ég sé ekki annað en vel sé hægt að setja lög um að bannað sé að banna fólki að segja frá launum sínum. Þar með yrðu ákvæði um slíkt í ráðningarsamningum ógild og fólk mætti segja frá launum sínum ef það kærði sig um.

Hvort fólk kærir sig um það er síðan mál sem hver verður að eiga við sjálfan sig og vel er hugsanlegt að fyrirtæki geti með tíð og tíma ráðið einhverju um það.

Þeim rökum að svona eða hinsegin sé þetta jafnan í útlöndum er líka óspart beitt þegar reynt er að telja fólki trú um að nauðsynlegt sé að selja bjór og léttvín í matvöruverslunum og að útlendingum þyki áfengi hér á landi mjög dýrt.

Mér finnst þessi rök ákaflega léttvæg og hef tilhneigingu til að láta þau hafa öfug áhrif á mig. Oft er til bóta að vera öðruvísi en aðrir.

Svo ég haldi áfram að agnúast út í allt og alla þá finnst mér það ansi lélegt hjá stjórnendum Akureyrarbæjar að ætla sér að banna ungu fólki frá 18 - 23 ára að tjalda á tjaldstæðum bæjarins. Þetta er augljós mismunun og ólíklegt að þeir komist upp með þetta.

Í mínum augum er þetta prinsippatriði og ég tel engu máli skipti þó miklar fjárhæðir séu í húfi. Annað hvort á að banna öllum að tjalda eða engum.


83. blogg

Um epli og kavíar.

Fyrir allmörgum árum (gæti hafa verið svona um 1990) fór ég í gönguferð eftir Laugaveginum. Já, ég er að meina Laugaveginn sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur.

Kannski var eitt það merkilegasta við þessa ferð að við vorum 13 saman í hóp (minnir mig endilega) og ekkert okkar hafði farið þessa leið áður. Þetta gekk nú samt allt saman vel og við komumst slysalaust á leiðarenda.

Í þessari ferð tók þátt starfsfólk af Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði og fleiri. Bróðir minn var þarna á meðal þátttakenda enda vann hann um þær mundir á Náttúrulækningahælinu og það var hann sem bauð mér með.

Árið eftir fór ég þarna aftur og í það skipti með fjölskyldu minni, systkinum, ættingjum og fleirum. Í það sinn, var það að ég held einungis ég sem hafði farið leiðina áður.

En ég ætlaði víst að skrifa um epli og kavíar. Það var í þessari ferð sem ég sá slíkar aðfarir í fyrsta sinn.

Ég held að það hafi verið við skálann í Emstrum sem ég sá þetta. Þar voru nokkrir útlendingar í hóp og þeirra á meðal stúlka um tvítugt. Hún var að borða epli sem auðvitað er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún hélt á opinni túpu af rauðum kavíar í annarri hendinni og eplinu í hinni.

Í hvert skipti sem hún fékk sér bita af eplinu sprautaði hún vænum slurk af kavíar á þann stað á eplinu sem hún ætlaði að bíta í. Þetta hafði ég aldrei séð áður og ákvað á stundinni að þetta þyrfti ég einhvern tíma að prófa. Einkum með hliðsjón af því að ég er þónokkuð fyrir kavíar í túpum.

Í öll þessi ár sem liðin eru, síðan þetta var, hefur þetta atvik staðið mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, en samt hefur ekki orðið úr því að ég prófaði þetta.

Þangað til fyrir fáeinum dögum. Þá vildi svo heppilega til að ég var með epli í annarri hendinni og kavíartúpu í hinni og mundi þá eftir þessu atviki.

Svona geta nú litlir hlutir kallað á langt mál og lítt merkilegar sögur spannað langan tíma.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband