97. blogg

Faðir vor,

þú sem ert í tölvunni.

Helgist þitt stýrikerfi,

tilkomi þitt netkerfi,

verði þinn vilji

svo á skjá sem í prentara.

Leið oss eigi í kerfisvillu,

heldur frelsa oss frá löngum biðtíma.

Gef oss í  dag

vora daglegu útskrift

og  fyrirgef oss þó vér fyrirgefum eigi villur í forriti,

því að þitt er kerfið

valdið og fólkið,

að  eilífu

ENTER

 

Þetta er ágætt dæmi um allskonar skrif sem gengu í ljósum logum manna á milli á Netinu fyrir nokkrum árum og gera kannski enn. Ég man hvað mér þótti þetta óskaplega fyndið þegar ég sá þetta fyrst.

Allskyns próf eru líka afar vinsæl og margir eru tilbúnir til að taka þau og útvarpa niðurstöðunni jafnvel á blogginu sínu.

Brandarasöfn eru líka mörg til og sumir virðast hafa þá stefnu að blogga svona einn smábrandara á dag og eina litla fréttaskýringu kannski. Auðvitað geta þetta orðið þónokkrir brandarar á heilu ári, en hver er bættari? Jú, bloggarinn kannski. Trúlegt er að honum fari fram við skrifin og fari að skrifa eitthvað annað en aðkeypta brandara og lélegar fréttaskýringar.

Ég man vel þá tíð þegar Aluswiss var að hefja hér störf og verksmiðjan í Straumsvík var byggð og tók til starfa undir stjórn Ragnars álskalla. Þá var fullyrt að tilkoma verksmiðjunnar mundi verða til þess að hér mundi fljótlega rísa upp fjölbreyttur iðnaður tengdur áli. Líka að nú væri hver  síðastur að nota okkar frábæra fossaafl því fyrr en varði yrði kjarnorka svo ódýr að vatnsorka gæti með engu móti keppt við hana.

Nú ætlar ítalskt fyrirtæki að fara að framleiða eitthvað dót úr áli og mikilli orku á Akureyri og á það að veita fjölda manns atvinnu. Álið þarf að flytja inn.Vel getur verið að þetta takist ágætlega. Svolítið óhönduglegt samt í ljósi sögunnar.

Í kvöld  keyrði ég á eftir strætisvagni. Í afturglugganum á honum  var mynd af fólki og fljótt á litið var að sjá eins og fjöldi manns væri í vagninum. Mér finnst að mörgu leyti eins og rekstur strætisvagnanna hafi undanfarna áratugi beinst einkum að því að sem allra fæstir noti þá. Ég held þó, að þeir sem um mál þeirra véla, hafi viljað vel. Hið almenna þjóðfélagsástand hefur bara verið einkabílnum hagstætt. Um leið og hagur fólks batnar reynir það að komast milli staða á þægilegri hátt en með strætisvögnum. Afleiðingin verður sú að sífellt stærri svæði fara undir bíla og umferðarmannvirki allskonar og borgin dreifir svo úr sér að til vandræða horfir.

 

Bjarni hefur það bara ágætt á Bahamaeyjum eftir því sem ég best veit. Fellibylurinn Dean sem nú er sem mest í fréttum mun að líkindum ekki angra hann mikið. Í mesta lagi að fólk í Nassau fái sent frá honum rok og rigningu eftir því sem veðurspámenn telja.

Við Benni (aðallega Benni þó) fórum í dag með frystikistuna  gömlu á nýtt heimili við Dalveginn (endurvinnslustöð) og settum auk þess upp nýja skápinn í þvottahúsinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband