92. blogg

  Það er svosem nóg um að vera í bloggheimum núna.

Jón Steinar Ragnarsson segist vera að hugsa um að hætta að blogga. Og ég sem var nýbúinn að biðja hann um að gerast bloggvinur minn. Sem hann og gerði. Jón Steinar skrifar ljómandi skemmtilegar frásagnir en því er ekki að leyna að uppá síðkastið var hann farinn að endurnýta ansi margt af því sem hann hafði áður skrifað. Svona verð ég kannski einhvern tíma. (með endurnýtinguna á ég við)

Í kvöld kíkti ég á vísis bloggið sem ég minnist ekki að hafa gert áður. Líklega er margt athyglisvert þar. Ég sá þar m.a. blogg eftir einn af mínum eftirlætisbloggurum frá fyrri tíð. Ég skil eiginlega ekki af hverju ég hætti að lesa hann. Kannski var það útaf kommentunum. Þau voru oft ansi mikið útúr kú. Þetta var Ágúst Borgþór Sverrisson. Ég hef svosem eitthvað lesið eftir hann af smásögum, en ekki mjög mikið. Eitt sinn unnum við saman á Stöð 2.

En það var samt grein eftir íþróttafréttamanninn Henry Birgi sem vakti sérstaka athygli mína. Þar skrifaði hann um Bola Bolsson og Moggabloggið. Gagnrýni hans á Moggabloggið var ósköp einfeldningsleg og lík og margir aðrir hafa haft uppi og eiginlega bara skrif um vinsældabloggið og fréttabloggið. Ef menn þekkja Moggabloggið ekki af öðru þá er ekki við góðu að búast.

Stefán Friðrik Stefánsson hefur verið kallaður af sumum fréttabloggari númer eitt og sagður linka í allar fréttir á mbl.is. Mér er eiginlega alveg sama. Ég les bloggið hans stundum og finnst oft vera vit í því, þó málæðið sé auðvitað með ólíkindum.

Svo tók ég eftir því í kvöld þegar ég las bloggið henna Hörpu Hreins að hún ræðst þar með offorsi á Kolbrúnu Bergþórsdóttur og nýlega grein eftir hana í Blaðinu. Ég les nú þann Morgunblaðskálf afar sjaldan og hann er alveg hættur að berast heim eins og hann stundum gerði í vor. Kolbrún hefur vissulega gerst sek um fordóma í garð geðsjúkra, ef Harpa greinir satt og rétt frá öllu, sem ég hef enga ástæðu til að efast um. En það er dálítið langt gengið að kalla hana illa menntaða og fáfróða, því það er hún alls ekki.

Ég var að hugsa um að lesa ossur.hexia.net en gafst upp. Þetta eru svo ógnarlegar langlokur og ég er greinilega búinn að dragast eitthvað aftur úr því ég á margar greinar þar ólesnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja, mér fannst manneskja sem fimbulfambar nokkra dálka um að kvíðaröskun hljóti að þýða miklar áhyggjur og vísar auk þess í eitthvert viðtal í einhverju tímariti (sem ég hef ekki hugmynd um hvert er) í hæðnislegum tóni (en mér finnst þessi óþekkta kona í óþekkta tímaritinu hafa sýnt mikið hugrekki að ræða þennan sjúkdóm) vera fáfróð og jafnvel heimsk.  Svo hef ég nú reyndar einstaka sinnum gripið ofan í bókagagnrýni eftir dálkahöfundinn eða séð hana í sjónhending í jólabókaflóði Kastljóss ... sem hefur talsvert treyst mig í trúnni á að þetta sem ég legg henni til lasts kunni að vera rétt (taktu eftir að ég kann, einsog Kolbrún, að tryggja mig með viðtengingarhætti þar sem það á við ;)

Harpa 16.8.2007 kl. 22:11

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, já. Mér finnst líklegt hún sé bæði hrokafull og fordómafull og þér finnst hún vera bæði fáfróð, heimsk og illa menntuð. Mér finnst hún þó a.m.k. hafa talsvert kjaftavit og hafa greinilega haft vit á að ota sínum tota, því ég sá ekki betur, þegar ég leit í eintak af Blaðinu áðan, en að hún væri farin að skrifa forystugreinar þar.

Sæmundur Bjarnason, 16.8.2007 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband