89. blogg

Sögur frá Vegamótum.

 

Þorgeir í Holti og Bjarni S eru að metast um hvor eigi fisknari pabba.

Þorgeir segir:

"Pabbi fór niður í Straumfjarðará og veiddi svo stóran lax að hann gat ekki lyft honum."

"Iss," segir Bjarni, "það er nú ekki mikið. Pabbi fór að veiða upp í Baulárvallavatni og veiddi þrjá stóra silunga og tvö skrímsli!!"

 

Eitt sinn fórum við í gönguferð í áttina niður að sjó. Þegar við komum að eyðibýlinu Laxárbakka var fugl þar fyrir og forðaði sér út með miklum vængjaslætti og hávaða þegar ég kom þangað inn. Álitamál er hvorum okkar brá meira fuglinum eða mér. A.m.k. man ég enn hvað mér brá ofboðslega mikið. Mig minnir að við höfum ekki farið öllu lengra í þetta skipti enda er ekki heiglum hent að komast niður að sjó á þessum slóðum. Líklega fórum við þó að fossi einum sem er í Straumfjarðaránni á þessum slóðum.

Strákarnir mínir þeir Bjarni og Benni léku sér mikið við systkinin Önnu og Þorgeir í Holti. Þau stunduðu það, þegar ferðamenn komu að Vegamótum, að líta út eins og aumingjar svo ferðamennirnir aumkuðu sig yfir þau og gæfu þeim eitthvað. Oft furðuðu þau sig á því að ferðamennirnir væru að tala eitthvert óskiljanlegt bull í stað þess að tala bara íslensku eins og venjulegt fólk.

Hundurinn Pési var mikill vinur strákanna minna og lék sér oft við þá enda álíka stór og þeir. Já hann hét eiginlega Pési, en ef verið var að skamma hann var hann gjarnan kallaður Pétur. Eitt sinn beit Pési Benna í handlegginn. Benni reiddist þessu og beit Pésa í kjaftvikið. Ég man enn hvað Pési greyið var skömmustulegur á eftir.

Þegar við fluttumst að Vegamótum fannst Pésa mikið til bílaumferðarinnar koma og gelti á hvern einasta bíl, sem um veginn fór. Mér tókst þó að venja hann af þessum ósið og hann steinhætti að gelta á bíla. Einskonar samkomulag tókst þó með okkur um að honum væri frjálst að gelta á traktora sem um veginn fóru. Þá gelti hann af hjartans lyst og ég lét það átölulaust.

Rauðakúla heitir fjall eitt á Snæfellsnesi og er það nokkurn vegin beint upp af Miðhrauni, ef ég man rétt. Fjall þetta er með hæstu fjöllum á nesinu en eiginlega bara gjallhaugur. Eitt sinn fór ég í gönguferð á fjall þetta ásamt einhverjum fleirum, sem ég man ekki hverjir voru. Mér er þó minnisstætt að Pési var með í þessari för og þótti honum greinilega að þetta væri feigðarflan hið mesta og á uppleiðinni hélt hann sig allan tímann mjög nálægt mér. Oftast var trýnið á honum nokkurnveginn við hælinn á mér. Seinlegt var að ganga á fjall þetta, því vegna þess hve laust það er í sér rennur maður a.m.k. hálfa leið til baka í hverju skrefi. Pési átti þó ekki í neinum erfiðleikum með þetta því hann var léttfættari en svo að hann sykki í gjallið. Á niðurleiðinni stungum við hann hinsvegar af því við gátum tekið risaskref í skriðunum en Pési þurfti að tipla þetta eins og hann væri á háhæla skóm.

Borgarbörn vita fæst hvað raunverulegt myrkur er. Á Vegamótum var á þessum tíma ekki mikið um útiljós og þessvegna dimmt þar á kvöldin ef ekki naut birtu frá snjó eða tungli. Íbúðarhús okkar var nokkur hundruð metrum norðan við verslunarhúsin og einhverju sinni er ég var á heimleið um kvöld og þótti mér betra að fara eftir veginum því þá var mögulegt að grilla í hlið og þess háttar á leiðinni. Á miðri leið heyri ég skyndilega más mikið og hvás og að einhver stór vera hleypur eftir veginum. Síðan veit ég ekki fyrr til en svört flygsa hendist á mig og þá fyrst átta ég mig á því að þetta er Pési, en mér var eiginlega hætt að standa á sama þegar ég heyrði ferlíkið nálgast af miklum hraða og másið og hvásið verða sífellt greinilegra.

Áslaug konan mín lærði á bíl á árunum sem við vorum á Vegamótum. Þegar Pési sá hana í fyrsta sinn setjast undir stýri á bílnum okkar forðaði hann sér bak við hús.

Eftir að Hafdís fæddist var hún gjarnan látin sofa í vagninum sínum undir eldhúsglugganum við tröppurnar. Pésa þótti líka gott að lúra í góðu veðri á tröppunum. Einhverju sinni sá hann traktor eða eitthvað annað áhugavert niðri á vegi og tók að gelta. Við það vaknaði Hafdís og fór að gráta og Pési var hundskammaður fyrir tiltækið. Æ síðan var það svo, að ef Pési var í námunda við vagninn þegar Hafdís vaknaði og fór að gráta forðaði hann sér bak víð hús og kenndi sér greinilega um.

Rollurnar í Strympu voru engar venjulegar rollur. Þær stunduðu það að bíta grasið í kringum Vegamót og ef eitthvað var að veðri hópuðust þær á stéttina fyrir framan verslunina og skitu þar allt út. Pésa þótti gaman að stríða rollunum og hljóp stundum í hringi í kringum þær og lét ófriðlega. Eitt sinn náði þó ein rollan að króa Pésa af uppi á tröppunum sínum og þjarmaði þar að honum. Pési vældi undan henni og bar sig aumlega og á endanum þurfti að bjarga honum undan rollunni. Þessar nafntoguðu Strympurollur gerðu Þorgrími mjólkurbílstjóra einnig stundum lífið leitt. Þá lágu þær og jórtruðu á veginum þegar mjólkurbíllinn kom þar að og létu sér ekki segjast þó Þorgrímur þeytti flautuna. Það var ekki fyrr en hann fór út úr bílnum og sparkaði í þær, að þær hundskuðust í burtu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Hahahahaha    Rosalega finnst mér gaman að lesa þetta.  Ég á gamla mynd af mér, Þorgeiri, Bjarna og Helgu og við litum út eins og aumingjar í alvörunni. 

Strympurollur fóru líka oft á klósettið á Vegamótum.  Okkur þótti það orðið eðlilegt en viðskiptavinum brá verulega þegar þeir mættu þeim.  Eitt það skemmtilegasta var að gefa þeim kex.... þær voru alveg vitlausar í mjólkurkex.

Á þessum tíma var ég verulega myrkfælin.  Man að við Helga Braga fylgdum hvor annarri hálfa leið, milli Vegamóta og Holts, og svo var hlaupið eins hratt og fætur toguðu heim.  Eitt sinn heyrði ég að mér var veitt eftirför.  Þá dó ég næstum úr hræðslu !  Svo sá ég eitthvað svart..... þetta reyndist vera Pési. 

Anna Einarsdóttir, 11.8.2007 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband