94. blogg

Um blogg.

 

Allir tala um bloggið og ekki síst Moggabloggið. Þeir sem lengi hafa verið í bransanum og þykjast fyrir það vera merkilegri en aðrir, finna Moggablogginu flest til foráttu.

Fremstur í þeim flokki hefur verið Stefán nokkur Pálsson, sem kallar bloggið sitt "Um tilgangsleysi allra hluta." Hann hefur stundað það mánuðum saman að vera með sérstakar bölbænir um Moggabloggið í lok hverrar einustu bloggfærslu hjá sér. Ekki hefur hann þó haft fyrir því að rökstyðja þessar bölbænir og gagnrýni sína á fyrirbrigðið.

Nú virðist hann hinsvegar hafa gefist upp á þessari bölbænaþulu sinni. Blogg hans er jafnan athyglisvert og þó frægð hans virðist einkum tilkomin vegna þess, að hann hefur notað hvert tækifæri sem gefist hefur til að halda því fram, að hann sé landsins besti bloggari, þá er því ekki að neita að nokkur innistæða er fyrir því áliti.

Það eru vissulega atriði í sambandi við Moggabloggið sem eru gagnrýniverð. Áherslan sem lögð er á vinsældalista sem birtist og uppfærist að ég held jafnóðum er óþarflega mikil og svo eru tengingarnar á fréttir á mbl.is dálítið ankannalegar. Þessar tengingar er auðvelt að misnota ef markmið fólks er að komast sem efst á vinsældalistann og því er ekki að neita að það virðist markmiðið hjá sumum.

Bloggvinasóttin hefur líka heltekið marga þarna og söfnun þeirra var á tímabili greinilega vinsæl iðja. Mínir bloggvinir eru ekki margir og hér er smá greinargerð um þá:

Anna Einarsdóttir. Hún ólst upp með strákunum mínum þegar ég var á Vegamótum. Dóttir Einars Halldórssonar í Holti. Hún bloggar oft fremur stutt, en er skemmtileg. Hinsvegar skil ég stundum ekki kommentin á skrif hennar.

Arnþór Helgason. Hann bloggar alltof sjaldan, en er ágætur þegar hann tekur sig til. Sonur Helga Benediktssonar í Vestmannaeyjum og reyndist mér ákaflega vel þegar ég var, ásamt fleirum, að koma Netútgáfunni á laggirnar.

Bjarni Harðarson. Mamma hans er systir mín og þar að auki er hann þingmaður. Það verður gaman að fylgjast með honum í vetur. Hann og Elín sluppu vel frá jarðskjálftanum sem varð í dag í Perú.

Hlynur Þór Magnússon. Er því miður hættur að Moggabloggast, en bloggaði oft mjög skemmtilega. Fyrrverandi blaðamaður við Bæjarins Besta á Ísafirði. Mér er ekki grunlaust um að hann hafi hætt út af því að honum hafi ofboðið sum skrifin á mbl.is og satt er það, kunnátta þeirra sem þar skrifa er oft átakanlega léleg.

Jón Steinar Ragnarsson. Mjög góður penni, en er víst því miður að hætta að blogga.

Salvör Gissurardóttir. Einhver tölvufróðasta manneskja sem ég veit um. Systir Hannesar Hólmsteins, afar ritfær og viljug að prófa allskyns nýjungar. Bloggar mikið og skemmtilega. Mjög vel að sér um höfundarréttarmál og hefur aðra sýn á þau en margir aðrir. Lektor við kennaraháskólann að ég held.

Sigurður Þór Guðjónsson. Rithöfundur, skrifaði ef ég man rétt hina frægu bók Truntusól. Er hættur að blogga eins mikið og hann gerði fyrir nokkru, en alltaf skemmtilegur þó.

Ég held að aðalástæðan fyrir því hvað sumum eðalbloggurum er uppsigað við Moggabloggið sé sú að það er svo auðvelt að blogga þar. Þeim finnst líklega að það eigi að vera erfitt og flókið að blogga.

Eyjan.is var að ég held tilraun til að höggva skarð í Moggabloggsmúrinn. Ég álít nefnilega að Moggabloggið og margt fleira sem þeir Morgunblaðsmenn hafa fundið upp á, sé gert til þess að tryggja að sem flestir haldi áfram að fara á mbl.is og noti það jafnvel sem upphafssíðu.

Ýmsir góðir bloggarar eru á eyjunni og það væri kannski ekki svo vitlaust að kíkja þangað öðru hvoru og jafnvel á vísisbloggið líka. Ég læt samt hvorki þá sem þar skrifa né nokkra aðra hræða mig frá því að halda áfram að blogga á Moggablogginu.

Já og það var meiriháttar sigur fyrir mig að taka eftir því núna áðan að Harpa Hreinsdóttir hafði kommentað á bloggið mitt. Vá, ég er að verða frægur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæmundur:  Ef þú vilt fá fleiri lesendur eða fleiri komment þá verðurðu að gefa hverri færslu lýsandi fyrirsögn.  Sé fyrirsögnin áhugaverð sést hún á rss-listum og menn smella yfir á bloggið.  Númer færslu er hvorki áhugavert né lýsandi.

(Svo má auðvitað nota öll ódýru trikkin hans Bols Bolssonar ;)

P.s.  Ég hef þá einföldu stefnu í lífinu að andmæla hressilega hverjum þeim sem viðrar fordóma eða bull um geðsjúkdóma - í augnablikinu er það færsla og kommentakerfi einhverrar Önnu, http://www.anna.is/weblog/2007/08/hugarafl.php

Náttúrlega er ég ekki geðlæknismenntuð en ég er óvenju skynsamur geðsjúklingur :) og orðin hundleið á fólki sem heldur að það sé hægt að kjafta sig út úr alvöru þunglyndi og kvíða eða drekka ómælt te, eta remedíur, láta strjúka sér um höfuðkúpu eða prjóna / föndra sig út úr ástandinu. Af hverju hefur enginn stungið upp á því að sykursjúkir saumuðu út, í staðinn fyrir insúlingjöf, eða að púsluspil væru almennt notuð til lækka blóðþrýsting, í stað lyfja?

Harpa 17.8.2007 kl. 10:16

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Takk fyrir þetta.    Sjálf skil ég flest kommentin mín.... en ekki alveg öll.  Það gerir hins vegar ekkert til. 

Anna Einarsdóttir, 17.8.2007 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband